Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Gróa Margrét Lárusdóttir og Sigurður Ólafsson eru bændur á Brúsastöðum í Vatnsdal. Árangur þeirra í mjólkurframleiðsunni hefur verið afar góður ár eftir ár.
Gróa Margrét Lárusdóttir og Sigurður Ólafsson eru bændur á Brúsastöðum í Vatnsdal. Árangur þeirra í mjólkurframleiðsunni hefur verið afar góður ár eftir ár.
Fréttir 6. febrúar 2015

Með hæstu meðalafurðir kúabúa landsins á síðasta ári

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Kúabúið Brúsastaðir í Vatnsdal í Austur-Húnavatnssýslu var afurðahæsta kúabú landsins að meðaltali á síðasta ári. Þar búa hjónin Sigurður Ólafsson og Gróa Margrét Lárusdóttir sem hafa búið á bænum síðan 1994, eða í rúm 20 ár.

Kýrnar á Brúsastöðum skiluðu í heild um 389 þúsund kílóum mjólkur á síðasta ári. Var hver kú þá að skila 7.896 kg af mjólk að meðaltali. Það þýðir að þónokkrar kýr á bænum voru að mjólka um eða yfir 8.000 kg, en fjórar voru með yfir 10.000 kg. Sú afurðahæsta heitir Bára og mjólkaði 10.677 kg. Brúsastaðir voru einnig afurðahæsta búið yfir landið árið 2013 og í 10. sæti yfir landið á árinu 2012. Búið hefur skilað mestu meðalafurðum kúabúa í Austur-Húnavatnssýslu í níu af síðustu ellefu árum.

Þótt Brúsastaðir hafi verið afurðahátt í fjölmörg ár, þá hafa þau hjón aðeins einu sinni átt afurðahæstu kúna í sýslunni, en það var 2013.

Kíló en ekki lítrar

Þótt leikmönnum finnist það einkennilegt að tala um mælingu á vökva eins og mjólk í kílógrömmum, þá er á því ákveðin skýring. Mjólk hefur ekki sömu eðlisþyngd og vatn vegna efnainnihalds og bændum er greitt í samræmi við fitu- og próteininnihald mjólkurinnar sem vigtað er í kg. Þess vegna skapaðist fljótt sú hefð að mæla mjólk eftir þyngd en ekki í lítratali. Þá gefa flestir ef ekki allir mjaltaþjónar upp mjólkurmagnið líka eftir vigt. Einnig er öll fóðurgjöf og breytingar á henni í forritum reiknaðar út frá þeirri kílógrammatölu sem kýrnar skila í mjólk. 


Allt snýst um að framleiða í takt við aukna eftirspurn

Sigurður segir að nú snúist allt um að framleiða meiri mjólk í takt við sívaxandi eftirspurn. Búskapurinn gengur vel hjá þeim hjónum og ef þau þurfa aðstoð segjast þau eiga bakhjarla í góðum nágrönnum sem eru boðnir og búnir að rétta þeim hjálparhönd.

„Þessir bændur eru þannig að maður getur alltaf hóað í þá ef okkur vantar aðstoð. Þetta eru öndvegis nágrannar. Þeir koma nánast hvernig sem stendur á,“ segir Sigurður, sem sömuleiðis rúllar heyi fyrir þá í verktöku á sumrin.

„Síðasta sumar rúllaði ég 3.400 rúllum fyrir mig og tvo aðra bændur. Árið 2013 rúllaði ég enn meira vegna tækjabilunar hjá einum bónda.“

Mjaltaþjónninn breytti miklu sem og kjarnfóðrið

Á Brúsastöðum er Lely-mjaltaþjónn sem Sigurður og Gróa keyptu notaðan fyrir nokkrum árum en áður var þar mjaltabás. Í honum voru þau búin að mjólka yfir þrjár milljónir lítra áður en þau seldu hann. Þau segja að með tilkomu mjaltaþjónsins og þriðju mjaltanna á sólarhring hafi nytin í kúnum aukist talsvert.

„Þá hafði það mikið að segja þegar við skiptum um kjarnfóður og fórum að kaupa það frá Landstólpa. Það hentar okkur vel og fer vel með heyinu sem við gefum og árangurinn er mjög góður. Það dugar þó ekki að horfa bara á eina tegund kjarnfóðurs af því að hún hafi einhvern tíma dugað ágætlega. Menn geta þurft að skipta um eftir tíðarfari og öðru. Ef menn taka heysýni þá sést nákvæmlega hvað þarf á móti,“ segir Sigurður.

Kvótinn og framleiðsluskyldan stöðugt að aukast

„Kvótinn eykst svo mikið að við verðum að reyna að fjölga kúnum. Kvótinn hjá okkur eykst nú um 40 þúsund lítra milli ára og nú er orðin krafa um að menn fylli upp í allan kvótann.“

Gróa segir að bændur megi hafa sig alla við að uppfylla kröfur um 100% nýtingu á kvóta. Sumir bændur séu þegar komnir í klípu þar sem fjósin þeirra séu þegar fullnýtt og þeir hafi kannski ekki bolmagn til að byggja við eða fjölga kúm. Ef þeir geti ekki nýtt kvótann séu þeir komnir í mínus í beingreiðslum. Þá bendir hún á að þegar verið sé að auka nytina eins mikið og þau hafa gert þá sé kjarnfóðurgjöfin komin upp undir 45%. Það sé þó lítið kostnaðarsamara en að gefa hey, því það sé ótrúlega dýrt í framleiðslu.

Hlutfallsleg lækkun á beingreiðslum

Sigurður bendir á að beingreiðslurnar hafi ekki hækkað í takt við aukna framleiðslu, heldur deilist þær niður á fleiri lítra og þar með lækki verð til bænda um 4 krónur á lítrann. Varðandi heyið segir hann að  menn gleymi oft að reikna sér laun við að framleiða það. Ef menn hafi svo ekki heimatún til að heyja á og þurfi að sækja það langar leiðir, þá hlaðist ofan á það óhemju kostnaður. Slíkt segist Sigurður þekkja vel vestan af fjörðum þar sem hann er upprunninn.

Hann kom frá Patreksfirði en hún er fædd í Vatnsdalnum

Sigurður er frá Patreksfirði og ólst þar upp, en Gróa er fædd og uppalin á Brúsastöðum. Þau keyptu Brúsastaði og reksturinn af foreldrum hennar. Langamma Gróu keypti jörðina upphaflega af Þingeyrakirkju (klaustrinu) um 1902 og eiga þau hjón enn upphaflega afsalið. Kirkjan átti þá fjölda jarða í Austur-Húnavatnsýslu og voru Þingeyrar ein mesta jörð landsins. Í dag er jörðin 500 hektarar og öll grasi vaxin. Sigurður segir að húsakostur sé mjög góður á bænum. Gripahúsin hafi verið byggð á árunum 2002 og 2006.  

Fyrir neðan bæjarhúsin eru um 100 hektarar sem eru nú nýttir sem tún. Auk þess segir Sigurður að tiltölulega auðvelt sé að auka við ræktarlandið með því að taka í nýtingu flöt sem er á jarðlagastalli í hlíðinni ofan við bæinn.

Hættu með kindur og sneru sér alfarið að kúabúskap

„Þetta var blandað bú með kýr og sauðfé þegar við keyptum það,“ sagði Sigurður þegar Bændablaðið tók hús á þeim hjónum um fyrri helgi. Hann segir að nú séu þau eingöngu með kúabúskap.

„Við erum með um 50 árskýr, en það eru nú á milli 60 til 70 kýr og fengnar kvígur. Allt í allt erum við með um 130 til 150 nautgripi hverju sinni. Þá erum við með nokkra kjötframleiðslu til að nýta húsið sem er 500 fermetrar og með um 80 til 90 legubásum og lausagöngupláss fyrir geldneyti. Við látum svo slátra hjá SAH afurðum á Blönduósi, en Hilton hótel fær kjötið frá okkur.“

Þess má geta að allt kjötið sem framleitt er á Brúsastöðum er af hreinræktuðum íslenskum nautgripum, þar eru engir blendingar.

„Við geldum mikið af nautunum til að geta haft þau með kvígum í stíu sem er þægilegra við að eiga þótt þau verði ekki eins þung. Síðan erum við alltaf með naut líka sem við notum á kvígur sem gengur ekki að sæða. Þeir tuddar eru svo sendir í sláturhús um 24 mánaða aldur og eru þá um 300 kíló að þyngd en uxarnir á sama aldri eru um 250 kíló.

Annars er nautakjötsframleiðslan byggð á heygjöf, nema síðustu tvo til þrjá mánuðina, þá gefum við líka bygg.“

Ekki alltaf hægt að treysta á að gæðin í hópnum haldi sér

Gróa segir að það verði oft til góður kjarni í kúahópnum, en ekki sé því að treysta að kvígurnar séu alltaf jafn góðar.

„Manni finnst þetta alltaf vera svolítið happa og glappa þótt það sé verið að reyna að rækta úr stofninum ákveðna galla. Öðru hvoru verður maður fyrir vonbrigðum þannig að kvígur sem maður hélt að yrðu góðar og eru undan bestu nautunum eru ekki að skila því sem maður vildi.“

Sigurður tekur undir þetta. „Þetta er alls ekki alltaf að ganga upp og núna má segja að við sitjum uppi með hóp af vonbrigðum. Það eru kýr sem eru erfiðar í mjöltun. Kannski geta þær þó enn bætt sig svo það er ekki alveg komið að því að við sendum þær í sláturhús. Þetta verða samt ekki neinar afurðaskepnur á þessu fyrsta mjaltaskeiði. Maður reynir samt að halda í þær þar sem við verðum að leggja meiri áherslu á mjólkurframleiðsluna en kjötframleiðsluna.“

Ekki á vísan að róa með afkvæmin

Einn vandi sem mjólkurframleiðendur eiga við að glíma er, að ekki er á vísan að róa með að kýrnar beri alltaf kvígum. Þar spilar stóra rullu landlægur vandi þar sem fæddar kvígur eru oft á tíðum í minnihluta á móti fæddum törfum. Gróa segir að á mörgum bæjum sem hafa lifibrauð sitt af mjólkurframleiðslu hafi þetta hlutfall jafnvel verið virkilega óhagstætt. Mikil áraskipti geti þó verið af þessu og hjá þeim hafi hluta af síðasta vetri eingöngu fæðst kvígur. Á einum nágrannabæjanna var það hins vegar svo eitt árið að hjá 24 kúm fæddist einungis ein kvíga til nytja. Ef bændur vilja svo styrkja sinn stofn með því að kaupa til sín kvígur, þá liggja þær yfirleitt ekki á lausu og verðið getur svo verið allt að 300 þúsund krónur.

Allt skapgóðar skepnur utan ein sem þolir ekki ókunnuga

Kýrnar á Brúsastöðum eru flestar gæfar og skapgóðar. Þó segjast þau eiga eina mannýga sem heitir Grýla eins og amma hennar.

„Henni er bara illa við ókunnugt fólk og hjólar bara í það. Sæðingamaðurinn slapp til dæmis naumlega. Hann var að fara út eftir ganginum þegar ég missti þessa kú frá mér og hún tók á rás og stefndi beint á hann. Ég öskraði á hann og loks þegar hann leit við og gat vikið sér til hliðar, setti kýrin bremsurnar á en rann beint á vegginn við hliðina á honum. Hún lætur okkur Gróu samt alveg í friði,“ segir Sigurður. Hann segir skapferlið greinilega liggja í ætterninu og mamma hennar, sem hét Spes, hafi borið nafnið með rentu. Amma hennar hafi sömu leiðis verið svipuð í skapi og mjög illileg til augnanna.       

Erlendar kýr engin töfralausn

Þótt íslensku kýrnar sé kannski ekki alltaf að skila eins góðri afkomu og menn vilja, þá segist Sigurður svo sem ekkert vera að bíða sérstaklega eftir erlendum kúastofni þótt hann geti vel hugsað sér að halda slíkar kýr. Telur hann líklegt að stór hluti kúabænda muni stökkva til að skipta um kúakyn ef heimild verði veitt.

Hann segist sannfærður um að þeim sem gangi á annað borð vel með íslensku kýrnar muni líka ganga vel með erlendar kýr. Hins vegar geti enginn sem ekki gengur vel í dag með sinn íslenska stofn, treyst á að erlendar kýr bjargi þeim eitthvað í stöðunni. Það gildi alveg sömu lögmálin varðandi meðferðina á þeim.

„Þeir sem hafa haft mest út úr íslensku kúnni munu einnig hafa mest út úr því að skipta yfir í erlendar kýr. Ég er því viss um það að við gætum haft ágætt út úr því að skipta, en við erum samt ekkert að setjast með hendur í skaut og bíða eftir að það gerist,“ segir Sigurður.

Okkur ber skylda til að viðhalda stofninum

Þau hjón segja ljóst að Íslendingum beri skylda til að vernda íslenska kúastofninn samkvæmt alþjóðlegum sáttmálum. Spurningin sé þó hvernig staðið verði að því til framtíðar ef ákveðið verði að taka til ræktunar nýjan kúastofn við hlið þess íslenska. Til að forðast úrkynjun og skyldleikaræktun verði stofninn að vera af ákveðinni stærð. Því geti það orðið spurning um að styrkja sérstaklega þá bændur sem séu tilbúnir að halda í íslenska stofninn í stað þess að skipta yfir í erlendan kúastofn. Segir Sigurður að vissulega sé hægt að rækta upp ákveðna eiginleika í íslenska stofninum, en hann sé samt það lítill að slík ræktun gangi mjög hægt og taki langan tíma.

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum
Fréttir 19. apríl 2024

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum

Opinn gámur, yfirfullur af dýrahræjum, stóð á dögunum á steyptu bílastæði við in...

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...