Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Hámarksþéttleiki í kjúklingaeldi má ekki vera meiri en 39 kg á fermetra á Íslandi, en í Evrópusambandinu allt að 42 kg á fermetra. Íslenskir eggjaframleiðendur hafa hins vegar svigrúm til að nota hefðbundin búr til 2021, en búranotkun er bönnuð í ESB.
Hámarksþéttleiki í kjúklingaeldi má ekki vera meiri en 39 kg á fermetra á Íslandi, en í Evrópusambandinu allt að 42 kg á fermetra. Íslenskir eggjaframleiðendur hafa hins vegar svigrúm til að nota hefðbundin búr til 2021, en búranotkun er bönnuð í ESB.
Mynd / smh
Fréttir 14. apríl 2015

Mikilvægt að geta mælt dýravelferð

Höfundur: smh
Þóra Jóhanna Jónasdóttir, sérgreina­dýra­læknir gælu­dýra og dýravelferðar hjá Matvælastofnun, flutti tvö erindi á ráðstefnunni Tímamót í dýravelferð sem haldin var á Hvanneyri á dögunum. Annað með yfirskriftinni Hvernig mælir maður dýravelferð? og hitt hét Vernd dýra við aflífun. Nokkrum dögum síðar flutti hún erindi á fundi á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands í samstarfi við Evrópustofu um nýja dýraverndarlöggjöf á Íslandi og gerði þar líka samanburð við stöðu mála í Evrópu.
 
Þóra Jóhanna Jónasdóttir.
Þóra segir að ýmsar skilgreiningar séu til á því hvað velferð sé, en hún hljóti alltaf að vera samspil margra þátta. „Oft er velferð dýra skilgreind út frá því að grunnþarfir dýranna séu uppfylltar og þar er oft vitnað til fimm hliða frelsisins; að dýr skuli vera laus við hungur og þorsta, vanlíðan og óþægindi, sársauka, meiðsli og sjúkdóma, ótta og stress og loks að dýrin hafi frelsi til að geta sýnt sitt eðlilega atferli. Velferð getur líka snúist um það hvernig dýr komast af og líður í umhverfi sínu.
 
Hún segir að það geti verið áskorun að finna út úr því hvernig líðan dýranna er, en þó hafi ótal rannsóknarverkefni á síðustu árum gert tilraun til þess í samhengi við velferð dýra. „Til dæmis var árið 2004 ráðist í umfangsmikið rannsóknarverkefni á vegum Evrópusambandsins; svokallað WelfareQuality-verkefni. Megin­markmið þess verkefnis var að þróa aðferðir sem byggðar eru á vísindalegum grunni við mat á velferð, aðbúnaði og líðan nokkurra búfjártegunda.“
 
Mikilvægt að geta mælt dýravelferð
 
Þóra segir að með nýjum lögum um velferð dýra hafi verið stigið stórt framfaraskref innan dýravelferðar á Íslandi. „Nýju lögin eru víðtækari og ítarlegri en fyrri lög um dýravernd. Í fyrsta sinn hér á landi eru dýr skilgreind sem skyni gæddar verur og að þau hafi eigið gildi. Lögin fela einnig í sér meiri kröfur um þekkingu og reynslu umráðamanna dýra. Önnur nýmæli í lögunum eru til dæmis að dýr hafi rétt til að fá lækningu eða líkn ef það er sjúkt, sært eða bjargarlaust – og að sveitarfélagi sé skylt að sjá til þess að gripið sé til aðgerða ef um hálfvillt eða villt dýr er að ræða.
 
Með nýjum lögum og reglum um dýravelferð er mikilvægt að geta mælt dýravelferð – bæði til að auka meðvitund um líðan dýranna og hafa mælikvarða á hvernig við stöndum í samanburði við aðra – og hvernig eigin þróun velferðarmála er. „Góðir mæliþættir eru til dæmis mælanleg atriði, gjarnan á dýrinu sjálfu sem geta endurspeglað líðan, heilsu, stress og svo framvegis. Það þarf að vera einfalt að sjá, meta og túlka þessi atriði þannig að ólíkir aðilar komist að sömu niðurstöðu. Holdastuðull, bæði á einstaka dýri og meðaltal í hópi, gefur til dæmis hugmynd um aðgengi að fóðri. Til eru skalar til að meta umfang óhreinleika og hægt er til dæmis að skoða hlutfall óhreinna eða haltra dýra – eða dýra með sár eða mar. Allt gefur þetta vissa mynd af líðan dýrsins og velferð. Í sláturhúsum til dæmis er hægt að telja hversu mörg dýr stoppa á vissri gönguleið, reyna að snúa við eða renna og detta, gefa frá sér hljóð og svo framvegis, sem gefur þá hugmynd um stress, líðan eða óþægindi sem dýrið verður fyrir.“
 
Ítarlegri dýravelferðarlög hér en í Evrópusambandinu
 
Í samanburði við önnur Evrópulönd segir Þóra að varðandi dýravelferð viljum við helst miða okkur við Norðurlöndin – hvað lög og reglugerðir snertir. „Okkar lög um velferð dýra eru til að mynda mun ítarlegri en hjá Evrópusambandinu og voru nýju norsku dýravelferðarlögin okkur fyrirmynd í mörgu. Bæði Ísland og Noregur hafa til dæmis strangari reglur hvað varðar kröfur um deyfingu dýra fyrir slátrun en Evrópusambandið leyfir slátrun án deyfingar að uppfylltum vissum skilyrðum við trúarlega slátrun. Hér á landi er einnig bannað að þvinga fóður í dýr nema sem hluta af læknismeðferð, svo dæmi séu nefnd. Ísland hefur svo sett reglugerðir fyrir velferð og aðbúnað allra dýrategunda sem haldin eru í landinu, en Evrópusambandið hefur einbeitt sér að reglugerðum um svín, kjúklinga, varphænur og kálfa til að byrja með. Reglugerðir um svín og alifugla eru hins vegar mjög sambærilegar á milli Íslands og Evrópusambandsins. Við erum þó til dæmis með aðeins meiri takmarkanir á því hvernig undanþágur er hægt að veita til að goggstýfa/snyrta alifugla. Ólíkt hinum Norðurlöndunum höfum við innleitt fáar Evrópusambandsreglugerðir um velferð dýra. Þó höfum við innleitt reglugerð um vernd dýra við aflífun og höfum samþykkt innleiðingu á reglugerð um notkun dýra í vísindalegum tilgangi, svokölluð Tilraunadýrareglugerð. Noregur, sem er eina landið af Norðurlöndunum fyrir utan Ísland sem ekki er í Evrópusambandinu, hefur hins vegar samþykkt að innleiða allan dýravelferðarlagarammann frá Evrópusambandinu í heild.“
 
Þó að íslensk dýravelferðarlöggjöf sé í flestum tilvikum ítarlegri en sú evrópska erum við eftir á í einhverjum tilvikum. „Ný íslensk reglugerð um velferð alifugla leit dagsins ljós nú nýlega og í henni er tilgreint að hefðbundin búr verða alveg bönnuð eftir 2021. Evrópusambandið bannaði notkun á hefðbundnum búrum frá 2012. 
 
 
Bæði Evrópusambands­reglugerðin og okkar nýja íslenska reglugerð um velferð svína tilgreina að bannað sé að halda gyltur á básum að jafnaði og að gyltur skuli hafa aðgang að efni til hreiðurgerðar. Reglugerðin tók gildi í Evrópusambandinu 2013 en okkar nýja reglugerð gefur rými til að sækja um undanþágu til 2025 að vissum skilyrðum uppfylltum,“ segir Þóra. Hún segir að Matvælastofnun sé einungis eftirlitsstofnun sem sér um að settum lögum og reglugerðum sé fylgt. Því verði löggjafarvaldið að svara fyrir það hvers vegna Ísland er þessum árum á eftir nágrannalöndunum að festa slík dýravelferðarákvæði í reglugerðir – og hvort það sé ásættanlegt.
 
Heilbrigði er vottað en ekki velferð
 
Bændur hafa gagnrýnt strangar aðbúnaðarreglugerðir hér á landi í einhverjum tilvikum – sem muni verða þeim mjög kostnaðarsamar vegna breytinga á húsakosti. Þeir segja að það sé ekki sanngjarnt að þeim sé sniðinn svo þröngur og kostnaðarsamur reglugerðarrammi þegar ekki sé í öllum tilvikum ljóst hvernig búið er að skepnunum í öðrum löndum sem flytja afurðir sínar til Íslands. Þóra segir að almennt eigi sér bara stað vottun varðandi heilbrigði, en ekki varðandi dýravelferð. Þá sé einungis krafist heilbrigðisvottunar í innflutningi frá svokölluðum þriðju ríkjum – löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) – en ekki varðandi vörur í viðskiptum milli Evrópusambandsins (ESB) og EES-landa. „Vörur frá ESB-ríkjum eru eftir því sem mér skilst að langmestu leyti upprunnar í aðildarríkjunum og framleiðsla þeirra því undir þeim lagaramma sem gildir í ESB. Við höfum innleitt matvælalöggjöfina að mestu leyti og þar með kröfur um merkingar matvæla, nema það sem lýtur að velferð dýra svo sem merkingar eggja með framleiðsluaðferð og aðbúnaði dýranna. En hér á landi eru einungis íslensk egg á markaði. Varðandi kjöt þá merkja sláturhús í ESB yfirleitt sérstaklega ef slátrun með svokölluðum trúarlegum aðferðum, svo sem Halal og Koshier, hefur átt sér stað, svo neytendur geti valið þar á milli. 
Nýmæli í nýju íslensku velferðarlögunum er ákvæði sem gerir ráðherra kleift að takmarka eða banna innflutning eða dreifingu dýraafurða sem eru framleiddar í andstöðu við okkar lög, svo framarlega sem það brjóti ekki í bága við alþjóðaviðskiptasamninga. 
 
Nú þegar er töluvert af fræðsluefni inni á vef Matvælastofnunar bæði varðandi dýravelferð,  upprunamerkingar og aðrar merkingar á matvælum og reglugerðum þar að lútandi. Einnig eru þar ýmis fræðsluerindi og meðal annars erindið sem ber saman velferðarreglugerðir ESB og Íslands. Matvælastofnun er einnig í samvinnu við Bændasamtökin og fleiri aðila um að byggja upp fræðsluvefinn www.upprunamerkingar.is þar sem hægt er að fræðast um merkingar á matvælum og hvað þær þýða,“ segir Þóra.
 

3 myndir:

Skylt efni: dýravelferð

Innheimta svæðisgjalda
Fréttir 31. mars 2023

Innheimta svæðisgjalda

Í lok árs 2022 samþykkti stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs tillögur um gjaldtöku. Umhv...

Áframhaldandi samstarf
Fréttir 31. mars 2023

Áframhaldandi samstarf

Samtök iðnaðarins (SI) og Samtök smáframleiðenda matvæla (SSFM) /Beint frá býli ...

Fengu ný verkfæri
Fréttir 30. mars 2023

Fengu ný verkfæri

Nemendum og kennurum í pípulögnum í Verkmenntaskólanum á Akureyri voru á dögunum...

Vafi á réttmæti líftölumælinga
Fréttir 30. mars 2023

Vafi á réttmæti líftölumælinga

Auðhumla hefur tekið þá ákvörðun að nýta ekki niðurstöður úr líftölumælingum til...

Frumvarp um friðlýsingu lifandi minja lagt fram
Fréttir 29. mars 2023

Frumvarp um friðlýsingu lifandi minja lagt fram

Fimm þingmenn úr fjórum þingflokkum lögðu á dögunum fram frumvarp til laga um br...

Landbúnaðarráðherra Íraks gæddi sér á lambakjöti
Fréttir 29. mars 2023

Landbúnaðarráðherra Íraks gæddi sér á lambakjöti

Í heimsókn sinni til Íraks á dögunum færði Birgir Þórarinsson alþingismaður land...

Endurheimt vistkerfa
Fréttir 29. mars 2023

Endurheimt vistkerfa

Mossy earth er alþjóðleg hreyfing um endurreisn vistkerfa sem er fjármögnuð með ...

Tillaga um dýravelferðarstofu
Fréttir 29. mars 2023

Tillaga um dýravelferðarstofu

Þann 14. mars stóð Dýraverndarsamband Íslands (DÍS) fyrir málþingi um stöðu dýra...