Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 mánaða.
Ekki tókst að koma öllu innlendu blómkáli á markað í haust.
Ekki tókst að koma öllu innlendu blómkáli á markað í haust.
Mynd / smh
Fréttir 23. nóvember 2023

Of mikið framboð var af innlendu blómkáli yfir of stuttan tíma

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Að undanförnu hafa heyrst raddir garðyrkjubænda sem ýmist ætla að hætta blómkálsræktun eða eru að íhuga það, meðal annars vegna erfiðleika við að koma afurðunum á markað. Gunnlaugur Karlsson, framkvæmdastjóri Sölufélags garðyrkjumanna (SFG), segir að óvenjulegar aðstæður hafi skapast í haust, þegar mest öll íslenska blómkálsuppskeran var tilbúin á svipuðum tíma.

Gunnlaugur Karlsson, framkvæmda­stjóri Sölufélags garðyrkjubænda.

Á forsíðu Bændablaðsins á dögunum var viðtal við Ásmund Lárusson, garðyrkjubónda í Norðurgarði í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, sem sagðist ekki hafa komið nema hluta framleiðslunnar á markað í haust. Hann sæti uppi með talsvert tjón vegna geymsluskemmda. Sagði hann að kvótakerfi SFG gerði garðyrkjubændum með stutta framleiðslusögu, eins og honum sjálfum, erfitt fyrir að komast að með afurðir sínar.

Innflutningur stöðvaðist síðar en venjulega

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, sem nýlega keypti garðyrkjustöðina Mela á Flúðum, sagði sömuleiðis í nýlegu viðtali í Bændablaðinu að hún væri tvístígandi með framtíð útiræktunar hjá sér, vegna þess að hún krefðist mikils starfsmannafjölda og svo væri viðvarandi óvissa með að koma afurðunum á markað, meðal annars vegna veðurfars og innflutts grænmetis. Eins og raunin var í haust, vegna mikilla þurrka í sumar.

Halla sagði að bændur hafi búist við uppskeru síðar en venjulega sem hafi leitt til þess að innflutningur á blómkáli stöðvaðist síðar en æskilegt var. Hún hafði aukið við blómkálsræktunina frá fyrra ári til að svara eftirspurn, en hluti uppskeru hennar náði ekki á markað og skemmdist.

Gunnlaugur segir stóra málið með þessar tegundir, eins og blómkál og spergilkál, vera að þetta sé mjög stutt tímabil þar sem skorið er upp og þangað til sölutímabilinu er lokið.

„Þetta hefur verið að koma inn svona í enda júlí og ef allt gengur vel þá getum við verið með þessar afurðir á markaði í tvo til þrjá mánuði. Það sem gerðist þetta árið er að skilyrðin í vor voru mjög erfið, bæði maí og júní, sökum vætutíðar – og svo rignir ekkert á Flúðum og nágrenni í sex vikur þrátt fyrir stöðugar veðurspár um annað. Það er ljóst að þar sem svo mikið er undir veðri komið varðandi útiræktun grænmetis, eins og á Flúðasvæðinu, þá þurfa veðurspár að vera nákvæmari.

Svo gerist það að loksins rignir, en þessi þurrkatíð gerir það að verkum að allri uppskeru seinkaði mjög. Í lok sumars kallar markaðurinn mjög ákaft eftir þessum afurðum, en eins og gerðist núna þá hafði verið vöntun á vörunni og því var fyrir talsvert magn af innfluttu blómkáli til í verslunum á þessum tíma. Því tók það viku eða tíu daga fyrir söluna á íslenska kálinu að komast í gang og eftir það var salan frábær í haust og fram í miðjan október – og mjög gott verð fékkst fyrir það.“

Góðar og slæmar fréttir

Það eru góðu fréttirnar, að sögn Gunnlaugs. „Slæmu fréttirnar eru þær að þeir sem voru með mest alla sína uppskeru tilbúna á þessum tveimur vikum þegar salan fór í gang – og voru kannski ekki með góða kæla – þeir lentu einhverjir í tjóni. Því blómkálið geymist sérstaklega illa og þarf að komast hratt inn í verslanir.“

Varðandi þessi tilvik um garðyrkjubændur, sem ætli mögulega að hætta í útiræktun vegna vandræða við að koma afurðunum sínum á markað, segir Gunnlaugur að sérstakar aðstæður hafi skapast núna í lok sumars. „Oftast höfum við getað selt alla innlendu uppskeruna strax. Þetta er í raun eina árið í langan tíma þar sem var allt of mikið framboð þarna fyrstu vikuna og því var ekki pláss fyrir alla framleiðsluna sem þá var tilbúin.

Þegar svo stendur á, þá pöntum við bara inn það sem markaðurinn þarf og þá miðast forgangurinn við sölusögu bænda hjá Sölufélagi garðyrkjubænda síðustu þriggja ára,“ segir Gunnlaugur. Hann bætir við að örugglega megi deila um hvort það sé sanngjarnt fyrirkomulag að nýir framleiðendur – eða þeir sem hafa verið stutt í framleiðslu – njóti ekki jafnræðis á við aðra við að koma vörum sínum á markað. „Það getur verið afstætt hvað er sanngjarnt í þessu og stundum snýst þetta líka um verð – hvað bændur eru tilbúnir til að lækka sig í verði sem leiðir þá til forgangs.“

Skipulag og umgjörð ræktunarinnar

Hann segir að lögð sé áhersla á það við bændur að hugað sé vel að allri umgjörð ræktunar og skipulagningu, til dæmis hvort taka megi upp áður en mesta magnið kemur á markað.

„Ég held til dæmis að einhverjir þeirra sem gátu ekki selt allt sitt kál núna í haust hafi verið tilbúnir fyrr með sína uppskeru og hefðu getað farið fyrr af stað. Bændur þurfa líka að huga að því að gera það sem þeir geta þegar tíðarfarið er með þessum hætti, til dæmis að vökva sína garða og flýta þannig þroskaferli kálsins.“

Aðrir áhrifaþættir en markaðssetningin

Gunnlaugur segir að aðgengi að verslunum sé ekki eina ástæðan fyrir því að einhverjir bændur séu að íhuga að hætta útiræktun grænmetis. „Það eru aðrir þættir sem geta spilað þar inn í. Þetta er gríðarlega mannfrek ræktun og mikil vinna sem tengist henni. Það er forræktunin, útplöntun og almenn umhirða um plönturnar. Svo þarf sómasamlegt húsnæði að vera til staðar fyrir starfsfólkið, annars færðu ekki mannskap. Þannig að það er ekkert sjálfgefið að geta mannað þessi störf. Svo kemur að uppskerutíðinni, með þeirri óvissu sem fylgir þeirri árstíð. Eitt haustið fraus allt blómkálið til dæmis niðri í jarðveginum 4. september og svo er verðið alltaf ákveðin óvissa – þannig að það má búast við ýmsum áföllum í þessu og þessu fylgir ákveðin áhætta. Það er hins vegar mjög mikil eftirspurn eftir vörunni núna, við höfum í raun aldrei selt eins mikið blómkál og núna. Líklega var tvöföldun í veltu vegna framleiðslu og sölu á blómkáli núna á milli ára.

En launakostnaðurinn hefur aukist mjög mikið hjá garðyrkjubændum. Ef við skoðum síðustu tuttugu árin til dæmis þá hafa laun hækkað að meðaltali um 318 prósent en vísitala neysluverðs um 169 prósent á sama tíma. Það er ljóst að mannfrekar greinar finna mjög vel fyrir þessum breytingum. Það segir sig sjálft að það hefur myndast mjög mikill þrýstingur á allar framleiðslugreinar að ná að reka sig réttum megin við núllið þegar launakostnaðarhlutfallið hefur hækkað þetta mikið miðað við veltu. Bændur þurfa því að mæta þessari stöðu með því að rýna í þá möguleika sem eru til staðar til að mæta þessum aukna launakostnaði með einhverjum framleiðniaukandi aðgerðum; vélvæðingu og tæknilausnum til dæmis. Í sumum tilvikum er það mögulegt en öðrum er það ekki hægt.“

Lítið geymsluþol blómkálsins

Gunnlaugur bendir á að blómkálið sé sérstaklega erfitt að því leyti að það geymist ferskt í mjög stuttan tíma. „En við erum reyndar að vinna í ákveðnum lausnum til að lengja geymsluþolið. Til dæmis erum við að skoða geymslukör núna sem eru öndunarstýrð og eiga að gera okkur kleift að halda afurðunum ferskum í allt að fjórar til fimm vikur. Þegar við verðum komin með slíka tækni breytir það alveg möguleikum okkar til að stýra dreifingunni yfir mun lengra tímabil. Ef við svo getum lengt tímabilið í hinn endann líka um einhverjar tvær til þrjár vikur – með meiri vökvun og betra utanumhaldi bænda – þá erum við öll komin í ákjósanlega stöðu. Það þarf líka almennt að hugsa betur um garðana, með því að taka sýni úr jarðvegi, skiptiræktun og fleira mætti nefna.

Allt miðar þetta að því að ná betra jafnvægi í því að geta selt alla framleiðslu. Þetta hefur verið gert með gulræturnar sem hefur verið algjört bylting. Nú erum við að selja gulrætur alveg fram í maí, en áður var það í mesta lagi rétt fram yfir áramótin,“ heldur Gunnlaugur áfram.

„Þannig að við getum stýrt þessu betur og þurfum að læra af árum eins og þessu, þegar við lendum í því að geta ekki sett allt íslenska blómkálið á markað.

Við erum með frábæra matvöru í höndunum og frábæra ræktendur. En við eigum auðvitað inni talsvert í geymslutækni og í einhverjum þáttum ræktunarinnar – eins og til dæmis vökvun. Það er margt mjög jákvætt í útiræktun grænmetis að gerast og við höfum þrátt fyrir allt aldrei framleitt meira. En við getum enn bætt okkur í ýmsum tegundum – það vantar til dæmis meira íslenskt hvítkál inn á markaðinn svo ég nefni dæmi.“

Starfshópur um stofnun þjóðgarðs
Fréttir 9. september 2024

Starfshópur um stofnun þjóðgarðs

Drífa Hjartardóttir hefur verið skipuð formaður starfshóps sem á að undirbúa og ...

Atrenna að minni losun landbúnaðar
Fréttir 6. september 2024

Atrenna að minni losun landbúnaðar

Í uppfærðri aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum, sem kynnt var í vor og e...

Verkefnisstjórn loftslagsaðgerða
Fréttir 6. september 2024

Verkefnisstjórn loftslagsaðgerða

Ný aðgerðaáætlun í loftslagsmálum var kynnt um miðjan júní. Nýlega var skipuð ve...

Nýr hornsteinn lagður að Sögu
Fréttir 5. september 2024

Nýr hornsteinn lagður að Sögu

Lagður var nýr hornsteinn að húsinu sem lengst af gekk undir nafninu Bændahöllin...

Upplýsingasíða um riðuvarnir
Fréttir 5. september 2024

Upplýsingasíða um riðuvarnir

Karólína Elísabetardóttir í Hvammshlíð, frumkvöðull í riðumálum, hefur tekið sam...

Hálfíslenskur bóndi á lífrænu búi
Fréttir 5. september 2024

Hálfíslenskur bóndi á lífrænu búi

Á ferð sinni um Jótland hitti Magnús Halldórsson, umsjónarmaður Vísnahorns Bænda...

Viðfangsefnin spanna alla virðiskeðjuna
Fréttir 5. september 2024

Viðfangsefnin spanna alla virðiskeðjuna

Matís gaf Grænmetisbókina út í sumar, sem er heildstætt vefrit um margar hliðar ...

Óviðjafnanleg fágun
Fréttir 5. september 2024

Óviðjafnanleg fágun

Bændablaðið fékk til prufu EQE SUV rafmagnsbílinn frá Mercedes Benz. Um er að ræ...

Brögðóttur Aðalsteinn
10. september 2024

Brögðóttur Aðalsteinn

Heimsframleiðslan 37 milljarða virði
10. september 2024

Heimsframleiðslan 37 milljarða virði

Manstu vorið?
10. september 2024

Manstu vorið?

Berjaflóra Íslendinga
10. september 2024

Berjaflóra Íslendinga

Af hverju lífræni dagurinn?
10. september 2024

Af hverju lífræni dagurinn?