Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Fjósin í Ísrael líkjast meira sólskýlum en hefðbundnum fjósum eins og við Íslendingar þekkjum enda er þeirra aðaltilgangur að vernda kýrnar fyrir sterkri sólinni og um leið að skapa þeim umhverfi sem er hægt að halda heldur kaldara en því sem er annars ut
Fjósin í Ísrael líkjast meira sólskýlum en hefðbundnum fjósum eins og við Íslendingar þekkjum enda er þeirra aðaltilgangur að vernda kýrnar fyrir sterkri sólinni og um leið að skapa þeim umhverfi sem er hægt að halda heldur kaldara en því sem er annars ut
Fréttir 30. maí 2016

Með mestu meðalafurðir sem þekkjast í heiminum í dag

Höfundur: Snorri Sigurðsson, ráðgjafi hjá SEGES P/S Danmörku
Landbúnaður í Ísrael er óvenju fjölbreyttur þegar horft er bæði til legu landsins og landgæða, sem og í samanburði við nágrannalöndin. Skýringin felst m.a. í brýnni þörf landsins að vera óháð öðrum löndum með matvæli. Hér fer hluti umfjöllunar um landbúnað í Ísrael og er sjónum beint að mjólkurframleiðslunni sem er afar sérstök og hefur vakið athygli um allan heim enda hafa þarlendir bændur náð einstökum árangri við framleiðsluna.
 
Sumt er líkt með Ísrael og Íslandi þegar horft er til mjólkurframleiðslunnar en þar er t.d. enn búið við kvótakerfi eins og hér og er kvótinn reiknaður út frá innanlandsneyslu frá ári til árs og er stefna landsins að vera óháð innflutningi mjólkurvara. Þá er í Ísrael starfandi verðlagsnefnd líkt og hér á landi sem bæði stýrir verði til bænda og neytenda á ákveðnum vörum. Auk þess eru kúabúin í Ísrael um 800 talsins, litlu fleiri en hér. Margt annað er afar ólíkt eins og gefur að skilja og má þar nefna meðalafurðir kúnna sem eru nú rétt undir 12 þúsund lítrum á ári og eru það mestu þekktu meðalafurðir í heiminum í dag. Í landinu eru nú um 125 þúsund mjólkurkýr og nemur heildar mjólkurframleiðslan 1,5 milljörðum lítra á ári.
 
Lítið miðað við Ísland
 
Ísrael er sem kunnugt er afar lítið land, rétt um 21 þúsund ferkílómetrar, og þar búa um 8,5 milljónir manna. Byggðin er þéttust við strendur landsins enda eru landgæði afar ólík innan þessa litla lands, allt frá grösugum dölum og upp í eyðimerkur.
 
Úrkoma innan landsins er mjög misjöfn, eða frá 20 mm og upp í 1.000 mm á ári, en um 50% landsins er skilgreint sem eyðimörk (þ.e. með minna en 200 mm úrkomu á ári). Landhæð er einnig gríðarlega ólík en Dauðahafið er í -417 metra „hæð“ fyrir neðan sjávarmál, en hæstu fjallgarðar eru 2.200 metra háir. Hátt hitastig er, auk aðgengis að vatni, áskorun en yfir sumarmánuðina fer hitinn oft yfir 40 gráður á einstökum svæðum. Þrátt fyrir þetta er landið með þeim fremstu í heimi á sviði mjólkurframleiðslu og streyma þangað bændur og ráðgjafar víða að til þess að læra af reynslu ísraelskra kúabænda.
 
Vel uppbyggt kerfi
 
Allt umhverfi kúabúskapar í landinu er í raun afar gott. Áðurnefnd verðlagsnefnd, hvar í sitja fulltrúar ríkisstjórnarinnar, neytenda, afurðastöðva og kúabændanna sjálfra, breytir verðinu til lækkunar eða hækkunar nokkuð reglulega í takti við breytingar á innkaupsverði aðfanga og breytingum á öðrum kostnaði. Þá er nánast allt ráðgjafakerfið í landinu byggt upp þannig að það er rekið af framleiðendasamvinnufélagi sem kúabændurnir eiga sjálfir. Hachaklait heitir samvinnufélagið þeirra og að því standa 86% kúabúa landsins.
 
Öll ráðgjöf og önnur þjónusta frá Hachalait er innifalin í aðild kúabúanna hverju sem hún nefnist og á hvaða tíma sem er. Skyndiútköll, fyrirbyggjandi þjónusta, sæðingar og allt þar á milli er innifalið. Við þetta bætist svo sæðiskostnaður og lyfjakostnaður, en kúabændurnir fá lyfin á heildsöluverði að viðbættum fyrningarkostnaði.
 
Á sum bú þarf að koma sjaldan en önnur oftar eins og gerist og gengur, en allir borga þó bara fast árgjald á hverja árskú: 6.000 á ári á kúna sé fjöldi þeirra 1–40, 4.500 á ári á kúna sé fjöldi þeirra 41–700 og 3.000 á ári á kúna sé fjöldi þeirra > 700. Bændurnir virðast afar sáttir við þetta kerfi og áhugavert er hve góð samstaða er um uppbyggingu þess.
 
Moshav og Kibbutz
 
Í raun er hægt að skipta mjólkurframleiðslu landsins í tvær megingerðir en annars vegar eru til svokölluð Moshav-kúabú (fjölskyldubú) og hins vegar Kibbutz (samyrkjubú) sem eru þá oftast með mjög blandaðan búskap, oft mjólkurframleiðslu en ekki alltaf. Moshav-búin eru langflest en eru eðlilega frekar lítil á ísraelskan mælikvarða, eða með um 40–200 kýr.
 
Þótt Moshav-búin séu langflest þá framleiða þau ekki nema tæplega helming mjólkurinnar í Ísrael. Hin búin, Kibbutz-samyrkjubúin, eru 163 (árið 2014) en þessi bú eru með þetta frá 300–1000 kýr og standa undir rúmlega helmingi landsframleiðslunnar. Meðalbúið í Ísrael er með rétt um 1,9 milljón lítra framleiðslu.
 
Eiga gróffóðurstöðvar saman
 
Ísraelsku kúabúin standa ekki einungis saman að ráðgjafaþjónustunni í víðum skilningi þess orðs heldur eiga mörg þeirra einnig sameiginlegar gróffóðurstöðvar. Þessar stöðvar eru staðsettar nokkuð miðsvæðis, oft á milli 10–20 kúabúa og þar er allt gróffóður búanna geymt á einum stað auk þess sem allt fóður er þar blandað.
 
Þessar gróffóðurstöðvar sjá um alla heilfóðurblöndugerð, geymslu á fóðri, kaup á aukahráefnum o.fl. Þetta eru hálfgerðar afurðastöðvar í heilfóðurvinnslu sem kaupa hráefni af kúabændunum, s.s. gras, maís, korn, mykju o.þ.h. en bóndinn kaupir svo af þessu félagi staðlað heilfóður sem afurðastöðin bæði sér um að blanda og afgreiða daglega eða oft á dag til viðkomandi.
 
Hver bóndi þarf því hvorki að leggja til gjafakerfi, blöndunarbúnað né annað slíkt þar sem gróffóðurstöðin sér um það. Nýting tækja verður því einstök og bæði fastur og breytilegur kostnaður við gróffóður nautgripanna því lægri en annars væri mögulegt.
 
Sama fóður fyrir flesta
 
Það er vissulega áhugavert að sjá og upplifa að stærsti hluti kúabúanna sé að fá og gefa sama gróffóðrið, nokkuð sem sést ekki í Evrópu. Þessi ísraelska leið er þó þrautreynd og af mörgum talin ein af ástæðum þess að þarlendum gengur vel að láta kýrnar mjólka. Sem dæmi um afurðasemina þá eru afurðahæstu kýrnar að skila í kringum 18.000 lítrum á ári (305 daga nyt, orkuleiðrétt) og afurðahæstu búin eru með um og yfir 14 þúsund lítra (305 daga nyt, orkuleiðrétt).
 
Hátæknivædd bú
 
Eitt það allra markverðasta varðandi kúabúin í Ísrael er sú staðreynd að nánast öll 800 búin eru með rafræna skráningu á afurðum með tölvumælum og flytja daglega upplýsingar um afurðasemina inn í sameiginlegan gagnagrunn. Fyrir vikið hafa ráðgjafar getað fylgst einstaklega vel með þróun afurðaseminnar og er aðgengi t.d. að gögnum um mjaltir með því besta sem gerist í heiminum. Svona mikið gagnaflæði hefur gert það að verkum að Ísraelar eru fremstir meðal jafningja í því að nota afurðagögn til þess að bæta ráðgjöf til bænda, finna kýr sem víkja frá meðaltalinu og þar fram eftir götunum.
 
Frekar sólhlífar en fjós
 
Fjósin í Ísrael eru í raun ekki merkilegar byggingar enda er tilgangur þeirra fyrst og fremst að veita kúnum skjól fyrir sólinni. Ekki eitt einasta básafjós er í landinu og eru svo til öll fjósin nánast veggjalaus og minna meira á sólhlífar en fjós. Þessi fjós eru langoftast með sandstíu fyrir kýrnar sem þarf að herfa nokkrum sinnum á dag til þess að halda þeim mjúkum og lausum í sér. 
 
Í öllum fjósum landsins er einhvers konar búnaður til þess að kæla kýrnar en langalgengast er að kýrnar séu reknar á sérstakt vökvunarsvæði þar sem vatni er úðað yfir þær þegar hitastigið fer yfir 20 gráður. Því hlýrra sem er, því oftar eru kýrnar reknar á þetta vökvunarsvæði og sé t.d. hitastigið hærra en 40 gráður eru kýrnar reknar á þetta svæði á tveggja tíma fresti. Þetta er lykilatriði til þess að halda afurðasemi kúnna uppi en margoft hefur verið sýnt fram á að þegar útihitastigið fer yfir 20 gráður dregur úr afurðasemi afurðamestu kúnna.
 
Lægsta kúabú í heimi
 
Ísraelar státa af því að þar í landi er rekið það kúabú sem stendur lægst í heiminum en það stendur í nánd við Dauðahafið og er í 360 metra hæð undir sjávarmáli! Kúabú þetta er hluti af Kalya-samyrkjubúinu og er hluti af landnemabyggð Ísraelsmanna á svæðinu.
 
Óhætt er að fullyrða að skilyrði til reksturs á kúabúi á svæðinu hafi ekki verið til staðar þegar einhverjum datt í hug að koma sér fyrir á þessum stað og hefja mjólkurframleiðslu. Um eyðimörk var að ræða og vatnið, sem er salt eins og kunnugt er, ekki beint kjörskilyrði. Þetta snerist hins vegar um pólitík og að koma upp rekstri og því var haldið af stað í þennan leiðangur árið 1968.
 
Í dag eru á búinu um 800 kýr og allt gróffóður er sótt í rúmlega 100 kílómetra fjarlægð! Vegna þess hve lágt búið stendur og hins erfiða umhverfis er meðalhitastigið rúmlega 40 gráður í hartnær sex mánuði á ári og munar litlu á nótt og degi.
 
Vegna hitans eru kýrnar ekki látnar bera á sumrin heldur í janúar og febrúar svo þær séu komnar yfir mesta framleiðslutoppinn þegar hitinn fer að verða nánast óbærilegur. Auk þess fellur frjósemin um 10–15% á sumrin vegna hitans svo þetta fer saman.
 
Í þessu búi eru kýrnar hafðar í fjórum verulega mikið opnum fjósum og eru stórar viftur víða í fjósunum til þess að halda loftinu á hreyfingu. Örfínn úði dælist út meðfram viftuspöðunum til þess að kæla loftið lítillega en aðalkælingin á kúnum fer þó fram á vökvunarsvæðinu en til þess að kæling með vökvun hafi áhrif þarf húðin að rennblotna svo úði hefur lítil sem engin áhrif til raunverulegrar kælingar.
 
Í næsta hluta umfjöllunarinnar um landbúnað í Ísrael verður m.a. fjallað um hvernig ísraelskir bændur hafa leyst vandamálið sem snýr að úrkomuleysi með stórbættri nýtingu og endurnýtingu á vatni og hvernig þeir nýta hrjóstrugt landið og erfitt veðurfar til umfangsmikillar döðlu­framleiðslu svo dæmi sé tekið.
 
Snorri Sigurðsson
sns@seges.dk
Ráðgjafi hjá SEGES P/S
Danmörku

13 myndir:

Hundrað hesta setningarathöfn
Fréttir 12. júlí 2024

Hundrað hesta setningarathöfn

Setningarathöfn Landsmóts hestasmanna er alla jafna hátíðleg.

Til þess var leikurinn gerður
Fréttir 11. júlí 2024

Til þess var leikurinn gerður

Stjórn Búsældar hefur fyrir sitt leyti samþykkt söluna á Kjarnafæði Norðlenska t...

Skammur aðdragandi að sölunni
Fréttir 11. júlí 2024

Skammur aðdragandi að sölunni

Bræðurnir Eiður og Hreinn Gunnlaugssynir hafa sem áður segir samþykkt kauptilboð...

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska
Fréttir 11. júlí 2024

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska

Meginmarkmið kaupa Kaupfélags Skagfirðinga (KS) á Kjarnafæði Norðlenska (KN) er ...

Tilþrif á Landsmóti
Fréttir 11. júlí 2024

Tilþrif á Landsmóti

Enginn skortur var á glæsilegum tilþrifum stólpafáka sem komu fram í gæðingakepp...

Verður langstærsta kjötafurðastöð landsins
Fréttir 11. júlí 2024

Verður langstærsta kjötafurðastöð landsins

Kaupfélag Skagfirðinga (KS) hefur gert kauptilboð í allt hlutafé Kjarnafæðis Nor...

Ullarvika á Suðurlandi
Fréttir 10. júlí 2024

Ullarvika á Suðurlandi

Ullarvika á Suðurlandi verður haldin í þriðja sinn dagana 29. september til 5. o...

Mesta hamingjan í Skagafirði, á Snæfellsnesi og á Héraði
Fréttir 10. júlí 2024

Mesta hamingjan í Skagafirði, á Snæfellsnesi og á Héraði

Hamingja íbúa í Skagafirði, á Snæfellsnesi og á Héraði mælist mest á landinu í n...

Bænder
12. júlí 2024

Bænder

Skammur aðdragandi að sölunni
11. júlí 2024

Skammur aðdragandi að sölunni

Oddgeirshólar
29. ágúst 2019

Oddgeirshólar

Magnað Landsmót 2024
12. júlí 2024

Magnað Landsmót 2024

Svín og korn
12. júlí 2024

Svín og korn