Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Pelargóníur – pempíulaus prakt
Á faglegum nótum 13. mars 2015

Pelargóníur – pempíulaus prakt

Höfundur: Hafsteinn Hafliðason

Í lok nítjándu aldar og fram eftir liðinni öld, meðan ekki var komið tvöfalt gler í alla glugga og miðstöðvarkynding eða hitaveita í hvert hús voru pelargóníur í öndvegi á öllum blómaheimilum.

Lítið var um aðrar tegundir sem skiluðu jafn fjölbreyttri og viðvarandi litagleði frá vori til hausts. Og þeim leið ágætlega í tiltölulega svölu innanhússloftslagi þeirra tíma ef þær fengu að vera í sólríkum gluggum yfir sumarið. Veturna gátu þær þraukað svo til vatnslausar í köldum gluggum eða dimmum kjallarageymslum ef ekki fraus þar. Í mars var svo hugað að þeim eftir vetrardvalann. Þær klipptar til svo að þær rúmuðust betur í gluggakistunum og þeim umpottað í nýja mold. Svo var bara að vökva, fremur hóflega, og gefa ögn af áburðarvatni af og til. Þá skiluðu þær sínu og voru sannarlega sómi heimilisins, bæði innávið sem útávið.

Uppruni á suðurodda Afríku

Flestar þær pelargóníutegundir sem í ræktun eru koma frá Höfðalandinu í Suður-Afríku. Þær bárust til Evrópu með landkönnuðum og sjófarendum á Austur-Indíaskipunum um og upp úr miðri sautjándu öld. Garðyrkjumenn grasagarða, greifasetra og konungshirða tóku þeim fagnandi. Og af því að garðyrkjufólk er svosem sjaldan ánægt með það sem það hefur og leitast ávallt við að gera meira og betur, þá leið ekki á löngu uns til urðu margvíslegir blendingar með fjölbreyttari blómastærð, blómlitum og blaðgerð. Kynblöndun milli tegunda var nokkuð auðveld og erfðamassinn bauð upp á margvísleg tilbrigði.

Upp úr miðri átjándu öld voru komnir fram þeir hópar af „manngerðum“ pelargóníum sem í mestum vinsældum hafa verið síðan. En enn eru að bætast við nýir hópar og flokkar kynblendinga sem eflaust eiga eftir að ná almennum vinsældum á næstu áratugum og öldum.

Fjölbreytt ættkvísl – flott söfn

Til ættkvíslarinnar Pelargonium reiknast meira en 250 aðskildar tegundir, jafnvel 300 ef allir grasafræðingar hafa rétt fyrir sér. Útbreiðslusvæðið er fyrst og fremst um suðurodda Afríku en ættkvíslin teygir sig samt allt norður til Írans og austur til Ástralíu. Vegna fjölbreytileikans eru pelargóníur því ákjósanlegar sem söfnunargripir fyrir þann hóp pelargóníunörda sem einbeitir sér að hreinum tegundum. En annar og miklu stærri hópur pelargóníusafnara eru þó þeir sem safna nefndum og alþjóðlega skráðum pelargóníuyrkjum eða sortum. Til eru alþjóðleg félög pelargóníuunnenda og í flestum nágrannalöndum okkar beggja vegna Atlantsála starfa pelargóníufélög, þ.e. samtök pelargóníusafnara. Og í nágrannalöndunum eru jafnvel sérstök pelargóníusöfn sem státa af því að eiga og sýna allar tegundir af pelargóníum og afkomenda þeirra. Í eitt þeirra hef ég komið. Það er í þorpinu Bofors rétt utan við bæinn Nässjö í sænsku Smálöndunum. Þar gefur að sjá 250 „villitegundir“ og, ekki síst, meira en 3.500 mismunandi blendinga og yrki sem hvert og eitt hefur opinbert sérheiti. Safnið í Bofors tekur á móti tugþúsundum ferðamanna á hverju ári og þar má líka kaupa smáplöntur af öllum yrkjunum ef nokkur fyrirvari er hafður á. Kannski væri svipað safn góð hugmynd fyrir ferðaþjónustuna hérlendis á einhverjum stað sem hefur aðgang að ódýrum jarðvarma.

Húsavík, Kópasker – hví ekki? Það yrði nyrsta pelargóníusafn í heiminum og líklega jafnfrægt á heimsvísu og grasagarðurinn í Tromsö í Noregi sem laðar að sér þúsundir ferðamanna frá fjarlægum slóðum hvert ár.

Helstu flokkar

Pelargóníum er grasafræðilega skipt upp í nokkra flokka. Þeir skipta okkur ekki máli í þessu samhengi. En ræktuðum pelargóníum er líka skipt upp í hópa. Fjórir þeirra hafa verið algengastir hjá okkur fram á þessi ár. Það eru: A) enskar pelargóníur eða prjálpelargóníur, P.×domesticum, sem eru blómstærstar og oftast á markaði snemma á vorin. Þær eru einna erfiðastar viðfangs fyrir ræktendur sem ekki hafa yfir góðurhúsi að ráða. B) Baugpelargóníur, P.×hortorum, sem yfirleitt hafa hringlaga blöð með áberandi dökkum baug. Þær hafa verið lang-algengastar hér á landi um langan aldur og af þeim hefur fjölbreyttasta úrvalið verið.

Spanna alla blómliti pelargóníanna og oft eru blöðin líka mislit eða ljósari á jöðrunum. C) Hengipelargóníur eru afkomendur P. peltatum og tiltölulega stutt síðan þær bárust hingað. Sáust ekki á blómamarkaði hér fyrr en á sjöunda áratug liðinnar aldar. Hafa gagnast ágætlega sem hengiplöntur utanhúss þar sem skjól er og sólríkt. D) Ilmpelargóníur, einkum P. graveolens, sem oft eru kallaðar rosengeranium á nágrannamálum, hafa verið til hér og græðlingar gengið manna á milli frá upphafi síðustu aldar. Við minnstu hreyfingu gefur hún frá sér sætan ilm. Ilmpelargónían er sú tegund sem úr er unnin „geraniumolía“ sem er notuð sem ilmefni á margvíslegan máta. Einnig er ilmpelargónían stundum notuð sem krydd í erlendum köku- og sultuuppskriftum. Þá eru blöðin söxuð smátt áður en þau eru notuð, því þau eru ekki beint lostæt ef menn þurfa að velta þeim uppi í sér, bæði loðin og hrjúf. Blóm hennar eru ljósbleik, ekkert tilkomumikil. En ilmpelargónían er sögð bæta loftið í þeim húsakynnum sem hún þrífst í, sólríkt og svalt. En hún þolir ekki að vera utanhúss. Aðrar ilmpelargóníur hafa líka sést hér á síðustu árum. Eflaust eiga þær eftir að staðfestast betur eftir því sem reynsla á þeim vex. Í öllum þessum hópum er fjöldi undirflokka.

Á síðari árum hafa komið fram nokkrar viðbætur við ofangreinda hópa. Þessi umfjöllun er samt ekki tæmandi: E) Englapelargóníur með stórum „fjólublómum“ í ýmsum hreinum litasamsetningum eru af flóknum uppruna og komnar frá öðrum blendingstegundum. Þær hafa dálítið sést hér á blómamörkuðum síðustu ár. F) Stjörnupelargóníur eru annar nýr hópur með sérkennilega „stjörnulaga“ blóm og oddfingruð blöð, oft litförótt. Uppruni þeirra er ástralskur og árangur af blöndun baug- og hengipelargónía við ástralska tegund.

Stjörnupelargóníur eru ófrjóar og mynda ekki fræ. Því þarf að hafa aðgang að foreldrategundunum til að búa til nýjar. Sannkallað kjörverkefni fyrir óforbetranlega pelargóníunörda!

Almennt yfirlit

Í stuttu máli þá eru pelargóníur lausar við alla væmni. Þær eru hreinar og beinar og tala til okkar tæpitungulaust. Blómlitir þeirra eru sterkir og spanna allan litaskalann fyrir utan gult og blátt. Þær eru náskyldar blágresinu okkar íslenska: Það veldur því nokkum ruglingi að enskumælandi fólk notar oftast hið latneska ættkvíslarheiti blágresisins, Geranium, líka fyrir pelargóníur. Pelargóníuheitið er á þær komið fyrir það að fræhirslurnar minna á storkanef.
Flestar pelargóníur hafa þróast við skilyrði þar sem skiptast á hlýjar og sólríkar árstíðir með nokkuð jafnri úrkomu og svalviðris- og þurrkakaflar sem fær þær til að falla í hálfgerðan dvala meðan slík skeið ganga yfir. Þess vegna getum við geymt þær með næstum alveg þurri mold í pottunum á veturna. Frostlaust gróðurhús (hiti um og í kringum 5 °C). Dimm, frostlaus geymsla dugar líka vel. Pelargóníur þola ekkert frost. Í mars eru þær vaktar af dvalanum. Þær eru klipptar til og snyrtar eftir þörfum og umpottað í nýja mold. Taka má nokkuð af gamla rótarklumpinum til að halda þeim í sömu pottastærð og áður. Afklippur má nota sem græðlinga, þeir róta sig auðveldlega í þvalri mold eða glasi með vatni. Pelargóníur þrífast vel í venjulegri, ögn vikurblandaðri pottamold. Best er að vökva í hófi og láta moldina þorna aðeins á milli. Gefið afar daufa áburðarblöndu af og til. Ef áburðargjöfin er höfð af fullum styrkleika fer vöxturinn mest í blöðin á kostnað blómgunarinnar.

Skylt efni: Garðyrkja | pelargóníur

Ríkt af B12-vítamíni, fólati, kalíum og sinki
Fréttir 1. mars 2024

Ríkt af B12-vítamíni, fólati, kalíum og sinki

Samkvæmt niðurstöðum verkefnis sem nýlega var unnið hjá Matís, um nýtingu og nær...

Vaxtalækkun lána
Fréttir 1. mars 2024

Vaxtalækkun lána

Fram kom í frétt Bændablaðsins, 2. nóvember 2023, að stjórn Byggðastofnunar hefð...

Endurvinnslan er mest innanlands
Fréttir 29. febrúar 2024

Endurvinnslan er mest innanlands

Guðlaugur Gylfi Sverrisson, rekstrarstjóri Úrvinnslusjóðs, segir stjórn sjóðsins...

Háskóladagurinn á fjórum stöðum
Fréttir 29. febrúar 2024

Háskóladagurinn á fjórum stöðum

Háskóladagurinn verður haldinn í Reykjavík laugardaginn 2. mars.Þá gefst fólki k...

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða
Fréttir 29. febrúar 2024

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða

Forsætisráðherra hefur skipað starfshóp sem falið er að skoða lagaumgjörð hvalve...

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu
Fréttir 28. febrúar 2024

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu

Vistkjöt var boðið til smökkunar í Kópavoginum um miðjan mánuð, í fyrsta sinn í ...

Lambhagi notar „Íslenskt staðfest“
Fréttir 28. febrúar 2024

Lambhagi notar „Íslenskt staðfest“

Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, og Hafberg Þórisson, eigan...

Samræmt söfnunarkerfi
Fréttir 27. febrúar 2024

Samræmt söfnunarkerfi

Vinna á tillögu um útfærslu fyrir samræmt söfnunarkerfi dýraleifa á landsvísu se...