Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Kynbótastarfið 2016
Mynd / GHP
Á faglegum nótum 3. maí 2016

Kynbótastarfið 2016

Höfundur: Þorvaldur Kristjánsson ábyrgðarmaður í hrossarækt
Kynbótasýningar hefjast á Íslandi í Hafnarfirði 17. maí en boðið verður upp á 15 sýningar víðs vegar um landið fyrir utan Landsmót sem haldið verður að þessu sinni að Hólum í Hjaltadal. 
 
Allar reglur um kynbótasýningar má finna á vef Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins, www.rml.is, undir Búfjárrækt/hrossaækt en hérna er ætlunin að fara yfir nýjungar í regluverkinu og fleiri atriði. 
 
DNA-sýni
 
Í fyrra var ákveðið að úr öllum hryssum sem mæta til kynbótadóms þurfi að taka DNA-sýni og staðfesting á því þarf að liggja fyrir í WorldFeng við skráningu til dóms. Nú í ár verður þess krafist að sama gildi um geldinga sem mæta til kynbótadóms. Þetta er gert til þess að tryggja réttar ættfærslur allra hrossa sem mæta til kynbótadóms en það er afar mikilvægt við mat á kynbótagildi gripanna og þeirra ættlína sem að þeim standa. Þá var einnig ákveðið á fundi fagráðs í hrossarækt að bæta við þeirri reglu að ef örmerki finnst ekki í hrossi sem mætir til dóms beri að örmerkja það á staðnum og taka stroksýni úr nös til DNA-greiningar á ætterni, með þeim kostnaði sem af því hlýst fyrir eiganda/forráðamann. Þetta er nauðsynlegt að gera þar sem sú regla er að öll hross sem mæta til dóms þurfa að hafa fyrirliggjandi DNA-sýni. Ef örmerki finnst ekki þarf að örmerkja hrossið upp á nýtt og taka nýtt DNA-sýni með það að markmiði að örmerki og DNA-sýni hangi örugglega saman.
 
Járningar
 
Ákveðnar reglur gilda um járningar hrossa sem mæta til kynbótadóms eins og flestum er kunnugt. Hvað þessar reglur varðar hefur fagráð ákveðið að banna uppjárningar hrossa á milli dóms og yfirlitssýningar og setja eftirfarandi reglu inní vinnureglur við sýningarnar: Járningar, þ.e. breytingar á tálgun hófa eða skeifum, frá fordómi til yfirlitssýningar eru bannaðar, nema með sérstöku leyfi sýningarstjóra í kjölfar óhapps. Þetta er gert til þess að reyna að tryggja að hrossin séu metin við eins lík skilyrði og kostur er í dómi og yfirlitssýningu, enda er markmiðið að rækta hross sem geta framkvæmt allar gangtegundir sem þau búa yfir af gæðum, við sama búnað og á sömu járningu. 
 
Sprettfærið
 
Í reglum hefur staðið að lengd brauta fyrir sýningar á kynbótahrossum skuli vera 250–300 metrar. Þessu hefur verið breytt þannig að nú á afmörkuð lengd bara að vera 250 metrar. Rétt er að minna á að nóg er að sýna gangtegundir til fullra afkasta á 150 metra kafla fyrir miðju brautar og þá er nóg að sýna fet, hægt tölt og hægt stökk á 100 metra kafla. Þetta er gert til að stytta sprettfærið, létta verkefnið fyrir hrossin og gera sýnandanum betur mögulegt að hægja hestinn niður, snúa við og undirbúa næstu gangtegund innan 250 metranna. Nauðsynlegt er að halda sig innan 250 metra kaflans til að geta fengið þá einkunn fyrir vilja og geðslag sem sýningin býður upp á. En gott er að minna á þá reglu að sé hestinum riðið endurtekið lengra en afmörkun brautar segir til um, hefur það neikvæð áhrif á vilja og geðslagseinkunn hans, enda eru óþjál hross illa nýtileg í ræktun.
 
Áfrýjun á áverkamati sýningarstjóra
 
Eftir reiðdóm er hrossið skoðað af sýningarstjóra með tilliti til mögulegra særinda eða áverka á fótum og í munni. Þessir áverkar eru stigaðir í þrjá flokka eftir alvarleika og mögulegt hefur verið að áfrýja mati sýningarstjóra á alvarlegustu áverkunum (3. stig) til dýralæknis, en hefur reiðdómur hestsins þá fallið niður og einnig möguleiki á verðlaunum á stórmótum.  Þetta ferli var tekið til umfjöllunar á aðalfundi Félags hrossabænda í haust og ákveðið að áverkaskoðun sýningarstjóra kynbótasýningar skuli framvegis standa og verði ekki áfrýjað.
 
Sýningarnar – skráningar og sýningargjöld
 
Opnað var fyrir skráningu á sýningar­nar 18. apríl en sýningar­áætlunina og skráningafresti á vorsýningarnar má finna inn á vefnum www.rml.is. Hvað sýningargjaldið varðar var nauðsynlegt að hækka það um 5% frá því sem það var í fyrra en einnig hækkaði það gjald sem rennur af hverju sýndu hrossi í WorldFeng úr 8 evrum í 10. Þannig er gjald fyrir fullnaðardóm nú 23.000 kr og gjald fyrir sköpulagsdóm eða reiðdóm 17.600 kr. Skráning og greiðsla fer fram í gegnum netið á síðunni www.worldfengur.com þar sem valið er „skrá hross á kynbótasýningu“. Einnig er hægt að fara inn á heimasíðu Ráðgjafarmiðstöðvarinnar www.rml.is en þar er valmynd á forsíðunni „skrá á kynbótasýningu“. Á sömu heimasíðu undir búfjárrækt/hrossarækt/kynbótasýningar má finna leiðbeiningar um rafræna skráningu á kynbótasýningu.
 
Landsmót
 
Landsmót verður haldið á Hólum í Hjaltadal dagana 27. júní til 3. júlí. Ákveðið var í vetur að hverfa frá einkunnalágmörkum sem hafa ákvarðað þátttökurétt kynbótahrossa á mótinu og hafa þess í stað ákveðin fjölda hrossa í hverjum flokki. Búið er að forrita WorldFeng á þann veg að stöðulisti mun birtast um leið og sýningar byrja í vor með þeim hrossum sem eru inni á mótinu hverju sinni, þannig að eigendur sýndra hrossa geta fylgst með stöðu sinna hrossa. Ákveðið var að ívilna klárhrossum með tölti, líkt og gert var fyrir Landsmót 2014, þegar lágmörk fyrir klárhross voru 10 stigum lægri en fyrir alhliða hrossin. Núna verður um sérstaka sætisröðun að ræða inn á mót, þar sem 10 stigum verður bætt við aðaleinkunn klárhrossa en alhliða hrossin fara í sætisröðun með aðaleinkunnina eins og hún kemur fyrir. Ath. að klár-hross í þessum skilningi hafa einkunnina 5 fyrir skeið í dómi. Fjöldi hrossa sem stefnt er að í hverju flokki má sjá í meðfylgjandi töflu:
 
Fjöldi hrossa sem vinnur sér rétt til þátttöku á mótinu. 
Menntun nýdómara
 
Á ræktunarleiðtogafundi FEIF (Alþjóðasamtök Íslandshestafélaga) í vetur var meðal annars til umræðu málefni sem tengjast menntamálum kynbótadómara, skipun dómnefnda, nafngiftir hrossa og ýmis málefni tengd WorldFeng. Samþykkt var á fundinum að samræma menntunarkröfur til nýrra kynbótadómara en FEIF-löndin hafa gert mismunandi kröfur til sinna dómaraefna í gegnum tíðina. Samræmdar menntunarkröfur hljóma þannig að dómaraefnin þurfa að búa yfir BSc menntun í búvísindum, hestafræðum eða dýralækningum og hafa m.a. þekkingu á erfða- og kynbótafræði, byggingu hrossa og atferlisfræði. Þá þurfa tilvonandi dómarar að hafa reynslu og hæfni í reiðmennsku. Til að tryggja viðunandi hæfni í reiðmennsku verður prófið sem lagt er fyrir dómaraefnin tvískipt í framtíðinni og mun innihalda bæði mat á hrossum og einnig reiðpróf sem er ætlað að sýna fram á hæfni þeirra í reiðmennsku. Er þetta afar mikilvægt skref sem ræktunarleiðtogar FEIF-landanna vilja nú stíga og mun tryggja þekkingu kynbótadómara og fagmennsku til framtíðar. 
 
Skipan dómnefnda
 
Þá var einnig samþykkt á sama fundi að endurskipuleggja skipan formanna í dómnefndir kynbótasýninga um heim allan. Það verður gert á þann veg að skipaður verður hópur 10-12 dómara til að gegna formennsku í hverri dómnefnd og mun valið byggja á reynslu þeirra og þekkingu. Þessi hópur er skipaður til tveggja ára í senn og verður valin af kynbótadómaranefnd FEIF. Þetta er stórt skref í átt að enn betra samræmi í dómstörfum á milli sýninga og landa og tryggir viðunandi reynslu í hverri dómnefnd. Þetta verður til viðmiðunar árið 2016 en reglan árið 2017. 
 
Nafngiftir hrossa
 
Einnig var rætt um nafngiftir hrossa en ákveðið var að öll FEIF-löndin sameinist um að halda í þá hefð að skíra íslensk hross íslenskum nöfnum. Það er reyndar í gildi sú regla fyrir skráningar í WorldFeng að nöfn hross skulu samræmast íslenskri nafnahefð en ákveðið var að herða aðhaldið í kringum þessi mál og er það ekki síst hér á landi sem þess er þörf. Í WorldFeng er nafnabanki með fleiri þúsund nöfnum sem sífellt er í vinnslu og verið að bæta góðum og gildum nöfnum þar inn. Við grunnskráningu hrossa í heimarétt er hægt að skrá nöfn sem eru í nafnabankanum en ef þau eru ekki þar þurfa skrásetjarar WorldFengs að sjá um skráninguna. Þar er því ákveðin sía en gildum nöfnum sem hugmynd kemur um verður svo bætt jafn óðum í bankann. 
 
 
 
Miklar framfarir hafa átt sér stað á síðastliðnum áratugum í ræktun íslenska hestsins en við verðum að halda ótrauð áfram, enda er metnaður í vali á foreldrum næstu kynslóðar lykilatriði, hvort sem um er að ræða hagkvæmni og árangur í rekstri á hrossaræktarbúi eða þá gleði sem áhugafólkið væntir af sinni ræktun. Kynbótadómurinn þarf í framtíðinni að verða hluti af ferlinu með fleiri hross, hvort sem um er að ræða hross sem ætlunin er að nýta til undaneldis, í keppni eða til frístundaútreiða. Of hátt hlutfall hryssna sem notaðar er til ræktunar hér á landi eru ósýndar, eða um helmingur, en það er bæði til hagsbóta fyrir ræktandann og kerfið í heild að þetta hlutfall lækki. Þá er um að gera fyrir ræktendur að nýta kynbótadóminn meira við mat á hrossum sem ætlunin er að selja sem keppnishross. Kynbótadómurinn er afar góður mælikvarði á getu hrossa í keppni síðar meir og hægt að koma fram með hrossin fyrr og minna tamin í kynbótadóm en keppni. Það er því til hagsbóta fyrir ræktandann að koma með þessi hross í kynbótadóm í þeim tilgangi að fá mat á hrossin sem stendur með þeim í sölu. Þá þarf kynbótadómurinn einnig að virka betur sem mat á hestinum sem ætlunin er að selja sem reiðhest og þar þarf að taka dómkerfið til endurskoðunar til framtíðar. Stefnan er sem sagt að fá fleiri hross til dóms og þá þurfa ræktendur líka að sjá sér hag í því að sýna fleiri hestgerðir og nýta sér þessa þjónustu sem Ráðgjafarmiðstöðin býður upp á – það er spennandi verkefni. 
 
Við hjá RML hlökkum til kynbótasýninga vorsins og væntum góðs samstarfs við ræktendur, eigendur hrossa og sýnendur, nú sem endranær.
 
/Þorvaldur Kristjánsson
 
 
Umráðamaður hrossa
Nú hefur verið bætt inn nýrri skráningu í WorldFeng, upprunaættbók íslenska hestsins, en það er skráning á umráðamanni hvers hests. 
 
Samkvæmt nýlegum reglum Evrópusambandsins um hestahald (framkvæmdarreglugerð (EU) nr. 2015/262) og vegna þess að WorldFengur virkar sem rafrænt hestavegabréf hér að landi er nauðsynlegt að taka upp skráningu á umráðamanni hrossa. Umráðamaður hestsins er alltaf einn aðili og er í raun umsjónarmaður hestsins. Umráðamaður er í flestum tilvikum sami aðili og skráður eigandi en vegna eftirfarandi þátta þarf að skerpa á þessu:
 
Ef margir eru skráðir eigendur þá þurfa eigendur að senda inn tilkynningu um skráningu á einum umráðamanni (Enginn er skráður umráðamaður hrossa í eigu fleiri en eins aðila fyrr en eigendur hafa sent inn tilkynningu, eða skráð í heimarétt, hver sé umráðamaður hrossins).
 
Ef skráður eigandi er undir lögaldri – Þá þarf einnig að senda inn tilkynningu um skráningu á umráðamanni.
 
Ef eigandi er ekki staðsettur í sama landi og hrossið – t.d. útlendingar sem eiga hross hér á landi.
Rétt er að taka fram að ef um eigendaskipti er að ræða á hestinum, verður hinn nýji eigandi sjálfkrafa skráður umráðamaður ef atriðin að ofan eiga ekki við. 
 
Þá verður það á ábyrgð umráðamanns að skila inn skýrsluhaldsupplýsingum á hverju hausti. Í því felst að skrá eða bera ábyrgð á skráningu um afdrif hrossa, fyljun og folaldaskráningu þeirra hrossa sem umráðamaður hefur umráð yfir. Jafnframt verður gert auðveldara að skila inn haustskýrslu til Matvælastofnunar í gegnum heimarétt WorldFengs og verður það á ábyrgð umráðamanns. Með þessu móti er best tryggt að gert sé rétt grein fyrir öllum hrossum í landinu við búfjáreftirlit í samræmi við lög um búfjárhald.
 
Rétt er að undirstrika ábyrgð umráðamanns í samræmi við lög og reglur þar um. Þannig ber umráðamaður ábyrgð á umhirðu hestsins, fóðrun, einstaklingsmerkingu og er tengiliður sem haft er samband við vegna fyrrgreindra atriða. Rétt er að benda á að umráðamaður getur ekki sýslað með hestinn að öðru leyti (haft til dæmis eigendaskipti á hestinum eða sett í sláturhús) nema hann sé einnig skráður eigandi.  
 
Þorvaldur Kristjánsson,
ábyrgðarmaður hrossaræktar hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins
 
Sigríður Björnsdóttir,
sérgreinadýralæknir hrossasjúkdóma
hjá Matvælastofnun
 
Jón Baldur Lorange,
framkvæmdastjóri búnaðarmálaskrifstofu MAST

 

Nægjusemi í nóvember
Fréttir 13. nóvember 2024

Nægjusemi í nóvember

Landvernd og Grænfánaverkefnið standa fyrir átakinu Nægjusamur nóvember.

Vilja harðfisk á lista UNESCO
Fréttir 13. nóvember 2024

Vilja harðfisk á lista UNESCO

Slow Food Reykjavík vinnur að því að fá vinnsluhefðir tengdar harðfiski og skrei...

Stefnt að loftslagsvænstu landbúnaðarafurðum heims
Fréttir 13. nóvember 2024

Stefnt að loftslagsvænstu landbúnaðarafurðum heims

Ragnheiður Björk Halldórsdóttir, iðnaðarverkfræðingur og sjálfbærniráðgjafi, lei...

Skrefagjald innleitt
Fréttir 13. nóvember 2024

Skrefagjald innleitt

Ísafjarðarbær hefur ákveðið að innheimta svokallað skrefagjald vegna sorphirðu.

Sjónum beint að fiskauganu
Fréttir 12. nóvember 2024

Sjónum beint að fiskauganu

Ekki hefur enn fundist flötur á því hér á Íslandi að nýta fiskaugu sérstaklega ú...

Ný Hrútaskrá og hrútafundir
Fréttir 12. nóvember 2024

Ný Hrútaskrá og hrútafundir

Von er á prentaðri útgáfu Hrútaskrárinnar mánudaginn 18. nóvember, þar sem 54 sæ...

Litafjölbreytni og æði skrautleg litaheiti
Fréttir 12. nóvember 2024

Litafjölbreytni og æði skrautleg litaheiti

Í íslenska sauðfjárstofninum finnast ótal litaafbrigði sem Karólína Elísabetardó...

Hækkun á minkaskinnum
Fréttir 12. nóvember 2024

Hækkun á minkaskinnum

Björn Harðarson, formaður deildar loðdýrabænda hjá Bændasamtökum Íslands, segir ...