Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Kvægkongres 2019. Bóndin og stjórnarformaður Landssamband kúabænda í Danmörku, Christian Lund.
Kvægkongres 2019. Bóndin og stjórnarformaður Landssamband kúabænda í Danmörku, Christian Lund.
Mynd / Landbrugsavisen
Fræðsluhornið 8. apríl 2019

Kvægkongres 2019

Höfundur: Snorri Sigurðsson, snsig@arlafoods.com
Hið árlega og þekkta Kvæg­kongres var haldið á dögunum í Herning í Danmörku og venju samkvæmt var um blandaða ráðstefnu að ræða, þ.e. bæði aðalfund þarlendra kúabænda og svo fagþing dönsku naut­griparæktarinnar. 
 
Það er alltaf jafn áhugavert að fylgjast með því sem er að gerast í Danmörku á sviði mjólkurframleiðslu og nau­t­gripa­ræktar, enda leiða danskir kúabændur aðra evrópska kúa­bændur þegar horft er til ýmissa atriða sem lúta að búskapnum s.s. varðandi bústærð, afurðasemi kúa, lágt sótspor (kolefnisfótspor) framleiðslunnar og svo mætti lengi telja.
 
Setja sér skýr markmið
 
Rétt eins og Landssamband kúabænda hefur gert hér á landi þá hafa danskir kúabændur markað sér skýra stefnu sem er bæði ætluð til skemmri og lengri tíma. Þetta kom m.a. fram í máli stjórnarformannsins og kúabóndans Christian Lund og framkvæmdastjóra sambandsins, hennar Idu Storm. Þau fóru yfir markmið samtakanna en sum þeirra eru skammtíma­markmið þ.e. eiga að vera komin til framkvæmda innan tveggja ára, en önnur eru markmið sem tekur lengri tíma að ná.
 
Stefna á 12 tonn eftir kúna
 
Til skemmri tíma litið hefur stefnan verið sett á að meðalafurðir danskra kúa verði enn meiri en nú, en Holstein kýr í hefðbundinni mjólkurframleiðslu skila í dag um 11.400 kílóum af mjólk á ári. Markmiðið er að ná 12 tonna meðalnyt innan fárra ára en aðalhvatinn að því að auka nytina er lægra sótspor framleiðslunnar en því hærri sem meðalnytin er, því lægra er fótsporið á hvert framleitt kíló mjólkur. Sömu rök gilda um nautakjötsframleiðsluna en þar er stefnan sett á enn meiri daglegan vöxt gripa en nú er. Af öðrum markmiðum sem kalla má skammtímamarkmið er að berjast fyrir aukinni þátttöku ungs fólks í landbúnaði með því að gera kúabúskap áhugaverðari fyrir yngri kynslóðina.
 
Ætla að draga úr sýklalyfjanotkun
 
Sambandið hefur sett það sem markmið að draga úr notkun á sýklalyfjum í bæði mjólkur- og kjötframleiðslu. Reyndar hefur sýklalyfjanotkun í mjólkurframleiðslu dregist saman um rúm 12% á síðustu tveimur árum í kjölfar átaks þar að lútandi í Danmörku en á sama tíma hefur sýklalyfjanotkun í nautakjötsframleiðslu aukist. Nú ætla þarlendir kúabændur að setja notkun sýklalyfja sérstaklega á oddinn og stefna að því að draga verulega úr notkuninni þó svo að notkun danskra kúabænda sé langtum minni en t.d. kúabænda sunnar í Evrópu, svo ekki sé nú talað um Asíu.
 
„Aukin afköst er lausnin“
 
Í setningarræðu sinni lagði Christian Lund sérstaka áherslu á að danskir kúabændur yrðu að auka afköst sín enn frekar en nú er! Það er áhugavert að heyra enda eru engir bændur í heiminum í dag jafn afkastamiklir og hinir dönsku kúabændur, þegar horft er til framleiðslu á mjólk á hverja vinnustund. 
Uppgjör ráðgjafa­miðstöðvar­innar SEGES sýnir hins vegar að því meiri sem afköstin eru, því betri er efnahagur búanna og því eru bændurnir hvattir til þess að gera sitt til þess að auka meðalafurðir kúnna enn frekar og skoða allar færar leiðir til þess að draga úr vinnuþörf á búunum. 
 
Hann nefndi sem dæmi að með því að auka afköstin um 2% á hefðbundnum kúabúum í mjólkurframleiðslu þá myndu bændurnir ná betri afkomu en ef t.d. allur eignaskattur á land í Danmörku og skattar og gjöld á plöntu­varnarefni yrðu afnumin. Staðan væri þó þannig að margir bændur horfðu hins vegar mikið á skattana og kostnaðinn við plöntuvarnar-efnin, en spáðu etv. ekki nógu mikið í því hvernig þeir standa að framleiðslunni á búum sínum. Áhugaverð nálgun hjá formanninum. Hann tók þó skýrt fram að samtökin ætla áfram að berjast fyrir því að fella niður eignaskattinn á land og losa um álögur á plöntu-varnarefni, enda væri Danmörk með hærri álögur hvað þetta snertir en flest lönd í Evrópu.
 
„Of mikið listrænt frelsi“
 
Christian benti á að í dag væri staðan þannig í Danmörku að kúabændur hefðu allt of mikið „listrænt frelsi“ eins og hann orðaði það og útskýrði með því að t.d. væri fóðrun geldkúa ótrúlega breytileg á milli kúabúa, sem og hvernig staðið væri að uppeldi á kálfum og fleira mætti nefna. Fyrir lægju upplýsingar og rannsóknir sem sýna nokkuð ítarlega hvernig best sé að standa að þessu til að ná hámarks árangri en fyrst bændur geti leyft sér að gera þetta með afar ólíkum hætti segi það eingöngu að það sé töluvert svigrúm til að bæta reksturinn og afkomuna.
 
Umhverfisvænni framleiðsla
 
Dönsku samtökin hafa ákveðið að stefna á mun umhverfisvænni framleiðslu en nú er og raunar að leggja sérstaka áherslu á umhverfismál og með því að verða leiðandi í Evrópu á þessu sviði. Þetta endurspeglast m.a. í áherslum afurðafyrirtækjanna Danish Crown, sem er í slátrun og vinnslu, og Arla Foods Amba, sem er í mjólkurframleiðslu. Bæði þessi félög, sem eru í eigu bænda, hafa ákveðið að í síðasta lagi árið 2050 verði ekkert sótspor af starfsemi félaganna hvort heldur sem er við frumframleiðslu, vinnslu eða sölu. Afar metnaðarfullt skref sem mun krefjast bæði mikillar vinnu við rannsóknir, þróun, kynbætur og meira mætti taka til. 
 
Athygli vekur að þessi ákvörðun er tekin af búgreininni sjálfri og afurðafélögum bænda en ekki af stjórnvöldum eða opinberum aðilum. Sýnir á margan hátt metnaðinn sem að baki býr. Nú þegar státa Danir af því að vera með umhverfisvænstu mjólkurframleiðslu og næst umhverfisvænstu nautakjöts-framleiðslu Evrópu svo e.t.v. verður þeirra vinna heldur minni en annarra þjóða sem e.t.v. ákveða að taka sömu ákvörðun.
 
Of mikið um slys
 
Í yfirliti þeirra Christian og Idu kom einnig fram að þar í landi hafa menn áhyggjur af of tíðum alvarlegum slysum í landbúnaði, en á liðnum árum má rekja 42% alvarlegra slysa í landbúnaði til meðhöndlunar á nautgripum og ekki nema 19% slysa megi rekja til vinnu við vélar og 13% vegna falls með einhverjum hætti. 
 
Danskir kúabændur voru því á fundinum hvattir til þess að setja forvarnir á dagskrána enda þykir víst að koma megi í veg fyrir mörg hinna alvarlegu slysa með fræðslu einni saman.
 
Engin aflílfun ungkálfa eftir 2021!
 
Ein af áhugaverðari markmiðs­setningum hinna dönsku samtaka nautgripabænda er að frá og með áramótunum 2022 verði enginn kálfur aflífaður nema vegna dýravelferðar. Þetta kann að hljóma einkennilegt markmið en tilfellið er að meðal kúabænda með Jersey kýr er það í dag frekar algengt að nautkálfar eru aflífaðir í stað þess að setja þá á til kjötframleiðslu vegna slakrar vaxtargetu. Notkun á Jersey er nokkuð algeng í Danmörku og skýrir það þetta markmið. Þess má geta í þessu sambandi að svokölluð ungkálfaslátrun er næsta óþekkt fyrirbæri í Danmörku.
 
Ida Storm, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda í Danmörku. 
 
Hagnaður en þurrkurinn hafði áhrif
 
Í erindi sínu komu þau Ida og Christian að sjálfsögðu inn á rekstrartölur úr danskri nautgriparækt en nú liggur fyrir uppgjör síðasta árs og kom fram að þurrkasumarið mikla síðasta sumar hafi veruleg áhrif á rekstur margra kúabúa vegna minni og lélegri uppskeru. Utan Danmerkur er oft talað um erfiða stöðu þarlendra kúabúa og að mörg dönsk kúabú séu afar skuldsett og það er rétt. Hins vegar er ekki oft talað um rekstur búanna en tilfellið er að þrátt fyrir skuldsetningu margra búa þá hefur rekstur þeirra að jafnaði gengið afar vel og það þrátt fyrir lágt afurðastöðvaverð á köflum. Skýringin felst fyrst og fremst í miklum meðalafurðum kúnna og bústærðinni en dönsku kúabúin eru að jafnaði með um 210 árskýr núna.
 
Samkvæmt rekstraruppgjöri frá 148 kúabúum í Danmörku vegna ársins 2018, sem þau Christian og Ida greindu frá, dróst meðalhagnaður búanna saman á milli ára en árið 2017 var hann 1,5 milljónir danskra króna eða um 27 milljónir íslenskra króna. Í fyrra var hagnaðurinn mun minni, eða um 14 milljónir íslenskra króna. Þess ber að geta að danska uppgjörið tekur ekki tillit til launa eigenda þannig að þeirra laun eru hluti af framangreindum hagnaði. 
 
Að loknum aðalfundi samtakanna var fagþingið sjálft sett en alls var flutt 71 erindi í níu mismunandi málstofum á þessu tveggja daga fagþingi. Erindin náðu yfir afar fjölbreytt efni og voru mörg þeirra einkar fróðleg. Í næstu tveimur Bændablöðum verður gerð nánari grein fyrir mörgum af þeim erindum sem flutt voru á því fagþingi.
 
Landssamband kúabænda í Danmörku hefur sett það sem markmið að draga úr notkun á sýklalyfjum í bæði mjólkur- og kjötframleiðslu. 
Jóhannes Hreiðar ráðinn framkvæmdastjóri
Fréttir 8. desember 2022

Jóhannes Hreiðar ráðinn framkvæmdastjóri

Auðhumla hefur ráðið Jóhannes Hreiðar Símonarson framkvæmdastjóra Auðhumlu svf.

Gátu ekki gert grein fyrir rúmlega 81.000 löxum
Fréttir 8. desember 2022

Gátu ekki gert grein fyrir rúmlega 81.000 löxum

Matvælastofnun hefur lagt stjórn­valdssekt á Arnarlax ehf. upp á 120 milljón kró...

Dominique kveður eftir rúm 20 ár í stjórn
Fréttir 7. desember 2022

Dominique kveður eftir rúm 20 ár í stjórn

Talsverðar breytingar urðu á stjórn samtakanna Slow Food Reykjavík á aðalfundi þ...

Fjármunir til frekari þróunar á smáforriti
Fréttir 7. desember 2022

Fjármunir til frekari þróunar á smáforriti

Íslenska nýsköpunarfyrirtækið HorseDay rekur samnefnt smáforrit um flest allt se...

Framleiðsla á krefjandi tímum
Fréttir 6. desember 2022

Framleiðsla á krefjandi tímum

Fyrir skemmstu komu tveir fulltrúar frá landbúnaðartækjaframleiðandanum Kuhn í h...

Samvinna möguleg
Fréttir 6. desember 2022

Samvinna möguleg

Á Matvælaþingi matvælaráðuneytisins í Hörpu 22. nóvember flutti gestafyrirlesari...

Gúrkuútflutningur hefur fest sig í sessi
Fréttir 6. desember 2022

Gúrkuútflutningur hefur fest sig í sessi

Útflutningur á íslenskum gúrkum til Grænlands og Færeyja virðist hafa fest sig í...

Notkun á„lambatöflum“ mjög algeng á Íslandi
Fréttir 5. desember 2022

Notkun á„lambatöflum“ mjög algeng á Íslandi

Þrír starfsmenn Matvælastofnunar vekja athygli á nýjum lögum um dýralyf, í grein...