Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Eins konar gullgrafaraæði ríkti á fyrstu árum makrílveiða. Skipin kepptust við að moka makrílnum upp til að ná sem mestri aflareynslu þannig að þau stæðu vel að vígi ef og þegar makríll yrði settur í kvóta.
Eins konar gullgrafaraæði ríkti á fyrstu árum makrílveiða. Skipin kepptust við að moka makrílnum upp til að ná sem mestri aflareynslu þannig að þau stæðu vel að vígi ef og þegar makríll yrði settur í kvóta.
Fréttaskýring 12. júní 2018

Mala gull úr nýjum nytjastofni

Höfundur: Kjartan Stefánsson

Segja má að Íslendingar hafi dottið í lukkupottinn þegar makríll fór að venja komur sínar í íslenska lögsögu á fyrsta áratug þessarar aldar. Nemur útflutningverðmæti makrílafurða nú um og yfir 20 milljörðum á ári.

Síðustu árin hefur makríllinn gengið í auknum mæli á Íslandsmið á sumrin og fram á haust. Makríll hefur oft áður sýnt sig hér við land á hlýviðraskeiðum en að þessu sinni bárum við gæfu til að nýta hann. Auknar göngur makríls hingað eru taldar tengjast stækkun stofnsins, hlýnun sjávar og fæðuframboði á hefðbundum ætisslóðum.

Fjöldi áskorana

Árið 2006 fór makríllinn að veiðast sem meðafli við síldveiðar í flotvörpu úti fyrir Austurlandi. Það ár veiddu íslensk skip rúm 4 þúsund tonn af makríl. Íslendingar sáu sér leik á borði og árið 2007 var farið að veiða makríl í beinni sókn. Einnig var því hagað þannig að sem mest fengist af makríl sem meðafli við síldveiðar.

Þessi nýja „búgrein“ hafði í för með sér krefjandi áskoranir á fjölmörgum sviðum. Þróa þurfti veiðarnar, yfirstíga erfiðleika í vinnslu afurða, finna markaði fyrir afurðirnar, koma á stjórnkerfi fyrir veiðarnar og síðast en ekki síst að fá rétt Íslendinga til makrílveiða viðurkenndan á alþjóðavettvangi en um er að ræða sameiginlegan nytjastofn sem skip margra Evrópuþjóða hafa veitt í áraraðir.

Veiðarnar gengu vel

Íslendingar voru fljótir að ná tökum á makrílveiðum. Árið 2007 fór makrílaflinn í 36 þúsund tonn og stóra stökkið kom 2008 en þá veiddust 112 þúsund tonn. Uppsjávarskipið Huginn VE ruddi brautina í beinum veiðum.

Hæst fór aflinn í 173 þúsund tonn 2014 og á síðasta ári veiddum við 165 þúsund tonn. Leyfilegur heildarafli íslenskra skipa í makríl á árinu 2018 er tæp 135 þúsund tonn.

Veitt umfram ráðgjöf

Makríllinn er uppsjávarfiskur og finnst víða í Norður-Atlantshafi. Hrygningarsvæðið er allt frá hafinu vestur af Spáni og langt norður eftir, jafnvel til Íslands. Mjög stór hluti makrílsins hrygnir vestur af Bretlandi og Írlandi.

Makríllinn er veiddur í verulegu magni. Lengst af var heildarfli allra veiðiþjóða 600 til 700 þúsund tonn á ári en hefur aukist mjög síðustu 10 árin. Árið 2014 fór aflinn í tæpar 1,4 milljónir tonna. Helstu veiðiþjóðir eru Bretar og Norðmenn. Mörg undanfarin ár hefur verið veitt verulega umfram ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins.

Deilt um makrílinn

Stjórn makrílveiða, eins og veiðum úr öðrum deilistofnum, er þannig háttað að hlutaðeigandi strandríki eiga að koma sér saman um heildarafla og skiptingu hans á milli veiðiþjóða. Það hefur ekki alltaf gengið þrautalaust. Árið 2010 var Ísland loks viðurkennt sem strandríki varðandi makríl og hleypt að samningaborðinu um stjórn veiðanna. Þar voru fyrir á fleti ESB, Noregur og Færeyjar. Þótt við hefðum fengið viðurkenningu á rétti til veiðanna voru hin strandríkin ekki tilbúin að veita okkur sanngjarna sneið af kökunni.

Því hefur Ísland, líkt og aðrar þjóðir í raun, ákveðið sína hlutdeild einhliða. Þess má geta að Rússar hafa einnig veitt makríl í gegnum tíðina í úthafinu en Rússland er ekki strandríki.

Árið 2014 náðist samkomulag um nýtingu makrílsins á milli ESB, Noregs og Færeyja án aðkomu Íslands. Í þeim samningi eru aðeins skilin eftir 15,6% fyrir Ísland, Rússland og Grænland. Ísland mótmælti þessum gjörningi harðlega. Samningafundir í makríldeilinu síðan þá hafa engu skilað. Væntanlega mun útganga Breta úr ESB flækja málin enn frekar.

Árin 2011 til 2013 var veiði­hlutfall Íslands í makríl nokkuð stöðugt, eða um 16,5%, en lækkaði síðan þegar Grænlendingar hófu veiðar í lögsögu sinni. Ísland hefur síðustu árin miðað kvótasetningu sína við um 16-17% hlutdeild í heildarmakrílkvótanum í Norður-Atlantshafi.

Stór hluti stofnsins hér á sumrin

Rök Íslendinga í makríldeilunni eru þau að makríll veiðist í miklum mæli á Íslandmiðum eins og fram er komið. Rannsóknir hafa einnig sýnt að verulegur hluti makrílstofnsins heldur sig hér á sumrin. Í alþjóðlegum makrílleiðangri sumarið 2016 mældist til dæmis tæpt 31% af heildarvísitölu stofnsins í íslenskri lögsögu. Merki þess að makríll hafi hrygnt í íslenskri lögsögu hafa einnig fundist.

Síðast en ekki síst étur makríllinn óheyrilegt magn af lífmassa hér sem hleypur á nokkrum milljónum tonna og spikfitnar á því.

Eins konar gullgrafaraæði

Í fyrstu voru makrílveiðar frjálsar meðan íslensku skipin voru að ná tökum á veiðunum og verið var að sýna fram á að makríll væri veiðanlegur í íslenskri lögsögu.

Einskonar gullgrafaraæði ríkti á fyrstu árum makrílveiða. Skipin kepptust við að moka makrílnum upp til að ná sem mestri aflareynslu þannig að þau stæðu vel að vígi ef og þegar makríll yrði settur í kvóta.

Leiddi það til þess að langstærstur hluti aflans fór í vinnslu fiskimjöls en makríll er sem kunnugt er hinn besti matfiskur. Voru Íslendingar réttilega gagnrýndir á alþjóðavettvangi fyrir þessa umgengni um sjávarauðlindina. Í þessu samhengi er rétt að taka fram að vinnsluskipið Hákon EA lagði frá upphafi megináherslu á að vinna makríl til manneldis um borð.

Yfir 160 milljarða útflutningsverðmæti

Verksmiðjur í landi voru í fyrstu ekki í stakk búnar til að vinna makríl til manneldis svo nokkru næmi. Þeir erfiðleikar voru yfirunnir á fáum árum og má segja að þar hafi greinin staðið sig vel með dyggum stuðningi vísindmanna hjá Matís.

Íslensku fyrirtækin náðu einnig góðum árangri í markaðssetningu á makrílafurðum. Makríllinn hefur skilað gríðarlegum verðmætum í þjóðarbúið. Frá 2006 til 2017 hafa útflutningsverðmæti makrílafurða numið samtals yfir 160 milljörðum króna. Árið 2014, svo dæmi sé tekið, námu útflutningsverðmæti makríls tæpum 24 milljörðum sem eru tæp 10% af útfluttum sjávarafurðum það ár.

Pottar en ekki kvóti

Fljótlega fóru stjórnvöld að setja reglur um makrílveiðar íslenskra skipa. Árið 2010 var leyfilegum heildarafla skipt niður á skip sem skapaði skilyrði fyrir betri samstillingu veiða og vinnslu. Ekki leið á löngu þar til makríllinn var nær eingöngu tekinn til manneldisvinnslu.

Þótt heildarafla hafi verið skipt niður á skip var ekki farin hefðbundin leið innan kvótakerfisins að hvert skip fengi aflahlutdeild miðað við veiðireynslu síðustu þriggja ára. Stjórnvöld bjuggu til nýtt og flókið kerfi sem var og er enn umdeilt. Í meginatriðum er kerfið þannig að leyfilegum heildarafla er skipt niður í fjóra misstóra potta eða útgerðarflokka eftir mismunandi leiðum. Þrír pottar eru fyrir stærri skip og báta en einn fyrir smábáta.

Í upphafi giltu einnig strangar reglur um framsal veiðiheimilda í makríl og um veiðiskyldu.

Flæði milli potta

Hömlum á framsali aflaheimilda í makríl hefur nú verið aflétt að verulegu leyti sem og veiðskyldu. Hefur það leitt til þess að pottakerfið hefur riðlast og veiðiskipum fækkað umtalsvert, eins og sjá má í umfjöllun hér á eftir. Nú er farið með aflaheimildir í makríl hvað varðar flutning milli skipa innan ársins að miklu leyti eins og gert er í kvótakerfinu þótt fjórir aðskildir pottar séu enn við lýði að forminu til. Makríllinn flæðir nánast frjálst milli skipa og báta innan hvers potts og milli potta hjá stærri skipum og bátum. Er þar í mörgum tilvikum um að ræða flutning aflaheimilda milli skipa í eigu sömu útgerða en einnig leigu til óskyldra aðila.

Uppsjávarskipin með stærstan hlut

Stærsta pottinum, kringum 70% af heild, er úthlutað til sérhæfðra uppsjávarskipa samkvæmt aflareynslu á fyrstu árum makrílveiða. Um 20 uppsjávarskip veiddu makríl á síðasta ári og er það svipaður fjöldi og undanfarin ári. Nú er svo komið vegna tilflutninga að uppsjávarskipin veiða yfir 85% af makrílnum.

89 skip með úthlutun en 4 á veiðum

Frystiskip eru í sérstökum potti og heimildum þar er skipt jafnt á skip eftir stærðarflokkum. Hlutdeild þeirra í heildarúthlutun er tæp 26%. Um helmingur af heimildum frystiskipa var fluttur til uppsjávarskipanna á síðasta ári. Þá fékk 21 frystiskip úthlutun en aðeins 4 stunduðu veiðar.

Bátar og ferskfisktogarar eru í þriðja pottinum. Þar er einnig úthlutað jafnt á skip eftir stærðarflokkum. Lítið hefur komið í hlut hvers og eins skips í gegnum árin því potturinn er ekki stór, rúm 5% af heild, en skipin fjölmörg. Árið 2014 stunduðu 58 skip veiðar úr þessum potti. Á síðasta ári fengu 66 skip úthlutun en ekkert þeirra veiddi sínar heimildir. Þær voru fluttar á önnur skip, einkum uppsjávarskip. Bátur, sem hefur litla sem enga reynslu af makrílveiðum, hefur til dæmis getað sótt um og fengið heimildir í þessum potti í þeim eina tilgangi að leigja þær frá sér.

Í þessum tveimur pottum fengu sem sagt samtals 89 skip úthlutun í fyrra en einungis 4 skip stunduðu veiðar.

Frá ólympískum veiðum til kvóta

Smábátar eru frumkvöðlar við veiðar á makríl hér við land á handfæri. Fjórði potturinn er helgaður þeim. Í fyrstu var aflaheimildum ekki skipt niður á báta heldur mátti hver og einn veiða eins mikið og hann gat innan heildartakmarkana, svokallaðar ólympiskar veiðar. Árið 2015 var handfærapotturinn settur í kvóta.

Veiðiheimildum var úthlutað á bát í samræmi við aflareynslu á ákveðnu árabili. Í ár fær handfærapotturinn um 4% af heild. Auk þess hafa verið tekin frá 2 þúsund tonn sem handfærabátum stendur til boða að leigja til sín. Árið 2014 stunduðu 120 smábátar veiðarnar en þeim hefur fækkað vegna kvótasetningar. Á síðasta ári voru þeir 50 að tölu.

Tveir flokkar virkir

Af þessari upptalningu má sjá að makrílveiðar eru að þróast þannig að aðeins tveir útgerðarflokkar eru fullkomlega virkir, þ.e. uppsjávarskipin og smábátar. Mörgum finnst tímabært að horfast í augu við staðreyndir og setja makríllinn í kvóta með sömu reglum og gilda fyrir aðrar veiðar helstu nytjastofna. Um þetta atriði er þó deilt eins og svo margt annað í stjórn fiskveiða.

Skylt efni: veiði | Makríll

Aspir og wasabi ræktuð samhliða
Fréttir 24. maí 2024

Aspir og wasabi ræktuð samhliða

Nordic Wasabi er um þessar mundir að setja á innanlandsmarkað frostþurrkað wasab...

„Bjart fram undan og afurðaverð á uppleið“
Fréttir 24. maí 2024

„Bjart fram undan og afurðaverð á uppleið“

Jóhannes Geir Gunnarsson, bóndi á Efri-Fitjum í Vestur-Húnavatnssýslu, er bjarts...

Fóðra mjölorma til fóður- og matvælaframleiðslu
Fréttir 24. maí 2024

Fóðra mjölorma til fóður- og matvælaframleiðslu

Í samstarfsverkefni Matís og Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ) er unnið að því a...

Samdráttur samfélags
Fréttir 23. maí 2024

Samdráttur samfélags

Póstþjónusta landsmanna hefur verið hitamál svo lengi sem menn muna og ekki síst...

Fleiri kostir, meiri sveigjanleiki og bætt nýtni það sem koma skal
Fréttir 22. maí 2024

Fleiri kostir, meiri sveigjanleiki og bætt nýtni það sem koma skal

Út er komin skýrslan Bætt orkunýtni og ný tækifæri til orkuöflunar. Hún hefur að...

Bændur ársins í Norður-Þingeyjarsýslu
Fréttir 22. maí 2024

Bændur ársins í Norður-Þingeyjarsýslu

Ábúendurnir í Hafrafellstungu í Öxarfirði fengu nafnbótina Bændur ársins 2023 í ...

Mikilvægt að bæta merkingar fyrir neytendur
Fréttir 22. maí 2024

Mikilvægt að bæta merkingar fyrir neytendur

Herdís Magna Gunnarsdóttir, nautgripabóndi á Egilsstöðum og stjórnarmaður í Bænd...

Verður milliliður milli ræktenda og kornstöðva
Fréttir 22. maí 2024

Verður milliliður milli ræktenda og kornstöðva

Starfsemi Kornræktarfélags Suðurlands var endurvakin á fundi kornbænda í Gunnars...