Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 mánaða.
Landsmót hestamanna 2024 verður haldið af hestamannafélögunum Fáki og Spretti á félagssvæði Fáks í Víðidal.
Landsmót hestamanna 2024 verður haldið af hestamannafélögunum Fáki og Spretti á félagssvæði Fáks í Víðidal.
Mynd / Henk Peterse
Fréttir 17. október 2023

Línur að skýrast um Landsmót 2024

Höfundur: Þórdís Anna Gylfadóttir

Óvissa hefur ríkt um Landsmót hestamanna sem halda skal árið 2024. Undirbúningur hefur farið hægt af stað en nú eru línur farnar að skýrast.

Forsaga málsins er sú að Hestamannafélagið Sprettur fékk mótinu úthlutað og til stóð að halda mótið á félagssvæði þess en áform breyttust þegar líða fór nær mótinu. Stjórn Spretts ákvað því að óska eftir liðsinni nágranna sinna í Reykjavík, hestamannafélagsins Fáks. Sprettur og Fákur hófu í framhaldi viðræður um mótahaldið og var niðurstaðan sú að félögin munu halda Landsmót hestamanna í sameiningu á félagssvæði Fáks í Víðidal 1.–7.júlí 2024.

Félagsleg skylda

Hjörtur Bergstað, formaður Fáks, er einnig formaður nýstofnaðs félags hestamannafélagsins Fáks og Spretts um Landsmót 2024 (LM2024). „Sprettur leitaði til okkar í vor með erindi þess efnis hvort hægt væri að halda Landsmót hestamanna 2024 á félagssvæði Fáks. Erindið var borið undir aðalfund hestamannafélagsins Fáks og það var samþykkt að fara í þessar viðræður. Niðurstaðan varð sú að LM2024 verður haldið í Reykjavík, á félagssvæði Fáks. Ég tel að okkur, sem reyndum mótshöldurum, beri félagsleg skylda til að aðstoða ef þess er óskað.“ Hjörtur bætir við að stutt er síðan Landsmót var haldið í Fák, árið 2018. „Mótssvæði hefur sannað sig sem burðugt mótssvæði. Innviðir eru klárir, s.s. ljósleiðari, rafmagn, vatn, skólp o.s.frv. sem einfaldar málið töluvert þegar farið er í stórmótahald.“

Lítil eftirlitsskylda

Skipuð hefur verið stjórn LM2024. Hestamannafélögin Fákur og Sprettur skipa tvo fulltrúa hvort í stjórn og einn fulltrúi kemur frá Landsmóti ehf. sem er einkahlutafélag í eigu LH og Félags hrossabænda. Í stjórn sitja Hjörtur Bergstað, formaður, og Leifur Arason fyrir hönd Fáks. Fyrir Sprett sitja Lárus Sindri Lárusson, gjaldkeri, og Sveinbjörn Sveinbjörnsson. Guðni Halldórsson, formaður Landssambands hestamannafélaga situr fyrir hönd Landsmóts ehf.

Aðspurður hvernig undirbúningur fyrir mótið gangi, nú þegar tæpir níu mánuðir eru til stefnu, segir Hjörtur að undirbúningur sé hafinn og gangi vel en ýmislegt hafi komi sér á óvart í þessu ferli. „Aðkoma LH og Landsmóts ehf. hefur komið mér á óvart og hversu lítil eftirlitsskylda þeirra hefur verið. Ég velti líka fyrir mér hvers vegna LH og LM ehf. stigu ekki fyrr inn í verkefnið, veittu ráðgjöf og leiðbeindu, sérstaklega í ljósi þess að til stóð að halda mótið á nýjum mótsstað.“

Framkvæmdastjóri ráðinn

Stjórn LM2024 hefur ráðið Einar Gíslason sem framkvæmdastjóra mótsins. Einar er einnig starfandi framkvæmdastjóri Fáks og mun hann til að byrja með sinna báðum störfum til helminga en þegar nær dregur mun hann færa sig alveg yfir til LM2024. „Áskell Heiðar, fyrrum framkvæmdastjóri Landsmóts, verður til ráðgjafar og munum við leita til hans eins og þurfa þykir. Við eigum góða mótsskýrslu og leiðarvísi frá síðustu mótum sem haldin hafa verið á félagssvæði Fáks sem munu koma að góðum notum við undirbúninginn. Við höfum hingað til haldið undirbúningi á fáum höndum til að flýta fyrir vinnu okkar í ljósi þess hversu stutt er síðan ákveðið var að halda mótið í Víðidal. Á næstu vikum munum við fjölga í hópnum og leita til fólks sem hefur reynslu af stórmótahaldi. Það skiptir ekki máli hvaðan gott kemur, við munum tryggja okkur gott og hæfileikaríkt fólk til vinnu fyrir landsmót 2024. Þó svo að Sprettur og Fákur standi fyrir mótinu þá eru allir velkomnir að bjóða fram krafta sína meðan á mótsdögunum stendur því það er virkilega gaman að taka þátt í stórmótahaldi,“ segir Hjörtur.

Íþróttakeppni á LM

Á landsmóti er keppt í gæðingakeppni ásamt keppni í tölti og skeiðgreinum sem teljast til íþróttakeppnis. Á Landsmóti 2022, á Hellu, var gerð tilraun til að bæta við keppni í öllum greinum íþróttakeppninnar. Sumir telja að dagskrá landsmóts sé nú þegar ofhlaðin á meðan aðrir vilja nýta þennan markaðsglugga sem þarna skapast til hins ítrasta. Stjórn LM2024 ákvað að kanna þann möguleika hvort hægt væri að halda Íslandsmót fullorðinna samhliða Landsmóti. „Við sendum erindi til keppnisnefndar og stjórnar LH og óskuðum eftir áliti þeirra hvort þetta væri framkvæmanlegt en niðurstaðan var sú að ekki væri hægt að verða við því að þessu sinni. Okkar hugmynd var að búa til enn skemmtilegri viðburð, að á landsmóti væri eitthvað fyrir alla, og að keppnin höfðaði til sem flestra. Við munum taka ákvörðun núna á næstu dögum hvort það verði íþróttakeppni á Landsmóti 2024 og þá með hvaða hætti hún verður og hvaða vægi hún fær,“ segir Hjörtur. Þess má geta að sambærileg tillaga þess efnis að halda Íslandsmót samhliða Landsmóti hestamanna var borin upp á síðasta landsþingi hestamanna og var felld, með naumum meirihluta.

Miðasala er hafin fyrir Landsmót hestamanna 2024 og segir Hjörtur að forsala gangi vonum framar.

Allar upplýsingar um mótið fá finna á landsmot.is og miðsala fer fram á tix.is.

Skylt efni: Landsmót hestamanna

Jarðgerð á lagernum
Fréttir 3. maí 2024

Jarðgerð á lagernum

Krambúðin í Mývatnssveit er nú með jarðgerðarvél fyrir lífrænan úrgang í verslun...

Fyrsti skipulegi raforkumarkaður landsins
Fréttir 2. maí 2024

Fyrsti skipulegi raforkumarkaður landsins

Opnuð hefur verið íslensk raforkukauphöll, sú fyrsta á Íslandi og með það að mar...

Vöktun íslenskra skóga viðamest
Fréttir 2. maí 2024

Vöktun íslenskra skóga viðamest

Á sviði rannsókna og þróunar hjá Landi og skógi eru fjölmörg verkefni og þeirra ...

Samstarf háskóla skapar tækifæri
Fréttir 2. maí 2024

Samstarf háskóla skapar tækifæri

Jarðræktarmiðstöð LbhÍ er fjármögnuð með skilyrðum um samvinnu við aðrar menntas...

Sjónarmiðin samrýmast ekki
Fréttir 2. maí 2024

Sjónarmiðin samrýmast ekki

Ísteka telur að Samkeppniseftirlitið hefði átt að óska eftir uppfærðum upplýsing...

Norðlenskir bændur verðlaunaðir
Fréttir 1. maí 2024

Norðlenskir bændur verðlaunaðir

Bændur á þremur bæjum voru verðlaunaðir á aðalfundi Búnaðarsambands Eyjafjarðar ...

Rekstrarbati hjá Norðlenska Kjarnafæði
Fréttir 1. maí 2024

Rekstrarbati hjá Norðlenska Kjarnafæði

Hagnaður Kjarnafæðis Norð­lenska var 385,5 milljónir króna á síðasta ári fyrir s...

Engir hveitibrauðsdagar
Fréttir 30. apríl 2024

Engir hveitibrauðsdagar

Nýi matvælaráðherrann, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, segir of stutt vera eftir af...