Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Lagarfljóts­ormurinn
Skoðun 26. apríl 2016

Lagarfljóts­ormurinn

Höfundur: Vilmundur Hansen

Lagarfljótsormurinn er stærstur allra orma á Íslandi og um hann eru einnig til flestar sögur. Lagarfljót er þriðja stærsta stöðuvatn á Íslandi og er mesta dýpt þess 111,5 metrar.

Frásagnir um stóra vatnaorma þekkjast víðar en frá Fljótsdalshéraði. Það á að vera ormur í Skorradalsvatni og flestir þekkja söguna um Loch Ness-skrímslið í Skotlandi. Frá Kanada er að finna svipaða sögu, í Okanagavatni er skrímslið Okopoko sem á að hafa klakist úr risaeðlueggi sem lá óskemmt á botni þess í milljónir ára.

Fræðin sem fást við að rannsaka dularfulla vatnaorma nefnast ormalogia og eru angi af rómantískri náttúrufræði sem teygir anga sína út í hið óþekkta og dularfulla.

Hugmyndum um uppruna Lagarfljótsormsins ber ekki saman. Ein sagan gerir ráð fyrir að hann sé risa sæslanga sem lokast í vatninu einhvern tíma í fyrndinni. Önnur saga segir að stúlka á bæ einum við Lagarfljót hafi sett gull undir snigil og hafi snigillinn vaxið hratt og að lokum skriðið út í fljótið. Eftir að hann kom út í fljótið fór hann að ráðast á menn og skepnur sem reyndu að komast yfir það.

Ormurinn hefur sést reglulega frá landnámi og er hans víða getið í annálum og þjóðsögum. Honum er lýst sem stóru, dökku flikki sem stundum skýtur upp kryppunni en sjaldan sjáist haus eða hali.

Sagt er að Guðmundur góði Arason biskup hafi bundið orminn niður með bænhita á sínum tíma og að ormurinn hafi átt að liggja fastur við botninn til dómsdags. En svo virðist sem bænhiti Guðmundar góða hafi ekki dugað til því að undanfarna áratugi hefur oft sést til ormsins.

Sigurður Blöndal, fyrrverandi skógræktarstjóri, sá orminn 5. október 1962 um klukkan hálfníu að morgni. „Ég var einn heima og var litið út um gluggann og sé eitthvað svart og ávalt koma upp úr vatnsfletinum og fara niður aftur og ganga þannig áfram eins og í bylgjuhreyfingu. Þetta minnti eina helst á hvalbak. Ég hringdi strax í nágrannakonu mína og bað hana að snarast út í glugga og sjá þetta líka. Við horfðum því bæði á fyrirbærið í um það bil tíu mínútur þar til það hvarf fyrir nes. Þetta var á hreyfingu eins og það kæmi upp og dýfðist niður og færðist út eftir. Fyrirbærið var nokkuð stórt og getur ekki hafa verið sjónhverfing því við vorum tvö sem sáum það.“

Verktaki á Egilsstöðum komst á sínum tíma á forsíðu Familie Journal eftir að hafa orðið ormsins var þegar hann var að leggja símastreng yfir Lagarfljót rétt eftir 1980. Maðurinn gerði lítið úr málinu og tók fram að hann hafi ekki séð orminn heldur bara orðið hans var.

Einu sinni stóð til að greiða hverjum þeim sem sannaði tilvist ormsins eina milljón króna í verðlaunafé. Enginn hefur enn gefið sig fram og vitjað verðlaunafjárins og undirritaður veit ekki hvort boðið standi enn.

Margir vilja draga tilvist Lagarfljótsormsins í efa og sagt hann tilbúning. Svo er til fullt af fólki sem trúir á Guð almáttugan en það hefur enginn séð hann ófullur eða óruglaður. 

Vilja flytja út færeysk hross
Fréttir 6. júní 2023

Vilja flytja út færeysk hross

Til þess að bjarga færeyska hrossastofninum frá aldauða hefur komið til skoðunar...

Árlegt rit Sögufélags Eyfirðinga komið út
Fréttir 5. júní 2023

Árlegt rit Sögufélags Eyfirðinga komið út

Sögufélag Eyfirðinga var stofnað árið 1971 með það fyrir augum að safna, skipule...

Framtíð jarðvangs hangir á bláþræði
Fréttir 5. júní 2023

Framtíð jarðvangs hangir á bláþræði

Sveitarfélögin á Suðurlandi geta ekki rekið Kötlu jarðvang án þátttöku ríkisins ...

Enginn tannlæknir á Hvolsvelli lengur
Fréttir 5. júní 2023

Enginn tannlæknir á Hvolsvelli lengur

Íbúar á Hvolsvelli og í sveitunum þar í kring eru nú án tannlæknis.

Innlit í kjúklingabú
Fréttir 2. júní 2023

Innlit í kjúklingabú

Kjúklingabændurnir Eydís Rós Eyglóardóttir og Ingvar Guðni Ingimundarson á Vatns...

Vaxandi áhugi bænda og smáframleiðenda
Fréttir 2. júní 2023

Vaxandi áhugi bænda og smáframleiðenda

Sauðfjárbóndinn Jónas Þórólfsson og kjötiðnaðarmeistarinn Rúnar Ingi Guðjónsson ...

Fuglavarnir til bjargar laxaseiðum
Fréttir 1. júní 2023

Fuglavarnir til bjargar laxaseiðum

Nýstárleg tilraun var gerð við ósa Haffjarðarár síðasta sumar, þegar fuglavarnar...

Fjölgun nema í kjötiðn
Fréttir 1. júní 2023

Fjölgun nema í kjötiðn

Rúnar Ingi Guðjónsson segist finna fyrir mjög miklum áhuga hjá ungu fólki að lær...