Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
OilPull – Þunglamalegur vinnuþjarkur
Á faglegum nótum 14. október 2015

OilPull – Þunglamalegur vinnuþjarkur

Höfundur: Vilmundur Hansen

Líkt og mörg önnur fyrirtæki sem reyndu fyrir sér við framleiðslu á dráttarvélum liggur upprunni Advance Rumely í smíði á jarðvinnslu- og þreskivélum um miðja nítjándu öld.

Árið 1848 hófu bræðurnir Meinhard og John Rumley framleiðslu á hestknúnum þreskivélum undir heitinu Advance Thresher Company. Framleiðslan gekk vel en árið 1887 keypti Meinhard hlut bróður síns vegna ágreinings um reksturinn. Þegar Meinhard lést 1904 tóku synir hans við. Árið 1909 keypti M. Rumely Co. Advance Thresher Company ásamt nokkrum öðrum fyrirtækjum sem framleiddu landbúnaðarvélar. Nafn samstæðunnar var Advance Rumely frá 1915.

OilPull – ódrepandi

Rekstur hélt sínu striki og árið 1910 setti Advance Rumely á markað tröllstóra dráttarvél á járnhjólum sem kallaðist OilPull og gekk fyrir steinolíu. Kosturinn við steinolíu fram yfir dísilolíu var að hún var ódýrari og dró þannig úr rekstrarkostnaði vélarinnar. Steinolía brennur aftur á móti við hærri hita en dísill og átti vélin það til að ofhitna. Ofhitnunarvandamálið var leyst með því að koma stórum kæli­tanki fyrir á milli framhjólanna.

Þrátt fyrir stærð og þyngsli nutu OilPull traktorarnir mikilla vinsælda. Vélarnar þóttu sterkar og mölluðu á akrinum sólarhringum saman svo lengi sem þær fengu steinolíu og kælitankurinn tæmdist ekki. Þær seldust því vel til stærri býla í miðríkjum Bandaríkjanna. Talsvert var einnig selt af þeim til Kanada og Suður-Ameríku.

Seigla OilPull traktoranna var fáheyrð á sínum tíma. Hægt var að tengja við þá þrjá stóra plóga og vinna allt að 800 hektara á sex dögum. Þrátt fyrir að vera nánast ódrepandi komu á markað, um 1920, minni og kraftmiklir traktorar sem smám saman ruddu OilPull úr vegi.


DOALL – lítill og lipur

Til að mæta samkeppninni keypti Advance Rumely vélaframleiðandann Toro til að komast yfir dráttarvélaframleiðslu þeirra. Traktorarnir voru kallaðir DOALL og í alla staði ólíkir tröllinu OilPull. DOALL voru litlar, 20 hestafla og liprar dráttarvélar með sex gírum en á þeim tíma voru flestir traktorar þriggja gíra.

Alls voru framleiddar 3000 DOALL dráttarvélar en markaðssetning þeirra fór öll í vaskinn og tapaði fyrirtækið meðal annars stórfé á útflutningi þeirra til Rússlands. Að lokum var hátt í helmingur lagersins seldur með 50% afslætti.

Kreppan mikla

Verulega tók að halla undan fæti hjá Advance Rumely í kreppunni á þriðja áratug síðustu aldar. Fyrirtækinu tókst ekki að halda í við tækninýjungar og árið 1931 keypti vélaframleiðandinn Allis-Chalmers fyrirtækið. Þrátt fyrir að Advance Rumely hafi látið hanna og smíða frumgerð að minni og nýtískulegri OilPull traktor vantaði fjármagn til framleiðslunnar.

Nýju eigendurnir höfðu meiri áhuga á þreskivélaframleiðslu Advance Rumely en dráttarvélunum enda framleiddi Allis-Chalmers litlar og mjög vinsælar dráttarvélar á þessum árum. Allis-Chalmers varð gjaldþrota og lagði upp laupana árið 1985. 

Skylt efni: Gamli traktorinn | Oil Pull

Hjartað slær með náttúruvernd
Fréttir 18. febrúar 2025

Hjartað slær með náttúruvernd

Sigrún Ágústsdóttir er forstjóri nýrrar Náttúruverndarstofnunar sem tók til star...

Á hverfanda hveli
Fréttir 18. febrúar 2025

Á hverfanda hveli

Árið í ár er helgað hverfandi jöklum. Íslenskir jöklar minnkuðu um 900 km2 milli...

Stöðugur samdráttur í hrossaútflutningi
Fréttir 17. febrúar 2025

Stöðugur samdráttur í hrossaútflutningi

Frá árinu 2022 hefur samdráttur verið stöðugur í útflutningi íslenskra hrossa.

Samráð um úrgangsforvarnir
Fréttir 14. febrúar 2025

Samráð um úrgangsforvarnir

Í Samráðsgátt stjórnvalda liggja nú drög Umhverfisstofnunar að stefnu um úrgangs...

Sóknarhugur er í Dalamönnum
Fréttir 14. febrúar 2025

Sóknarhugur er í Dalamönnum

Í Búðardal er fyrirhugað að reisa atvinnuhúsnæði með allt að 150 milljóna króna ...

Náttúrulegir birkiskógar hafa mikilvægt hlutverk
Fréttir 13. febrúar 2025

Náttúrulegir birkiskógar hafa mikilvægt hlutverk

Vísbendingar eru um að náttúrulegir birkiskógar hafi mikil áhrif á uppsöfnun kol...

Sjö verkefni um aukið virði sauðfjárafurða
Fréttir 13. febrúar 2025

Sjö verkefni um aukið virði sauðfjárafurða

Kennslutól fyrir skólabörn, vöruþróun ærkjöts og sauðaosta og markaðssetning á s...

Kjötafurðastöðvar aftur undir samkeppnislög
Fréttir 12. febrúar 2025

Kjötafurðastöðvar aftur undir samkeppnislög

Þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar hefur verið kynnt fyrir vorþingið. Landbúnaðarmá...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f