Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Átján manna hópur íslenskra bænda, fulltrúa Kraftvéla og fjármögnunarfyrirtækisins Ergo heimsótti tvö kúabú í Þýskalandi í byrjun síðasta mánaðar í tengslum við ferð á landbúnaðarsýninguna Agritechnica í Hanover.
Átján manna hópur íslenskra bænda, fulltrúa Kraftvéla og fjármögnunarfyrirtækisins Ergo heimsótti tvö kúabú í Þýskalandi í byrjun síðasta mánaðar í tengslum við ferð á landbúnaðarsýninguna Agritechnica í Hanover.
Fréttir 17. desember 2015

Mykja, gasframleiðsla og verktakastarfsemi heldur þýskum kúabændum gangandi

Þýskir kúabændur eru ekki í öfundsverðri stöðu þessa dagana. Mjólkurframleiðslan er nú rekin með bullandi tapi, en sumir reyna enn að þrauka með aukinni verktakastarfsemi og orkuframleiðslu.
 
Í mars á þessu ári var kvótakerfi í mjólkurframleiðslu undir CAP, landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins, lagt niður. Neikvæðar afleiðingar þess fóru fljótt að koma í ljós og nú er svo komið að fjölmargir hafa þegar gefist upp, aðrir íhuga að hætta á meðan sumir reyna að strögla og treysta á tekjur af hliðarbúgreinum og verktakastarfsemi.  
 
Tvískinnungur í gagnrýni á styrkjakerfi í landbúnaði
 
Sameiginleg landbúnaðarstefna ESB, Common Agricultural Policy, eða CAP, byggir eins og flest önnur landbúnaðarkerfi á að beita styrkjakerfi til stýringar greinarinnar sem aftur er nýtt sem hagstjórnartæki ríkisvaldsins. Þetta er líka stór þáttur í að tryggja fæðuöryggi sem flestum ríkjum heims þykir mikilvægt. Hefur CAP jafnframt verið stærsti einstaki útgjaldaliðurinn í fjárlögum Evrópusambandsins, eða um 50 milljarðar evra sem samsvarar um 8,75% hlutfalli af þjóðartekjum sambandsins í heild. Þar er einkum beitt styrkjum á hektara og ræktunarstyrkjum, en síður í framleiðslustyrkjum á gripi eða afurðir eins og hér er gert. Skiptar skoðanir hafa verið um hvaða leið sé best í þessum efnum. 
 
Styrkjakerfi fyrir íslenskan landbúnað hefur verið harðlega gagnrýnt. Samt þykir þeim sem hæst hafa gagnrýnt íslenska kerfið, ekkert athugavert við að beita óheftum niðurgreiddum innflutningi frá ESB-löndum til höfuðs íslenskum landbúnaði. Þiggja þar með erlendu styrkina sem erlendir skattgreiðendur standa þá á bakvið, en leggja ekkert á móti. Til eru tvö gömul og góð íslensk orð sem skilgreina ágætlega svona þankagang, en það eru orðin tvískinnungur og hræsni. 
 
Þýskir bændur berjast nú hart fyrir tilveru sinni
 
Fulltrúa Bændablaðsins gafst kostur á að kynna sér stöðuna á tveim tiltölulega stórum fjölskyldubúum í Þýskalandi á dögunum. Móttökurnar voru hreint út sagt frábærar. Eigendur beggja þessara búa berjast nú á hæl og hnakka við að upphugsa nýjar leiðir til að reyna að halda rekstrinum á floti, en með ólíkum hætti.
Til viðbótar við það að mjólkurkvótinn var lagður niður, þá hefur viðskiptabann ESB og annarra vestrænna ríkja við Rússa haft alvarlegar afleiðingar fyrir evrópskan landbúnað. Kom þetta líka greinilega fram í orðum fyrirlesara á landbúnaðarsýningunni Agritechnica í Hanover á dögunum.
 
Bú Müllersfeðga í Schwabendorf
 
Fyrra búið sem heimsótt var, Müller GbR, er bú feðganna Heinrich Müller og sonar hans, Karsten, í þorpinu Schwabendorf. Þótt íslensku bændunum þætti það sérkennilegt, þá hefur búið sjálft í raun ekkert annað nafn en fjölskyldunafnið. Þorpið tilheyrir svo nágrannabænum Rauschenberg í Hessen, mitt á milli Frankfurt og Hanover. Hessen er síðan eitt af 16 sambandslýðveldum Þýskalands.
 
Jörðin er í um 260 til 320 metra hæð yfir sjó og þar er um 680 millimetra úrkoma á ári og 7 gráðu meðalhiti. Fór undirritaður þangað í byrjun nóvember í átján manna hópi íslenskra bænda, fulltrúa Kraftvéla og Guðbjörns Árnasonar, viðskiptastjóra hjá fjármögnunarfyrirtækinu Ergo. Hann þekkja margir bændur frá fyrri störfum hans fyrir Bændasamtökin og eins hefur hann mikið starfað sem leiðsögumaður. Kom þýskukunnátta hans og þekking á þýsku samfélagi sér afar vel fyrir hópinn. Ekki síst í heimsókn sem skipulögð var á tvo sveitabæi í tengslum við ferð hópsins á landbúnaðarsýninguna Agritechnica í Hanover. 
 
Þurfti að flytja meginhluta starfseminnar út fyrir þorpið
 
Müller-fjölskyldan hefur í gegnum tíðina búið í þorpinu Schwabendorf ásamt fleiri bændum. Þorpið hefur lengi verið þungamiðja svæðisins og þar voru allir bændurnir áður með sinn búskap en nýttu svo landið í kring til að heyja á og undir kornakra. 
 
Þegar fjölskyldan lýsti áhuga á að stækka búið, var andstaða við að hún yki við sig í þorpinu sjálfu. Þar voru þau með 60 kýr. Smám saman fór afi Karstens og síðan Heinrich faðir hans að kaupa upp hvert býlið í þorpinu af öðru ásamt meðfylgjandi jarðnæði. Árið 1999, þegar Karsten kom úr námi, var ákveðið að byggja nýtt fjós og aðstöðu nokkur hundr­uð metrum norðvestan við þorpið. Var þá jafnframt hafist handa við að stækka kúastofninn upp í 70 kýr. 
 
Nytin jókst með stækkandi búi
 
„Eftir því sem kúnum hefur fjölgað hefur nytin jafnframt aukist. Þegar við fluttum fyrst með kýrnar í nýja fjósið var nytin tæplega 8 þúsund kg (lítrar) að meðaltali á kú. Nytin hefur síðan aukist jafnt og þétt í takt við fjölgunina og nú er meðalnytin tæplega 11 þúsund kg (lítrar) á kú. Fituinnihald er 3,83% og  próteininnihald er 3,32%. Þegar framleiðslan var minni árið 2000 voru kýrnar 74 og fituinnihaldið var þá mest í 4,25% á móti 3,41% próteininnihaldi,“ sagði Karsten Müller.
 
Müllers-feðgar eru með mjaltagryfju sem þykir henta vel. Karsten segir að sífellt aukist þó að bændur fái sér mjaltaþjóna sem ganga þó ekki nema búin séu að minnsta kosti með 60–70 kýr. Þýskir bændur horfi mjög mikið í hagkvæmnina og fari sér því hægt við að fjölga mjaltaþjónum sem eru dýrir í innkaupi og kosta um 160 þúsund evrur stykkið (22,7 milljónir króna). 
 
Mikið vinnuálag er á Karsten sem sér sjálfur um allar mjaltir, en hefur þó einn vinnumann til að hjálpa sér að koma kúnum að mjaltagryfjunni og á búinu er líka einn lærlingur. Þá er einn vinnumaður sem eingöngu sinnir gasframleiðslunni á bænum. 
 
Hann segir þó að vissulega gæti hann létt á sér álaginu með því að fá sér mjaltaþjón. Vel geti verið að hann neyðist til þess þar sem hann og faðir hans hafi ekki endalaust úthald. 
 
78 þúsund bændur en meðalbúið aðeins með 50 kýr
 
Karsten sagði að 78 þúsund mjólkur­bændur væru nú með búrekstur í Þýskalandi. Eru þeir með um fjórar milljónir kúa, sem þýðir að meðalbúið er með rétt yfir 50 kýr, sum með fleiri og sum með færri. 
 
„Það er mikill breytileiki í bústærðinni. Í Bæjaralandi eru t.d. að meðaltali 34 kýr á hverju búi á meðan búin í gamla Austur-Þýskalandi, eða Neubrandenburg, eru að meðaltali með 225 kýr,“ sagði Karsten.
Um 45% allra býla í Þýskalandi eru með yfir 100 kýr, en einungis 9% þeirra eru með 500 kýr eða fleiri. Risabú eru því tiltölulega fá í Þýskalandi enn sem komið er. 
 
Með 190 mjólkurkýr
 
Á búinu eru nú 190 mjólkurkýr af Holstein-kyni auk 180 annarra gripa. Við nautgriparæktina eru tveir fastir starfsmenn og einn sem starfar eingöngu við gas- og raforkuframleiðslu búsins. Karsten Müller hefur tekið við rekstrinum af föður sínum. Hann er landbúnaðarverkfræðingur að mennt. Þannig hefur búið gengið á milli föður til sonar í gegnum tíðina. Sagði Kartsen að heppilegt væri að hann væri eina barn foreldra sinna svo kynslóðaskiptin hafi ekki kostað nein illindi. Sjálfur á hann svo bara einn son með sinni konu svo sagan er greinilega að endurtaka sig.
 
Kýrnar fluttar á fæðingardeild
 
Þegar kýrnar eiga eftir 20 daga í burð eru þær fluttar á kerru á „fæðingardeildina“ sem fjölskyldan rekur í gamla fjósinu í þorpinu. Þar dvelja kýrnar svo í fimm daga eftir burð áður en þær eru fluttar til baka, en kálfarnir verða eftir í uppeldishúsi. Þar er pláss fyrir 100 gripi.
 
Ekki skylda að hleypa kúm út á tún
 
Í fjósinu eru þrjár raðir af legubásum, en annars ganga kýrnar lausar. Mjólkurkýrnar fara aldrei út á tún, en fyrir og eftir mjaltir fara þær í lítið útigerði með steyptu undirlagi. Sagði Karsten að það væri ekki skylda í Þýskalandi að láta mjólkurkýr fara út á tún. Tók hann fram að þó heitt væri á sumrin héldu kýrnar sig inni við í fjósinu sem er reyndar mjög vel loftræst. Það væri ekki fyrr en aðeins færi að kólna undir kvöld að kýrnar færu sjálfviljugar út í gerðið. 
 
Mikil áhersla á hreinlæti
 
Mikið er greinilega lagt upp úr þrifum bæði í kringum mjalta­gryfju, útigerði og í fjósinu sjálfu. Þar var ekki að finna neinar kýr með drulluklepra upp á síður, enda hafa þær alltaf hreinan hálm til að liggja á í básum sínum. Annan hvern dag er hálmurinn hreinsaður út með hjálp Wideman liðléttings og nýr hálmur settur í staðinn. Sagði Karsten að án þessarar Wideman-vélar væri þetta reyndar óvinnandi verk. Er þetta lipra tæki líka notað við margvísleg önnur verkefni. Mátti greinilega merkja á orðum hans að fastheldnin á ákveðið tækjamerki er ekki síður landlæg hjá Þjóðverjum en íslenskum bændum. 
 
Hálmur sem undirburður þykir gefa betri raun en gúmmímotturnar
 
Segir Karsten að þeir hafi verið með gúmmímottur undir kýrnar, en reynslan sýni að gripirnir hafi enst  illa í fótum. Hafi  notkun á hálmi í undirburð komið mun betur út.
 
Í fjósinu hjá þeim voru nokkrar kýr sem höfðu mjólkað yfir 100 þúsund lítra yfir ævina og voru elstu kýrnar í fjósinu orðnar 12 ára. 
 
Leikur að litum og uppáhaldskýrnar
 
Helsta einkenni Holstein-nautgripa er svart/hvít skjöldótti liturinn. Með því að nota skosk naut hefur Müllers-feðgum tekist að ná fram stærri hluta af hvítum lit og jafnvel nær alhvítum kúm. 
 
Sýndu þeir feðgar Íslendingunum fimm uppáhaldskýr sem eru með öll þau bestu einkenni sem þeir hafa verið að sækjast eftir í ræktun. Á það við um alla skrokkbyggingu, góð júgur og rétt stæða spena. Einnig er mikið lagt upp úr ræktun á kollóttum kúm, þar sem það er dýravelferðarkrafa yfirvalda að bændur séu ekki að skera eða brenna horn af sínum gripum. Þá leggja þeir líka mikið upp úr að rækta upp eins stórvaxinn stofn og hægt er, þannig að kýrnar séu færar um að innbyrða mikið fóður og gefi að sama skapi af sér meiri mjólk. Þessar kýr mjólka að meðaltali 35 lítra á dag.
 
Til að fylgjast nákvæmlega með kúnum eru þær með hreyfiskynjara um hálsinn. Lítil hreyfing getur bent til að kýrnar séu veikar, en mikil hreyfing bendir til að þær fari að beiða. 
 
Afkastamikill tuddi
 
Faðir tveggja þessara kúa er þýskur að uppruna og heitir Goldday (Gulldagur). Þessi tuddi er mjög vinsæll og var árið 2014 notaður til að sæða 40 þúsund kýr. Hafa þeir Müllers-feðgar nýtt sér þetta naut talsvert undanfarin ár. 
 
Með 175 hektara 
 
Bú Müllers-feðga er nú með 175 hektara land, þar af er grasrækt á 65 hekturum og akuryrkja, aðallega maísframleiðsla á 110 hekturum. Er þetta frekar stórt býli á þýskan mælikvarða því meðalbúið í landinu er ekki með nema 58 hektara jarðnæði. 
 
Maísframleiðslan fer að hluta í fóður fyrir kýrnar, en mjög stór hluti hennar er þó nýttur ásamt kúaskít til að framleiða lífrænt gas (Biogas). 
 
Mjólkurkvótinn sleginn af og rætt um að takmarka jarðastyrkina
 
Karsten segir að styrkir séu nú eingöngu veittir á hvern hektara lands og til ræktunar. Umræða hafi verið í gangi innan ESB um að setja mörk á styrkveitingarnar þannig að bú fái ekki styrki nema upp að ákveðinni stærð. Slíkt hafi þó enn ekki verið gert. Því eru aukin jarðakaup eina leiðin til að bændur geti tryggt sér aukna styrki til að vega upp á móti ört lækkandi afurðaverði eins og á mjólk. 
 
Mikill tekjusamdráttur í mjólkinni samfara auknum kostnaði
 
Karsten segir að mjólkurkvótinn innan ESB hafi verið í gildi til 31. mars 2015. Síðan hefur enginn kvóti verið og þar með engin framleiðslustýring. 
 
„Það var búið að spá því að framleiðslan myndi aukast mjög mikið um leið og kvótinn yrði aflagður. Raunin er að framleiðslan hefur lítillega aukist sem þýðir að auka þyrfti útflutning. Útflutningsverð er hins vegar lágt og því verður offramboð og verð fyrir mjólk til bænda lækkar. Verðið hefur hrapað á rúmum sjö  mánuðum úr 39 evru sentum á lítra (tæpar 55 krónur),  í 28 sent (sem svarar um 39 krónum á lítra).“ 
 
Á búi Müllersfeðga eru framleiddir 1,6 milljónir lítra af mjólk á ári. Verðlækkunin á mjólkurframleiðslu búsins á ári nemur því um 176.000 evrum eða sem svarar rúmum 24,8 milljónum króna (gengi 13. nóvember). Á sama tíma segir Karsten að framleiðslukostnaðurinn hafi farið hækkandi. Það eina sem hafi lækkað sé dísilolían.   
„Þetta er að verða algjört rugl“
 
„Eina svar okkar við minnkandi tekjum á hvern lítra er að framleiða eins mikið og mögulegt er miðað við þær kýr og mannafla sem við höfum. Ef við höfum pláss fyrir 20 kýr til viðbótar og bætum þeim, þýðir það lengri tíma í mjaltir á dag sem nemur tvisvar sinnum hálftíma. Það þýðir 365 vinnustundir á ári og við höfum ekki efni á að kaupa til þess starfskraft. Við getum einungis bætt þeirri vinnu á okkur sjálfa svo staðan er orðin alvarleg. Þetta er því að verða algjört rugl. Auðvitað reyna menn samt að berjast, en einhvern tíma kemur að þeim punkti að menn gefast upp.“ 
 
Stóla á vinnu verktaka
 
Stór hluti skýringarinnar á því að feðgarnir séu enn uppistandandi er að þeir eru lítið að vafstra sjálfir við heyskap og maíssáningu og þreskingu. Þá vinnu kaupa þeir af verktökum sem fara milli bæja, en það kostar sitt. Verktakar sjá líka um að koma fóðrinu heim að bæ og ganga frá því í flatgryfjur. Aftur á móti er búið með vélar til  jarðræktar, áburðardreifingar og úðunar á skordýraeitri og illgresiseyði sem þykir mjög mikilvægt. 
 
Með eigin vatnsveitu
 
Til þess að geta lifað af þá ákváðu Müllersfeðgar að gera hlutina öðruvísi og reyna að skjóta fleiri stöðum undir reksturinn. Að öðrum kosti hefði búið farið á hausinn. Búið er með eigin vatnsveitu sem fæst úr 70 metra borholu. 
 
Björguðu rekstrinum með gas- og raforkuframleiðslu
 
Farið var út í að framleiða metangas úr kúskít, kúahlandi og maís. Með því að nýta síðan gasið til raforkuframleiðslu tekst þeim að halda gangandi rekstrinum þrátt fyrir sífellt verri  afkomu af mjólkurframleiðslunni. Er svo komið að gasverkefnið er að skila búinu yfir 50% af tekjum þess. 
Er þetta gert í samvinnu við aðra bændur í nágrenninu undir nafninu Bio Energie Schwabendorf GmbH  Co. KG. Segir Karsten að í þessum félagsskap séu þeir feðgar, sem eiga meirihlutann í fyrirtækinu og tveir aðrir bændur. Gasið er síðan hreinsað og nýtt til að knýja breyttar dísilvélar sem snúa tveim 250 kílówatta rafölum, eða samtals 500 kW. Þær eru í gangi allan sólarhringinn. Einnig voru settar sólarsellur á þakið á fjósinu til að framleiða rafmagn.
Rafmagnið sem til fellur er svo að mestu selt inn á raforkukerfi svæðisins. 
 
Vegna hitans sem til fellur við keyrslu vélanna fellur til mikið kælivatn. Það er leitt inn í þorpið í næsta nágrenni þar sem það dugar til að kynda 75 íbúðarhús.
 
Nær lyktarlaus lífrænn og köfnunarefnisríkur áburður 
 
Hratið sem eftir verður í rotþrónum þegar búið er að vinna gasið er nær lyktarlaust og því engin vandkvæði að nýta það sem áburð. Að auki er það betri áburður en hrein mykja, því rokgjarnt gasið er ekki lengur til staðar til að draga köfnunarefni úr skítnum.
 
Þó þeir haldi gasframleiðslunni áfram og jafnvel auki hana til muna þá þarf ekki allar þessar kýr. Einungis um 30% af rotnunarmassanum sem myndar gasið í söfnunartanknum kemur úr kúaskítnum. Allt hitt er fengið úr maís. Karsten segir að einn stærsti plúsinn við að nýta hratið sem áburð á tún og akra sé hvað nágrannarnir  séu ánægðir með að vera lausir við skítalyktina. 
 
Öflug ráðgjafarþjónusta
 
Auk feðganna var mættur á svæðið vegna heimsóknar Íslendinganna Uwe Pohlmann sem er ráðunautur í nautgriparækt. Hann ráðleggur bændum ásamt fjórum öðrum ráðunautum í Hessen varðandi val á kynbótanautum. Einn ráðunautur sinnir þó eingöngu ráðgjöf varðandi gripaeldi til kjötframleiðslu. 
Uwe segir að ráðunautarnir sinni ráðgjöf í ræktun og sölu á kvígum bæði til innanlandsnota og til útflutnings. Til að auðvelda ráðunautum starfið er haldinn mikill gagnabanki sem nær til allrar nautgriparæktar í Þýskalandi.
 
Kýr seldar eftir fyrsta burð og nautkálfar hálfs mánaða gamlir
 
Af þessu svæði í Þýskalandi er mikið flutt út af lifandi kynbótargipum, m.a.  til Afríku. Frá búi Müllersfeðga er þó engin kýr seld fyrr en hún er búin að eiga kálf. Engar kelfdar kýr eru heldur seld frá búinu, hvorki til innanlandsnota né til útflutnings. Meðalverð fyrir góða kú á markaði er 1.800 til 2.000 evrur en fyrir bestu kýr getur verðið verið 3.500 evrur. Karsyen segist selja alla sína nautkálfa hálfs mánaða gamla. Fara þeir allir á markað og eru flestir seldir til Hollands. 

29 myndir:

Skylt efni: þýskir kúabændur

Skógarfura í Varmahlíð föngulegust
Fréttir 4. október 2024

Skógarfura í Varmahlíð föngulegust

Skógræktarfélag Íslands hefur valið skógarfuru í Varmahlíð tré ársins 2024.

Þrír forstjórar skipaðir fyrir nýjar ríkisstofnanir
Fréttir 4. október 2024

Þrír forstjórar skipaðir fyrir nýjar ríkisstofnanir

Nýlega voru skipaði þrír forstjórar fyrir nýjar ríkisstofnanir sem urðu til með ...

Eftirlíking af hálfri kú
Fréttir 4. október 2024

Eftirlíking af hálfri kú

Nautastöð Bændasamtaka Íslands tók á dögunum í notkun eftirlíkingu af kú sem er ...

Gagnrýna nýjar reglur um hollustuhætti
Fréttir 3. október 2024

Gagnrýna nýjar reglur um hollustuhætti

Heilbrigðisnefndir kringum landið hafa gagnrýnt skort á kynningu á nýrri regluge...

Aðgerðaáætlun gefin út
Fréttir 3. október 2024

Aðgerðaáætlun gefin út

Matvælaráðherra, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, hefur gefið út aðgerðaáætlun fyrir...

Grasrótin gaumgæfir atvinnulíf og nýsköpun
Fréttir 3. október 2024

Grasrótin gaumgæfir atvinnulíf og nýsköpun

Verkefnið Vatnaskil á Austurlandi miðar að því að efla nýsköpun og stuðla að fjö...

Áburðarverkefni í uppnámi
Fréttir 3. október 2024

Áburðarverkefni í uppnámi

Áburðarverkefni í Syðra-Holti í Svarfaðardal, sem gengur út á moltugerð úr nærsa...

Aukinn innflutningur á lægri tollum
Fréttir 2. október 2024

Aukinn innflutningur á lægri tollum

Ekki er hægt að fá uppgefna þá aðila sem standa að baki innflutningi á landbúnað...