Litlar breytingar á ramma
Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er ekki gert ráð fyrir mikilli breytingu á þeim fjármunum sem fara til landbúnaðar.
Gert ráð fyrir 2,5% hækkun til búvörusamninga sem eiga væntanlega að endurspegla verðlagsuppfærslu. Framlög til Matvælastofnunar hækka um 10,2% og skrifstofu atvinnuvegaráðuneytisins um 35%.
Helstu verkefnum í málaflokknum á næsta ári, samkvæmt fjárlagafrumvarpinu, er skipt í þrjú markmið. Fyrst er að efla fæðuöryggi og standa vörð um heilbrigði plantna og dýra, velferð dýra og öryggi matvæla. Í öðru lagi að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna landbúnaðar og auka bindingu og í þriðja lagi að skapa skilyrði til fjölbreyttari landbúnaðarframleiðslu með sjálfbærni og verðmætasköpun að leiðarljósi.
Undir fyrsta markmiðið fellur meðal annars efling kornræktar til aukningar á innlendri framleiðslu á korni til fóðurs og til manneldis þar sem unnið verður að aðgerðum samkvæmt aðgerðaáætluninni Bleikir akrar. Á meðal aðgerða eru fjárfestingastuðningur, framleiðslustuðningur og þróunarverkefni og er fjárveitingunni haldið innan ramma. 120 milljónum verður varið til innleiðingar verndandi arfgerða gegn riðuveiki í íslenska sauðfjárstofninum, sem er tíu milljón króna aukning frá síðasta ári.
Fjárveitingu til heildstæðrar stefnumótunar um dýravelferð og endurskoðun viðeigandi laga verður haldið innan ramma. Fimmtíu milljónum verður varið aukalega í eflingu eftirlits með lagareldi með fjölgun stöðugilda hjá Matvælastofnun og hugbúnaðarog tæknikaupum, en á síðustu fjárlögum var 176 milljóna króna framlagi veitt til verkefnisins.
Innan þess markmiðs að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda fellur verkefnið að efla rannsóknir og bæta þekkingu á loftslagsáhrifum íslensks landbúnaðar í samræmi við alþjóðlegar gæðakröfur um losunarbókhald. Fjárveitingin þar verður innan ramma. Tíu milljóna króna aukning verður á þeim fjármunum sem varið er í innleiðingu aðgerða í landbúnaði samkvæmt aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.
Undir markmiðið að skapa skilyrði til fjölbreyttari landbúnaðarframleiðslu fellur heildarendurskoðun á stuðningskerfi í landbúnaði og er fjárveitingin til þess verkefnis innan ramma.
