Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Rjómabúið á Baugsstöðum. Bygginguna smíðaði Jón Gestsson í Villingaholti vorið 1905.
Rjómabúið á Baugsstöðum. Bygginguna smíðaði Jón Gestsson í Villingaholti vorið 1905.
Mynd / TB
Líf&Starf 17. ágúst 2018

Rjómabúið á Baugsstöðum var stór hluti af hagkerfi bænda

Höfundur: Lýður Pálsson, safnstjóri
Fjóra kílómetra austan Stokks­eyrar, skammt frá Knarrar­ósvita,  stendur látlaus bygging úr timbri klædd bárujárni. Á austurhlið þess er vatnshjól sem mjór skurður rennur um. Þetta er Rjómabúið á Baugsstöðum sem fyrir öld síðan var stór hluti af hagkerfi bænda þar um slóðir. Rjómabú eða smjörbú skiptu mörgum tugum í upphafi 20. aldar á Íslandi en fyrirmyndin var starfsemi slíkra rjómabúa í Danmörku. Af öllum þessum fjölda rjómabúa sem starfrækt voru á sínum tíma er einungis Rjómabúið á Baugsstöðum varðveitt í dag með skálahúsi, tækjum og tólum. 
 
Rjómabúið á Baugsstöðum var stofnað 8. október 1904 og tók til starfa 21. júní 1905. Stofnfélagar voru 48 bændur úr Stokkseyrarhreppi og Gaulverjabæjarhreppi en síðar gengu bændur úr Villingaholtshreppi í rjómabúið. Þetta var samvinnufélag. Það var starfrækt til 1952 en blómaskeið þess var frá upphafi og til 1920. Bændur komu með rjóma í brúsum á klyfjahestum og fyrst og fremst framleitt smjör en einnig ostar. Í upphafi var grafinn aðveituskurður úr Hólavatni að Baugsstaðaá og vatnshjól  knúði  vélar búsins. Megnið af framleiðslunni var til útflutnings en einnig á sístækkandi markað í Reykjavík. Ýmis önnur þjónusta var í boði, hægt að láta hlaða rafgeyma fyrir útvarp og einnig var þarna kornmylla um skeið. 
 
Konur með sérmenntun
 
Starfsfólk rjómabúsins voru konur sem voru sérmenntaðar í Mjólkurskólanum á Hvítárvöllum í Borgarfirði. Frá 1928 til 1952 störfuðu í Rjómabúinu á Baugsstöðum þær Guðrún Andrésdóttir aðstoðarkona og Margrét Júníusdóttir rjómabússtýra. Eftir það ráku þær verslun í húsinu til láts Margrétar 1969. Tæki rjómabúsins og áhöld voru varðveitt áfram eftir að starfsemi þess var hætt og átti það eftir að koma sér vel síðar. 
 
Varðveislufélag stofnað 1971
 
Árið 1971 var stofnað til varðveislufélags um rjómabúið. Voru það Baldur Teitsson símstöðvarstjóri, Jóhann Briem listmálari og Þór Magnússon þjóðminjavörður sem hvöttu til þess að rjómabúið yrði varðveitt um aldur og æfi sem minjar um merkt skeið í búnaðarsögu Íslands. Heimamenn tóku síðan frumkvæðið.  Rjómabúið var opnað sem safn sumarið 1975 að viðstöddum Kristjáni Eldjárn, forseta Íslands, og hefur það verið opið á sumrin síðan þar sem tæki þess og tól hafa talað sínu máli. Rjómabúið var friðlýst af menntamálaráðherra árið 2005 á 100 ára afmæli þess. Á 100 ára afmælinu var jafnframt gefin út lítil og snotur bók um Rjómabúið á Baugsstöðum eftir Helga Ívarsson og Pál Lýðsson. 
 
Úr vélasal Rjómabúsins á Baugsstöðum. Fremst er hnoðunarborðið en fyrir aftan það er smjörstrokkurinn. Lengst til hægri er ostaker. Mynd / TB
 
Rjómabúið á Baugsstöðum er í eigu Búnaðarsambands Suðurlands, Byggðasafns Árnesinga, Búnað­arfélags Stokkseyrar, Búnaðar­félags Gaulverjabæjarhrepps og Búnaðarfélags Villingaholtshrepps. Stjórn Varðveislufélags Baugsstaðar­jómabúsins sem síðar fékk heitið Rjómabúið á Baugsstöðum var lengi skipuð Stefáni Jasonarsyni í Vorsabæ, Helga Ívarssyni í Hólum og Páli Lýðssyni í Litlu-Sandvík.  Þeir mótuðu starfsemina og unnu óeigingjarnt starf fyrir Rjómabúið á Baugsstöðum. 
 
Núverandi stjórn er skipuð Sveini Sigurmundssyni á Selfossi, Birni Harðarsyni í Holti og Lýð Pálssyni, safnstjóra á Eyrarbakka, sem jafnframt sér um daglegan rekstur þess. Húsvörður var lengi Sigurður Pálsson, bóndi á Baugsstöðum, en í dag sjá þeir sameiginlega um húsvörslu, Lýður og Siggeir Ingólfsson á Eyrarbakka. Gæslufólk er jafnframt ráðið árlega til að halda rjómabúinu opnu yfir sumarið. Verkefni Rjómabúsins á Baugsstöðum er að varðveita þetta aldargamla rjómabú og hafa til sýnis sem safn. Byggðasafn Árnesinga sér um að halda því opnu en rjómabúið sjálft sér um annan rekstrarkostnað.
 
 
Heimsókn í Rjómabúið er upplifun fyrir unga sem aldna. Mynd / TB
 
Opið um helgar í júlí og ágúst
 
Rjómabúið á Baugsstöðum er opið laugardaga og sunnudaga í júlí og ágúst kl. 13-18. Hópar og skólar geta skoðað rjómabúið á öðrum tímum. Rjómabúið er upprunalegt að öllu leyti og eru vélar þess gangsettar fyrir gesti. Sjón er sögu ríkari.
 

14 myndir:

Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...

Jarðræktarmiðstöðin rís
Fréttir 22. apríl 2024

Jarðræktarmiðstöðin rís

Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands mun verða tilbúin árið 2027 gangi á...