Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Nýjar reglur um velferð gæludýra
Fréttir 22. febrúar 2016

Nýjar reglur um velferð gæludýra

Höfundur: Vilmundur Hansen

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur gefið út nýja reglugerð um velferð gæludýra. Með gildistökunni hafa nýju dýravelferðarlögin verið útfærð fyrir allar helstu dýrategundirnar sem löggjöfin nær yfir.

Matvælastofnun og ráðuneytið halda málþing fyrir gæludýraeigendur og aðra áhugasama fimmtudaginn 3. mars þar sem farið verður yfir reglugerðina, kröfur hennar og helstu nýmæli.

Tilgangur reglugerðarinnar er að tryggja velferð og heilbrigði gæludýra með góðri meðferð, umhirðu og aðbúnaði. Leitast skal við að þau geti lifað í samræmi við sitt eðlilega atferli, eins og framast er unnt. Í reglugerðinni koma fram lágmarkskröfur um einstök atriði og er Matvælastofnun falið að hafa eftirlit með framkvæmd hennar.

Nokkur nýmæli eru í reglugerðinni en að stofni til er hún endurskoðun á reglugerð nr. 1077/2004 um aðbúnað og umhirðu gæludýra og dýrahald í atvinnuskyni. Með nýrri reglugerð eru sett mun ítarlegri ákvæði um velferð gæludýra svo sem nákvæmari skilgreiningar á hugtökum og gerðar eru ákveðnar kröfur til gæludýraeigenda um þekkingu og hæfni til að eiga og halda gæludýr. Þeim sem selur eða afhendir gæludýr er skylt að veita móttakanda upplýsingar um dýrið og eiginleika tegundarinnar, þarfir þess og rétta meðferð.

Tilkynningaskylt gæludýrahald svo sem gæludýraverslanir, dýramiðlanir og ræktendur með vissan fjölda dýra þurfa að veita skriflega eða aðgengilega rafræna fræðslu til kaupenda.

Ennfremur koma inn ný ákvæði um aðgerðir á gæludýrum, sem í samræmi við lög um velferð dýra skulu aðeins framkvæmdar af dýralæknum og við sársaukafullar aðgerðir eða meðhöndlun skal ávallt deyfa eða svæfa þau og veita þeim verkjastillandi meðhöndlun. Að undanþegnum ófrjósemisaðgerðum og geldingum gæludýra eru skurðaðgerðir til að fjarlægja líkamshluta ekki leyfðar nema af læknisfræðilegum ástæðum. Skurðaðgerðir í tilgangi fegrunar, svo sem að fjarlægja spora og stýfa eyru eða rófu/skott, eru bannaðar. Ekki má nota tíkur áfram til undaneldis sem hafa tvisvar gengist undir keisara og ekki má þvinga tík til pörunar ef hún sýnir augljós merki um óþægindi eða hræðslu.

Auk tilkynningaskyldu á dýrahaldi í atvinnuskyni verður umfangsmikið dýrahald einnig tilkynningarskylt skv. skilgreiningu í reglugerð. Í kaflanum um dýrahald í atvinnuskyni eru nýjar greinar um smitvarnir og slysavarnir og í því sambandi má nefna að húsnæði þar sem dýr eru vistuð skal búið virkum eldvörnum svo sem reykskynjara og slökkvitæki. Ennfremur getur Matvælastofnun gert kröfu um að vistarverur dýra þar sem stunduð er tilkynningarskyld starfsemi eða dýrahald séu búnar sjálfvirkum viðvörunarbúnaði tengdum loftræstingu, hitastigi, vatnsflæði eða eldvörnum, ef það er nauðsynlegt til að tryggja öryggi dýranna. Sleðahundahaldi eru einnig settar nánari skorður í reglugerðinni.

Í reglugerðinni er gerð krafa um örmerkingar allra hunda, katta og kanína. Settar eru takmarkanir á umfangsmikið búrahald hunda í ferðabúrum. Notkun, sala og dreifing á útbúnaði sem gefur hundum rafstuð eða hálsólum með gadda eða hvassa kanta innan á ól er bönnuð. Hálsól skal þannig gerð að hún geti ekki herst að hálsi þannig að það geti takmarkað öndun eða skaðað dýrið á annan hátt.

Í viðaukum með reglugerðinni eru að finna mun ítarlegri ákvæði, en voru í eldri reglugerð, m.a. er nú talin upp sú atvinnustarfsemi sem telst tilkynningarskyld til Matvælastofnunar. Þá er að finna holdastuðla fyrir hunda, ketti, kanínur og búrfugla, sem munu auðvelda dýraeftirlitsmönnum að meta fóðrun og holdafar gæludýra og gera viðeigandi kröfur til úrbóta þegar það á við. Vakin er athygli á að í reglugerðinni kemur fram að offóðrun og offita gæludýra er ekki góð meðferð, rétt eins og vanfóðrun og rýrt holdafar.

Matvælastofnun heldur opið málþing um velferð gæludýra fimmtudaginn, 3. mars kl. 13-16 í fundarsal atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins í Sjávarútvegshúsinu að Skúlagötu 4 í Reykjavík. Á málþinginu verður farið yfir kröfur reglugerðarinnar og helstu nýmæli.
 

Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...

Jarðræktarmiðstöðin rís
Fréttir 22. apríl 2024

Jarðræktarmiðstöðin rís

Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands mun verða tilbúin árið 2027 gangi á...