Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Óhjákvæmilegt að kanna  sameiningar eða samvinnu kjötvinnsla og sláturhúsa
Fréttir 17. ágúst 2015

Óhjákvæmilegt að kanna sameiningar eða samvinnu kjötvinnsla og sláturhúsa

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Kjötvinnslur og sláturhús bera sig mörg hver illa eftir taprekstur og erfiða tíð í rekstrinum undanfarið. Norðlenska tapaði tugum milljóna á liðnu ári og eru menn þar á bæ að skoða hvernig best verður brugðist við. Rekstur sláturhússins á Blönduósi hefur verið þungur og þar á bæ leita menn leiða til að styrkja rekstrargrundvöllinn. Kjötvinnslan Kjarnafæði er talin ætla að auka hlut sinn í SAH-Afurðum en þeir þvertaka fyrir að bjóða aftur í Norðlenska eftir að bændur höfnuðu tilboði þeirra í sumar.
 
Ekki réttlætanlegt að láta hlutina ganga svona áfram
 
„Það er vítavert ef menn taka ekki á málum áður en í óefni er komið. Það er engan veginn réttlætanlegt að láta hlutina ganga svona áfram, rekst­urinn er ekki viðunandi og okkur ber skylda til að taka á málum áður en illa fer. Við erum að fara yfir stöðuna og skoða ýmsa möguleika,“ segir Aðalsteinn Jónsson varaformaður Norðlenska. Félagið var gert upp með 48 milljóna króna tapi á liðnu ári sem eru mikil umskipti frá árinu 2013 þegar tæplega 140 milljón króna hagnaður varð af rekstri félagsins.
 
„Það þarf engin geimvísindi til að sjá að þetta gengur ekki upp,“ segir Aðalsteinn. Hann nefnir að laun hafi hækkað töluvert á árunum 2014 og 2015. Aðstæður á markaði séu erfiðar, samkeppni í öllum kjötgreinum og framboð á innanlandsmarkaði mikið. Norðlenska hafi tekið kostnaðarhækkanir á sig. „Við höfum setið uppi með þessar hækkanir, það er ógerlegt að koma þeim út á markaðinn. Staðan er alvarleg og engin teikn á lofti um breytingar. Þegar hefur heilmikið verið hagrætt í rekstrinum og allt skorið niður sem hægt er,“ segir Aðalsteinn.
 
Minnir á ástandið 1995 til 2000
 
Hann segir að nú þurfi menn að fara vandlega yfir stöðuna og skoða alla möguleika. „Við þurfum að finna einhvern flöt á þessu, hvort sem það verður með sameiningum, samruna eða samvinnu, við þessari stöðu þarf að bregðast strax, það er óhjákvæmilegt. Ástandið er farið að minna á stöðuna á þessum markaði á árunum 1995 til 2000 þegar hér á landi voru margir sláturleyfishafar og margar kjötvinnslur, þá gekk einnig illa og nokkur fyrirtæki sigldu í þrot. Við tóku sameiningar sem skiluðu 15 ágætum árum, en það eru blikur á lofti um að sama staða sé nú að koma upp aftur,“ segir Aðalsteinn. 
 
Einhvers konar samþjöppun
 
 „Það er alveg ljóst að staðan er ekki góð og við erum að skoða hvernig best verður brugð­­ist við,“ segir Björn Magnússon stjórn­arformað­ur hjá SAH Afurðum á Blönduósi.“ Við erum að vinna að þessum málum af krafti, staðan er viðkæm núna og lítið hægt að segja fyrir um hvernig þetta fer.
 
Björn segir rekstur sláturhúsa og kjötvinnslustöðva mjög þungan um þess­ar mundir. „Þetta er erfiður rekstur og mér sýnist sú staða vera uppi að það verði einhvers konar samþjöppun. Við höfum ekki neitt svigrúm til að velta þeim hækkunum sem yfir okkur hafa komið út á markaðinn, það er ekki möguleiki. Við höfum farið yfir reksturinn undanfarin misseri og þegar er búið að hagræða eins og kostur er, það er varla hægt að skera meira niður,“ segir Björn.
 
Hann segir að menn velti stöðunni fyrir sér og hver hugsanleg næstu skref verði til að rétta kúrsinn af. „Við verðum áfram að huga að því hvernig hægt er að ná fram hagræðingu. Ég sé ekki fyrir mér að það verði hægt með því að fækka sláturhúsum, það yrði ekki gert nema taka of mikla áhættu fyrir framleiðendur, einkum sauðfjárbændur. Sláturhúsin eru ekki endilega of mörg eins og staðan er núna, en ef til vill er hægt að koma á einhvers konar sérhæfingu þeirra á milli,“ segir Björn.
Kjarnafæði gæti komið sterkar inn í SAH-Afurðir
 
Kjarnafæði á stóran hlut í SAH- Afurðum, á bilinu 45 til 50%, og segir Eiður Gunnlaugsson stjórnar­for­maður Kjarna­fæðis að hugmyndir séu uppi um að fyrirtækið komi af enn meira afli inn í félagið. „Það er verið að skoða þetta dæmi og reikna það út fyrir okkur, en hugmyndin er að við komum sterkari inn. Hvort það end­ar með að við eigum 60%, 70% eða 100% þegar þeim útreikningum er lokið á eftir að koma í ljós,“ segir Eiður.
 
Kjarnafæði gerði tilboð í Norð­lenska á liðnu vori, en því var hafn­að á fundi Búsældar, eigendafélags Norðlenska sem haldinn var á Egilsstöðum í júní. „Við sendum inn tilboð í sumar, því var hafnað og það kemur ekki til greina af okkar hálfu að bjóða aftur í félagið,“ segir Eiður. „Eins og staðan er núna á þessum markaði erum við ekki að hugsa um það.“
 
Minna framboð af lambakjöti
 
Hann tekur undir og segir stöðuna erfiða, framboð af kjöti sé mun meira en eftirspurn sem geri að verkum að verð sé lágt. Hann nefnir að vel hafi gengið á lambakjötsbirgðir síðasta vor þegar verkfall dýralækna stóð yfir og skortur varð á öðrum kjöttegundum. Þá megi allt eins búast við að meðalþyngd dilka á komandi hausti verði lægri en t.d. í fyrrahaust. Verði hún um hálfu kílói lægri eða jafnvel meira á svæðunum norðan og austanlands megi gera ráð fyrir að um 550 tonnum minna af lambakjöti komi inn á markaðinn nú í haust. Fjárdauðinn sem upp kom síðasta vor gæti einnig leitt til þess að færra fé kæmi til slátrunar en ella. „Það gerir að verkum að minna kemur inn á markaðinn af lambakjöti,“ segir Eiður. 
 

4 myndir:

Mugga bar þremur kvígum
Fréttir 26. júlí 2024

Mugga bar þremur kvígum

Kýrin Mugga 985 frá bænum Steindyrum í Svarfaðardal í Dalvíkurbyggð bar þríkelfi...

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku
Fréttir 25. júlí 2024

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku

Þann 24. júní náðist sögulegt samkomulag í Danmörku, á milli stjórnvalda og nokk...

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?
Fréttir 25. júlí 2024

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?

Því hefur verið varpað fram að þegar kemur að kolefnisbindingu ætti að leggja me...

Snikka til lög um flutningsjöfnuð
Fréttir 25. júlí 2024

Snikka til lög um flutningsjöfnuð

Áform eru uppi um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun.

Stofnanir út á land
Fréttir 24. júlí 2024

Stofnanir út á land

Aðsetur nýrra stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins verður utan h...

Lundaveiðar leyfðar
Fréttir 24. júlí 2024

Lundaveiðar leyfðar

Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja hefur samþykkt að heimila lundaveiði 27...

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum
Fréttir 23. júlí 2024

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum

Rannsóknamiðstöð landbúnaðarins, RML, rannsakar nú erfðaorsakir kálfadauða.

Upphreinsun skurða
Fréttir 23. júlí 2024

Upphreinsun skurða

Búnaðarfélag Austur-Landeyja hefur sent sveitarstjórn Rangárþings eystra erindi ...