Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Verðlaunahafar ásamt ráðuneytisstjóra (t.v.) og landgræðslustjóra.
Verðlaunahafar ásamt ráðuneytisstjóra (t.v.) og landgræðslustjóra.
Mynd / Landgræðsla ríkisins
Fréttir 2. desember 2016

Landgræðsluverðlaunin 2016 voru veitt í gær

Landgræðsluverðlaunin 2016 voru afhent í Sagnagarði í Gunnarsholti í gær. Landgræðsluverðlaunin eru veitt árlega einstaklingum og félagasamtökum sem hafa unnið að landgræðslu og landbótum. Verðlaunahafar að þessu sinni voru annars vegar hjónin Ingimundur Sigfússon og Valgerður Valsdóttir og hins vegar Landgræðslufélag Hrunamanna.

Í tilkynningu á vef Landgræðslunnar (land.is) kemur fram að með veitingu landgræðsluverðlaunanna viljiLandgræðslan vekja athygli á mikilvægu starfi margra áhugamanna að landgræðslumálum.

Verðlaunagripirnir, Fjöregg Landgræðslunnar, eru unnir af Eik-listiðju, Miðhúsum á Fljótsdalshéraði. Sigríður Auður Arnardóttir, ráðuneytisstjóri í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu afhenti verðlaunin fyrir hönd umhverfis- og auðlindaráðherra. Í ræðu sinni sagði Sigríður Auður meðal annars: „Landgræðsluverðlaunin eru bæði viðurkenning fyrir frábært starf í þágu landgræðslu og einnig hvatning til að halda áfram á sömu braut. Verðlaunin hafa líka hvetjandi áhrif á okkur öll og þau vekja athygli á viðfangsefninu landgræðslu og mikilvægi hennar í landinu.“

Þetta var í 26. sinn sem Landgræðsla ríkisins veitir verðlaunin.

Ingimundur og Valgerður

Í umsögn um Ingimund og Valgerði segir eftirfarandi á vef Landgræðslunnar: 

„Hjónin Ingimundur Sigfússon og Valgerður Valsdóttir og fjölskylda þeirra, hafa um langt árabil stundað stórfellda uppgræðslu á jörðum sínum, Sigríðarstöðum í Vestur-Húnavatnssýslu og Þingeyrum í Austur-Húnavatnssýslu. Þessar jarðir liggja að sjó og á þeim eru stærstu sjávarsandar í Húnavatnssýslum. Sigríðarstaðir fóru í eyði vegna ágangs sands árið 1942 og árið 1958 var girt þar landgræðslugirðing og mestur hluti jarðarinnar gerður að landgræðslusvæði. Á yngri árum vann Ingimundur við að rækta stórt tún á örfoka og sandi orpnu landi á Sigríðarstöðum og þar hafa þau hjón staðið fyrir melgresis-, lúpínu og túnvingulssáningum og stundað trjárækt.

Á Þingeyrum hafa þau á sama hátt grætt upp stór landsvæði og unnið að skógrækt og munu uppgræðslusvæði á þessum tveimur jörðum vera vel á annað þúsund hektarar, misjafnlega langt á veg komin.

Nú í haust áttu þau frumkvæði að endurheimt votlendis á um 30 hekturum í landi Þingeyra. Þeim er mjög umhugað um fjölbreytt fuglalíf og er endurheimt votlendis m.a. liður í að bæta búsvæði fugla. Á Þingeyrum hafa þau einnig lagt áherslu á að jörðin væri nytjuð til búskapar með sjálfbærum hætti og staðið fyrir merkum rannsóknum á sögu og menningu þessa forna höfuðbóls.“

Landgræðslufélag Hrunamanna

Um Landgræðslufélag Hrunamanna segir Landgræðslan:

„Starfssvæði Landgræðslufélags Hrunamanna er Hrunamannaafréttur. Félagið var stofnað í upphafi árs 2008. Segja má að félagið hafi sprottið af áhuga manna á landbótum á afréttinum sem hafði staðið yfir um árabil. Þar komu við sögu sveitarfélagið, Kiwanisklúbburinn og sauðfjárbændur. Saga landgræðslu Hrunamanna er því mun eldri en landgræðslufélagið sjálft, en Landgræðslufélag Hrunamanna sameinaði þessa krafta.

Árið 1970 girti Landgræðslan af svæði fremst á afréttinum, rétt ofan Gullfoss og hefur síðan verið unnið þar að landgræðslu. Mikið rof var á þessu svæði, landið víða örfoka og stakar gróðurtorfur voru að blása upp.

Fyrstu áratugina var sáð og borið á innan girðingar með flugvél Landgræðslunnar í samstarfi við sveitarfélagið en upp úr 1990 var farið að vinna með dráttarvélum og handsá.

Svæðið hefur tekið miklum stakkaskiptum þó enn sé nokkuð í að land sé fullgróið. Ýmsar að ferðir hafa verið reyndar innan landgræðslugirðingarinnar auk sáningar grasfræja og áburðargjafar, s.s. sáning birkifræja, gróðurseting smárahnausa, víðisprota, lúpínu og heyþakning. Síðast en ekki síst var þar gerð tilraun með nýtingu seyru til landgræðslu með góðum árangri.

Árið 1992 hófu sauðfjárbændur uppgræðslu í Stóraveri en þar voru opin rofabörð og moldir sem tekist hefur að loka að mestu og er þar nú gróið land. Árið 2004 var farið að græða upp land við Svínárnes sem er innar á afréttinum.

Undanfarin ár hefur Landgræðslufélag Hrunamanna unnið að landgræðslu á nokkrum stöðum á afréttinum. Auk svæðis innan landgræðslugirðingarinnar er nú unnið í Stóraveri, í Svínárnesi, Merarskeiði og á Harðavelli, á Stóramel og í Skyggnishólum og við Blákvísl og Búðará. Græddar hafa verið upp moldir, rofjaðrar, sand- og melasvæði og rofabörðum lokað.

Við uppgræðsluna er lögð áhersla á að stöðva rof, hindra frekari gróður- og jarðvegseyðingu og koma af stað gróðurframvindu sem leiðir til myndunar sjálfbærra gróðurlenda. Valdar eru aðferðir sem ekki hafa óæskileg áhrif á vistkerfi né sérstæðar náttúru- og mannvistarminjar og reynt er að fella uppgræðslur að landslagi og þeim gróðri sem fyrir er.

Landgræðslufélag Hrunamanna heldur landgræðsludag í júní ár hvert. Þar mætir hópur manna, bæði fullorðnir og börn og leggja landinu lið. Bændur mæta á dráttarvélum með áburðardreifara, tínast hver í sína áttina til að bera á en aðrir taka til við handdreifingu áburðar og fræs eða tæta úr heyrúllum. Allt er þetta gert samkvæmt samþykktri landbótaáætlun fyrir Hrunamannaafrétt vegna gæðastýringar í sauðfjárrækt, en landgræðslufélagið tók að sér ábyrgð á framkvæmdum í því verkefni.“

Halla tekur upp Íslenskt staðfest
Fréttir 28. mars 2024

Halla tekur upp Íslenskt staðfest

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjubóndi og eigandi Sólskins grænmetis ...

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands
Fréttir 27. mars 2024

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Fjölmörg mál voru til afgreiðslu á nýliðnu Búnaðarþingi 2024, úr fimm nefndum, s...

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025
Fréttir 27. mars 2024

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um frestun á gildistöku banns við endurnýtingu ...

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi
Fréttir 27. mars 2024

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi

Fyrirkomulag landbúnaðarstuðningskerfis á Íslandi mun taka miklum breytingum ef ...

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst
Fréttir 26. mars 2024

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst

Fyrrverandi sláturhússtjóri á Vopnafirði ætlar ekki að láta deigan síga þrátt fy...

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal
Fréttir 26. mars 2024

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal

Niðurskurður á sauðfé frá bæjunum Eiðsstöðum og Guðlaugsstöðum í Blöndudal fór f...

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga
Fréttir 26. mars 2024

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga

Kornræktarfélag Suðurlands verður endurvakið sem viðskiptavettvangur ræktenda og...

Grípa þarf tækifærin
Fréttir 26. mars 2024

Grípa þarf tækifærin

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, telur að bændur eigi að leyfa sér að hor...