Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Hæst stigaði lambhrúturinn haustið 2016 hlaut 91,5 stig.  Þessi glæsigripur er frá Stóra-Búrfelli í Austur-Húnavatnssýslu.
Hæst stigaði lambhrúturinn haustið 2016 hlaut 91,5 stig. Þessi glæsigripur er frá Stóra-Búrfelli í Austur-Húnavatnssýslu.
Á faglegum nótum 2. janúar 2017

Met fallin í vænleika og vöðvafyllingu

Höfundur: Eyþór Einarsson ábyrgðamaður í sauðfjárrækt hjá RML
Niðurstöður lambadóma hafa aldrei verið glæsilegri. Sú góða útkoma á lömbum í haust er samspil framfara í kynbótum og meðferðar lambanna.  
 
Víðast hvar á landinu einkenndist veðurfar af einmuna blíðu og áfallalausri tíð mest allan vaxtartíma lambanna, frá vori til hausts. Hér verður farið nokkrum orðum um helstu niðurstöður að loknum lambadómum og sauðfjárslátrun.  
 
Mestur fjöldi lamba skoðaður í Skagafirði
 
Í heildina voru skoðuð 73.331 lömb,  59.961 gimbrar og 13.370 hrútar samkvæmt skráningum í Fjárvís.is.  Þetta er mjög svipaður fjöldi hrúta og var skoðaður síðasta haust en gimbrarnar eru um einu þúsundi færri. 
 
Flest lömb voru skoðuð í Skagafirði eða 5.740 en í því héraði fæðast einnig flest lömb samkvæmt skýrsluhaldinu. Sé horft á hlutfall skoðaðra lamba af fæddum lömbum þá er mest skoðað í Strandasýslu eða 17% lambanna.   Þetta hlutfall er lægst í Norður-Múlasýslu þar sem aðeins 5% lambanna hljóta skoðun.   
 
30 millimetra múrinn fallinn
 
Meðal lambhrúturinn sem skoðaður var í haust var þyngri og holdfylltari en áður hefur sést í lambadómum hér á landi (sjá töflu 1). Í upphafi ómmælinga á Íslandi, sem var fyrir um tveim og hálfum áratug síðan, þótti tíðindum sæta ef lamb mældist með meira en 30 mm þykkan bakvöðva. Í dag eru yfir 80 lömb (hrútar og gimbrar) sem mælast með um og yfir 40 mm þykkan bakvöðva. Að jafnaði eru hrútlömb í Suður-Þingeyjarsýslu með þykkasta vöðvann eða 32,2 mm. Þykkasti bakvöðvinn í haust mældist 45 mm í gimbrinni Ásu 16-010 frá Þverá í Reykjahverfi, S-Þingeyjarsýslu.  Föðurfaðir hennar er Ás 09-877 frá Skriðu. Óhætt er að fullyrða að það umfangsmikla starf sem felst í lambadómum hefur skilað gríðarlegum framförum og stórbætt sauðfjárkynið m.t.t. skrokkgæða.
 
Svimasonur frá Stóra-Búrfelli hæst stigaður
 
Í töflu 2 er yfirlit yfir 5 hæst stiguðu lambhrúta hverrar sýslu.  Hrútunum er raðað líkt og áður samkvæmt heildarstigum, síðan eftir samanlögðum stigum fyrir frampart, bak og aftur part, þá eftir bakvöðvaþykkt, fituþykkt og síðan lögun vöðvans. Hæsti stigaði hrútur landsins er frá Stóra-Búrfelli í Austur-Húnavatnssýslu með 91,5 stig. Faðir hans er Svimi 14-956 frá Ytri-Skógum.  Næstefstur að stigum er efsti hrútur Strandasýslu, lamb nr. 147 frá Broddanesi 1 sem hlotið hefur nafnið Glæsir 16-081 og er af hinum geysi sterka meiði í Broddanesi þar sem holdfylling lamba er hvað best á landinu. Þriðja stigahæsta lambið er frá Litlu-Reykjum í Suður-Þingeyjarsýslu.  Þessi hrútur hefur hlotið nafnið Stallur 16-042 og er skyldleikaræktaður út af kaupahrút frá Bjarnastöðum í Öxarfirði sem heitir Kappi 11-284. Stallur skartar einkunninni 10 fyrir bak og malir og 20 fyrir læri.  
Þeir sæðingastöðvahrútar sem flesta syni eiga á listanum yfir topp hrútlömb landsins eru Grímur 14-955 frá Ytri-Skógum með 9 syni, Kölski 10-920 frá Svínafelli með 6 syni og þá koma Ytri-Skógarhrútarnir Saumur 12-915 og Svimi 14-956  með 5 syni hvor.
 
Met fallþungi og vöðvafylling
 
Samkvæmt niðurstöðum frá afurðastöðvunum fyrir öll innlögð lömb var meðal fallþungi dilka í haust 16,7 kg og er það veruleg aukning frá því sem mest hefur náðst en haustið 2014 var meðalfallþunginn 16,31 kg.  Einkunn fyrir holdfyllingu er jafnframt sú hæsta sem sést hefur síðan EUROP matið var tekið upp en hún var 8,97 í haust.  Fitan hækkar aðeins á milli ára og er fitueinkunnin 6,60 eftir haustið sem í raun er hóflegt miðað við fallþungann. Eftir að EUROP matið var tekið upp hefur fitueinkunnin farið hæst í 6,92 haustið 2003 en þá við 15,5 kg. Þyngsti dilkur haustsins vó 37 kg, en það var lamb frá Flatatungu í Skagafirði undan Berki 13-952. 
 
Að lokum
 
Sóknarfæri eru í því að bæta flesta eiginleika okkar góða sauðfjárkyns og verkefnin því næg framundan. Til þess að geta fetað ótrauð áfram hinn beina og breiða veg að settu ræktunarmarki þurfum við að vera vel næstuð af upplýsingum og þar leika rannsóknir mikilvægt hlutverk.  Meðal annars er mikilvægt að þekkja samspil helstu eiginleika svo ferðalagið endi ekki utan vegar. Í þessu sambandi má nefna rannsóknarverkefni sem Fagráð í sauðfjárrækt hleypti af stokkunum í haust sem lýtur að því að kanna áhrif kynbóta fyrir bættum skrokkgæðum á bragðgæðin.  Því mikilvægt er að standa vörð um hin rómuðu bragðgæði íslenska lambakjötsins um leið og áfram er sótt fram í því að bæta skrokkgæðin.
 
 
Mugga bar þremur kvígum
Fréttir 26. júlí 2024

Mugga bar þremur kvígum

Kýrin Mugga 985 frá bænum Steindyrum í Svarfaðardal í Dalvíkurbyggð bar þríkelfi...

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku
Fréttir 25. júlí 2024

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku

Þann 24. júní náðist sögulegt samkomulag í Danmörku, á milli stjórnvalda og nokk...

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?
Fréttir 25. júlí 2024

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?

Því hefur verið varpað fram að þegar kemur að kolefnisbindingu ætti að leggja me...

Snikka til lög um flutningsjöfnuð
Fréttir 25. júlí 2024

Snikka til lög um flutningsjöfnuð

Áform eru uppi um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun.

Stofnanir út á land
Fréttir 24. júlí 2024

Stofnanir út á land

Aðsetur nýrra stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins verður utan h...

Lundaveiðar leyfðar
Fréttir 24. júlí 2024

Lundaveiðar leyfðar

Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja hefur samþykkt að heimila lundaveiði 27...

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum
Fréttir 23. júlí 2024

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum

Rannsóknamiðstöð landbúnaðarins, RML, rannsakar nú erfðaorsakir kálfadauða.

Upphreinsun skurða
Fréttir 23. júlí 2024

Upphreinsun skurða

Búnaðarfélag Austur-Landeyja hefur sent sveitarstjórn Rangárþings eystra erindi ...