Sagt forgangsatriði sem og lagning ljósleiðara
Höfundur: Hörður Kristjánsson
Sveitastjórn Djúpavogs fundaði í síðasta mánuði um mikinn skort á tengingum fyrir þriggja fasa rafmagn sem og á háhraðatengingum í dreifbýli.
Fram kom á fundinum að miklar breytingar hafi átt sér stað í atvinnumálum og að frekari breytingar séu í farvatninu til sveita.
Þrátt fyrir að nokkrar jarðir standi áfram sterkt í hefðbundnum landbúnaði í Djúpavogshreppi þá hafa nýjar atvinnugreinar verið að vaxa mjög sbr. ferðaþjónusta, fullvinnsla í matvælaiðnaði o.fl., sumpart samhliða hefðbundnum búskap.
„Til þess að hægt sé að mæta þörfum dreifbýlisins varðandi ný sóknarfæri í atvinnuuppbyggingu er því knýjandi að koma á bæði þriggja fasa rafmagni og háhraðaneti til þessara svæða. Fjölbreyttara atvinnulíf er forsenda þess að snúa við neikvæðri íbúaþróun í dreifbýlinu. Algert forgangsatriði í þessu sambandi er því að lagt verði 3 fasa rafmagn og ljósleiðari í dreifbýli og þéttbýli Djúpavogshrepps. Sveitarstjórn skorar á stjórnvöld að loknum kosningum að hefja þegar markvissa uppbyggingu á þessari grunnþjónustu með byggðasjónarmið að leiðarljósi,“ segir sveitarstjórn.