Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Jarðir landsins eru 7.828 talsins, en þær eru afar ólíkar að stærð eftir legu og staðsetningu.
Jarðir landsins eru 7.828 talsins, en þær eru afar ólíkar að stærð eftir legu og staðsetningu.
Mynd / ghp
Fréttir 6. febrúar 2025

Ratcliffe er fjórði stærsti landeigandi Íslands

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Hægt er að fá vísbendingar um eignasöfnun einstakra aðila á landi út frá landeignaskrá. Alls eiga 24 aðilar eignarhluti í fimm eða fleiri jörðum á Íslandi.

Afmörkun jarða á Íslandi er víðast hvar ókortlögð en Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur áætlað út frá skráningu lóða og úrskurðum þjóðlendna að heildarflatarmál allra jarða á Íslandi sé í kringum 56 þúsund ferkílómetrar, eða um 55 prósent af heildarflatarmáli Íslands.

Jarðirnar eru 7.828 talsins. Jarðir eru misstórar eftir landshlutum og jafnvel innan landshluta. „Jarðir eru mjög ólíkar að stærð eftir legu og staðsetningu. Yfirleitt eru þær minni á láglendi og nálægt sjávarsíðunni en stækka svo inn til landsins. Þetta er í réttu hlutfalli við nýtingarmöguleika jarðanna til framfærslu eins og tíðkaðist fyrr á tímum. Sumir þurfa tíu jarðir til að reka meðalbú í dag. Sextíu hektara jörð sem dugði fjölskyldu til framfærslu fyrir hundrað árum myndi aldrei duga í dag. Því er betra að skoða þetta út frá stærð landa,“ segir Tryggvi Már Ingvarsson, framkvæmdastjóri fasteignasviðs HMS.

Stærstu jarðir Íslands eru í kringum Mývatns- og Möðrudalsöræfi og nema þær stærstu tugum þúsunda hektara. Við sjávarsíðuna eru jarðir oftast minni enda nýttu bændur sér þá sjávarfangið til móts við landbúnað til framfærslu.

Eigendur jarða eru 14.214 talsins, bæði einstaklingar og fyrirtæki, samkvæmt upplýsingum HMS. Tæplega tveir þriðju þessara jarða eru í eigu 12.116 einstaklinga. Þriðjungur er í eigu fyrirtækja, sveitarfélaga, ríkissjóðs og þjóðkirkju. Þá á 671 látinn einstaklingur tvö prósent af jarðnæði landsins.

Opinberir aðilar og auðkýfingar fimm stærstu jarðareigendurnir

Bændablaðið óskaði eftir upplýsingum um stærstu jarðareigendur landsins. Ekki er hægt að fá slíkar upplýsingar í fjölda hektara af landi þar sem afmörkun jarða er víðast hvar ókortlögð. Hins vegar gefur fjöldi eignarhluta og fjöldi jarða ákveðnar vísbendingar.

Sveitarfélög eru stærstu eigendur jarða á Íslandi, en þau eiga tæpa 387 eignarhluti í 402 jörðum. Ríkissjóður er næststærsti jarðareigandi landsins, en hann á 385,5 hluti í 388 jörðum.

Til skýringar þá telst aðili eiga hálfan eignarhlut ef hann á helming í jörð. Ef hann á svo helming í annarri jörð til er eignasafn hans komið í samtals einn eignarhlut í tveim jörðum. Einstaklingar geta einnig átt í jörðum í gegnum eignarhlut í lögaðila, jafnvel fleiri en einum.

Þjóðkirkjan er þriðji stærsti jarðareigandi landsins með 35 jarðir í sinni eigu. Fjórði stærsti landeigandi Íslands er fyrirtækið Sólarsalir ehf. en eignarhald þess má rekja til auðkýfingsins James Ratcliffe. Fyrirtækið á 26 eignarhluti í 29 jörðum. Þar á eftir kemur fyrirtækið Fljótabakki ehf. sem á 12 jarðir. Eignarhald þess má rekja til bandaríska bankamannsins Chad R. Pike. Sá er stofnandi 
ferðaþjónustufyrirtækisins Eleven Experience, sem á m.a. lúxushótelið Deplar Farm í Fljótum.

Fjöldi jarða segir ekki alla söguna

Sá íslenski einstaklingur sem á flestar jarðir er Ingibjörg Eyþórsdóttir en hún er skráður eigandi níu jarða. Það eru jörðin Kaldaðarnes í Árborg og litlar hjáleigur hennar sem allar eru eyðijarðir.

Þannig segir fjöldi jarða alls ekki alla söguna og því segir Tryggvi Már mikilvægt að ná utan um eignarmörk jarða með kortlagningu, til að draga fram stærð landsvæðis. Enda liggi fyrir í lögum takmarkanir ef eigandi á í fasteignum sem samanlagt ná yfir 1.500 hektara eða meira að stærð, og að almennt megi einstaklingar eða tengdir aðilar ekki eiga eignir sem eru samanlagt yfir 10.000 hektara eða meira að stærð.

FEK ehf. á átta jarðir en fyrirtækið er fasteignafélag sem rekur og leigir út fasteignir og jarðir í búrekstri. Félagið er í eigu sömu fjölskyldu og á Stjörnugrís.

Næst á lista yfir þá aðila sem eiga flestar jarðir á landinu koma Kaupfélag Skagfirðinga, sem á sjö eignarhluti í níu jörðum, og Landsvirkjun, sem á í sjö jörðum. Þá kemur fyrirtækið Blomstra ehf. sem á skráða eignarhluti í sjö jörðum en fyrirtækið er í eigu félagsins Íslenska útflutningsmiðstöðin ehf. í eigu feðganna Yngva Óttarssonar og Óttars Yngvasonar.

Rekstrarfélag um lífgas- og áburðarver
Fréttir 26. mars 2025

Rekstrarfélag um lífgas- og áburðarver

Í byrjun mars var rekstrarfélag stofnað utan um starfsemi á lífgas- og áburðarve...

Ætlunin að jafna leikinn
Fréttir 25. mars 2025

Ætlunin að jafna leikinn

Markmið nýs jarðhitaátaks er að jafna leikinn á milli þeirra 90% landsmanna sem ...

Heimafólk lítt hrifið af áformum Zephyr
Fréttir 25. mars 2025

Heimafólk lítt hrifið af áformum Zephyr

Matsáætlun um vindorkuver á Þorvaldsstöðum í Borgarbyggð er nú í skipulagsgátt. ...

Jóhannes nýr bústjóri
Fréttir 24. mars 2025

Jóhannes nýr bústjóri

Jóhannes Kristjánsson hefur verið ráðinn bústjóri Hvanneyrarbúsins.

Umfang útiræktunar dregst saman
Fréttir 21. mars 2025

Umfang útiræktunar dregst saman

Matvælaráðuneytið hefur afgreitt jarðræktarstyrki til garðyrkjubænda vegna útiræ...

Fleiri svínum slátrað
Fréttir 21. mars 2025

Fleiri svínum slátrað

Mikil aukning var í svínaslátrun hjá Sláturfélagi Suðurlands árið 2024 en mismik...

Bændablað úr frjóum jarðvegi
Fréttir 21. mars 2025

Bændablað úr frjóum jarðvegi

Áskell Þórisson, blaðamaður og ljósmyndari, varð fyrsti ritstjóri Bændablaðsins ...

Eignast allt Lífland
Fréttir 21. mars 2025

Eignast allt Lífland

Þórir Haraldsson hefur skrifað undir kaup á 50 prósenta hlut í Líflandi ehf. af ...