Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Örfáir sólargeislar léku um Freyvang er ljósmyndara bar að garði.
Örfáir sólargeislar léku um Freyvang er ljósmyndara bar að garði.
Mynd / Benjamín Baldursson
Fréttir 14. febrúar 2022

Menningarverðmæti sem galið er að kasta á glæ

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Halldór Sigurgeirsson, fyrrum formaður Freyvangsleikhússins, fæddur og uppalinn í Öngulsstaðahreppi Eyjafjarðarsveitar vonast til jákvæðrar lendingar er kemur að tilvonandi samningagerð er varðar leigu sveitarfélagsins til áhugaleikhúss Freyvangs.

Freyvangsleikhúsið er, eins og margir vita, eitt afkastamesta leikhús landsins, á sér langa sögu og sterka innviði leiklistar. Mikið er lagt upp úr metnaðarfullum sýningum sem hafa, oftar en einusinni, verið valdar sem Athyglisverðasta Áhugaleiksýning ársins hjá Þjóðleikhúsinu. Tvö þeirra skipta voru í formennskutíð Halldórs.

„Jú, það er vonandi að það verði lending segir Halldór aðspurður. Þetta er auðvitað hitamál og hefur verið í deiglunni undanfarið. Stóra spurningin er sú hvernig sveitarfélagið telur sig geta selt húsið með manni og mús án þess að hlutfall eignarhalds sé krufið til mergjar - það er að svo mörgu að hyggja varðandi það. Eins og er, er hugmyndin þó sú að ekki skuli selja húsið, heldur er verið að setja saman tveggja ára leigusamning ætluðum leikfélaginu.

Nú, þegar verið er að vinna að samningagerð hvað varðar framtíð okkar í Freyvangi, verður það þeim sjálfsagt örlítið verkefni, lögfræðingunum að niðurnegla eignarhaldshlutana. Ég held að það muni reynast nokkuð snúið. Ef til vill eru þeir sem að samningnum standa að átta sig á því að það þarf lengri aðdraganda ef á að selja húsið - þar sem eignarhlutinn er ekki skýr.

Uppbyggingin Freyvangs

Þetta er nefnilega svolítil ráðgáta, eignarhlutinn á húsinu. Það var gríðarlega mikil sjálfboðavinna við byggingu hússins eins og við flest þessara félagsheimila á landinu.

Ég er nú ekki hár í loftinu þegar byggingin var í framkvæmd – ég er fæddur ´51 og húsið tekið í notkun árið ´57. Það var allt uppi á borðinu heima hjá mér, föðurbróðir minn sem bjó hjá okkur var aðstoðarmaður yfirsmiðs og eiginlega verkstjóri og allir sem vettlingi gátu valdið í minni fjölskyldu, til dæmis, unnu þarna alveg þrotlausa sjálfboðavinnu.

Hið sama var að sjálfsögðu uppi á teningnum hjá öðrum fjölskyldum í sveitinni. Allir sem gátu gerðu sitt og meira en það. Annað sem gerðist í baráttu við byggingu þessa húss var að fólk í sveitinni lánaði spariféð sitt – bara til að flýta fyrir byggingunni á meðan beðið var eftir styrk frá Félagsheimilasjóð Ríkisins. Hann var stofnaður þarna til að styrkja sveitirnar í landinu svo hægt væri byggja upp aðstöðu til að efla menningarstarfsemi.


Áætlað eignarhald óvisst

Við félagarnir höfum semsé verið að kanna það og samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum viðað að okkur virkar svona sjálfboðavinna, þá undir nafni ungmennafélaganna sem ákveðið eignarhald - en þegar mætt var í steypuvinnu, eða aðra sjálfboðavinnu við bygginguna þá voru nöfn manna alltaf skráð niður, passað upp á það og náði skráningin yfir hvaða ungmennafélagi þeir tilheyrðu.

Reyndar fékk leikfélagið að gjöf 4% eign frá einu ungmennafélaginu, Væringja, en í dag hafa hin ungmennafélögin sameinast undir nafninu Samherji. Kvenfélagið á einnig 16%. En svo ber mönnum ekki saman um afganginn og spurning um hvort eða hve mikið þessa efnis finnist á skjalasafninu þó vel hafi verið haldið utanum í eina tíð.

Möguleiki á minni útgjöldum er kemur að smærri verkum

Hvað varðar okkar vinnu og utanumhald sem við höfum unnið - mér skilst að þeir séu meðvitaðir um það að þó við hjá leikfélaginu séum laghent erum við ekki á leiðinni í stórar framkvæmdir er kemur að húsinu. Heldur mætti þó líta til smærri verka sem kosta sitt. En ég er nú af þeirri kynslóð að ég hef unnið mikla sjálfboðavinnu og verið títt í slíkum verkefnum. Fólk kannski áttar sig ekki á hversu miklir peningar liggja í þessum smærri verkum ef ætti að fara að bjóða þau út, ef dæmi er tekið - snjómokstur. Það er svo margt svoleiðis. En húsið sjálft er annars gríðarlega vel byggt á sínum tíma og alltaf verið hugsað vel um það.

Eitt best útbúna áhugaleikhús landsins

Það hefur kostað mikla vinnu, þrek og tár að koma húsinu í þá aðstöðu sem það er, en nú held ég að við getum sagt að við séum með eitt best útbúna áhugamannaleikhús á landinu. Ljósameistarar og aðrir sem hafa komið hafa dáðst að því hve góður ljósabúnaðurinn er, tækjabrú hefur verið byggð, sviðið stækkað með árunum og annað.

Fólk almennt áttar sig ef til vill ekki á umfanginu sem leikhúsið er, og hve mikil kostnaður hefur verið lagður í að gera það að því sem það er í dag. Til dæmis það sem snýr að leikfélaginu - sem hefur hvað mest sinnt húsinu, á þar að auki eignir, til dæmis í afar verðmætum tækjabúnaði - að eignarréttur þess virðist afskaplega lítill í augum manna.

Möguleg nýting hússins með tilliti til aukinnar tekjusköpunnar

Varðandi samninginn, að hann gangi í gegn, veltur svo á því að lausnin sé gagnvart leikfélaginu viðráðanleg og það er alveg ljóst að leikfélagið þarf að afla sér meiri tekna, þá með nýtingu á húsinu.
Þegar kemur að nýtingu á borð við félagsheimilið hinum megin við ána, Laugaborg, þá er það rekið á öðrum grundvelli í dag. Segja má að það sé veisluþjónustuhús, erfidrykkjur og svoleiðis. Auk þess er þar afar blómlegt og skemmtilegt kórastarf.

Auðvitað er líka verið að leigja Freyvang út, þorrablót voru þar haldin á árum áður sem nú eftir sameiningu sveitarfélaganna hefur flust yfir í íþróttahúsið á Hrafnagili. Enn er Freyvangur annars notaður undir fermingar og slíkt, salurinn er bara gerður klár til þess þó útlitslega séð fari ekki fram hjá fólki að leikfélagsreksturinn hafi þar yfirhöndina. En það eru hugmyndir um að hægt sé að útbúa aðstöðu þannig að hægt sé til dæmis að leigja húsið út til ættarmóta – ærsl og læti sem oft verða á slíkum samkomum eiga kannski ekki heima í íbúabyggð eins og þeirri í kringum Laugarborg, sérstaklega ekki ef svo vill vera fram á kvöld.

Þriðja félagsheimilið er var, Sólgarður, hýsti reyndar svo meðal annars barnaskóla Saurbæjarhrepps og í dag má þar finna Smámunasafn Sverris Hermannssonar sem er skemmtilega uppsett og hefur þá sérstöðu að vera ekki safn einhverra ákveðinna hluta heldur allra mögulegra hluta. Hversdagslegir hlutir eru þar mitt á meðal afar óhefðbundinna hluta sem skemmtilegt er að sækja heim.

Tónleikahald í Freyvangi

Hvað varðar Freyvang væri jafnvel svo hægt að halda þar smærri tónleika. Það er dýrt að halda tónleika í Hofinu á Akureyri eða á svipuðum stöðum. Einhverntíma hjá okkur í leikfélaginu hérna í kringum 2009 þegar fregnir bárust þess efnis að leikritið okkar Vínland hefði verið valið til að vera á sviði Þjóðleikhússins, þá héldum við aukasýningu. Þar héldu Helgi, höfundur verksins og hljómsveit hans er sá um tónlistina í verkinu, Helgi og hljóðfæraleikararnir, tónlistarveislu alveg í gengum sýninguna sem við höfðum og það var nú meira stuðið. Annars hafði tónlist verksins verið á teipi, en í þetta skiptið og reyndar á sviði Þjóðleikshússins stigu þeir í hljómsveitinni á stokk.


Síðan skein sól, Pelican og Svavar Gests vöktu mikla lukku

Dansleikir voru nú annars haldnir í Freyvangi hér í eina tíð, svona frá ´56-7 og alveg fram á rúman níunda áratuginn og ekki ómerkari hljómsveitir en Svavar Gests og Co, Pelican, Síðan skein sól og fleiri sem stigu á stokk með tilheyrandi hrifningu tónleikagesta! Það vantar eitthvað svoleiðis og Freyvangur til að mynda skemmtilegur vettvangur fyrir þá eða þær hljómsveitir sem ekki endilega eru að stíla inn á sitjandi áhorfendur. Tæknibúnaður er til fyrirmyndar fyrir tónleikahöld og hljómburðurinn líka svakalega góður og væri um að gera að nýta slíka aðstöðu.

Formannsvöfflur

Framtíð hússins er okkur öllum hjartans mál, okkur sem komum að leikfélaginu á einn eða annan hátt. Það er ekki öðruvísi en það og við viljum halda lífi í húsinu enda er saga Freyvangs og Freyvangur sjálfur hluti stórkostlegra menningarverðmæta sem algerlega galið er að kasta á glæ.

Hérna í eina tíð eyddum við töluverðum tíma saman leikhópurinn utan æfingatíma, fórum í stuttar ferðir og annað auk þess að dytta að húsinu, moka snjó eða annað sem til féll. Ég var kosinn formaður og sat í því embætti í sex ár, hámarkstíma þess titils og naut þess vel. Mikið og gott starf var þarna í gangi og eins og áður sagði voru í minni tíð tvívegis valdar sýningar hjá okkur sem fóru á fjalir Þjóðleikhússins sem Áhugaleikhússýning ársins.

…Og sem formaður tók ég upp þann sið að baka „formannsvöfflur“ þegar æft var á laugardögum og bauð fólkinu uppá! En ég held að slík samheldni og hefðir séu á undanhaldi. Við erum þó annars nokkrir, gömlu kempurnar úr leikhúsinu sem höldum hópinn, hittumst og njótum samverunnar líkt og áður fyrr.

Framundan

En eins og áður sagði er lending framundan og framhaldið vonandi jákvætt. Bolmagn félagsins er þó nokkuð og þá sérstaklega þegar tekið er til sýninga á försum eða klassík líkt og Kardimommubænum sem nú er á döfinni. Reyndar er rétt að komi fram að allar barnasýningar eru nær undantekningalaust langvinsælastar, iðulega sýndar fyrir fullu húsi og meira en það.

Barnasýningarnar eru þó einungis sýndar fram á vor vegna þess að þá byrjar prófatíminn í skólunum hjá krökkunum sem fylgja miklar annir - jafnvel þó enn sé verið að sýna fyrir fullu húsi. Mikill kraftur og gleði einkenna annars þá sem koma að sýningunni núna, Kardimommubænum, og tilhlökkun er kemur að því að standa á sviðinu.

Áætluð frumsýning er 4.mars næstkomandi í Freyvangsleikhúsinu og er næsta víst að leikarar gleðji bæði sjálfa sig og aðra og ekki stendur á öðru en að töfrar Kardimommubæjarins nái til sem allra flestra.”

Skylt efni: Áhugaleikhús | Freyvangur

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...

Jarðræktarmiðstöðin rís
Fréttir 22. apríl 2024

Jarðræktarmiðstöðin rís

Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands mun verða tilbúin árið 2027 gangi á...

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...