Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Um 200 kindum frá bændum Kirkjuhóli verður lógað vegna sauðfjárriðu. Bændurnir fá að halda eftir þeim gripum sem eru með verndandi arfgerðir gegn sjúkdómnum. Mynd tengist frétt ekki beint.
Um 200 kindum frá bændum Kirkjuhóli verður lógað vegna sauðfjárriðu. Bændurnir fá að halda eftir þeim gripum sem eru með verndandi arfgerðir gegn sjúkdómnum. Mynd tengist frétt ekki beint.
Mynd / ál
Fréttir 9. október 2025

Riða í Skagafirði

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Matvælastofnun (MAST) greindi frá því á mánudaginn að hefðbundin riða hefði greinst í kind á bænum Kirkjuhóli, skammt frá Varmahlíð í Skagafirði.

Aron Pétursson, bóndi á Kirkjuhóli, segist hafa orðið var við eina kind í haust sem bar einkenni sem hann segir skólabókardæmi um riðu. „Hún var horuð, mikill kláði í henni og hún titraði. Eins var hún ör og augun rosalega opin,“ segir hann. Hann hafði því samband við MAST sem staðfesti grun Arons í síðustu viku. Því sé komið í gang ferli í samstarfi við MAST þar sem ákveðið verður hvaða fé verður skorið niður og til hvaða sóttvarnaraðgerða verður gripið.

Verndandi arfgerðir útbreiddar

Þar sem kynbætur ábúenda á Kirkjuhóli hafa undanfarin ár að miklu leyti snúist um að koma upp bústofni með ARR arfgerð, sem veitir vernd gegn riðu, og AHQ arfgerð, sem veitir mikla mótstöðu, þarf ekki að ráðast í heildarniðurskurð eins og tíðkaðist þangað til á allra síðustu árum. Fjárstofninn á Kirkjuhóli telur 270 vetrarfóðraðar ær og fjórtán hrúta. „Það fara rúmlega 200 ær í niðurskurð. Við eigum tæplega 70 ARR gimbrar sem við setjum allar á. Þá eigum við 30 fullorðnar ær með ARR sem fá að lifa. Hér eru hundrað ær með AHQ sem mega vera eftir, en við höldum ekki nema þeim bestu, þannig að í vetur verðum við með eitthvað í kringum 120 hausa,“ segir Aron.

Aron segist vera feginn að þurfa ekki að skera allt niður núna. „Það er huggun í því að þurfa ekki að kaupa nýjan stofn, heldur að fá að hafa sitt eigið fé. Við höfum þá eitthvað af gamla stofninum enn þá, en það væri leiðinlegt að horfa á hann allan fara,“ segir Aron.

Þriðji hlutaniðurskurðurinn

Sigurbjörg Ólöf Bergsdóttir, sérgreinadýralæknir hjá MAST, segir að þegar búið er að staðfesta hefðbundna sauðfjárriðu fari alltaf tveir aðilar frá MAST á viðkomandi bæ til þess að bera fréttirnar og ræða málin í rólegheitunum. „Við viljum helst ekki koma með svona fregnir í gegnum síma þar sem við lítum svo á að þetta þurfi að vera svolítið manneskjulegra en það,“ segir Sigurbjörg.

„Í þessu tilfelli kom upp grunur hjá bændunum, því þau þekkja einkennin, og voru þau því nokkuð viss um það fyrir fram hver niðurstaðan yrði. Við fórum því beint í að skoða hvað þau ættu af sauðfé með verndandi og mögulega verndandi arfgerðum – og það var mjög gleðilegt að skoða það.“ Sigurbjörg segir allar ær með ARR arfgerðina fá að lifa, hvort sem þær eru arfhreinar eða arfblendnar, en slátra þurfi hrútum sem eru með villi- eða áhættuarfgerðir á móti ARR. Sigurbjörg bendir á að þetta sé í þriðja skiptið sem Matvælastofnun grípur ekki til allsherjarniðurskurðar þegar riða kemur upp í sauðfjárhjörð. Því megi þakka miklu átaki í ræktun gegn sjúkdómnum.

Hreinsa og skipta út smitflötum

Að niðurskurði loknum taka við þrif og sótthreinsun á bænum, þó þar sé mikil breyting á verklagi miðað við hvernig það var áður en að verndandi arfgerðir komu til. Nauðsynlegt sé að framkvæma jarðvegskipti í kringum fjárhúsin og inni í þeim þar sem þetta séu taðhús.

„Ákveðið hefur verið að á viðkomandi bæ komi ekki til með að vera sauðfé nema með verndandi eða mögulega verndandi arfgerðir. Því er ekki lögð eins mikil áhersla á að útrýma riðusmitefninu úr umhverfinu. Fyrir vikið tekur ekki við tveggja ára fjárleysistími eins og eftir heildarniðurskurð, sem var hluti af aðgerðum til þess að reyna að útrýma smitefninu.

Riða er sjúkdómur sem smitast um munn, þannig að leggja þarf sérstaka áherslu á að þrífa átsvæði, drykkjarílát og annað sem skepnurnar hafa sleikt í sínu umhverfi. Eins það sem hefur mengast af legvatni og fósturhimnum á sauðburði, því það er í kringum tíu þúsund sinnum meira af smitefni í því en öðrum líkamsvessum sauðkindarinnar. Rannsóknir hafa leitt í ljós að príon, sem veldur riðu, hefur sérstakan eiginleika til að bindast við stál og nánast ómögulegt að sótthreinsa það. Því þarf að skipta út drykkjarílátum og nipplum úr stáli.“

Mörg tilfelli riðu í nágrenninu

Eins segir Sigurbjörg að ábúendur á viðkomandi bæ þurfi að halda sínum kindum í fjárheldum girðingum og án snertingar við annað fé í tvö ár. „Í Landsáætlun gegn riðu er miðað við að höft á riðubæjum vari í sjö ár, en hægt er að stytta þann tíma ef ræktun gegn riðu gengur hratt. Eftir fyrstu tvö árin er óhætt að setja kindur á fjall sem eru arfhreinar ARR eða með ARR á móti mögulega verndandi arfgerðum. Eins styttast þessi höft ef 75 prósent af stofninum er kominn með ARR genasamsætuna á móti 25 prósent með mögulega verndandi arfgerðir.“

Sigurbjörg bendir á að sauðfjárveikivarnahólfið þar sem riðan kom upp núna hefur verið skilgreint sem riðuhólf í mörg ár. „Fyrir vikið verður ekki mikil breyting á höftum vegna þessa riðutilfellis. Eins tölum við um heita reiti þar sem riða hefur ítrekað komið upp á bæjum sem eru samliggjandi eða mjög stutt á milli. Þessi bær er á ansi heitum reit og síðasta riðutilfelli í nágrenninu kom upp árið 2019 og fjölmörg tilfelli á næstu bæjum á síðastliðnum tíu til fimmtán árum,“ segir Sigurbjörg.

Skylt efni: riða

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

Gríðarlega mikilvægur vettvangur
Fréttir 4. desember 2025

Gríðarlega mikilvægur vettvangur

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, segir COP enn gríð...

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi
Fréttir 4. desember 2025

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi

Allir loðdýrabændur á Suðurlandi, fimm að tölu, eru nú að hætta minkarækt þar se...

Breytingar á erfðafjárskatti dýr erfingjum bænda
Fréttir 4. desember 2025

Breytingar á erfðafjárskatti dýr erfingjum bænda

Frumvarp fjármálaráðherra um breytingu á ýmsum lögum um skatta, gjöld o.fl. felu...

Úthlutun í fyrsta sinn
Fréttir 28. nóvember 2025

Úthlutun í fyrsta sinn

Fyrsta úthlutun úr frumkvæðissjóðnum Fjársjóði fjalla og fjarða fór fram á dögun...