Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Repjuakur.
Repjuakur.
Skoðun 14. desember 2018

Orkusjálfbærni

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Í aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum er mikil áhersla lögð á að hækka kolefnisskatt. Virðist tilgangurinn helst vera að neyða kaupendur bifreiða til að snúa sér frekar að rafmagnsbílum heldur en að kaupa hefðbundna bíla sem brenna bensíni og dísilolíu. Í sjálfu sér er ekkert út á það ætlunarverk að setja að menn dragi úr loftmengun, en er stjórnmálamönnum algjörlega fyrirmunað að beita annarri hugsun en refsingum til að knýja fram slík sjónarmið?
 
Það er hægt að fara mun áhrifaríkari leiðir til þess bæði að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda og stórbæta þjóðarhag um leið. Leið sem yrði öllum til góðs, en skaðaði ekki stóran hóp fólks eins og kolefnisskatturinn gerir gagnvart lántakendum, barnafólki, öryrkjum og öldruðum sem og íbúum landsbyggðarinnar.  
 
Þótt áherslan á kolefnisskattinn sé mjög áberandi í aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum, þá er þessi áætlun á margan hátt ágæt. Þar er sérstaklega einn þáttur sem gæti skapað mikla þjóðhagslega hagkvæmni ef rétt er að staðið. Hann er númer níu í aðgerðarplani áætlunarinnar og ber  heitið:  „Innlend eldsneytisframleiðsla úr plöntum og úrgangi.“ Samkvæmt planinu á að setja í gang vinnu við áætlunargerð í því máli einhvern tíma á árinu 2019. 
 
Ef litið er nánar á möguleikana sem felast í innlendri eldsneytisframleiðslu, þá er kannski ekki endilega þörf á að skipa fjölda nefnda til að ræða það mál og kosta til þess stórfé. Þegar um er að ræða eldsneytisgerð úr innlendum lífmassa og úrgangi, þá kemur aðallega tvennt upp í hugann. Það er framleiðsla á því sem nefnt hefur verið lífdísilolía, m.a. úr repju og öðrum olíuríkum jurtum, og gasframleiðsla úr dýraúrgangi eins og mykju og með gerjun plantna. Það er reyndar til þriðja leiðin sem yrði líka kolefnishlutlaus, en það er að framleiða dísilolíu, bensín og flugvélaeldsneyti úr mó sem nóg er til af á Íslandi og vetni sem auðvelt er að framleiða hér með vistvænum hætti. 
 
Með því að virkja níundu greinina í aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum væri hægt að slá margar flugur í einu höggi og tryggja um leið orkusjálfbærni landsins. 
 
Í fyrsta lagi væri hægt að kolefnisjafna eldsneytisbruna í landbúnaði samhliða því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
 
Í öðru lagi myndi slík framleiðsla styrkja byggðir og gera landbúnað sjálfbærari.
 
Í þriðja lagi væri hægt að draga hratt úr innflutningi á jarðefnaeldsneyti sem ylli verulegum virðisauka t.d. í landbúnaði og væri um leið atvinnuskapandi.
 
Í fjórða lagi sparaði innlend framleiðsla á eldsneyti dýrmæt gjaldeyrisútlát og bættu þar með þjóðarhag verulega. 
 
Það eina sem þarf er framkvæmdaáætlun þar sem ríkið býr til hvata til að hrinda slíkum verkefnum af stað af krafti og með góðum stuðningi. – Það sem þarf EKKI er að draga úr sjálfsbjargarviðleitni Íslendinga með refsisköttum í formi kolefnisgjalds. Popúlískar innfluttar skyndilausnahugmyndir af þeim toga eru fátt annað en sýndarmennska og friðþæging fyrir stjórnmálamenn sem eru uppteknari af að bjarga heiminum en að sinna þörfum eigin þegna sem kusu þá til starfa.
 
Að svo mæltu óska ég lesendum Bændablaðsins og landsmönnum öllum gleðilegra jóla með þakklæti fyrir árið sem er að líða. Ég óska þess einnig að árið 2019 færi Íslendingum gæfu og aukið réttlæti, ekki síst til handa öldruðum, öryrkjum og þeim sem neðst standa í þjóðfélagsstiganum.

Skylt efni: orkumál

Mugga bar þremur kvígum
Fréttir 26. júlí 2024

Mugga bar þremur kvígum

Kýrin Mugga 985 frá bænum Steindyrum í Svarfaðardal í Dalvíkurbyggð bar þríkelfi...

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku
Fréttir 25. júlí 2024

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku

Þann 24. júní náðist sögulegt samkomulag í Danmörku, á milli stjórnvalda og nokk...

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?
Fréttir 25. júlí 2024

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?

Því hefur verið varpað fram að þegar kemur að kolefnisbindingu ætti að leggja me...

Snikka til lög um flutningsjöfnuð
Fréttir 25. júlí 2024

Snikka til lög um flutningsjöfnuð

Áform eru uppi um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun.

Stofnanir út á land
Fréttir 24. júlí 2024

Stofnanir út á land

Aðsetur nýrra stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins verður utan h...

Lundaveiðar leyfðar
Fréttir 24. júlí 2024

Lundaveiðar leyfðar

Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja hefur samþykkt að heimila lundaveiði 27...

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum
Fréttir 23. júlí 2024

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum

Rannsóknamiðstöð landbúnaðarins, RML, rannsakar nú erfðaorsakir kálfadauða.

Upphreinsun skurða
Fréttir 23. júlí 2024

Upphreinsun skurða

Búnaðarfélag Austur-Landeyja hefur sent sveitarstjórn Rangárþings eystra erindi ...