Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Klofningurinn í dag.
Klofningurinn í dag.
Mynd / HKr.
Skoðun 24. maí 2016

Kröfur um þjóðlendur í Dölum −1. hluti

Höfundur: Dr. Einar G. Pétursson
Dr. Einar G. Pétursson, rannsóknarprófessor emeritus við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, ritar hér athugasemdir við kröfur fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkisins um þjóðlendur í Dölum. Einar hefur lengi haft áhuga á eignum kirkna og þjóðlendumálum, en sjálfur er hann úr Dölum og telur að þessi mál snerti mjög hagsmunamál bænda.
 
Þann 18. febr. 2016 birtust loks „Kröfur fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkisins um þjóðlendur á svæði 9A Dalasýsla.“ Þetta var orðin nokkuð löng meðganga, því að fyrst áttu „Kröfur“ að birtast 18. des. 2014. Krafist er að 13 landsvæði í Dalasýslu verði gerð að þjóðlendum. Hér verður ekki fjölyrt um upphaf á „Kröfum“, en fyrst verður rætt um 3. kafla, þótt meira mætti um hann segja. Aftur á móti verður eðlilega fjallað mest um 4. og 5. kafla. 
 
Um 3. kafla. Nánar um kröfusvæði (s. 17–25)
 
Heimildir um landnám. Fyrir misskilning er búinn til nýr landnámsmaður, í Kröfum s. 19 stendur: „Að ráði Steinólfs heljarskinns, nam Sléttu-Björn land í Saurbæ“. Um Auði djúpauðgu í Hvammi segir Sturlubók Landnámu: „ … nam öll Dalalönd í innanverðum firðinum frá Dögurðará til Skraumuhlaupsár.“ Þetta er algjört meginatriði; landnám hennar náði svo vítt sem vötn deila, en ekki er sá skilningur í Kröfum. Að því verður vikið síðar. 
 
Afréttarmál
 
Kaflinn er aðeins tilvitnanir í útgáfu mína á Sýslu- og sóknalýsingum Dalasýslu frá árinu 2003, en ekki er getið um hvenær var skrifað, hver skrifaði og um hvaða svæði var í raun fjallað, sem getur verið villandi. Ég hef áður ritað um fjallskil í Dölum, sbr. grein mína í ritgerðasafninu Hulin pláss, s. 217. Niðurstaðan er skýr, fjallskil í Dölum og um allt land, eins og þau tíðkuðust á 19. og 20. öld, hefjast á fyrri hluta 19. aldar. Þess vegna er heimildarlaust að leggja eitthvað upp úr fjallskilum í dómum um eignarhald.
 
Um 4. og 5. kafla. Einstök kröfusvæði, jarðir og svæði sem liggja að þeim; Röksemdir fyrir kröfulínum (s. 25−110)
 
Farið er í boðleið yfir þau svæði í Dalasýslu sem krafist er að verði þjóðlendur. Ekki verður fjallað sérstaklega um kröfusvæðin heldur athugaður 5. kafli: „Röksemdir fyrir kröfulínum“ og fremst er „5.1. Almennt.“ Talið er að svæðin sem krafa er gerð til „teljist landsvæði utan eignarlanda“, en „kunni einstaklingar og lögaðilar að eiga þar takmörkuð eignarréttindi, …afréttareign.“ Mörg svæði sem krafist er að verði þjóðlendur eru fráskilin öðru landi þeirra jarða sem til þessa hafa óefað verið eign þeirra. Ekki er dregið í efa að lönd í kringum kröfusvæðin hafi verið numin beinum eignarrétti. Torskilið er hvers vegna svæði fá aðra eignarréttarlega stöðu, ef svæðið er fráskilið öðru landi jarðarinnar, þ. e. land er ekki samhangandi. Eru einhver söguleg og lagaleg rök fyrir mismunandi eignarhaldi þegar svo háttar til, eða er þetta aðeins að geðþótta þess sem kröfurnar samdi?
 
Síðan segir að ekki hafi land (s. 80) „innan þjóðlendukröfulínu … verið numið í öndverðu með þeim hætti að beinn eignarréttur hafi stofnast.“ Því til stuðnings er m. a. stuðst við „túlkun landnámslýsinga“, en sá skilningur er í meira lagi hæpinn. Síðan segir að kröfusvæðin „hafi ekki verið numin þannig að beinn eignarréttur hafi stofnast heldur hafi þau verið numin til takmarkaðra nota eða þá, hafi beinn eignarréttur stofnast í öndverðu á svæðunum eða hluta þeirra, að sá eignarréttur hafi fallið niður og menn farið að nýta svæðin óáreittir sem beitarsvæði, einkum fyrir sumarbeit fyrir sauðfé.“ Torvelt er að skilja hvernig eignarréttur breytist með breyttri notkun. Hér eru komin hugtökin afréttareign og afnotanám. 
 
Afréttareign, afnotanám og fleiri nýyrði
 
Að framan gat að í Kröfum er lagt mikið upp úr fornum heimildum, Landnámu. Því hefði mátt ætla að fornar og traustar heimildir ættu að vera fyrir hugmyndum um takmörkuð eignarréttindi á afréttum, afréttareign, og landsvæði hafi verið numin til takmarkaðra nota, afnotanám. Þessi orð eru hvergi finnanleg í neinum orðabókum. Heimildanotkunin er ekki traustvekjandi, fyrst lagt er mikið upp Landnámu, hún túlkuð einkaskilningi lögfræðinga, og síðan notuð nýyrðin „afréttareign“ og „afnotanám“ sem ekki eru fyrir nein einustu lagaleg og söguleg rök. 
 
Ragnar Aðalsteinsson lögfræðingur birti árið 2014 greinina „Eign og afréttur“ í Árbók lagadeildar Háskólans á Akureyri. Í upphafi (s. 86) segir hann: „Engar lögfræðilegar greinargerðir um eignarrétt að landi byggðar á ítarlegum rannsóknum hafa birst opinberlega á síðari árum.“ Slíkar greinargerðir hefðu þó átt að vera upphaf og grundvöllur starfa óbyggðanefndar og vinnast áður en fyrstu kröfur voru gerðar. Þessi vinnubrögð minna á það sem stendur á s. 112 í sóknalýsingu Skarðsþinga (Sýslu- og sóknalýsingar Dalasýslu) eftir séra Friðrik Eggerz: „Í Klofningsréttinni voru í gamla daga hengdir sauðaþjófar, og fyri fáum árum flæktust þar bein í réttinni undir skúta af einum þeirra, hét sá Ketill, en eftir dauða hans áttu sauðir þeir að hafa fundist er hann var um kærður.“ Meginhugmyndin í ritgerð Ragnars er (s. 88):
… að hugmyndin um ríkis- eða almannaeign á afréttum sé síðari tíma hugsmíð og sama eigi við um að afréttarland hafi aðeins verið numið „afnotanámi“, en „grunneignarrétturinn“ skilinn eftir af óútskýrðum ástæðum. Hér verður því haldið fram að kenningar þessar eigi sér ekki stoð í sögulegum eða réttarlegum heimildum. (leturbreyting EGP)
IX. hluti greinar Ragnars Aðalsteinssonar (s. 127) nefnist: „Nánar um hugtökin „afréttareign“, „afnotanám“ og „samnotaafrétt“.“ Þessi nýyrði hafa verið búin til og notuð sem vopn í deilum um afrétti. Í greinargerð — hún er ekki til á prenti — eftir Þórð Eyjólfsson frá því í sept. 1970 Um afrétti og réttindi, sem afréttareign fylgja sagði (s. 1): „Réttur til afrétta hefur einnig upphaflega orðið til með afnotanámi á landi, sem hvorki var háð eignarrétti einstaklinga né ríkis.“ Síðan sagði í greinargerð Þórðar (s. 2): „Orðið eign er hér, eins og tíðkazt hefur, notað bæði um beinan og óbeinan eignarrétt, þar á meðal afnotaréttindi, sbr. afréttareign og afréttareigandi.“ Ragnar fullyrti (s. 129) að Hæstiréttur hafi í dómi nr. 193/1970 (Reyðarvatn II) sókt nýyrðið „afréttareign“ í greinargerð Þórðar. Síðan segir Ragnar: „Þarna birtst líklega í fyrsta skipti orðið afréttareign í merkingunni afnotaréttindi í einskis manns landi.“ Hvorki Þórður Eyjólfsson né Hæstiréttur skýra merkingu hugtaksins neitt, sem varla getur talist til fyrirmyndar. Áfram rakti Ragnar orðanotkunina (s. 131). Í dómum um Auðkúlu- og Eyvindarstaðaheiði sagði Hæstiréttur „að hin umdeildu landsvæði séu afréttareign eiganda heimalands Auðkúlu og Eyvindarstaða „í þeim skilningi, að aðrir hafi átt þar rétt til upprekstrar á landið og ef til vill annarra nota ...“.“ Loks segir Ragnar, sem fyllsta ástæða er til að taka undir og bæta við sögulegum rannsóknum: 
Ályktanir fræðimanna verða því aðeins lagðar til grundvallar dómum, að þær séu byggðar á fræðilegum rannsóknum og studdar fræðilegum og sannfærandi rökum. Ekki eru fyrir hendi neinar lögfræðilegar rannsóknir, sem uppfylla nefnd skilyrði. Með greindum Hæstaréttardómum var þó lagður grundvöllur að þjóðlendulögunum frá árinu 1998.
 
Beinn og óbeinn eignarréttur
 
Torvelt er að átta sig á því hvað óbyggðanefnd meinar með óbeinum eignarrétti. Fyrstur til að móta hugmyndir um óbeinan og beinan eignarrétt var Ólafur Lárusson lagaprófessor í bók sinni Eignarréttur frá 1950, en áður var talað um takmarkaðan eignarrétt. Í bók Ólafs segir um beinan og óbeinan eignarrétt (s. 14): 
 
„Hins síðarnefnda eignarréttar [þ. e. beins eignarréttar] nýtur eigandinn beint, þ. e. án milligöngu annarra manna. Hins óbeina eignarréttar nýtur rétthafinn aðeins óbeinlínis, í skjóli réttar annars manns. Óbeinu eignarréttindin eru aðeins hlutdeild í víðtækari rétti annars manns."
 
Hér hlýtur spurningin að vera fyrst kirkjur og jarðir eiga aðeins óbein eignar-réttindi á afréttum, og er þá talað um afréttareign, hver á þá bein eignarréttindi á sama landsvæði? Var ekki lengur þörf á því að halda því fram að einhver ætti land beinum eignarrétti, eftir að búið var að finna upp hugtakið afréttareign.
 
Flekkudalur 
 
Umfjöllun í Kröfum um Flekkudal á Fellsströnd er dæmi um ótraust vinnubrögð, en krafist er að hann verði þjóðlenda. Flekkudalur er stærsta svæðið sem krafa er gerð um í Dölum, en hitt eru aðeins dreifðir smáblettir, „kollublettir“. Hver er ávinningurinn af þessu? Ég hef lengi rannsakað tiltækar heimildir um Flekkudal, m. a. mjög að hvatningu Friðjóns Þórðarsonar, sýslumanns og dómsmála-ráðherra. Grein um Flekkudal er í Hulin pláss. Rannsóknir á Flekkudal og aðrar þar í framhaldi hafa sannfært mig um að sögulegur grundvöllur krafna ríkisins um þjóðlendur er ekki til. 
 
Í Kröfum stendur að Flekkudalur (s. 107): „sé svæði utan eignarlanda og teljist því þjóðlenda. Ljóst sé af heimildum um svæðið og landfræðilegum aðstæðum að svæðið hafi aldrei verið undirorpið beinum eignarrétti og nýting þess hafi ekki verið með þeim hætti.“ Þessi fullyrðing er röng og ekki í samræmi við heimildir. Í Sturlungu (1946 I. 64) er þess getið að húskarl á Staðarfelli hafi grætt „fé, þar til er hann keypti land og gerði bú í Flekkudal.“ Húskarlinn fóstraði son bóndans á Felli, Sturlu Þórðarson síðar bónda í Hvammi, ættföður mestu ættar síns tíma, Sturlunga, sem öldin er kennd við. Sturla var fæddur 1116 svo að hann var þar í fóstri í kringum 1120. Fáar heimildir eru um sölu jarðeigna frá þessum tíma. Um 1120 bjó á Skarði á Skarðsströnd Húnbogi Þorgilsson og þar hefur sama ættin verið samfellt síðan, en ekki er vitað hvernig jörðin komst í eigu ættarinnar frá afkomendum Geirmundar heljarskinns. 
 
Augljóst er að Flekkudalur hefur um miðjan fyrra hluta 12. aldar verið undir beinum eignarrétti. Samkvæmt máldaga Staðarfellskirkju frá 1354 átti Staðarfell þá Örnólfur Jónsson og seldi hann jörðina Guttormi syni sínum og var bréf gert þar um 1385, sem til er í frumriti. Þar stendur að Staðarfell eigi „allan Flekkudal með afrétt sem vatnföll deila norður á fjöll og að fornu hefur fylgt.“ Hér kemur fram að bæði landið og beitarrétturinn er í eigu Staðarfells. Í bréfinu kemur fram að Flekkudalur hafi fylgt Staðarfelli áratugi, jafnvel aldir, og þar stendur: „En milli Hallsstaða og Staðarfells eignar í Flekkudal skal ráða lækur fyrir ofan hól er ofan fellur úr Leyningum upp á fjall og fram í á.“ Ekki er hægt að skilja þessar heimildir öðruvísi en svo að Flekkudalur hafi verið eign Staðarfells um 1120 og undir lok 14. aldar. Augljóst er af sögn Sturlungu og rústum eyðibýla að Flekkudalur hefur verið byggður snemma á öldum og því augljóst að rangt er í Kröfum að hann hafi aðeins verið notaður sem afrétt, því eigi við „nýyrðið afréttareign“. Á Flekkudal hefur verið byggð og svæðið sannanlega undir beinum eignarrétti samkvæmt „hugmyndum“ óbyggðanefndar. 
 
Í plani til Jarðabókar 1703 var talað um eyðibýli og þar segir (Jarðabók Árna og Páls. Fylgiskjöl. XIII. s. 42): „Similiter [þ. e. á sama máta] þar fleiri en eitt eyðibýli standa í sveitum eða afdölum, svo þar af merkja er, að nokkur eða mikill partur sveitarinnar muni eyðst hafa, ex. gr. [t. d.] ... í Flekkudal á Fellsströnd.“ Þetta var samið 1702 og komið frá Árna Magnússyni sem var fóstursonur prestsins sem þjónaði Staðarfelli. Samkvæmt þessu hafa um 1700 verið kunnar sagnir um mikla eyðibyggð á Flekkudal.
Einnig stendur ranglega í Kröfum „heimaland kirkjunnar að Staðarfelli er landfræðilega aðskilið frá þjóðlendukröfusvæðinu.“ Á Staðarfelli var alltaf bændakirkja ekki staður, beneficium, þótt kirkjan ætti í heimalandi og eyjar, því er ekki hægt að tala um „heimaland kirkjunnar á Staðarfelli.“ Svo er að skilja að Flekkudalur skuli gerður að þjóðlendu af því hann er landfræðilega frá slitinn öðru landi Staðarfells. Um Flekkudal stendur í Jarðabók Árna og Páls (VI. 104): „Selstaða á Flekkudal, sem kallaður er heimaland jarðarinnar“. Síðar stendur um eyðibýlið Staðarbakka á Flekkudal, þar sem selið var, að þar sjái (VI. 106) „til túngarða og tóftarústa. … Kann að sönnu að byggjast á sinn máta, …, að sel heimajarðarinnar væri flutt lengra fram í dalinn.“ Segir þetta ekki að eigandi Staðarfells hafði fullan eignarrétt á Flekkudal en ekki „takmörkuð réttindi“? Deginum ljósara er að kröfur eru gerðar að geðþótta.  

7 myndir:

Skylt efni: þjóðlendur

Sama sláturhús sektað þrisvar
Fréttir 17. maí 2024

Sama sláturhús sektað þrisvar

Matvælastofnun (MAST) hefur þrisvar sinnum á þessu ári lagt stjórnvaldssekt á sv...

KS hagnaðist um 5,5 milljarða króna
Fréttir 17. maí 2024

KS hagnaðist um 5,5 milljarða króna

Hagnaður Kaupfélags Skagfirðinga af rekstri félagsins á árinu 2023 reyndist rúml...

Vorverkum bænda seinkar
Fréttir 16. maí 2024

Vorverkum bænda seinkar

Veturinn sem leið var sá kaldasti frá vetrinum 1998 til 1999, samkvæmt tíðindum ...

Riðuveiki útrýmt innan 20 ára
Fréttir 16. maí 2024

Riðuveiki útrýmt innan 20 ára

Landsáætlun um riðuveikilaust Ísland hefur verið sett í samráðsgátt stjórnvalda.

Kornþurrkstöð reist í Eyjafirði
Fréttir 16. maí 2024

Kornþurrkstöð reist í Eyjafirði

Grunnur undir kornþurrkstöð í Eyjafirði er nú að taka á sig mynd í landi Laugala...

Mjólkurframleiðendur fá arðgreiðslu
Fréttir 16. maí 2024

Mjólkurframleiðendur fá arðgreiðslu

Kúabændur á starfssvæði Auðhumlu mega gera ráð fyrir arðgreiðslu frá samstæðunni...

Vetnisknúin skip í smíðum
Fréttir 15. maí 2024

Vetnisknúin skip í smíðum

Smíði er hafin á tveimur vetnis­ skipum á vegum Samskipa. Áætlað er að þeim verð...

Drómasýki í hrossum
Fréttir 13. maí 2024

Drómasýki í hrossum

Drómasýki er vaxandi vandamál í íslenskri hrossarækt. Til stendur að stofna star...