Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Nýtt fjós í Flatey með tveggja milljón lítra framleiðslugetu
Mynd / TB
Fréttir 14. ágúst 2015

Nýtt fjós í Flatey með tveggja milljón lítra framleiðslugetu

Höfundur: Tjörvi Bjarnason
Á kúabúinu Flatey á Mýrum í Hornafirði rís eitt stærsta fjós landsins þessa dagana. Forsvars­menn búsins, sem er í eigu Selbakka ehf., hyggjast tvöfalda mjólkurframleiðslu á Flateyjarbúinu en nú eru þar framleiddir um 900 þúsund lítrar á ársgrundvelli. Eftir stækk­unina verður mögulegt að auka mjólkurframleiðsluna í tvær milljónir lítra á ári.
 
Selbakki er dótturfélag útgerðar­fyrir­tækisins Skinney–Þinganes. Það vakti þónokkra athygli þegar fréttist að menn úr sjávarútvegi hygðust kaupa Flateyjarbúið af Landsbankanum. Bankinn hafði áður tekið yfir reksturinn af fyrirtækinu Lífsvali sem átti tugi bújarða um allt land fyrir nokkrum árum. Nú byggja nýir eigendur upp af miklum myndarbrag bú sem á sér vart hliðstæðu á Íslandi.
Friðrik Reynisson er bústjóri í Flatey og hefur verið þar frá upphafi þegar fyrri eigendur ákváðu að breyta gamalli graskögglaverksmiðju í fjós með tveimur mjaltaþjónum. Bænda­blaðið hitti Friðrik að máli og ræddi við hann um framkvæmdirnar og hagkvæmni þess að byggja jafn stóra framleiðslueiningu og þá í Flatey.

Aukin rekstrarhagkvæmni er drifkrafturinn
 
Friðrik segir að grunnurinn að því að fara út í stækkun búsins sé að ná aukinni rekstrarhagkvæmni. „Ég tel að það verði auð­veldari rekstur á svona einingu en á fjósi með tveimur mjaltaþjónum. Við getum nýtt fjárfestinguna betur og jörðina.“ Í gamla fjósinu eru um 130 kýr mjólkandi ásamt geldkúm. Sú bygging var áður graskögglaverksmiðja en var breytt með ærnum tilkostnaði í fjós þegar Lífsval rak búið. Öll klæðning var rifin utan af húsinu, bitar og sperrur sandblásnar og klætt með yleiningum. Nú eru tveir Lely-mjaltaþjónar í gangi en þeir verða fjórir í nýja fjósinu. Ætlunin er að nýta eldri bygginguna til uppeldis að sögn Friðriks.
 
300 kýr rúmast í nýja fjósinu
 
Framleiðslan hjá búinu hefur aukist síðustu ár og slagar hátt í milljón lítra á ári. „Það var raunar metmánuður í júlí þegar við fórum í 88 þúsund lítra framleiðslu,“ segir Friðrik sem metur það svo að framleiðslugeta í nýja fjósinu geti orðið allt að tveimur milljónum lítra á ári. Greiðslumark í Flatey er rúmlega 700 þúsund lítrar og nú þegar framleiðir búið töluverða umframmjólk. Aðspurður um kvótamálin segir Friðrik að eigendur viti ekki frekar en aðrir hvernig þau þróist. „Við höld­um bara áfram veginn,“ segir hann.
 
Byggingarstjórnun er á hendi Birkis Birgissonar en að sögn Friðriks koma nokkrir aðilar að hönn­un og annarri ráðgjöf í kringum fjósbygginguna. Heildarflatarmál nýja fjóssins er um 4.700 fermetrar sem er tæpur hálfur hektari. Margir aðilar koma að byggingunni en aðalverktaki fjóssins er hornfirska verktakafyrirtækið Mikael ehf.
 
„Það er stefnan að vera komin inn með gripi í bygginguna í haust en við keyptum kýr á Suðurlandi fyrir nokkru. Stefnt er að því að vera með um 300 kýr og dreifa burðinum alveg jafnt yfir árið,“ segir Friðrik. 
 
Reglufesta er mikilvæg
 
Framleiðsluskipulagið í fjósinu verður eins og víða tíðkast í fjósum af þessari stærðargráðu og íslenskir bændur þekkja af skoðunarferðum sínum í dönsk fjós. „Draumurinn er – hvort sem hann rætist nú endanlega eða ekki – að þetta verði eins­konar hringur sem kýrnar fara inni í fjósinu. Þá byrja kýrnar sem eru í geldstöðu á ákveðnum stað í húsinu. Þegar þær bera fara þær í burðarstíur og þaðan yfir í velferðina. Þegar mjólkin minnkar í kúnum og þær verða aftur kálfafullar fara þær á annað svæði. Þegar svona margir gripir eru í fjósinu verður að vera rútína og regla og henni er ætlað að ná með þessu skipulagi,“ segir Friðrik. Útivist kúnna er þannig skipulögð að beitarhólf eru rétt við fjósið. Hjörðinni verður tvískipt og ekki allur flotinn úti í einu að sumarlagi.
 
Kalt fjós
 
Burðarvirkið í nýja fjósinu er úr lím­trésbitum en á því verða ekki yleiningar eins og tíðkast í flestum nýjum fjósum heldur verður eingöngu bárujárn. Fjósið verður óeinangrað en það verður möguleiki á að breyta því ef þarf á seinni stigum. Stórir þakgluggar verða á byggingunni og loftræsting með góðri stýringu. Hollenskir steyptir gólfbitar verða í öllu húsinu og flórar undir. Í burðarstíum og á smákálfasvæði verður notaður undirburður. Eins og áður segir verða fjórir nýir Lely-mjaltaþjónar í fjósinu. Dælubúnaður sér um að flytja mykjuna úr haugkjallaranum yfir í þró sem stendur við hlið fjóssins. 
 
Haugþró af stærri gerðinni
 
Ný haugþró var steypt í vor. Hún er engin smásmíði, 6 metrar á dýpt og 30 metrar í þvermál. „Það var nær engin jarðvinna undir henni. Bara ýtt ofan af og þá vorum við fljót­lega komnir niður á möl,“ segir Friðrik. 
 
Gunnar Gunnlaugsson bygg­inga­meistari sér um alla uppsteypu í Flatey. Haugtankurinn er járnabundinn og staðsteyptur með súlu í miðjunni. Þar er möguleiki að setja segl en bændurnir í Flatey stefna þó á að hafa þróna opna. Reynslan á eftir að sýna hvaða áhrif rigningarvatnið hefur á magnið í tanknum. Gunnar útbjó sérstakar lamir á festingarnar á flekamótin til þess að geta slegið þeim upp í hring. Að hans sögn er auðvelt að slá upp mótum fyrir hvaða stærð af haugþróm sem er með þessum hætti.
 
Nær allt hey í útistæðum
 
Áætlað er að heilfóðra gripina í nýja fjósinu. Sú nýlunda var gerð í heyskapnum í sumar að nær allt fóðr­ið var verkað í útistæður. Að sögn eigandans var kostnaður við plastkaup og tímafrekur heimakstur á rúllum það sem réði úrslitum þegar sú ákvörðun var tekin að hætta nær alfarið rúlluverkun á búinu. Ef allt hefði verið bundið í rúllur væri plastkostnaður í kringum 2,5 milljónir króna. Annað, sem er athyglisvert á jafn stóru búi, er að í ár sáu verktakar um heyskapinn að mestu leyti. Alls var heyjað af um 200 hekturum og tók verkið ekki nema fjóra sólarhringa, frá því að byrjað var að slá og þar til allt hey var komið heim í stæður við nýja fjósið. Að auki eru Flateyjarbændur með slægjur á bænum Einholti þar sem enn er heyjað í rúllur.
 
Búið að rækta upp fjölda hektara
 
Flatey er landmikil jörð með gnægð af ræktanlegu landi. Mikil ræktun hefur átt sér stað á undanförnum árum. Áður en Lífsval eignaðist jörðina var búskapur lagður af á bæn­um og graskögglaverksmiðj­unni lokað. „Það var öllu snúið við á fyrstu árunum og allt girt upp á nýtt. Við erum ennþá að rækta upp og með fyrirliggjandi stækkun búsins höldum við áfram á þeirri braut“ segir Friðrik. Jarðvegurinn er góður, jarðvatnsstaða er há og stutt niður á möl. Að sögn Friðriks notar hann um 550 kg af áburði á hektarann. 
„Landið er nokkuð fjölbreytt og ekki allsstaðar rýrt, við getum valið úr. Í viðbót við það sem komið er í ræktun má segja að við höfum um 130 hektara þar sem ekkert annað þarf að gera en að stinga plógnum niður. Heildartúnastærð sem við höfum nú til umráða, með Einholti, er um 300 hektarar og elstu túnin eru síðan 2008,“ segir Friðrik.
 
Fuglinn gerði út um kornræktina
 
Á búinu var ræktað korn í stórum stíl en í ár eru engir kornakrar. „Kornræktin reyndist okkur dýr og við ákváðum að setja ekkert korn niður þetta árið. Fuglinn er svo skæður og mun verri en haustlægðirnar. Það kom ekkert veður í fyrra sem eyðilagði kornið, bara fuglinn. Maður ræður ekkert við álftina,“ segir Friðrik.
 
Góðir starfsmenn eru lykillinn að farsælum búrekstri
 
Alls eru nú fimm starfsmenn á Flat­eyj­ar­búinu en þeir hafa verið þrír síðastliðin ár. Friðrik hefur starfað við búið frá upphafi en áður var faðir hans, Reynir Sigursteinsson, bú­stjóri. Kristín Egilsdóttir er fjósa­meist­ari og er lykilstarfsmaður að sögn Friðriks við að láta hlutina ganga upp í fjósinu. „Við höfum ver­ið með harðduglegt fólk í vinnu og óskaplega heppin með það. Stína hefur verið hér frá upphafi svo að segja en hún sér nær alveg um fjósið og flest sem því við kemur, allt bókhald og fleira sem tengist rekstri þess. Það er gott að hafa fólk sem maður getur treyst.“
 
Reynslan mun skera úr um hvort rekstrarmarkmið náist
 
Friðrik segir að bú af þessari stærðar­gráðu skipti miklu máli fyrir landbúnað á svæðinu og það hafi verið heillaspor þegar útgerðarmenn frá Höfn hefðu ákveðið að koma inn í reksturinn. Aðspurður um kostnað við stækkunina segist bústjórinn ekki hafa þær tölur á reiðum höndum. Áætlanagerð og framkvæmd sé á hendi eigenda Selbakka ehf. 
Reynslan mun síðan skera úr um hvort kúabú sem framleiðir tvær milljónir lítra af mjólk á ári, eða kringum 1,5% af heildarframleiðsl­unni í landinu, komi til með að reynast hagkvæm framleiðslueining og skila eigendum sínum viðunandi hagnaði. 
 

 

16 myndir:

Skylt efni: kúabú | Flatey | nautgriparækt

Matvæli fyrir níutíu milljónir evra gerð upptæk
Fréttir 13. desember 2024

Matvæli fyrir níutíu milljónir evra gerð upptæk

Matvælasvindl er vaxandi vandamál í heiminum. Engin mál tengd meintum matarsviku...

Kortleggja ræktarlönd
Fréttir 13. desember 2024

Kortleggja ræktarlönd

Matvælaráðuneytið ætlar að ráðast í kortlagningu á gæðum ræktarlands á Íslandi.

Verðhækkun á grænmeti mun fylgja hækkun á raforkuverði
Fréttir 12. desember 2024

Verðhækkun á grænmeti mun fylgja hækkun á raforkuverði

Um áramót taka gildi umtalsverðar hækkanir á raforkuverði til garðyrkjubænda. Ge...

Þáttaskil þurfi í loftslagsaðgerðum Íslendinga
Fréttir 12. desember 2024

Þáttaskil þurfi í loftslagsaðgerðum Íslendinga

Loftslagsráð segir að nú þurfi að verða þáttaskil í framkvæmd loftslagsaðgerða o...

Framleiða ætti flestallar landbúnaðarvörur innanlands
Fréttir 12. desember 2024

Framleiða ætti flestallar landbúnaðarvörur innanlands

Landsmenn vilja að landbúnaðarvörur séu framleiddar innanlands ef marka má niður...

Metinnflutningur á koltvísýringi
Fréttir 11. desember 2024

Metinnflutningur á koltvísýringi

Á fyrstu níu mánuðum ársins hafa verið flutt inn til landsins um 2.600 tonn af k...

Fjöldi stangveiddra laxa jókst nokkuð milli ára
Fréttir 11. desember 2024

Fjöldi stangveiddra laxa jókst nokkuð milli ára

Heildarfjöldi stangveiddra laxa árið 2024 var, skv. bráðabirgðatölum Hafrannsókn...

Kýrnar sluppu en pyngjan ekki
Fréttir 11. desember 2024

Kýrnar sluppu en pyngjan ekki

Afleiðingar rafmagnsleysis í Lundarreykjadal í febrúar urðu bændum dýrkeyptar.