Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Landbúnaður á nútíma vísu
Fréttaskýring 2. janúar 2017

Landbúnaður á nútíma vísu

Höfundur: Erna Bjarnadóttir
Landbúnaðar líkt og aðrar atvinnugreinar hefur þróast og tekið miklum breytingum síðustu 50-60 árin eftir að vélvæðing hófst fyrir alvöru hér á landi. Fyrst með því að dráttarvélar urðu almennt í eigu bænda og síðan frekari tæknivæðingu jafnt utan dyra sem innan. Þróun húsakostar og bættur aðbúnaður búfjár er ekki síður hluti af þessari þróun en stækkun dráttarvéla og aukins tækjakostar sem sjá má á bæjarhlöðum um landið.
 
Þessi þróun hefur leitt til stækkunar búa og ekki síður þess að  létta störf bænda líkamlega. Stækkun búanna hefur hins vegar kallað á ný viðfangsefni, ekki síst varðandi umhverfismál. Lífræn ræktun hefur sérstaka stöðu innan landbúnaðar og vottun hennar byggir á reglum sem eru samræmdar innan EES-svæðisins en aðrar reglur geta gilt um hana í öðrum löndum. Þar eru sjálfbærni og dýravelferð í forgrunni. Sameiginlega stendur landbúnaður frammi fyrir þeirri áskorun að framleiða mat handa jarðarbúum sem fer hratt fjölgandi. Þetta þarf að gera með sjálfbærni og umhverfisvernd að leiðarljósi sem og að tryggja góða meðferð á búfé og bændum sanngjarnt hlutskipti fyrir vinnu sína. 
 
En vaxandi hlutur landbúnaðar er rekinn með stóru sniði og það hefur vakið upp miklar umræður. Þær eru hins vegar oft á tíðum frekar tilfinningaþrungnar fremur en að fjalla um staðreyndir. Ekki er t.d. alltaf ljóst hver skilin eru á milli þess sem margir nefna fjölskyldubúskap, annars vegar, og stórbúskapar hins vegar.
 
Í íslenskri löggjöf og reglugerðum er talað um þauleldi. Með þauleldi er þar átt við búskap eða bústærð sem fellur undir lög um mat á umhverfisáhrifum. Nánar er átt við bú (stöðvar) þar sem fram fer þauleldi alifugla og svína með:
 
i.   85.000 stæði fyrir kjúklinga
     eða 60.000 fyrir hænur, 
ii.  3.000 stæði fyrir alisvín (yfir
     30 kg) eða fleiri eða
iii. 900 stæði fyrir gyltur eða fleiri. 
(Lög um mat á umhverfisáhrifum nr.106/2000)
 
Á Íslandi eru búin almennt ekki svo stór að þau falli undir þetta þótt vissulega séu á því undantekningar. Árið 2015 var t.d. kjúklingaeldi á 28 búum. Alls var slátrað um 5 milljón fuglum samkvæmt tölum Hagstofu Íslands og er þá allt meðtalið. Þetta gera um 178.000 fuglar á bú eða um 18.000 stæði fyrir kjúklinga. Eggjabú voru 13 talsins og samtals um 220 þúsund varphænur í landinu sem gerir 17.000 hænur á bú. Svínaframleiðendur voru 12 en starfsstöðvar voru 21. Alls voru 2.877 gyltur í landinu og slátrað var 80.342 svínum. 
 
Í nágrannalöndum okkar eins og Danmörku, Bretlandi, Hollandi og víðar eru bú almennt mun stærri en hér á landi. Meðalfjöldi svína á búi í Danmörku er t.d um 3.400 dýr. Það liggur nærri að vera sem nemur heildarfjölda gylta á Íslandi. Um 60% af svínum í Danmörku eru á búum með meira en 5.000 svín. Flest kjúklingabú i Danmörku eru með pláss fyrir meira en 25.000 kjúklinga í eldi í senn. Miðað við 34 daga eldi má ætla að um 250.000 fuglar fari í gegnum slíkt bú á ári. Vorið 2012 var gefið út leiðbeiningarit af umhverfis- og matvælaráðuneytinu (Naturstyrelsen) til sveitarfélaga í Danmörku um heildstæða áætlanagerð í landbúnaði. Ritið fjallar um hvernig hægt sé að beita þeim verkfærum sem stjórnsýslan býður upp á til að vinna að skipulagi landbúnaðar. Sérstaklega á að gera grein fyrir stórum búum í aðalskipulagsáætlunum, þ.e. búum sem eru stærri en 500 dýraeiningar. Á mannamáli þýðir það að gera á sérstaklega grein fyrir búum sem eru t.d. með 83.000 hænur (ein dýraeining er 166 hænur) 1,5 milljónir kjúklinga slátraðir á ári (um það bil ársframleiðsla á Íslandi) eða 2.150 gyltur (ein dýraeining er 4,3 gyltur með smágrísum) sem stappar nærri að vera 2/3 af öllum íslenskum gyltum. 
 
Í Svíþjóð eru búin heldur minni en í Danmörku en nokkuð stærri en hér á landi. Að meðaltali eru þar 80 kýr á kúabúum, 70 gyltur á gyltubúum og 2.500 slátursvín á ári á svínabúum en erlendis er framleiðslunni víðast hvar hagað þannig að sumir bændur sérhæfa sig í smágrísaframleiðslu og aðrir í eldi grísa. Á alifuglabúum eru að meðaltali 23.000 hænur í eggjaframleiðslu og 500.000 kjúklingar slátraðir á ári. 
Ein hlið á landbúnaði er notkun plöntuverndarvara, (efnum eða efnablöndum til að hefta vöxt,varna sýkingum eða skemmdum af völdum hvers kyns lífvera illgresiseyðar o.s.frv.) Notkun í kg af virku efni á 1000 ha ræktarlands, á Íslandi nam að meðaltali 40 kg á ári árin 1993–2010. Sambærilega tala fyrir Danmörku er 1,5 tonn, Svíþjóð 680 kg, Noregur 800 kg og Finnland 200 kg.
 
Stórar einingar hafa líka kosti
 
Breska búfjárfræðafélagið (British Society of Animal Science – BSAS) hefur fjallað um stórbúskap á ráðstefnum. Rannsóknir hafa verið gerðar á honum og möguleikum hans til að leggja fram sinn skerf í því að framleiða örugg og holl matvæli á viðráðanlegu verði, sem jafnframt uppfyllir kröfur um sjálfbærni bæði með tilliti til velferðar búfjár og umhverfissjónarmiða. 
 
Margir hafa áhyggjur af því að ekki sé hægt að hugsa vel um dýr innan dyra í stórum hópum. Framkvæmdastjóri Breska búfjárfræðifélagsins segir að rannsóknir hafi sýnt að góð umhirða búfjár sé ekki tengd bústærð. Í reynd eru stórar einingar oft betur í stakk búnar til að tryggja góða umönnun allan sólarhringinn og tryggja greiðara aðgengi að sérfræðingum eins og t.d. dýralæknum. Mikið af þeirri athygli sem stórbúskapur fær byggir á umhverfissjónarmiðum. En hagkvæmni stærðarinnar auðveldar fremur fjárfestingar í tæknibúnaði bæði til að bæta líðan búfjár (loftræstingu og annan aðbúnað) og ekki síður fjárfestingar til að takast á við mengun s.s. meðhöndlun búfjáráburðar þar með talið að nýta gas úr búfjáráburði sem orkugjafa. Þetta breytir auðvitað ekki því að búfjáráburðinn þarf að umgangast og nýta með ábyrgum hætti í samræmi við lög og reglur og nægilegt landrými þarf að vera til staðar. Þetta er alls ekki sjálfgefið í þéttbýlum löndum eins og Hollandi og Danmörku og þarf jafnvel að flytja búfjáráburðinn til annarra landa. Segir framkvæmdastjórinn að lokum að: „Út frá þekkingu okkar í dag er engin ástæða til að útiloka eigi frá matvælaframleiðslu, bú sem eru tæknilega vel út búin og stjórnað af þekkingu.“
 
Hugtakið verksmiðjubúskapur skýtur æ oftar upp kollinum í umræðu um íslenskan landbúnað, oftast án frekari skilgreiningar á því hvað nákvæmlega er átt við. Undirliggjandi er þó að átt er við allan landbúnað þar sem búfé er alið innan dyra allan líftímann í stöðluðu umhverfi, oft mörg dýr saman í einu rými ekki algilt samt. Með því að fella starfsemina undir þetta hugtak er oft verið að reyna að varpa neikvæðri ímynd á starfsemina, jafnvel gefa til kynna að reglur um meðferð dýranna séu fyrir borð bornar. 
 
Hluti íslensks landbúnaðar er vissulega stundaður í hátæknivæddum rekstrareiningum. Eins og sjá má af umfjölluninni hér að ofan eru íslensk bú í alifugla- og svínarækt langt frá því að jafna megi stærð þeirra við bú í nágrannalöndum okkar sem eru stórútflytjendur á búvörum. Með þessum málflutningi er hins vegar verið grafa undan þessum þætti íslensks landbúnaðar með því að líkja honum við það sem lengst er gengið í þessum efnum, er beinlínis verið að stuðla að því að færa þessa framleiðslu úr landi til búa í nálægum löndum, sem eru enn stærri en íslensku búin. Íslenskur búskapur hvorki í þessum búgreinum eða öðrum á neitt skylt við hugtakið verksmiðjubúskap. 
 
Verksmiðjubúskapur er ekki stundaður á Íslandi
 
Landbúnaður lýtur ákveðinni lagaumgjörð varðandi fjölmarga þætti s.s. velferð búfjár, umhverfismál, skipulagsmál o.s.frv. Markmið löggjafarinnar eru margvísleg en undirliggjandi er að landbúnaður sé stundaður með siðlegum hætti í sátt við umhverfið. Íslensk löggjöf um landbúnað er byggð á Evrópulöggjöf varðandi flesta þætti. Í sumum tilfellum er jafnvel gengið lengra í kröfum til framleiðsluhátta. 
 
Hér að framan hefur stærð íslenskra búa verið sett í samhengi við landbúnað í nálægum löndum sem stunda útflutning á búvörum. Sanngjarnt er að kafa aðeins dýpra ofan í uppruna hugtaksins verksmiðjubúskapar og setja það í samhengi við framleiðsluhætti í landbúnaði hér á landi og reglur um aðbúnað og umhirðu búfjár. 
 
Fyrst og fremst á landbúnaður á ekkert skylt við verksmiðjuframleiðslu. Í verksmiðjum er ekki fengist við lifandi verur. Þar er hægt að slökkva ljósin, setja í lás og labba út án þess að valda neinu nema þá í mesta lagi fjárhagslegum skaða. Ef loka á fyrirtæki í búfjárrækt tekur það marga daga eða vikur. 
 
Verksmiðjubúskapur er íslenska þýðingin á enska hugtakinu „factory farming“. Hugtakið kemur frá Bandaríkjunum og verður að segjast að íslenskur landbúnaður er langt frá því að líkjast bandarískum verksmiðjubúskap. Fyrir utan mun á bústærð er t.d. engar kröfur að finna um lágmarks stærð á stíum fyrir gyltur með grísi í Bandaríkjunum né takmarkanir á sýklalyfjanotkun.   
 
Hvað er fjölskyldubú?
 
Íslenskir bændur sjá almennt um alla þætti framleiðslunnar, eiga sjálfir búin og bústofninn í flestum tilfellum. Eignarform getur verið mismunandi og einkahlutafélagsformið ryður sér í vaxandi mæli til rúms til að skilja að fjárhag fjölskyldu og bús. Erlendis er oft meiri verkaskipting milli búa eða verktakastarfsemi af ýmsu tagi. Einnig er þar mun algengara að stór fyrirtæki eigi búreksturinn og séu með ráðna stjórnendur sem annast búreksturinn. Nær undantekningalaust eru eigendur búa hér jafnframt stjórnendur þeirra. Oft er búseta fjölskyldunnar sem stundar reksturinn á sömu jörð og búið. Stundum hagar þó þannig til að bændur hafa búsetu t.d. í næsta þéttbýli eða nærliggjandi jörð þegar íbúðarhús er ekki til staðar á bújörðinni. Garðyrkja er einnig dæmi um starfsemi sem byggist upp í kringum jarðhitasvæði og þá eru gróðurhúsin ekkert endilega á sama stað og híbýli eigenda.
 
Bú sem byggja að einhverju leyti á aðkeyptu vinnuafli eða samstarfi margra fjölskyldna hafa meiri möguleika til að takast á við áföll t.d. veikindi eða dauðsföll. Auðveldara verður að tryggja hnökralausa umhirðu búfjárins eftir því sem aðgengi að starfsfólki er greiðara. Fjölskyldubúið svokallaða hefur líka sína kosti og búin verða vissulega fleiri því minni sem þau eru en möguleikinn til að geta haft aðkeypt vinnuafl eða samstarf við fleiri um reksturinn, býður líka upp á sveigjanleika eins og að fara í sumarfrí og takast á við áföll sem sjaldnast gera boð á undan sér.
 
Lokaorð
 
Hvað sem líður löggjöf og eftirliti þá er meðferð og aðbúnaður dýra fyrst og síðast á ábyrgð bænda sjálfra. Nálægð íslensks landbúnaðar við neytendur ætti einmitt að fela í sér tækifæri fyrir íslenskan landbúnað.
 
Enn er það svo t.d. að stór hluti þéttbýlisbúa hefur tengsl við sveit með einum eða öðrum hætti eða heldur jafnvel sjálfur dýr eins og hross eða hænur sér til gamans. Bændur bjóða líka neytendum heim t.d. í gegnum verkefnið opinn landbúnað og ferðaþjónustuaðilar tengja starfsemi sína víða við búskap, bjóða gestum að fylgjast með bústörfum, koma í réttir o.s.frv. Íslenskur landbúnaður hefur margt fram að færa og hann er fjölbreyttur rétt eins og fólkið sem stundar hann.  

Heimildir og tenglar:

9 myndir:

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði
Fréttir 16. apríl 2024

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði

Matvælastofnun hefur birt leiðrétta skýrslu yfir áburðareftirlit síðasta árs.

Ísteka í yfirburðastöðu
Fréttir 15. apríl 2024

Ísteka í yfirburðastöðu

Í nýrri ályktun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að Ísteka beiti sterkri stöðu ...

Hverfandi líkur á riðusmiti árið 2032
Fréttir 15. apríl 2024

Hverfandi líkur á riðusmiti árið 2032

Í nýrri landsáætlun verður stefnt að því að hverfandi líkur verði að upp komi ri...

Hrútaverðlaun fyrir Gullmola og Blossa
Fréttir 15. apríl 2024

Hrútaverðlaun fyrir Gullmola og Blossa

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var í Ásgarði Landbúnaðarháskóla Ísla...

Sláturhús brann til grunna
Fréttir 12. apríl 2024

Sláturhús brann til grunna

Sláturhúsið í Seglbúðum í Landbroti brann til grunna þann 1. apríl.

Ekki farið að lögum um útivist nautgripa
Fréttir 12. apríl 2024

Ekki farið að lögum um útivist nautgripa

Matvælastofnun lagði stjórnvaldssektir á þrjú kúabú á Vesturlandi á dögunum vegn...

Dregur úr kaupvilja
Fréttir 12. apríl 2024

Dregur úr kaupvilja

Niðurstöður tilboðsmarkaðar fyrir greiðslumark mjólkur í byrjun apríl sýna að ja...

Staða framkvæmdastjóra BÍ auglýst innan tíðar
Fréttir 11. apríl 2024

Staða framkvæmdastjóra BÍ auglýst innan tíðar

Vigdís Häsler hefur látið af störfum sem framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands. ...