Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Um áramótin 2017–2018 var fjöldi mjaltaþjónabúa hér á landi 180. Um nýliðin áramót var fjöldinn kominn í 198 og nam fjölgunin því 10% á einu ári.
Um áramótin 2017–2018 var fjöldi mjaltaþjónabúa hér á landi 180. Um nýliðin áramót var fjöldinn kominn í 198 og nam fjölgunin því 10% á einu ári.
Á faglegum nótum 27. mars 2019

Mjaltaþjónabúum fjölgar jafnt og þétt hér á landi

Höfundur: Snorri Sigurðsson
Rétt eins og undanfarin ár hélt þróun íslenskrar mjólkur­framleiðslu áfram í sömu átt á liðnu ári með fjölgun kúabúa sem nota mjaltaþjóna. Um áramótin 2017-2018 var fjöldi slíkra búa hér á landi 180 en um nýliðin áramót var fjöldinn kominn í 198 og nam fjölgunin því 10% á einu ári. 
 
Á árinu hætti eitt mjaltaþjónabú í framleiðslu. Árið á undan fjölgaði mjaltaþjónabúunum um 23% svo heldur hefur hægst á þróuninni, þó svo að hún sé enn hröð og umtalsvert meiri en við sjáum í nágrannalöndum okkar. Á sama tímabili fjölgaði mjaltaþjónunum úr 222 í 245 eða um 10,4% og voru um áramótin fjórar mismunandi tegundir mjaltaþjóna í notkun hérlends þ.e. frá Lely, DeLaval, GEA og Fullwood.
 
Hvert bú með 424 þúsund lítra að jafnaði
 
Að jafnaði var hvert mjaltaþjónabú sem lagði inn mjólk allt síðasta ár, þ.e. tók ekki tæknina í notkun á árinu, að leggja inn 424 þúsund lítra sem er heldur minna en mjaltaþjónabú í fullri framleiðslu allt árið 2017 lögðu inn. Eðlilega var töluverður munur á milli mjaltaþjónabúanna og þannig lögðu t.d. þrjú bú inn meira en 1 milljón lítra hvert og 36 bú inn meira en hálfa milljón lítra.
 
Hver mjaltaþjónn með 341 þúsund lítra
 
Sé einungis horft til gagna um þau bú sem voru með mjaltaþjóna í notkun allt síðasta ár þá nam innlögð mjólk frá hverjum mjaltaþjóni 341 þúsund lítrum að jafnaði sem er tvö þúsund lítrum minna en meðalinnlögnin árið 2017. Líkt og undanfarin ár munar afar miklu á nýtingu mjaltaþjónanna á milli búa en mesta magn, og nýtt Íslandsmet eftir því sem greinarhöfundur veit best, að baki einum mjaltaþjóni fór í 590 þúsund lítra! Eins og mörg undanfarin ár eru ekki mörg bú að leggja inn meira en hálfa milljón lítra, eftir einn mjaltaþjón en á árinu 2018 voru alls fjögur bú sem náðu að framleiða meira en 500.000 lítra með hverjum mjaltaþjóni.
 
Minnsta innlagða magnið á árinu eftir einn mjaltaþjón voru 112 þúsund lítrar og alls var meðalinnlögn 11 búa undir 200 þúsund lítrum að jafnaði eftir hvern mjaltaþjón.
 
Reiknuð framleiðslugeta mjaltaþjóna
 
Sé tekið mið af meðalframleiðslu mjaltaþjónanna árið 2018 og sú geta uppreiknuð á alla 245 mjaltaþjónana sem voru í notkun á Íslandi um áramótin þá nemur ætluð framleiðsla þeirra 83,5 milljónum lítra sem væri þá um 55% af landsframleiðslunni eins og hún var á síðasta ári. Að sama skapi má reikna út tæknilega framleiðslugetu þessarar mjaltatækni miðað við bestu íslensku aðstæður og hið nýsetta Íslandsmet. Ef öll mjaltaþjónabúin á Íslandi gætu nýtt mjaltaþjóna sína jafn vel og það bú sem náði mestum afurðum eftir sinn mjaltaþjón þá gætu þau tæknilega séð lagt inn 145 milljónir lítra sem er um 95% af allri ársframleiðslu mjólkur á Íslandi!
 
Auðvitað er óraunhæft að svo verði raunin, þ.e. að hægt sé að nýta alla mjaltaþjóna jafn vel enda aðstæður ólíkar á milli búa en áhugaverð staðreynd engu að síður að tæknileg geta þessara 198 kúabúa sé svona mikil. Dagljóst er að í ár, miðað við þær tölur sem þegar hafa sést um nýfjárfestingar í mjaltaþjónum hérlendis á þessu ári, að tæknileg framleiðslugeta mun verða í árslok meiri en ársframleiðsla mjólkur allra kúabúa landsins.
 
Átta bú með lægri frumutölu en 125 þúsund
 
Undanfarin ár hafa margir íslenskir kúabændur sýnt það og sannað að með því að nota mjaltaþjónatæknina er hægt að ná einstaklega góðum árangri þegar horft er til mjólkurgæða og árið í fyrra var þar engin undantekning og í raun bæting á árangri frá fyrri árum. Alls náðu 8 kúabú þeim magnaða árangri að vera með lægra vegið meðaltal frumutölu en 125.000 frumur/ml og lægsta vegna meðaltalið var 87.516 sem er afar góður árangur svo ekki sé tekið dýpra í árinni!
 
Meðalfrumutalan 214 þúsund frumur/ml
 
Að jafnaði var vegið meðaltal frumutölu þeirra mjaltaþjónabúa sem voru í fullri framleiðslu á síðasta ári og stóðu ekki í breytingum, s.s. stækkun með tilheyrandi mögulegu raski, 214 þúsund frumur/ml. Ekkert sérlega góður árangur að jafnaði enda segir meðaltalið ekki allt eitt og sér. Nokkur bú, 14 talsins, voru nefninlega með allháa frumutölu eða yfir 300.000 frumur/ml sem togar meðaltalið vel upp og það hæsta með 359 þúsund frumur/ml. Þessi bú eiga augljóslega við alvarlegan vanda að etja og þrjátíu til viðbótar, sem lágu á bilinu 250.000 frumur/ml til 300.000 frumur/ml, geta bætt verulega reksturinn með því að ná tökum á hinni háu frumutölu. Há frumutala hefur margoft verið beintengd við rekstrarafkomu kúabúa vegna ýmissa þátta eins og afurðataps, kostnaðar við meðferðir kúa, lélegri endingar kúa og margt fleira mætti tína til. Það er því dagljóst að þau bú sem eru að slást við svona háa frumutölu geta stórbætt reksturinn með bættu júgurheilbrigði og þessum árangri er hægt að ná óháð því hvaða tegund mjaltaþjóns er notuð, það sýna okkar eigin tölur um búin sem ná einna bestum árangri.
 
19 bú með meðaltal líftölu lægri en 15 þúsund/ml
 
Líkt og með þróun frumutölu á mjaltaþjónabúum þá hefur líftala þessara búa einnig tekið verulegum breytingum á liðnum árum og hefur verið afar ánægjulegt að fylgjast með þeirri þróun sem hefur átt sér stað. Áður fyrr var það frekar oft að líftala mjólkurinnar frá búum með mjaltaþjóna átti það til að vera í hærra lagi en bæði með aukinni þekkingu á notkun mjaltaþjóna og vissulega betri tækni í dag en áður fyrr þá hafa orðið miklar breytingar á þessu. Þannig náðu t.d. 19 bú að vera með vegið meðaltal líftölu undir 15 þúsundum á síðasta ári og það lægsta var með að jafnaði 8.375/ml. Vegið meðaltal allra búa sem voru í fullri framleiðslu og stóðu ekki í breytingum á árinu var 33.996/ml.
 
Líkt og undanfarin ár áttu nokkur bú í vandræðum með líftölu á síðasta ári en hlutfall búa með svona vandamál hefur þó farið lækkandi á liðnum árum. Í fyrra voru 21 bú með hærri líftölu að jafnaði en 50.000/ml og það hæsta þeirra var með að jafnaði 151 þúsund/ml. Sem fyrr sýna þessar niðurstöður að mikill breytileiki er á milli einstakra búa sem þó eru að nota afar áþekka tækni og bendir það til þess að stór hluti af þessum mun skýrist af bústjórnarlegum og mannlegum þáttum, þ.e. umgengni og almennu reglubundnu viðhaldi þó svo að vissulega sé ekki hægt að útiloka að bilanir á mjaltatækninni geti skýrt hátt meðaltal. Skýringin felst í því að bilanir leiða oft til líftöluskota, sem geta gjörbreytt meðaltalinu þó svo að vegið sé.
 
Samantekt þessi byggir á upplýs­ingum frá Auðhumlu, Mjólkur­afurðastöð KS og RML, auk þess að byggja á upplýsingum frá öllum innflytjendum mjaltaþjóna á Íslandi.
Tollkvótum úthlutað
Fréttir 30. maí 2024

Tollkvótum úthlutað

Verð á tollkvótum á nautakjöti frá ESB-löndum hefur hækkað aftur.

Aðeins þrjú fyrirtæki hefðu fengið undanþágu
Fréttir 30. maí 2024

Aðeins þrjú fyrirtæki hefðu fengið undanþágu

Formaður atvinnuveganefndar Alþingis segir grein forstjóra Samkeppniseftirlitsin...

Margrét Ágústa nýr framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands
Fréttir 30. maí 2024

Margrét Ágústa nýr framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands

Margrét Ágústa Sigurðardóttir hefur verið ráðin í starf framkvæmdastjóra Bændasa...

Stórtjón á túnum við Eyjafjörð
Fréttir 30. maí 2024

Stórtjón á túnum við Eyjafjörð

Miklar kalskemmdir eru í túnum nokkuð víða við Eyjafjörð. Í Svarfaðardal er ásta...

Styrkja vöruþróun út frá matarhefð
Fréttir 29. maí 2024

Styrkja vöruþróun út frá matarhefð

Tíu milljónum króna var fyrir skemmstu úthlutað af innviðaráðuneytinu til verkef...

Afhending Kuðungsins
Fréttir 28. maí 2024

Afhending Kuðungsins

Sorpa og Bambahús eru handhafar Kuðungsins árið 2024.

Leyfa gas- og jarðgerð úr matarafgöngum
Fréttir 28. maí 2024

Leyfa gas- og jarðgerð úr matarafgöngum

Matvælastofnun hefur nýlega tilkynnt um að Gas- og jarðgerðarstöð Sorpu (GAJA) h...

Heimaframleiðsla lögleg
Fréttir 28. maí 2024

Heimaframleiðsla lögleg

Heimaframleiðsla nefnist umgjörð sem sköpuð var til að heimila litlum aðilum í F...