Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Framtíðarhúsið. Er þetta framtíðarfjárhúsið í Noregi? Óvenjuleg hönnun sem norsku hönnuðirnir kalla einfaldlega þríhyrningsfjárhús! Þessi fjárhúsgerð hefur ekki verið byggð en er talin að muni verða heldur ódýrari í byggingu en hefðbundin fjárhús.
Framtíðarhúsið. Er þetta framtíðarfjárhúsið í Noregi? Óvenjuleg hönnun sem norsku hönnuðirnir kalla einfaldlega þríhyrningsfjárhús! Þessi fjárhúsgerð hefur ekki verið byggð en er talin að muni verða heldur ódýrari í byggingu en hefðbundin fjárhús.
Fréttir 11. janúar 2016

Nordisk byggetræf á Íslandi

Höfundur: Snorri Sigurðsson, Ráðgjafi hjá SEGES P/S Danmörku
Annað hvert ár hittast fremstu hönnuðir, ráðgjafar og rannsóknamenn á sviði landbúnaðarbygginga á Norðurlöndunum á þriggja til fjögurra daga ráðstefnu með blöndu af fræðilegum erindum, reynslusögum og vettvangsferðum. Ráðstefna þessi kallast Nordisk byggetræf og er tilgangur hennar að vera vettvangur upplýsingamiðlunar um það nýjasta á sviði landbúnaðarbygginga. 
 
Í hvert skipti sem ráðstefna þessa faghóps er haldin færist hún á milli Norðurlandanna og í ár var komið að Íslandi og var hún að þessu sinni haldin á Hótel Örk í haust en alls sóttu 64 þessa ráðstefnu og komu frá öllum Norðurlöndunum.
 
Í níunda skipti
 
Nordisk byggetræf 2015 var sú níunda í röðinni og er þetta í annað sinn sem ráðstefnan er haldin hér á landi, en síðast var hún haldin hér árið 2005. Eins og áður segir sóttu 64 ráðstefnuna sem skipt­ust þannig á milli Norðurlandanna að frá Íslandi komu 11, 12 frá Danmörku, 3 frá Finnlandi, 24 frá Noregi og 12 frá Svíþjóð. Þá tóku í fyrsta skipti þátt tveir fulltrúar frá Færeyjum. 
 
Ráðstefnan hófst með setningarræðu Sigurðar Inga Jóhannssonar landbúnaðarráðherra og í kjölfarið hófst svo þriggja daga ráðstefna þar sem blandað var saman 26 faglegum erindum, skoðunarferðum og heimsóknum. Á dagskrá ráðstefnunnar voru mörg einkar áhugaverð erindi og verður hér greint frá nokkrum þeirra.
 
CIGR-staðlar fyrir hönnun
 
Sænski byggingaráðunauturinn Michael Ventorp flutti afar áhugavert erindi um lágmarksstaðla CIGR, sem er alþjóðlegt samstarf í landbúnaðarverkfræði. Erindi hans snéri sérstaklega að kröfum varðandi aðbúnað nautgripa og byggði á skýrslu CIGR frá því á síðasta ári. Staðlar CIGR eru einkar vel útfærðir og byggja allir á niðurstöðum rannsókna á aðbúnaði. 
 
Staðlarnir taka til helstu stærðarmála nautgripa og þess umhverfis sem þeir búa við og eru ákveðin grunnforsenda hönnunar fjósa og mjaltaaðstöðu. Þeim sem hafa áhuga á að kynna sér þessa staðla má benda á heimasíðu CIGR: www.cigr.org þar sem m.a. er hægt að finna skýrsluna um hönnunarforsendur fjósa auk fjölda annarra áhugaverðra gagna.
 
Velferðarsvæði í fjósum
 
Danski fjóshönnuðurinn Anja Juul Freudendal flutti erindi um hönnun velferðarsvæða í fjósum en í dag er krafa í Danmörku að vera með sérstök velferðarsvæði. Þessum svæðum er stundum ruglað saman við sjúkrastíur en hér er átt við allt annað svæði. 
 
Kýr sem eru hafðar á velferðarsvæði í fjósi eru oftast nýbærur (3–14 daga eftir burð), kvígur og kýr sem mætti skilgreina sem vandamálakýr. Þessi svæði rúma oft um það bil fjórðung til þriðjung gripanna og er helsti kostur kerfisins að „vinnufélagarnir“ eru færri og því mun auðveldara að veita eftirlit og aðstoð í fjósum sem eru með svona velferðarsvæði. Þetta er ákveðin nýjung og líklega enn óþekkt hér á landi, en hefur fengið verulega athygli undanfarin ár erlendis og má heita að ekki sé byggt fjós í dag sem ekki er með slíku svæði. Í næsta tölublaði Bændablaðsins verður gerð nánari grein fyrir hönnun velferðarsvæða í fjósum.
 
Stokkaloftræsting í kálfaaðstöðu
 
Það telst seint til nýjungar að fjalla um stokkaloftræstingu enda vel þekkt aðferð við loftræstingu hér á landi og var m.a. í gamla Hvanneyrarfjósinu á sínum tíma. Það hefur hins vegar orðið mikil þróun á hönnun loftræstikerfa sem þessara og þau þykja einkar hentug til þess að loftræsta geldneytaaðstöðu, sem oft er í einhverjum hliðarbyggingum við aðalfjósbygginguna. 
 
Um þessa loftræstigerð fjallaði Finninn Tapani Kivinen en Finnar hafa gert áhugaverðar rannsóknir á notkun plaströra við loftræstingu í byggingum með lága lofthæð og raunar einnig þar sem hátt er til lofts. 
Kostir kerfis sem þessa eru þeir að mun auðveldara er að stýra því hvar ferskt loft kemur niður og því er hægt að tryggja öllum gripum gott og ferskt loft, nokkuð sem ekki er hægt með annars konar kerfum. Þetta er afar mikilvægt erlendis þar sem smákálfar eru, en nokkuð algengt er að þeir fái lungnasjúkdóma ef ekki er vel loftræst. Þetta er klárlega lausn sem gæti hentað í mörgum fjósum hér á landi.
 
Legubásadýnur á útleið
 
Danski ráðunauturinn Inger Dalgaard fjallaði um þá öru þróun sem á sér stað í Danmörku núna en þar er verið að henda út úr fjósunum hefðbundnum legubásadýnum og þess í stað koma bændur sér upp djúpum og mjög mjúkum básum með annaðhvort sandi í, hálmi, blöndu af hálmi og kalki eða mykjutrefjum. Ástæðan fyrir þessum breyttu áherslum þarlendra kúabænda felst í því að í dag er tekið mjög hart á því af úttektaraðilum ef kýr hafa hárlausa bletti á fótum, en það gerist alloft þegar kýr liggja á legubásadýnum. Slíkt ástand á kúm er ekki ásættanlegt samkvæmt dönskum reglum og því er um tvennt að velja: stórauka notkun á undirburði eða skipta um kerfi.
 
Margir bændur hafa valið að skipta um kerfi, enda er mjög erfitt að halda miklu magni af undirburði á legubásadýnum. Inger sýndi nokkrar hentugar lausnir sem hafa verið notaðar í Danmörku en algengt er að legubásarnir eru hækkaðir upp með sérstökum kanti aftast í básnum og svo fyllt upp í básinn (ofan á legubásadýnuna) með undirburði.
 
Timbur í hólf og gólf
 
Norðmaðurinn Knut Erik Ree, sem er byggingaráðunautur, tók fyrir skemmtilegt efni en það er hönnun fjósa fyrir holdakýr. Efnið eitt og sér er vissulega áhugavert og sér í lagi hinar norsku leiðir og áherslur en þeir hafa mikið dálæti á timbri og byggja helst öll fjós úr timbri sé hægt að koma því við. Kom hann með nokkur dæmi um hönnun slíkra fjósa fyrir holdakýr og fór yfir kostnað bygginganna en nefna má sem dæmi að í Noregi kostar plássið fyrir eina holdakú, í fjósi sem rúmar 40-50 holdakýr, 130.000 norskar krónur eða rétt um 1,9 milljónir íslenskra króna og er þá allt talið. Í slíku tilfelli er verið að ræða um einangrað fjós með haughúsi. Ætli norski holdanautabóndinn hins vegar að spara getur hann haft kýrnar á taði og í óeinangruðu fjósi og kostar hvert pláss í slíkri byggingu 80.000 norskar krónur eða um 1,2 milljónir íslenskra króna.
 
Reynslan af mykjutrefjum
 
Danirnir Anne Marcher Holm og Morten Lindgaard Jensen tóku fyrir reynslu Dana af notkun á mykjutrefjum sem undirburð í fjósum, en mykjutrefjar eru unnar úr mykju kúa og er þurrkaður trénishluti mykjunnar.
 
Í stuttu máli sagt þá er reynsla danskra bænda góð og virðist sem kúnum líki vel að liggja á svona undirburði. Þær eru áberandi hreinar og fínar og lausar við allt hárslit á helstu álagssvæðum. Eitt vandamál er þó til staðar og er óleyst en það er að sumir, ekki allir þó, hafa lent í vandræðum með júgurheilbrigði kúnna og gæti það bent til þess að þegar mykjutrefjarnar eru unnar, þá takist ekki nógu vel að drepa mögulegar bakteríur í mykjunni. Sé horft til kostnaðar við þessa aðferð þá sýnir reynsla Dananna að stofnkostnaður við innkaup á mykjutrefjapressu og uppsetningu á henni eru rétt tæpar sex milljónir íslenskra króna og svo nemur rekstarkostnaður, að teknu tilliti til afskrifta, viðhalds og rafmagnskostnaðar, 4.700 íslenskum krónum á hvern legubás á ári.
 
Norsku fjárhúsin með Íslandshekk
 
Það var skemmtilegt að heyra erindi Norðmannanna Knut Erik Ree og Per Olav Skjoldberg en þeir tóku fyrir hönnun fjárhúsa í Noregi. Þar er nú töluverð endurnýjun fjárhúsa í gangi og byggir um helmingur sauðfjárbændanna nú óeinangruð fjárhús. 
 
Athygli okkar Íslendinganna á ráðstefnunni vakti að Norðmenn hanna nú ótal fjárhús með sk. Islandshekk sem er þeirra nafn á íslensku gjafagrindunum sem notaðar eru nú til dags í ótal fjárhúsum hér á landi. Eins og við mátti búast af Norðmönnum miðuðu flestar hönnunarlausnir við notkun á timbri sem megin byggingarefni, en hönnunarlausnirnar voru svipaðar því sem þekkist hér á landi. Þá fóru þeir einnig yfir nokkrar kostnaðartölur en algengur byggingakostnaður er í kringum 12-14 þúsund norskar krónur á vetrarfóðraða á eða um 170-205 þúsund íslenskar krónur. Er þá miðað við fulleinangrað fjárhús með kjall-ara. Velji bændurnir óeinangrað fjárhús, lækkar kostnaðurinn á hverja á um 30-60 þúsund íslenskar krónur. Í lok erindis síns kynntu þeir afar óvenjulega en um leið spennandi hönnun á fjárhúsi en þeir kalla hönnunina þríhyrningsfjárhús! Fjárhúsið er einfaldlega byggt upp af tveimur sperrum sem eru festar saman í kjölinn og mynda þannig „A“. Þessi fjárhúsgerð hefur ekki verið byggð enn, en þótt nýstárleg sé í útliti þá telja þeir að spara megi byggingarkostnað með því að byggja fjárhúsið með þessum hætti.
 
Þolpróf innréttinga fyrir hesthús
 
Annað erindi Michael Ventorp var ekki síður áhugavert en hitt og fjallaði það um helstu ástæður þess að hestar geti slasast í hesthúsum en árlega er talið að á milli 6-700 hestar slasist í sænskum hesthúsum. 
Eins og gefur að skilja eru ástæðurnar margvíslegar en oft er þó skýringin fólgin í vanmati húsbyggjenda á aflinu sem leysist úr læðingi þegar hestur sparkar. Við það geta innréttingar hæglega brotnað eða bognað og af þeim völdum getur innréttingin valdið hestinum skaða m.a. með því að hann getur fest fót eða haus í innréttingunni. 
 
Vegna þessa hafa sænskir vísindamenn nú þróað sérstakan prófunarbúnað sem líkir eftir því afli sem hestur gefur frá sér við þungt spark og sýndi Michael margar myndir af skemmdum innréttingum eftir að hafa farið í gegnum sænska prófunarbúnaðinn. Í kjölfar prófananna hafa Svíar gefið út breytt viðmið um efnisstyrk og hönnun innréttinga í hesthús.
 
Mörg íslensk erindi einnig
 
Hér að framan hefur einungis verið sagt frá örfáum erindum Nordisk byggetræf 2015 en gaman er að segja frá því að á ráðstefnunni stóðu Íslendingar fyrir sex áhugaverðum erindum. Ennig: um stöðu búfjárræktar á Íslandi, um breytingar á hönnun fjósa á Íslandi undanfarinn áratug, um þróun mjaltaþjónatækninnar á Norðurlöndum, um hönnun fjósa fyrir holdakýr, um notkun hitaveitu í hesthúsum og um hönnun fjárhúsa á Íslandi. Hafi framangreind skrif vakið áhuga á erindum ráðstefnunnar má benda á að þau má öll nálgast á næstunni, þ.e. glærurnar, á vefslóðinni www.njf.nu.
 
Snorri Sigurðsson
sns@seges.dk
Ráðgjafi hjá SEGES P/S
Danmörku

5 myndir:

Vaxtalækkun lána
Fréttir 1. mars 2024

Vaxtalækkun lána

Fram kom í frétt Bændablaðsins, 2. nóvember 2023, að stjórn Byggðastofnunar hefð...

Endurvinnslan er mest innanlands
Fréttir 29. febrúar 2024

Endurvinnslan er mest innanlands

Guðlaugur Gylfi Sverrisson, rekstrarstjóri Úrvinnslusjóðs, segir stjórn sjóðsins...

Háskóladagurinn á fjórum stöðum
Fréttir 29. febrúar 2024

Háskóladagurinn á fjórum stöðum

Háskóladagurinn verður haldinn í Reykjavík laugardaginn 2. mars.Þá gefst fólki k...

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða
Fréttir 29. febrúar 2024

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða

Forsætisráðherra hefur skipað starfshóp sem falið er að skoða lagaumgjörð hvalve...

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu
Fréttir 28. febrúar 2024

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu

Vistkjöt var boðið til smökkunar í Kópavoginum um miðjan mánuð, í fyrsta sinn í ...

Lambhagi notar „Íslenskt staðfest“
Fréttir 28. febrúar 2024

Lambhagi notar „Íslenskt staðfest“

Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, og Hafberg Þórisson, eigan...

Samræmt söfnunarkerfi
Fréttir 27. febrúar 2024

Samræmt söfnunarkerfi

Vinna á tillögu um útfærslu fyrir samræmt söfnunarkerfi dýraleifa á landsvísu se...

Áhyggjur af myglu, tollum og garðyrkjunámi
Fréttir 27. febrúar 2024

Áhyggjur af myglu, tollum og garðyrkjunámi

Deildarfundur garðyrkjubænda innan Bændasamtaka Íslands var haldinn 12. febrúar ...