Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 mánaða.
Frá  setningu Búgreinaþings á Hótel Natura fimmtudaginn 3. mars. Við samruna búgreinafélaganna og Bændasamtaka Íslands urðu til búgreinadeildir innan samtakanna. Hver deild heldur sinn aðalfund sem kallast Búgreinaþing sem var nú haldið í fyrsta sinn.
Frá setningu Búgreinaþings á Hótel Natura fimmtudaginn 3. mars. Við samruna búgreinafélaganna og Bændasamtaka Íslands urðu til búgreinadeildir innan samtakanna. Hver deild heldur sinn aðalfund sem kallast Búgreinaþing sem var nú haldið í fyrsta sinn.
Mynd / HKr
Fréttir 11. mars 2022

Samstíga landbúnaður

Höfundur: Vilmundur Hansen

Við samruna búgreinafélaganna og Bændasamtaka Íslands urðu til búgreinadeildir innan samtakanna. Hver deild heldur sinn aðalfund sem kallast Bú­greinaþing og var fyrsta þingið haldið á Hótel Natura 3. og 4. mars síðastliðinn. Um 150 full­trúar bænda mættu á þingið.

Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra og Stefán Vagn Stefánsson, formaður atvinnuveganefndar Alþingis, ávörpuðu þingið. Fundarstjóri var Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands.

Búgreinarnar ráða ráðum sínum

Gunnar Þorgeirsson sagði við Bænda­blaðið skömmu fyrir setn­ingu þingsins að þetta væri fyrsta Búgreinaþing sem haldið hefur verið á grunni sameinaðra bændasamtaka og búgreinafélaganna.

„Á þinginu munu búgreinarnar ráða ráðum sínum um þau mál sem snúa að þeirra hagsmunum og þau mál svo send áfram til Búnaðarþings sem verður haldið um næstu mánaðamót. Ég á mér væntingar um að menn verði málefnalegir í sínum ranni og ræði um áhersluatriði hverrar búgreinar fyrir sig.“

Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands.

Undarlegir tímar

Gunnar segir að tímarnir núna séu undarlegir. „Ég taldi að núna þegar Covid væri vonandi að verða búið gætum við farið að snúa okkur að innri málefnum af meiri krafti en þá er skollið á stríð í Evrópu sem mun hafa gríðarleg áhrif og er reyndar strax farið að hafa áhrif á allan búrekstur. Olíuverð fer ört hækkandi, verð á korni hækkar dag frá degi og verð á áburði hefur þegar hækkað mikið. Áskoranir í íslenskum landbúnaði í dag eru því margar og flóknar.“

Tollaeftirliti ábótavant

Í ávarpi sínu kom Gunnar inn á þessa stöðu nánar en einnig nauðsyn þess að endurskoða tollaumhverfi landbúnaðarvara.
„Nýleg stjórnsýsluúttekt ríkis­endurskoðunar styrkir okkur í þeirri trú og við höfum ítrekað bent á í gegnum tíðina að tollaumhverfi er ein framleiðslustoð íslensks landbúnaðar. [. . .] Það er athyglisvert í skýrslu ríkisendurskoðunar að tollaeftirlit skuli vera með þeim hætti sem það er í dag. Samkvæmt okkar tölum höfum við horft á það að þar eru einhvers staðar að fljóta í gegnum kerfið afurðir í samkeppni við íslenska bændur án þess að greiddir séu af þeim þeir tollar sem ber að gera.“

Því næst hvatti Gunnar ríkisvaldið til að horfa til skýrslunnar og gera betur í eftirliti á innfluttum landbúnaðarafurðum. Auk þess sem hann benti á að nauðsynlegt væri að samræma kröfur sem gerðar eru til gæða og framleiðsluaðstæðna íslensks landbúnaðar og þeirra landa sem hann væri í samkeppni við þegar kæmi að innflutningi landbúnaðarafurða svo að hægt væri að keppa á jafnréttisgrundvelli.

Sjálfsögð krafa að lifa með reisn

Í ávarpi sínu sagði Svandís Svavars­dóttir matvælaráðherra meðal annars að samfélag bænda hafi í gegnum tíðina verið ógnarsterkt og menn leyst málin í sameiningu og að það væri slíkur andi sem við þyrftum á að halda næstu árin.

„Staða hinna ýmsu greina landbúnaðarins er misjöfn og hefur þróast með misjöfnum hætti síðustu árin. Sú sjálfsagða krafa er meðal bænda að það sé hægt að lifa með reisn af störfum í landbúnaði. Því þarf að huga að því hvort stuðningskerfið, þeir 15 milljarðar sem settir eru í stuðning við landbúnað á ári hverju, nýtist til þessa með fullnægjandi hætti. Almennt má segja að óbreytt kerfi skili óbreyttri niðurstöðu. Þannig þarf að hafa þor til þess að gera þær breytingar sé á því þörf til þess að fá breytta niðurstöðu.“

Svandís Svavars­dóttir matvælaráðherra.

Fæðuöryggi ekki hallærishugtak í hagmunabaráttu bænda

„Síðustu áratugi hefur umræða um fæðuöryggi,“ segir Svandís „verið með þeim hætti að það sé bara eitthvert hallærishugtak sem hagsmunasamtök bænda hafi fundið upp til þess að aðstoða við hagsmunabaráttu. En svo hefur komið á daginn, bæði í heimsfaraldri kórónaveiru og núna þegar stríð er í Evrópu, að fæðuöryggi skiptir máli. Eftir nokkrar vikur þurfa bændur á sléttum Úkraínu að setja niður korn ef þeir eiga að ná uppskeru næsta sumar og haust. Úkraína er til að mynda fjórði stærsti útflytjandi á byggi í heiminum svo að ljóst er að það mun hafa mikil áhrif hvernig þróun mála verður.

En eitt er held ég alveg ljóst, það er það að líkur standa til þess að verð á ýmsum korntegundum mun hækka. Bæði vegna þeirra miklu hækkana sem orðið hafa á áburðarverði. [. . .]En ekki síður vegna þess ófriðar sem nú geisar í Úkraínu. Það er því tilefni til að hvetja íslenska bændur til dáða að sá korni í vor og stuðla þannig að auknu fæðuöryggi hér á landi. [. . .] Eins og fram kom í skýrslu um fæðuöryggi, sem birt var í upphafi síðasta árs og unnin af Landbúnaðarháskólanum, þá eru stríðsátök sú tegund hamfara sem geta á skjótan hátt stöðvað innflutning á fóðri. Það kann að hafa virst óraunverulegt fyrir rúmu ári. En nú hefur staðan breyst.“

Miklar kröfur gerðar til bænda

Svandís sagði að: „Bændur hafa á það bent árum saman að gerðar séu meiri og meiri kröfur til þeirra á sama tíma og þeim er gert að keppa við afurðir erlendis frá sem þurfa ekki að standast sömu kröfur. Þetta er rétt [. . .].

Orðstír innlends landbúnaðar er einn verðmætasti þáttur greinarinnar. Hann er fjöreggið því án hans munu aðferðir við aðgreiningu frá innfluttum vörum ekki duga langt. Hann geta stjórnvöld ekki tryggt heldur einungis þið sjálf. Stjórnvöld setja viðmið, lágmarkskröfur og eftirlit. Þau þurfa að vera þannig úr garði gerð að þau tryggi að markmið náist. Þannig þarf að huga að því að fullyrðingar standist skoðun. Ég hef þá trú að íslenskir neytendur muni velja innlenda framleiðslu sé þess gætt að orðstír framleiðslunnar sé góður.“

Veigamikil atvinnugrein

Stefán Vagn Stefánsson, formaður atvinnuveganefndar Alþingis, sagði meðal annars í ávarpi sínu að íslensk matvælaframleiðsla væri grunnstoð samfélagsins og að bændur sinntu lykilhlutverki og væru burðarás atvinnulífsins í fjölmörgum byggðum landsins. Hann sagði að íslenskar land­búnaðarvörur væru í hæstu gæðum og öruggar með tilliti til sýklalyfjaónæmis ásamt því að stuðla að innlendu matvælaöryggi.

„Atvinnugreinin er veigamikil og við sem samfélag eigum að bera virðingu fyrir þeirri vinnu sem unnin er af íslenskum bændum við krefjandi aðstæður.“

Stefán kom inn á krefjandi aðstæður greinarinnar og að hún ætti í samkeppni við stóra erlenda framleiðendur sem færu sífellt að ryðja sér rúms í smásölu hér á landi og að samkeppnin væri íslenskum landbúnaði ósanngjörn bæði hvað varðar staðla og gæði framleiðslunnar.

Stefán Vagn Stefánsson, formaður atvinnuveganefndar Alþingis.

„Við eigum að semja regluverk sem skapar atvinnuveginum aukin tækifæri og betri rekstrar­grundvöll.“
Stefán ræddi einnig þörfina á því að kjötframleiðendur í landinu fengju sömu undanþágur og mjólkuriðnaðurinn sem 71. grein búvörulaga kveður á um.

„Með því væri afurðastöðvum í kjötiðnaði gert heimilt að sameinast og gera með sér samkomulag um verkaskiptingu og hafa með sér annars konar samstarf til að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu kjötvara.“

Endurskoðun tollaframkvæmda nauðsynleg

Stefán segði að það lægi í aug­um uppi að tollaframkvæmd á landbúnaðarvörum þyrfti á ítarlegri endurskoðun að ræða.
„Í nýrri úttekt hefur ríkis­endurskoðun veitt tolla­fram­kvæmd­inni sömu einkunn og ég, falleinkunn. Í úttektinni eru gerðar alvarlegar athugasemdir við núverandi fyrirkomulag fram­kvæmdar­innar varðandi land­búnaðar­vörur. [. . .] Skilaboðin eru skýr, endurskipuleggja þarf allt tollaeftirlit og gera vöruskoðun landbúnaðarafurða bæði víðtækari og reglulegri.“

Auk þess telur Stefán að nauðsyn­legt sé að endurskoða tolla­samninginn við Evrópusambandið og gera hann Íslendingum hag­kvæmari og að Íslendingar eigi að vera óhræddir við að nýta tolla þjóðinni til hagsbóta líkt og aðrar þjóðir gera. Meðal annars með því að gera sömu kröfur til gæða og framleiðslu innfluttrar vöru og gerðar eru til innlendrar framleiðslu.

Svínaflensa í Rússlandi
Fréttir 27. september 2022

Svínaflensa í Rússlandi

Afríska svínaflensan greindist á stóru rússnesku svínabúi í lok sumars. ...

Hækkun upp á 35,5 prósent að meðaltali fyrir dilka yfir landið
Fréttir 30. ágúst 2022

Hækkun upp á 35,5 prósent að meðaltali fyrir dilka yfir landið

Uppfærslur á verðskrám sláturleyfishafa, vegna sauðfjárslátrunar 2022, halda áfr...

Fjár- og stóðréttir 2022
Fréttir 25. ágúst 2022

Fjár- og stóðréttir 2022

Fjár- og stóðréttir verða nú með hefðbundnum brag, en tvö síðustu haust hafa ver...

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður
Fréttir 7. júlí 2022

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður

Staðfest er að samtals 128 gripir bera annaðhvort ARR-arfgerð, sem er alþjóðlega...

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021
Fréttir 7. júlí 2022

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021

Afurðatekjur af nautaeldi mæta ekki framleiðslukostnaði og hafa ekki gert síðast...

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir
Fréttir 27. júní 2022

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar umtalsverðar hækkanir á afurðaverði til sauðfjárb...

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“
Fréttir 14. júní 2022

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“

Stjórn Bændasamtakana telur skýrslu og tillögur Spretthóps, sem lagaðar voru fyr...

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning
Fréttir 14. júní 2022

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning

Spretthópur, sem matvælaráðherra skipaði vegna alvarlegrar stöðu í matvælaframle...