Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Ályktun fagráðs um velferð dýra fjallaði um meinta vanrækslu á hrossum í Borgarbyggð.
Ályktun fagráðs um velferð dýra fjallaði um meinta vanrækslu á hrossum í Borgarbyggð.
Mynd / Steinunn Árnadóttir
Fréttir 27. febrúar 2023

Óásættanlegar tafir á úrræðum fyrir skepnur í sárri neyð

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Fundargerð fagráðs um velferð dýra frá 25. janúar var nýlega birt á vef Matvælastofnunar þar sem ályktun ráðsins er að finna í máli frá síðasta hausti og varðar meinta vanrækslu hrossa í Borgarbyggð.

Henry Alexander Henryson.

Telur fagráð að Matvælastofnun þurfi ávallt að tryggja að dýrum í sárri neyð sé komið tafarlaust til bjargar. Allar tafir á úrræðum séu óásættanlegar.

Ályktun fagráðsins kemur í kjölfar yfirlýsingar Samtaka um dýravelferð á Íslandi sem Matvælastofnun barst 13. október og tengdist meintri vanrækslu á hrossum í Borgarbyggð og talsvert var fjallað um í fjölmiðlum á þeim tíma. Þar kölluðu samtökin eftir tafarlausum aðgerðum af hálfu Matvælastofnunar í því máli og bentu á að stofnunin væri eina bjargræði dýra sem lögum um velferð dýra væri ætlað að vernda gegn illri meðferð. Töldu samtökin að Matvælastofnun héldi verndarhendi yfir eigendum dýra og þrátt fyrir góðan vilja stofnunarinnar gagnvart mikilvægi velferðar dýra þá fylgdu athafnir ekki þeim orðum.

Efast um réttmæti þess að veita ítrekaða fresti

Fagráðið telur að í öllum málum sem varða dýrvelferð þurfi að fylgja góðir og skýrir verkferlar og að þeir séu gagnsæir og aðgengilegir á vef stofnunarinnar.

„Það er mat ráðsins að of djúpt sé á þessum upplýsingum á vef MAST. Jafnframt þurfi MAST að skerpa á því hvernig tilkynningum sé sinnt, meðal annars með því að svara tilkynnanda eins fljótt og auðið er og benda á þá verkferla sem unnið sé eftir. Að veita frest til úrbóta, eins og nú er gert út frá meðalhófsreglu stjórnsýslulaga, er vissulega mikilvægt. Í málum þar sem dýr sæta sannanlega illri meðferð, svo sem ef þau eru höfð í of þröngu rými, njóta ekki lögbundinnar útivistar, eða eru vanfóðruð, efast fagráðið hins vegar um réttmæti þess að veita ítrekaða fresti til úrbóta,“ segir í ályktun fagráðs.

Dýrin alltaf látin njóta vafans

Þá segir í ályktuninni að séu lög og reglugerðir ekki nægilega skýr, að mati stofnunarinnar, verði að beina beiðni um viðhlítandi breytingar til ráðuneytisins, þannig að dýrin séu alltaf látin njóta vafans og að eignarhald umráðamanns tefji aldrei fyrir nauðsynlegum aðgerðum. Það er mat fagráðsins að í tilvikum sem varða alvarleg frávik í dýrahaldi verði MAST að vinna af meiri festu og skoða öll möguleg úrræði til liðveislu umráðamanna dýranna með hagsmuni dýranna að leiðarljósi.“

Á fundinum ræddi fagráðið einnig þörf þess að Matvælastofnun hefði á sínum snærum fólk sem stofnunin geti falið að sjá um dýr og/eða búrekstur í dýravelferðarmálum. Einnig var rædd þörf á sjálfstæðri innri endurskoðun hjá stofnuninni.

Kalla þyrfti eftir auknu fjármagni ef það væri mat stofnunarinnar að fjármagn skorti til að sinna eftirliti og tryggja dýravelferð.

Fagráð er Matvælastofnun til samráðs um álitaefni

Fagráð um velferð dýra starfar á grunni laga um velferð dýra. Framkvæmd stjórnsýslunnar, í málum sem varða velferð dýra, er í höndum Matvælastofnunar sem er skylt að leita álits fagráðsins um stefnumótandi ákvarðanir og umsóknir um leyfi til dýratilrauna.

Fagráðið hefur aðsetur hjá Matvælastofnun sem leggur því til vinnuaðstöðu og starfsmann með sérfræðiþekkingu á starfssviði ráðsins. Í ráðinu skulu sitja fagfólk á sviðum dýralækninga, dýrafræði, dýraatferlisfræði, dýravelferðar, dýratilrauna, búfjárfræða og siðfræði. Hlutverk þess er meðal annars að vera Matvælastofnun til samráðs um stefnumótun og einstök álitaefni á sviði velferðar dýra, að fylgjast með þróun dýravelferðarmála og upplýsa stofnunina um mikilvæg málefni á sviði dýravelferðar, auk þess að taka til umfjöllunar mál á sviði velferðar dýra að beiðni einstakra fagráðsmanna.

Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir hjá Matvælastofnun, er formaður fagráðsins, en auk hennar eiga þar sæti þau Hilmar Vilberg Gylfason, yfirlögfræðingur Bændasamtaka Íslands, Anna Berg Samúelsdóttir, búfræðingur og landfræðingur, tilnefnd af Dýraverndarsambandi Íslands, Katrín Andrésdóttir dýralæknir, tilnefnd af Dýralæknafélagi Íslands, og Henry Alexander Henrysson, heimspekingur og kennari í siðfræði, tilnefndur af Siðfræðistofnun Háskóla Íslands.

Henry Alexander segir að einhugur hafi verið í ráðinu með ályktuninni um hrossamálið í Borgarbyggð, en formaðurinn hafi reyndar ekki tekið þátt í gerð hennar eða afgreiðslu. „Vissulega voru ólík sjónarmið og áherslur hjá ráðsfólki en að lokum var mjög góð sátt um orðalagið,“ segir hann.

Draga þarf lærdóm af þessu máli

Á svipuðum tíma og hrossamálið kom upp í Borgarbyggð, komu upp mál af svipuðum toga sem vörðuðu sauðfé og nautgripi og tengdist sama umráðafólki. Henry segir að eingöngu hafi verið fjallað um hrossamálið í fagráðinu – og viðbrögð Matvælastofnunar hvað varðar hrossin – þar sem erindi Samtaka um dýravelferð hafi eingöngu snúið að því máli.

Hann segir aðspurður að það sé ekki niðurstaða fagráðsins að viðbrögð stofnunarinnar hafi verið ámælisverð. „Hins vegar telur ráðið að það þurfi að draga lærdóm af þessu máli þegar í stað, meðal annars varðandi samskipti við þá aðila sem tilkynna um möguleg brot á velferð dýra.

Þá er það einnig skoðun fagráðsins að dýr þurfi að njóta vafans í auknum mæli. Það kann að reyna á lögfræðilega hlið þess hvernig á að standa að aðgerðum, en persónulega tel ég eðlilegt að stofnun sem á að sjá um dýravelferð láti stundum reyna á það fyrir dómstólum hvort of hart sé gengið fram gagnvart umráðamönnum til að koma dýrunum til aðstoðar,“ segir Henry.

Lög um velferð dýra eru nokkuð skýr

Henry segir að það sé mat fagráðsins að ef slík dómsmál kalli að lokum á lagabreytingar til þess að tryggja velferð dýra þurfi eftirlitsstofnunin að kalla eftir slíkum breytingum. „Besta dæmið um þetta er sú tilhneiging að veita stöðugt og ítrekað fresti til úrbóta og það réttlætt með því að vísa í þann lagaramma sem MAST vinnur eftir. En lög um velferð dýra eru nokkuð skýr um að það eigi að grípa inn í þessi mál eins fljótt og auðið er. Ef það er einhver togstreita þarna þarf að bregðast við því af hendi löggjafans.“

Ályktun fagráðsins snúist eingöngu um að hvetja MAST til að taka ávallt málstað dýranna, enda séu lögin alveg skýr hvað þetta varðar. „Og þótt þau lög væru ekki enn samþykkt þá held ég einfaldlega að viðtekin viðmið í samfélaginu í dag hneigist í þá átt,“ segir Henry.

Einkennileg viðbrögð MAST við ályktuninni

Henry telur að viðbrögð stofnunarinnar við ályktun fagráðsins hafi verið einkennileg. „Mér fannst ályktunin vera varfærin og málefnaleg. Fagráðinu var tilkynnt að ályktanirnar yrðu birtar sérstaklega á forsíðu vef stofnunarinnar.

Eftir nokkra bið ákvað MAST að birta eingöngu fundargerðina á sínum stað og nota forsíðu heimasíðunnar til að bregðast við ályktununum fagráðsins.

Persónulega verð ég að segja að þetta kemur mér fyrir sjónir þannig að MAST sé ekki á vegferð sem snúist um að lægja óánægjuöldur í samfélaginu heldur réttlæta fremur vinnubrögð sín í einu og öllu. Hugmynd fagráðsins með þessari ályktun var alltaf að hvetja MAST til dáða og leggja fram stuðning við því að stofnunin leitaði til ráðuneytisins ef heimildir hennar eru of takmarkaðar í dýravelferðarmálum.

Svo vakna auðvitað margar spurningar í framhaldinu. Ein þeirra er hvort það þurfi að taka upp einhvers konar hæfis- og hæfnimat þeirra sem hafa fjölda dýra í sinni umsjá. Það gæti verið ein lausn en auðvitað er slíkt mat upp að einhverju marki þegar í gangi í ljósi þess eftirlits sem MAST á að hafa með búfjárhaldi og þess fjölda ábendinga sem berast um slæman aðbúnað. Það sem er mest aðkallandi akkúrat í dag held ég að sé að eftirlitið og viðbrögð við ábendingum verði í betri sátt við samfélagið og breytt viðhorf til dýravelferðar.“

Sláturhús brann til grunna
Fréttir 12. apríl 2024

Sláturhús brann til grunna

Sláturhúsið í Seglbúðum í Landbroti brann til grunna þann 1. apríl.

Ekki farið að lögum um útivist nautgripa
Fréttir 12. apríl 2024

Ekki farið að lögum um útivist nautgripa

Matvælastofnun lagði stjórnvaldssektir á þrjú kúabú á Vesturlandi á dögunum vegn...

Dregur úr kaupvilja
Fréttir 12. apríl 2024

Dregur úr kaupvilja

Niðurstöður tilboðsmarkaðar fyrir greiðslumark mjólkur í byrjun apríl sýna að ja...

Staða framkvæmdastjóra BÍ auglýst innan tíðar
Fréttir 11. apríl 2024

Staða framkvæmdastjóra BÍ auglýst innan tíðar

Vigdís Häsler hefur látið af störfum sem framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands. ...

Erfiðara verður að fá sphagnum og innfluttur jarðvegur CE-vottaður
Fréttir 11. apríl 2024

Erfiðara verður að fá sphagnum og innfluttur jarðvegur CE-vottaður

Búast má við að innflutningur á mómosamold (sphagnumríkri mold) fari minnkandi á...

Bjarkey ætlar að skerpa línurnar
Fréttir 11. apríl 2024

Bjarkey ætlar að skerpa línurnar

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir er nýr ráðherra matvælaráðuneytis en Svandís Svavars...

Greiðslumark færist til Norðvesturlands
Fréttir 11. apríl 2024

Greiðslumark færist til Norðvesturlands

Um sjötíu prósent mjólkurkvóta sem skipti um eigendur á síðasta tilboðsmarkaði f...

Nemendur vilja betri hádegismat
Fréttir 10. apríl 2024

Nemendur vilja betri hádegismat

Fulltrúar ungmennaráðs Mýrdalshrepps vöktu máls á skólamáltíðum á sveitarstjórna...