Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Mjólkursamningurinn frá 2005 hefur elst illa
Skoðun 14. júlí 2015

Mjólkursamningurinn frá 2005 hefur elst illa

Höfundur: Vilmundur Hansen

Mjólkursamningurinn, eða samningur um starfsskilyrði í mjólkurframleiðslu, er samkomulag milli hins opinbera og bænda og er viðbót við búvörulögin á atriðum sem við koma mjólkurframleiðslu. Samningurinn sem nú er í gildi, og gildir til ársloka 2016, var undirritaður árið 2004. 

Ásta Steinunn Eiríksdóttir valdi mjólkursamninginn 2005 sem viðfangsefni lokaritgerðar sinnar til BS-prófs í hagfræði. Hún segir að sig hafi langað að skrifa um efni sem tengdist landbúnaði þar sem hún komi úr sveit.

„Þegar ég fór svo að skoða væntanleg efni leist mér vel á að fjalla um mjólkurframleiðsluna og þær breytingar sem höfðu orðið á markaði frá því að mjólkur­samningurinn var gerður 2004 og hvernig hann hefði staðist tímans tönn. Samningurinn rennur líka út á næsta ári og þörf á því að gera nýjan og því upplagt að skrifa um hann.“

Samningurinn hefur elst illa

Ásta Steinunn segir að niðurstaða sín sé sú að samningurinn hafi elst illa og að ekkert hafi verið gert til að aðlaga hann breyttum tímum.

Í niðurstöðukafla ritgerðarinnar segir meðal annars: „Þeir hvatar sem samningurinn skapar eru myndaðir með greiðslukerfinu, bæði með verði frá afurðastöð og styrkjum frá hinu opinbera. Bændur eru hvattir til að framleiða gæðamjólk en álag er greitt ofan á afurðastöðvarverð ef mjólkin nær viðmiðum úrvalsmjólkur en verðið skerðist ef mjólkin nær ekki gæðakröfum viðmiðunarmjólkur. Þá fæst yfirleitt skert afurðastöðvarverð fyrir þá mjólk sem framleidd er umfram greiðslumarks auk þess sem beingreiðslur ná ekki til slíkrar framleiðslu, þannig er reynt að haga framleiðslu í takt við eftirspurn á markaði. Ásamt því að hvetja til framleiðslu innan greiðslumarks eru beingreiðslur notaðar til að stýra framleiðslu innan ársins og skapa hvata til að nýta greiðslumarkið, sem er dýr fjárfesting, til fulls.“

Ásta Steinunn fjallar einnig um neikvæð ytri áhrif. „Með aukinni eftirspurn hefur heildargreiðslumark aukist og þar með greiðslumark hvers framleiðanda, þar sem það er fast hlutfall af heildar­greiðslu­marki. Samhliða auknum framleiðsluheimildum hefur verið farið fram á betri nýtingu þess en nú er framleiðendum skylt að framleiða 100% af greiðslumarki sínu til að öðlast heimild til fullra beingreiðslna. Þetta verður til þess að bændur sem voru með fullnýtta framleiðsluþætti fyrir eftirspurnaraukninguna verða fyrir ákveðnum skaða nái þeir ekki að auka framleiðslu sína í takt við aukið greiðslumark þar sem þeir verða af hluta beingreiðslna.

Aukin eftirspurn

Afurðastöðvarverð hefur lækkað stöðugt frá árinu 2011 á föstu verðlagi. Auk lægra verðs frá afurðastöð hafa beingreiðslur á hvern lítra rýrnað þar sem heildar­upphæð til þeirra er föst en heildargreiðslumarkið, sem upphæðin deilist á, hefur aukist.

Ef horft er til þeirrar stöðu sem var þegar samningurinn var gerður, árið 2004 munar tæpum 19 krónum og rúmum 14 krónum frá fyrsta ári samningsins, 2005. Þess ber þó að geta að hér er um að ræða meðal beingreiðslu á mjólkurlítra en ekki meðalstuðning, á þessu er munur frá 2005 þegar byrjað var að dreifa stuðningnum á fleiri þætti framleiðslunnar, þetta er þó ekki mikill munur.

Frá árinu 2013, þegar gefið var út að greitt yrði fyrir alla umfram mjólk til ársloka 2015, hefur dregið úr framleiðslu nautakjöts. Kúabændur einbeita sér nú að því að framleiða eins og þeir geta af mjólk og svo virðist vera sem þeir haldi frekar í kýr sem þeir hefðu ekki gert ef ekki væri fyrir hátt verð umframmjólkur.

Dýralæknakostnaður í land­búnaði hefur aukist lítillega á síðustu árum Það er tilfinning meðal þeirra sem starfa innan og við atvinnugreinina að vegna aukinnar eftirspurnar eftir mjólk setji bændur frekar á kýr sem þeir hefðu undir öðrum kringumstæðum sent til slátrunar.“

Verðlagsgrundvöllur kúabús

Í ritgerðinni kemur fram að ekki ríkir langtímasamband milli verðs frá haga til maga, það slitnar um afurðastöðina þar sem verðlagsnefnd búvara ákveður bæði innkaupa- og útsöluverð.

„Við þetta má bæta að ekki er langtímasamband milli markaðs­verðs á mjólk og vísitölu neysluverðs en verslunin virðist samt sem áður ákveða verð með tilliti til kostnaðarverðs varanna þar sem langtíma samband er á milli heild­söluverðs og markaðs­verðs. Þetta bendir til þess að verðlagsnefndin ákveði verð til og frá afurðastöð með ólíkum hætti og sú niðurstaða að ekkert langtímasamband ríki milli afurðastöðvarverðs og heildsölu­verðs, styður það að samræmi vanti við ákvarðanir verðlagsnefndar.

Langtímasamband ríkir þó milli afurðastöðvarverðs og vísitölu neysluverðs en engu að síður hefur heildarverð sem bændur fá fyrir mjólk sína lækkað á föstu verðlagi þrátt fyrir aukna eftirspurn og er lægra en meðalkostnaður verðlags grundvallarbúsins.

Grundvallarbúið er því rekið með tapi en slíkt getur ekki gengið til langs tíma. Í raun skiptir ekki öllu máli hvaðan peningarnir koma, frá afurðastöð eða stjórnvöldum, bara að þeir séu nægir, að verð sé jafnt meðalkostnaði. Landbúnaður verður að geta keppt við aðra atvinnuvegi um helstu framleiðsluþætti eins og land, fjármagn og síðast en ekki síst fólkið en eins og staðan er nú gerir mjólkursamningurinn lítið í því að skapa þau skilyrði.“

Meðalaldur kúabænda að hækka

Í ritgerðinni bendir Ásta Steinunn einnig á að meðalaldur kúabænda hafi hækkað og sé 53 ár og að erfitt sé fyrir ungt fólk að hefja rekstur kúabús án þess að hafa aðgang að mjólkurkvóta. Ásta Steinunn segir að Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna, hafi greint frá því að gera megi ráð fyrir því að laun til bænda sem reka sín fyrirtæki á eigin kennitölu séu um 210 þúsund krónur á mánuði árið 2014. „Á sama tíma eru meðaltal heildarlauna fullvinnandi launamanna 555 þúsund samkvæmt vef Hagstofu Íslands.“

Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...

Jarðræktarmiðstöðin rís
Fréttir 22. apríl 2024

Jarðræktarmiðstöðin rís

Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands mun verða tilbúin árið 2027 gangi á...