Lítill vöxtur í kjötframleiðslu á tólf mánaða tímabili
Samkvæmt nýlegum gögnum Hagstofu Íslands var heildarkjötframleiðsla nú í apríl átta prósent minni en í apríl á síðasta ári.
Þess ber að geta að framleiðslutölur fyrir hrossakjöt eru ekki inni í tölum Hagstofunnar, en í öðrum kjötgreinum minnkar framleiðslan þegar bornir eru saman þessir tveir aprílmánuðir. Mest minnkar nautakjötsframleiðslan, eða um 17 prósent, framleiðsla á svínakjöti minnkar um sex prósent og alifuglakjöti um tvö prósent. Þó var útungun alifugla fimm prósent meiri nú í apríl en á síðasta ári.
Mesti vöxturinn í hrossakjötsframleiðslu
Þegar skoðaðar eru kjötframleiðslutölur á Mælaborði landbúnaðarins sést að á þessu 12 mánaða tímabili hefur hins vegar samtals verið 0,7 prósent vöxtur í kjötframleiðslu, þar sem hrossakjötsframleiðsla er einnig tekin inn í heildarmyndina. Vöxturinn í þeirri grein er mestur, eða 6,5 prósent, og svínakjötsframleiðslan er næst með 6,3 prósent vöxt. Framleiðsla á alifuglakjöti jókst um 3,4 prósent.
Kindakjötsframleiðslan minnkaði um 4,8 prósent samtals á þessum 12 mánuðum og nautgripakjötsframleiðslan um 3,7 prósent.
Sala á þessu 12 mánaða tímabili jókst langmest á hrossakjöti, eða 38,1 prósent, og svo á svínakjöti um 6,1 prósent.