Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Nýir búvörusamningar
Mynd / TB
Skoðun 1. mars 2016

Nýir búvörusamningar

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson
Skrifað var undir nýja búvörusamninga þann 19. febrúar síðastliðinn. Samningarnir eru til 10 ára en gert er ráð fyrir að þeir verði teknir til endurskoðunar tvisvar á samningstímanum, árin 2019 og 2023. Það er nýmæli að gildistíminn sé þetta langur, en ástæða þess er að með samningunum er verið að ráðast í umfangsmiklar breytingar á starfsumhverfi landbúnaðarins sem kallar á langtímahugsun. 
 
Meginmarkmið samninganna er að efla íslenskan landbúnað og skapa greininni sem fjölbreyttust sóknarfæri. Markmiðið er að auka verðmætasköpun í landbúnaði og nýta sem best tækifærin sem felast í sveitum landsins í þágu bænda, neytenda og samfélagsins alls. Til þess að ná þessum markmiðum eru í samningum fjölbreytt atriði sem ætlað er að ýta undir framþróun og nýsköpun í greininni. Enn fremur fylgir samningnum bókun þar sem gert er ráð fyrir frekari viðræðum um innviði hinna dreifðu byggða og almenn atriði er varða byggðastefnu stjórnvalda. 
 
Gerð er hagræðingarkrafa í samningunum sem nemur 0,5% fyrstu 5 ára samninganna en 1% næstu 5 ár á eftir. Þetta á við um alla þætti samninganna nema þeim sem lúta að niðurgreiðslu raforku og framlögum til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins. Heildarútgjöld ríkisins vegna samninganna verða nánast þau sömu í lok samningstímans (á föstu verðlagi) og þau eru nú. Sett er þak á stuðning í alla samningana þannig að enginn framleiðandi getur fengið meira en ákveðið hlutfall af heildarframlögum. 
 
Mjólkursamningur tekur breytingum 
 
Í nautgriparæktarsamningi er stefnt að viðamiklum breytingum. Vægi greiðslna út á framleidda mjólk auk gripagreiðslna eykst en á móti er gert ráð fyrir að vægi greiðslna út á greiðslumark verði þrepað niður.
 
Viðskipti með greiðslumark verða jafnframt takmörkuð en aðlögunartími er talsverður. Horft er til þess að hægt verði að afnema kvótakerfi í mjólkurframleiðslu en ákvörðun um það verður ekki tekin fyrr en við fyrri endurskoðun árið 2019. Atkvæðagreiðsla verði meðal mjólkurframleiðenda um málið áður en til þess kemur. Ný verkefni eru einkum að nú verður tekinn upp stuðningur við nautakjötsframleiðslu, en innlend framleiðsla hefur ekki annað eftirspurn síðustu ár. Enn fremur verður mögulegt að fá stuðning við fjárfestingar, sem líka er nýmæli. Þá mun ráðherra beita sér fyrir því að tollvernd á ákveðnum mjólkurvörum verði færð til raungildis, en hún hefur verið óbreytt í krónum talið frá árinu 1995. 
 
Garðyrkjusamningur
 
Samningur garðyrkjubænda er um margt áþekkur fyrri samningum og engar snöggar eða áhrifamiklar breytingar eru fyrirsjáanlegar vegna hans. Kveðið er á um hlutdeild ríkisins í kostnaði við dreifingu og flutning raforku, en undanfarin ár hafa verið gerðir sérstakir samningar um þá þætti, utan búvörusamninga. Áfram munu papriku-, gúrku- og tómataframleiðendur fá beingreiðslur vegna framleiðslu sinnar. Sett hefur verið viðmið um hámarksstuðning til einstaka bænda vegna beingreiðslna og niðurgreiðslna á flutnings- og dreifingarkostnaði raforku í því skyni að þeir fjármunir sem til ráðstöfunar eru nýtist sem best. 
 
Breyttar áherslur í sauðfjárræktinni
 
Í sauðfjárræktarsamningi eru breyttar áherslur frá fyrri samningi. Markmið nýja samningsins er að efla íslenska sauðfjárrækt í sátt við samfélag og náttúru þar sem sérstaða, sjálfbærni, fjölbreytni, verðmætasköpun og góðir búskaparhættir eru hafðir að leiðarljósi. Að auki á að hlúa að þeirri einstöku íslensku menningu sem tengist sauðfjárrækt um leið og stuðlað er að framþróun, nýsköpun, nýliðun og eflingu byggðar um allt land. 
 
Vægi álagsgreiðslna gæðastýringar er aukið og greiðslur út á greiðslumark þrepaðar niður á móti. Teknar verða upp gripagreiðslur í sauðfjárrækt þegar liðið er á samninginn, en á öðru ári hans hefjast greiðslur sem kallast býlisstuðningur og eru sérstaklega ætlaðar til að styðja við minni bú. Einnig verður kostur á fjárfestingastuðningi í sauðfjárrækt og stuðningur við svæði sem eru sérstaklega háð sauðfjárrækt verður aukinn. Nýtt verkefni er í samningnum um aukið virði afurða sem er ætlað til margs konar aðgerða til að auka verðmæti framleiðslunnar. 
 
Bændur munu nú greiða atkvæði um samningana og Alþingi fjalla um lagabreytingar sem þeim tengjast. Búast má við mikilli umræðu á næstu vikum og mánuðum sem er eðlilegt enda málið stórt. Bændur eru tilbúnir í þá umræðu.
 
Hvað þýða samningarnir fyrir neytendur?
 
Stundum er spurt hvað samningarnir feli í sér fyrir neytendur. Stutta svarið við því er að stuðningur við landbúnað gerir greininni kleift að framleiða afurðir á hagstæðara verði fyrir neytendur. Það er varla til sá staður þar sem að stjórnvöld hlutast ekki á einhvern hátt til um landbúnað – með stuðningi, verndaraðgerðum eða hvoru tveggja. Svo er einnig raunin hér. Okkur er ekki frekar en öðrum sama um hvort það er landbúnaður hérlendis eða ekki. Einhliða ákvörðun okkar um að hætta stuðningsaðgerðum yrði einfaldlega til þess að greinin hefði ekki sanngjarna samkeppnisstöðu. Stuðningurinn hérlendis gerir bændum kleift að selja afurðir sínar frá sér á lægra verði. Þetta eru engir bankabónusar – heldur er þessu að langmestu leyti skilað aftur í formi lægra verðs fyrir alla. Væri það ekki gert myndi stuðningurinn þurfa að færast inn í afurðaverðið. Samfélag okkar styður við margs konar starfsemi.Vissulega er það réttur hvers manns að hafa á því skoðun hvort það sé stutt við landbúnað eða ekki, en menn verða að gera sér ljóst hvaða þýðingu stuðningsaðgerðir hafa og bera saman fyrirkomulagið með sanngjörnum hætti.
Landbúnaðarframleiðslan hefur víðtæka þýðingu fyrir landið í heild. Á hverju ári á sér stað mikil verðmætasköpun í íslenskum landbúnaði. Árið 2014 var verðmæti landbúnaðarafurða 51 milljarður kr. en að viðbættri annarri starfsemi 54 milljarðar. Um 4.200 lögbýli eru í notkun hér á landi og tæplega 4.000 manns starfandi í landbúnaði samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Alls munu um 11.000 störf tengjast landbúnaði með einum eða öðrum hætti. Íslenskur landbúnaður er mikilvægur þáttur í virðiskeðjunni og skilar hann og viðskipti með landbúnaðarvörur miklum skatttekjum til ríkisins. 
 
Búnaðarþing fram undan
 
Búnaðarþing verður sett um hádegi næstkomandi sunnudag í Hörpu.  Á þinginu verða samningarnir án efa áberandi, en við setninguna gefst öllum áhugasömum kostur á að öðlast nokkra innsýn í þá fjölbreyttu starfsemi sem landbúnaðurinn tengist. Fyrirtæki sem byggja á afurðum greinarinnar eða þjónustu við hana kynna starfsemi sína, landbúnaðarverðlaunin verða veitt og ný hvatningarverðlaun Bændasamtakanna. Verið velkomin í Hörpu sunnudaginn 28. febrúar.

Skylt efni: búvörusamningar

Stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar: tryggja á fæðuöryggi á Íslandi
Fréttir 29. nóvember 2021

Stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar: tryggja á fæðuöryggi á Íslandi

Stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar Framsóknarflokks, Sjálfsstæðisflokks og Vi...

Ný hitaveita Hornafjarðar formlega tekin í notkun
Fréttir 29. nóvember 2021

Ný hitaveita Hornafjarðar formlega tekin í notkun

Hitaveita Hornafjarðar var tekin formlega í notkun fimmtudaginn 21. október en l...

Vinstri grænir stýra ráðuneyti matvæla, sjávarútvegs og landbúnaðar
Fréttir 27. nóvember 2021

Vinstri grænir stýra ráðuneyti matvæla, sjávarútvegs og landbúnaðar

Samkvæmt heimildum Bændablaðsins mun þingmaður Vinstri grænna vera með ráðuneyti...

Bitbein um áburðarnotkun
Fréttir 26. nóvember 2021

Bitbein um áburðarnotkun

Lífrænir bændur í Danmörku geta nýtt sér húsdýraáburð frá ólífrænum búum í meira...

Nær 36 milljónir íbúa ESB geta ekki kynt heimili sín sómasamlega
Fréttir 26. nóvember 2021

Nær 36 milljónir íbúa ESB geta ekki kynt heimili sín sómasamlega

Í síðasta Bændablaði var greint frá því að samkvæmt könnun sem kynnt var af Euro...

Kolefnissporið kortlagt
Fréttir 26. nóvember 2021

Kolefnissporið kortlagt

Skútustaðahreppur hefur samið við nýsköpunarfyrirtækið Greenfo um að kortleggja ...

Flestir bílaframleiðendur veðja á efnarafala fremur en rafhlöður í þung ökutæki
Fréttir 25. nóvember 2021

Flestir bílaframleiðendur veðja á efnarafala fremur en rafhlöður í þung ökutæki

Vetnisvæðing, sem nú er rekin áfram af mikilli ákefð hjá öllum stærstu iðnríkjum...

Rekstur vindorkugarða sagður brjóta á mannréttindum Sama
Fréttir 25. nóvember 2021

Rekstur vindorkugarða sagður brjóta á mannréttindum Sama

Norðmenn hafa upplifað spreng­ingu í uppsetningu vindorkustöðva á undanförnum ár...