Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
Makríllinn hreinsaði upp ætið í Djúpinu í fyrra
Fréttir 13. júlí 2015

Makríllinn hreinsaði upp ætið í Djúpinu í fyrra

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Salvar Baldursson, bóndi í Vigur við Ísafjarðardjúp, segir að afkoma æðarfugls, lunda, kríu og margra annarra fuglategunda ráðist af aðgengi að nægu æti í sjónum. Í fyrra hafi makríllinn hreinsað upp ætið í Djúpinu á örskömmum tíma.

„Í fyrra var gríðarlega mikið kríuvarp í Vigur og krían kom upp miklum fjölda unga. Það var mikil áta í sjónum og næg fæða. Ungarnir voru við það að verða fleygir þegar makríllinn kom í stórum torfum í Djúpið. Eftir stuttan tíma var orðinn ördeyða í fæðu fyrir fuglinn og kríuungarnir drápust unnvörpum.

Ég hef aldrei séð svona áður, eftir að makríllinn kom tók algjörlega fyrir ætið sem fuglarnir lifa á. Þetta var svona rétt eins og við hefðum verið með opna matvörubúð í Djúpinu sem var svo skyndilega lokað. Þetta gerðist ótrúlega fljótt.“

Makríllinn étur nær 3 milljónir tonna í lögsögunni við Ísland

Samkvæmt upplýsingum Haf­rannsókna­stofnunar hafa á liðnum árum gengið um 1,5 milljón tonna af makríl inn í lögsögu Íslands á tímabilinu frá maí til september. Á ferð sinni kringum landið étur makríllinn heil ósköp af fæðu, og þá aðallega krabbaflær og rauðátu. Eykur makríllinn við það þyngd sína um 40–50%. Þannig er makríllinn sem kemur inn í lögsöguna sem flökkufiskur snemmsumars að synda út úr henni aftur að hausti og búinn að éta um 2,5–3 milljónir tonna af æti. Þetta æti hefði annars verið til skiptanna fyrir aðra fiskistofna, hvali og fugla. Getur þetta afrán makrílsins að sumra mati skýrt að nokkru þann vanda sem lundinn og krían hafa átt við að eiga undanfarin ár, einkum við suður- og vesturströnd landsins. Það að makríllinn skuli nú vera talsvert seinna á ferðinni gæti gefið von um betri árangur í varpi en síðustu ár og að ungar komist á legg og geti frekar bjargað sér við ætisöflun. 

Bjarga munaðarlausum ungum

Æðarungar sem villast af hreiðrum eiga það á hættu að verða étnir af máfum. Í sumar hefur Baldur Björnsson, bróðursonur Salvars, verið vinnumaður í Vigur og m.a. haft það hlutverk að bjarga þessum ungum. Þá álpast alltaf töluverður fjöldi æðarunga í lundaholur og kemst ekki þaðan út aftur. Hefur Vigurfólk reynt að vakta holurnar og bjarga þaðan ungunum sem ella hefðu drepist.

„Maður finnur stundum lundaholur með 15 til 20 ungum og þeir eru ekki alltaf lifandi. Ef þeir eru á lífi bjargar maður þeim. Þegar við erum með slíkan hóp höldum við honum sér og setjum aldrei aðra unga þar með. Ástæðan er að þeir geta fengið hníslasótt sem er meltingarfærasýking, sem er algeng í alifuglum. Því gefum við þeim ungum sem við erum að ala hverju sinni penicillin fyrstu dagana og pössum upp á að utanaðkomandi ungar blandist þá ekki í hópinn.“

Einstæð samvinna mannfólksins og fuglanna

Baldur sér svo um að ala ungana í tvær til þrjár vikur á úrvalsfóðri áður en þeim er sleppt aftur. Þeir fara þá frjálsir í fjöruna og út á sjó, en ekki er óalgengt að þessir ungar komi aftur heim að bæ til að fá eitthvað gott í gogginn. Þessir fuglar eiga síðan væntanlega eftir að launa Vigurbændum lífgjöfina með því að gefa þeim dún. Þykir erlendum sem innlendum ferðamönnum þessi einstæða einstaka samvinna manna og fugla afar áhugaverð.
Blómleg ferðaþjónusta

Um langt árabil hafa Salvar og kona hans, Hugrún Magnúsdóttir, og fjölskylda verið að byggja upp öfluga ferðaþjónustu og móttöku fyrir ferðamenn í Vigur. Virðist ásókn ferðamanna fara stöðugt vaxandi og hafa Vigurbændur mætt þessu með því að breyta fjósinu í móttökustað og veitingaþjónustu.

„Það hafa verið að koma hér um 200 manns nánast á hverjum degi. Við erum ágætlega undir það búin að taka á móti ferðamönnum. Við erum búin að skipta um móttökuhús og koma þar upp góðri aðstöðu. Núna erum við búin að breyta fjósinu og koma þar upp góðri eldunaraðstöðu og snyrtingum og fleiru,“ segir Salvar. Hann segir mikinn straum vera í eyjuna af fólki af skemmtiferðaskipum sem koma til Ísafjarðar og í Ísafjarðardjúp á sumrin.  

Skylt efni: Makríll | Vigur fugla

Kolefnisspor íslenskra matvæla á pari við Evrópu
Fréttir 11. desember 2025

Kolefnisspor íslenskra matvæla á pari við Evrópu

Ný rannsókn Matís sýnir að kolefnisspor helstu íslenskra matvæla – mjólkur, kjöt...

Þörungakjarni með mörg hlutverk
Fréttir 11. desember 2025

Þörungakjarni með mörg hlutverk

Undirrituð hefur verið formleg viljayfirlýsing um stofnun Þörungakjarna á Akrane...

Húsaeiningar frá Noregi
Fréttir 9. desember 2025

Húsaeiningar frá Noregi

Nýlega komu um tvö þúsund fermetrar af svonefndum „Modulum“, sem eru forsmíðaðar...

Unnið að friðun sex svæða á landsbyggðinni
Fréttir 9. desember 2025

Unnið að friðun sex svæða á landsbyggðinni

Alþingi hefur samþykkt framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár til ársins 2029. Um tí...

Gervigreind í Grímsnesi
Fréttir 9. desember 2025

Gervigreind í Grímsnesi

Grímsnes- og Grafningshreppur tekur nú þátt í þróunarverkefni í samstarfi við up...

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 9. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Þurfum að viðhalda sérstöðu og forskoti
Fréttir 8. desember 2025

Þurfum að viðhalda sérstöðu og forskoti

Niðurstöðu COP30 sem fram fór í Brasilíu í nóvember hefur verið lýst sem lægsta ...

Fituúrgangur til framleiðslu á hreinsivörum
Fréttir 8. desember 2025

Fituúrgangur til framleiðslu á hreinsivörum

Nýsköpunarfyrirtækið Gefn sérhæfir sig í framleiðslu á umhverfisvænum bílahreins...