Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Hækkanir á jarðgasi og hráefnum munu valda miklum hækkunum á áburði.
Hækkanir á jarðgasi og hráefnum munu valda miklum hækkunum á áburði.
Mynd / Sláturfélag Suðurlands
Fréttir 7. október 2021

Samdráttur í framleiðslu á tilbúnum áburði í Evrópu og gríðarlegar hækkanir í sjónmáli

Höfundur: smh

Stærstu framleiðendur á tilbúnum áburði í Evrópu hafa margir hverjir dregið mjög úr framleiðslu á tilbúnum áburði á undanförnum vikum og mánuðum – og sumir stöðvað alveg framleiðsluna. Ástæð­­an er að verð á jarðgasi hefur hækkað gríðarlega á einu ári, en úr því er unnið ammonium sem er eitt grunnhráefnið í fram­leiðslu á tilbúnum áburði. Blikur eru því á lofti um alla Evrópu varð­andi framboð og verð á tilbún­­um áburði fyrir næsta ár.

Árleg kaup bænda á tilbúnum áburði er stór útgjaldaliður í búrekstrinum og eru áburðarsalar sammála um að búast megi við að verðið muni hækka verulega frá síðasta ári. Þeir segja að ekki sé tímabært að gefa neitt út um það enn að skortur sé yfirvofandi.

Hækkun á ammonium nú orðin 137 prósent

Elías Hartmann Hreinsson, deildar­stjóri Sláturfélags Suðurlands (SS), sér um innkaup á áburði norska framleiðandans Yara fyrir íslenska bændur.
„Eins og staðan er núna er ekki raunhæft að kaupa áburð eða festa verð. Ég get ekki sagt til um það hvenær það verður, en hækkun á ammonium samkvæmt síðustu tölum er 137 prósent,“ segir Elías en SS er meðal umfangsmestu áburðarsala á Íslandi.

„Við erum í góðu samstarfi við Yara og hafa þeir fullvissað okkur um að við munum fá nægan áburð fyrir vorið. Þessar hræringar valda Yara og norskum bændum verulegum áhyggjum og eru hvorugum hagfelldar. Lokun verksmiðja vegna gríðarlegrar verðhækkunar á hráefni – og sérstaklega á gasi er engum til góðs að mínu mati. Við höfum hvatt bændur til að kalka túnin og bæta sýrustig jarðvegs, en það er langhagstæðasta aðgerðin sem bændur geta farið í til að geta dregið úr áburðargjöf, því með réttu sýrustigi í kringum 6 til 6,5 þá nýtast áburðarefnin best,“ bætir Elías við og segir haustið góðan tíma til að kalka túnin.

Stjórnvöld þurfa að milda höggið

Elías hefur skrifað hugleiðingar sínar inn á vefinn yara.is, þar sem hann tekur dæmi um 86 prósenta verðhækkun á NPK áburði, frá því í október á síðasta ári. Á sama tímabili er dæmi um 135 prósenta hækkun á köfnunarefni.

„Því er alveg ljóst að bændur geta ekki einir tekið á sig þær verðhækkanir sem fram undan eru á áburði. Hækkun á áburði og öðrum rekstrarvörum mun að lokum koma fram í vöruverði til neytenda. Það eru því rík rök fyrir því að hið opinbera komi að því að milda það högg sem fram undan er með fjárstuðningi við bændur. Fordæmi er til að mynda fyrir stuðningi við kölkun en fleira þarf að koma til.

Við þessar aðstæður skiptir einnig miklu máli að bændur grípi til þeirra aðgerða í tíma sem mögulegar eru í stöðunni. Mikilvægt er að leita leiða til að draga úr notkun á tilbúnum áburði á næsta ári vegna þeirra miklu hækkana sem nú blasa við. Við þessar aðstæður er mikilvægt að nýta allan húsdýraáburð sem bændur hafa aðgang að til að draga úr notkun á tilbúnum áburði í vor,“ segir Elías á vefnum.

Jóhannes Baldvin Jónsson hjá Líflandi og Úlfur Blandon hjá Fóður­blöndunni taka í sama streng og Elías.

„Við fylgjumst grannt með stöðunni í gegnum okkar birgja og á mörkuðum, en vegna mikilla hækkana halda kaupendur að sér höndum og markaðurinn því í sögulegu frosti sem stendur. Verð hafa þegar hækkað mikið en spurning hvert veturinn mun leiða okkur,“ segir Jóhannes.

„Eins og staðan er í dag sjáum við líka þessar hækkanir á hráefnum og einnig að verð á tilbúnum áburði er mun hærra nú en fyrir ári síðan. Eftirspurnin hefur ekkert minnkað, aukist ef eitthvað er og á sama tíma hefur kostnaðurinn aukist. Við höfum ekki fengið upplýsingar um yfirvofandi skort,“ segir Úlfur.

Orsakir liggja víða

Ástæða hinna miklu verðhækkana á jarðgasi í Evrópu má rekja til þess að mjög hefur dregið úr dreifingu á því, en Rússar framleiða og dreifa stærstum hluta þess sem fer á Evrópumarkað. Yara hefur gefið það út að það muni leita fanga til annarra heimshluta til að geta annað eftirspurninni í Evrópu.

Elías segir að vandamálið sé ekki bara tengt drefingu á jarðgasi – og að hráefni til áburðarframleiðslu hafa hækkað gríðarlega – heldur einnig til vandamála tengt skipaflutningum þar sem skortur sé á skipum og mikil hækkun á flutningsverði.

„Framleiðslan stendur ekki undir þessum orkuhækkunum. Því er spurningin, þegar að framleiðsla fer af stað aftur, hvort framleiðendur geti uppfyllt þarfir markaðarins. Önnur breyta í þessu er að Kínverjar, sem hafa verið stórir útflutningsaðilar á áburði í Asíu og Indlandi, hafa nú ákveðið að öll áburðarframleiðsla verði notuð heima fyrir, sem skapar gríðarlegan óróa á heimsmarkaði,“ segi Elías.

Ný og endurbætt vorbók
Fréttir 18. mars 2024

Ný og endurbætt vorbók

Á vordögum tökum við í notkun endurbætta útgáfu að hinni góðu gulu vorbók sem er...

Fræðasamfélag í uppbyggingu
Fréttir 18. mars 2024

Fræðasamfélag í uppbyggingu

Í Mývatnssveit er verið að byggja upp svokallaða vettvangsakademíu fyrir kennslu...

Einkaframtak í gerð gönguskíðaspora
Fréttir 18. mars 2024

Einkaframtak í gerð gönguskíðaspora

Magne Kvam hefur tekið upp á sitt einsdæmi að leggja spor fyrir skíðagöngu á höf...

Íbúum utan borgarinnar fjölgar
Fréttir 15. mars 2024

Íbúum utan borgarinnar fjölgar

Yfirlit yfir þróun byggðar hérlendis er eitt verkefna Byggðastofnunar, en nýveri...

Kolefniseiningar tilvonandi tekjustoð í búrekstrinum
Fréttir 15. mars 2024

Kolefniseiningar tilvonandi tekjustoð í búrekstrinum

Oddný Steina Valsdóttir og Ágúst Jensson, bændur á Butru í Fljótshlíð, eru fyrst...

Fimm tegundir teknar af skrá
Fréttir 15. mars 2024

Fimm tegundir teknar af skrá

Samkvæmt niðurstöðum áburðareftirlits Matvælastofnunar fyrir innfluttan tilbúinn...

Loftslag
Fréttir 15. mars 2024

Loftslag

Gagnvirkur loftslagsatlas sýnir fortíð og spáir fyrir um framtíð.

Bændavakt á Búnaðarþingi
Fréttir 14. mars 2024

Bændavakt á Búnaðarþingi

Búnaðarþing er nú haldið á Hótel Reykjavík Natura. Á Bændavakt á vef Bændasamtak...