Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Fram undir miðja síðustu öld var kókosolía vinsælasta og mest notaða jurtaolía í heimi og meðal annars notuð í smjörlíki.
Fram undir miðja síðustu öld var kókosolía vinsælasta og mest notaða jurtaolía í heimi og meðal annars notuð í smjörlíki.
Á faglegum nótum 8. júní 2018

Kókospálmar eru tré lífs og dauða

Höfundur: Vilmundur Hansen

Heimsframleiðsla á kókoshnetum hefur aukist úr 51 milljón tonna aldamóta árið 2000 í um 60 milljón frá 2007. Samkvæmt áætlun FAOSTAD var heimsframleiðsla á kókoshnetum árið 2016 rétt rúm 59 milljón tonn en mest var hún árið 2013, rúm 62 milljón tonn.

Kókospálmar eru ræktaðir til framleiðslu á kókoshnetum í um 90 löndum. Indónesía er stærsti ræktandi kókoshneta í heiminum og framleiðir um 18,3 milljónir tonna á ári. Filippseyjar eru í öðru sæti og framleiða rúm 15, 3 milljónir tonna, í þriðja sæti er Indland með framleiðslu upp á tæp 12 milljón tonn. Í fjórða sæti er Brasilía með tæp 2,9 milljón tonn og í fimmta er Srí Lanka sem framleiðir rúmar 2,5 milljónir tonna af kókoshnetum á ári.

Kókospálmi á Srí Lanka, sem er fimmti stærsti framleiðandi kókoshneta í heiminum.

 

Löndin þrjú sem rækta mest af kókoshnetum flytja einnig mest út af þeim. Kína, Malasía, Taíland, Bandaríki Norður-Ameríku, Evrópusambandið sem heild og Sameinuðu arabísku furstadæmin eru aftur á móti þau lönd sem mest flytja inn af kókoshnetum.

Aftur á móti flytja lönd Evrópusambandsins, Bandaríki Norður-Ameríku, Kína, Malasía og Kína mest inn af kókosolíu.

Samkvæmt upplýsingum á vef Hagstofu Íslands voru flutt inn rétt rúm 27,8 tonn af heilum kókoshnetum árið 2017. Mestur var innflutningurinn frá Indónesíu 11,8 tonn, Taílandi rúm 5,8 tonn, Fílabeinsströndinni rúm 5,6 tonn og Bandaríkjum Norður-Ameríku rétt rúm tvö tonn.

Innflutningur á hrárri kókos­hnetuolíu til matvæla­framleiðslu var rúm 53 tonn, mest frá Srí Lanka, rúm 18,4 tonn og Bretlandseyjum, rúm 13,5 tonn. Af því sem kallast önnur hrá kókosolía voru flutt inn rúm 16,3 tonn árið 2017 og þar af 15,1 tonn frá Ítalíu.

Alls gera þetta um 96 tonn af kókosnetum og kókoshnetuafurðum fyrir utan það magn sem er flutt inn í tilbúinni matvöru, drykkjum, sælgæti og snyrtivörum svo dæmi séu tekin.

Eina tegundin í ættkvíslinni Cocos

Kókospálmar, Cocos nucifer, eru af pálmaætt og eina tegundin innan ættkvíslarinnar Cocos. Þeir eru sígrænir og geta orðið allt að 30 metrar að hæð þrátt fyrir að trefjaríkur stofninn sé sjaldnast meira en 30 sentímetrar að þvermáli.

Afbrigði í ræktun eru yfirleitt lægri og til er dvergvaxið afbrigði kókospálma sem er vinsæl skraut- og stofuplanta.

Kókospálmar eru saltþolnir og stofninn hallast iðulega undan ríkjandi vindátt. 

Vaxtarbroddur kókospálma er á toppi þeirra og þar vaxa 25 til 35 margskipt blöð, á löngum blaðstilkum, sem eru fjórir til  sex metrar að lengd og allt að tíu kíló að þyngd. Eldri blöð detta af eftir því sem plantan hækkar og er stofninn hrufóttur og blaðlaus nánast upp í topp.

Plantan hefur öflugar trefjarætur sem eru án rótarhára og ná nokkrar þeirra allt að fimm metra niður og halda trénu stöðugu. Rætur sem liggja ofarlega í jarðveginum ná sjaldnast út fyrir ystu blaðenda. Þær eru yfirleitt innan við 75 millimetrar að ummáli og halda sama ummáli frá stofni út í rótarenda.

Nýjar rætur vaxa frá stofni kókospálma svo lengi sem tré lifir og hafa talningar sýnt að 70 ár gömul tré geta hafa myndað 3600 rætur.

Kókospálmar bera þúsundir smárra blóma í stórum blómklösum sem hanga niður úr blaðhvirfingunni. Blómgun á sér stað á öllum árstímum. Plantan er tvíkynja en fræflar og frævur hvort í sínu blóminu. Kvenblómin eru töluvert stærri en karlblómin sem aftur á móti eru mun fleiri. Plantan er vind- og sjálffrjóvgandi en þar sem karl- og kvenblóm á sama tré opnast sjaldan á sama tíma er yfirleitt um frjóvgun milli nálægra einstaklinga að ræða. Vegna fjölda blóma er jörðin þakin krónublöðum eftir frjóvgun og blómfall.

Kókoshnetur eru samkvæmt skilgreiningu grasafræðinnar steinaldin sem geta fullvaxið vegið allt að 1,5 kíló. Aldinið skiptist í þrjá hluta, fræskurn, fræhvítu og kími. Að utan er aldinið, sem er slétt, þakið trefjalagi.

Innan í aldininu er fræhvítan, hinn eiginlegi kókos, og innan við hana er holrúm með vökva sem kallast kókosmjólk.

Aldinið skiptist í þrjá hluta, fræskurn, fræhvítu og kími. Að utan er aldinið, sem er slétt, þakið trefjalagi. 

Þrátt fyrir að stofnar kókospálma halli iðulega undan ríkjandi vindátt sveiflast stofninn sjaldnast til að nokkru ráði, ekki einu sinni í fárviðrum, þrátt fyrir að blöðin sláist hressilega til.

Kjöraðstæður villtra kókospálma er í sendnum jarðvegi og þeir þola vel saltrík sjávarloft. Þeir kjósa mikla sól, reglulega úrkomu, milli 1500 og 2000 millimetra á ári, og loftraka milli 70 og 80%. Kjörhitastig á sumrin er um 32° á Celsíus en þeir geta lifað af við 4° Celsíus en þola ekki frost.

Það tekur kókospálma í góðri ræktun sex til tíu ár að gefa af sér aldin og 15 til 20 ár að ná hámarksuppskeru sem er um 75 aldin á ári.

Umdeildur uppruni

Elstu steingervingar kókoshneta eru um 45 milljón ára gamlir og hafa fundist bæði í Ástralíu og á Indlandi. Elsti steingervingur af aldini pálma, Nypa fruticans, sem fundist hefur fannst aftur á mót í Suður-Ameríku.

Þrátt fyrir fjölmargar tilgátur er ekki vitað með vissu um hvar uppruni kókospálma er. Almennt hefur verið talið að plantan hafi, sem fræ, dreifst með hafstraumum frá Indlandi eða Indónesíu. Svipuð nöfn á aldininu, niu og niyog,  í Pólinesíu og Melanesíu benda til að sæfarendur hafi einnig flutt með sér aldin milli eyja og landsvæða.

Kókospálmi í fellibyl.
 

Samkvæmt annarri tilgátu er uppruna kókospálmans að leita í Suður-Ameríku og borist þaðan með sæfarendum fornaldar á reyrbátum vestur yfir Suður-Kyrrahafið til eyja í Eyjaálfunni. Norðmaðurinn Thor Heyerdalh sýndi fram á að slíkar siglingar væru mögulegar árið 1947 þegar hann sigld ásamt áhöfn á reyrbáti frá Suður-Ameríku yfir Kyrrahafið til Pólinesíu.

Kókoshnetur hafa fundist á floti í sjónum víða um heim og meðal annars við odda Suður-Afríku og í Norður-Atlantshafi við strönd Noregs þrátt fyrir að ekki sé vitað hvaðan sú hneta lenti í hafinu.
Hvort sem uppruni kókospálma er í Suður-Ameríku, Eyjaálfunni eða löndunum við Indlandshaf og hvort sem þeir hafa borist með hafstraumum eða mönnum er ljóst að plantan hefur ekki borist af sjálfsdáðum langt inn á land. Mannshöndin hefur þar komið að og valið plönturnar sem gáfu stærstu og bestu aldinin til áframræktunar.

Í dag þekkjast fjölmörg afbrigði og staðbrigði kókospálma sem bera misstór aldin með ólíka lögun og misþykka skel. Kókoshnetur af afbrigðum sem hafa verið lengi í ræktun fljóta ver en aldin af villtum kókopálmum vegna þess að lögun þeirra hefur breyst.

Saga

Ein elsta ritaða heimild um kókos­pálma er að finna í sögunni um Simbað sæfara í Þúsund og einni nótt. Þar er sagt frá því að Simbað versli með kókoshnetur í fimmtu sjóferð sinni.

Gríski kaup­maðurinn, munk­urinn og korta­gerðar­mað­urinn Cosmos frá Alexandríu teiknaði kókospálma inn á kort árið 545. Kortið kallast Topographia Chriatiania og átti að sýna heimsmynd kristinna manna.
Markó Póló komst í kynni við kókoshnetur á Indlandi og eyjunni Súmötru árið 1280 og kallar þær indverskar hnetur, sem er þýðing á arabíska heitinu jawz hindi, í ferðabók sinni. Ítalski ferðalangurinn Ludovico di Varthema kallaði kókoshnetur thenga, nafn aldinsins á tungumáli Tamíla á Srí Lanka og suðurhluta Indlands, í ferðabók sinni Itinerario og aftur í Hortus Indicus Malabaricuc en sú bók er fyrsta prentaða heimildin um gróðurfar í Asíu og hitabeltinu og kom út 1510.

Gríski kaupmaðurinn, munkurinn og kortagerðamaðurinn Cosmos frá Alexandríu teiknaði kókospálma inn á kort árið 545.

Antonio Pigafetta, aðstoðarmaður og ritari Fernando de Magellan hófu fyrstir siglingu kringum hnöttinn en Magellan lést á leiðinni. Pigafetta lauk aftur á móti leiðangrinum og sagði síðar í riti, 1521, frá kókosaldinum sem hann kynntist á Filippseyjum og hann kallaði cocho. Hann segir meðal annars frá því að innfæddir borði aldinið og smyrji líkama sinn og hár með kókosolíu.

Nytjar

Kókospálmar eru stundum kallaðir lífsins tré vegna þeirra nytja sem hafa má af plöntunni enda allir hlutar hennar nýttir.

Trefjar utan af aldininu eru nýttar til að vefa mottur, í pensla, snæri og kaðla. Laufblöðin eru nýtt sem sópar, ofin í körfur, sem þakefni á byggingar og sem refsivöndur fyrir fanga. Stofnar trjánna eru byggingarefni í brýr, báta, hús og húsgögn. Soðnar rætur kókostrjáa eru notaðar sem litaefni, munnskol og lyf gegn niðurgangi. Ferskt rótarsoð er sagt gott til að bursta tennurnar með.

Klassísk kókosbolla.

Víða í Asíu og Mið-Austurlöndunum eru skeljarnar brenndar sem eldiviður eða smíðuð úr þeim hljóðfæri. Margir muna eflaust eftir sprenghlægilegu atriði úr Monty Python and the Holy Grail þar sem kókoshnetuskeljum er slegið saman til að líkja eftir hófaslætti hests og rökræðunum um kókoshnetur í kjölfarið.

Skeljarnar eru notaðar sem skálar og matarílát eða sem blómapottar í hitabeltinu til að ala upp smáplöntur fyrir útplöntum. Á Havaíeyjum eru búnar til tölur úr skeljunum sem engin havaískyrta með sjálfsvirðingu má vera án.

Ferskur blaðkrans kókospálma kallast pálmakál og er það sagt hinn besti matur og bragðast líkt og hnetur.
Aldinin eru einnig nýtt til lækninga og sögð góð við margs konar meinum eins og ógleði, útbrotum, harðlífi og hitasótt. Auk þess sem aldinmjölið er sagt græðandi og gott við þembu og augnmeinum. Brenndar og muldar kókoshnetuskeljar eru bæði í senn sagðar kynörvandi og stinnandi auk þess sem sagt er að gott sé að smyrja slátrið með kókosolíu og kókosmjöli til að herða það. Á Indónesíu er sagt að sé skeljamulningur drukkinn með víni lækni hann sýfilis og á Indlandi er soðið te úr blómunum til að stilla tíðir kvenna.

Í sumum löndum eru sérþjálfaðir apar notaðir til að losa kókoshneturnar af trjánum við uppskeru.

Nafnaspeki

Uppruna kókoshnetuheitisins má rekja til spænskra og portúgalskra sjófarenda á 16. og 17. öld sem töldu aldinið líkjast draugshöfði og kölluðu það coco sem er meðal annarra merkinga heiti á draug eða norn í portúgalskri þjóðtrú.

Tegundaheitið nucifera á latnesku þýðir planta sem ber hnetu.

Kókospálma afurðir til matargerðar

Kókoshnetur eru hluti af daglegri fæðu milljóna manna í hitabeltinu. Úr aldininu er unninn kókos, kókosolía og kókosmjólk. Úr stofninum er tapaður kókossafi og kókosvín bruggað úr honum og í seinni tíð er hann notaður í orkudrykki.

Fram undir miðja síðustu öld var kókosolía vinsælasta og mest notaða jurtaolía í heimi og meðal annars notuð í smjörlíki. Sagt er að gott sé að bursta tennurnar með kókos til að gera þær hvítar.

Kókosolía er enn notuð sem steikingarfeiti og fræhvítan, hinn eiginlegi kókos, í bakstur og matargerð og hver man ekki eftir lokkandi kókósbollum, gómsætum kókoskúlum eða kókosbragðinu af Bounty súkkulaði? Þurrkaður kókos er notaður til brauðgerðar og úr því búnar til kókosflögur.

Fersk kókosmjólk beint úr skelinni er verulega drífandi og mæli ég ekki með að drekka hana fyrir langferð eins og ég gerði á ferðalagi um Srí Lanka.

Trúarbrögð og goðsögur

Sé horft á kókoshnetu sjást á þeim þrír blettir sem gera það að verkum að þær líkjast apa- eða barnsandliti. Hneturnar voru því notaðar til að blekkja guðina, sem sumir eru talsvert vitlausir, við fórnarathafnir og í stað þess að fórna börnum eða öpum var fórnað kókoshnetu. Dæmi um slíkt eru sagðar vera fórnir til Bhadrakali, eiginkonu æðstaguðsins Kalí.

Kókoshnetur gegna veigamiklu hlutverki í helgisiðum hindúa og þær iðulega skreyttar með skrautpappír sem tákn um gæfu. Á Indlandi er kókoshnetum kastað í hafið sem fórn til að milda anda monsúnvindanna og á fyrsta fulla tungli í lok monsúntímabilsins er kókoshnetum fórnað til heiðustu guðum Hindúa. Auk þess sem indverskir fiskimenn kasta kókosskeljum í sjóinn við upphaf vertíða til að auka líkurnar á góðu fiskiríi.

Við bænahald eru kókoshnetur iðulega brotnar til að leggja áherslu á hita bænarinnar og blóm kókospálma eru ómisandi við brúðkaup.

Þekkt er meðal múslima að kasta aftur fyrir axlir sér kókosmylsnu til að hrekja burt illa anda.
Ilokanó-fólkið á einni norðureyja Filippseyjaklasans hefur fyrir sið að færa forfeðrunum kókosskeljar sem fylltar eru með hrísgrjónum og eggjum á altari til að lina hungur hinna framliðnu.

Ef marka má goðsögn Yoruba-fólksins í Afríku spratt fyrsti kókospálminn upp þar sem líkami góðviljaðrar og hjartahreinnar manneskju var lögð til hinstu hvíldar.

Dauði af völdum kókoshnetu

Samkvæmt vinsælli flökkusögn slasast fleiri og látast á hverju ári af því að verða fyrir fallandi kókoshnetu en slasast eða látast vegna árásar hákarla. Sögnin fékk byr undir báða vængi árið 2002 þegar birt var samantekt þar sem fullyrt var að árið áður hefðu 150 manns látist af höfuðmeiðslum eftir að hafa orðið fyrir fallandi kókoshnetu en 5 af völdum árása hákarla.

Viðvörunarskilti á Havaíeyjum sem varar við hættunni á kókoshnetum sem falla úr pálmatrjám.

Víða er því haldið fram að kókoshneturnar falli af trjánum ef illur andi flýgur yfir þau.

Fyrsta skráða dæmið um dauða af völdum fallandi kókoshnetu er frá 1777 og segir frá því að Tetui konungur á Cook-eyju hafi lést eftir að hafa fengið kókoshnetu í skallann. Árið 1833 er talið að fjórar manneskjur á Srí Lanka hafi orðið undir fallandi kókoshnetum og látist. Nokkur dæmi eru um að innfæddir og ferðafólk á eyjum í Kyrrahafinu hafi látist af völdum fallandi kókoshneta og að minnsta kosti eitt dæmi er um að api í tré hafi kastað kókoshnetu í höfuðið á manni með þeim afleiðingum að maðurinn lést.

Ekki er nóg með að kókoshnetur hafi valdið dauða fólks með því að falla af trjám. Samkvæmt frétt í Newsweek frá þriðja áratug síðustu aldra lést indverskur skólapiltur eftir að hafa snert töfrakókoshnetu. Málsatvik eru á þá leið að barnaskólakennari vildi komast að því hvert barnanna í bekknum sem hann kenndi hafði tekið bók í óleyfi. Kennarinn sagði börnunum að þau ættu að snerta kókoshnetu sem búið var að mála á guðleg tákn og að sá sem tekið hefði bókina mundi upplifa reiði guðs. Einn nemendanna, drengur, neitaði að snerta aldinið en var neyddur til þess. Skömmu síðar var hann með óráði vegna hitasóttar og lést á innan við klukkustund.

Árið 1997 féll starfs­maður í kókoshnetuolíu-átöppunar­verksmiðju í Úkraínu ofan í olíugeymslutankinn og drukknaði.

Í Kyrrahafsstríði seinni heimsstyrjaldarinnar áttu Japanir það til að koma handsprengjum fyrir í kókoshnetum, fylla þær síðan með sýru og innsigla með vaxi til að gera sprengjuáhrifin enn skelfilegri.
Af öllum þeim sögum sem segja frá dauða af völdum kókoshnetu er líklega sú vandræðalegasta af manni sem barði skammbyssuskefti í kókoshnetuna til að brjóta hana. Skammbyssan, sem var hlaðin, hljóp af við höggið og manngreyið lést af völdum skotsárs.

Kókoshnetur á Íslandi

Lítið fer fyrir kókoshnetum í íslenskum blöðum framan af síðustu öld og það er ekki fyrr en á síðustu áratugum að þær verða fáanlegar í verslunum.

Í Tímaritinu Norðurljósið frá 1962 er þýðing á æviágripi sem kallast Ég var Hindúi og er frásögn manns sem féll af forfeðratrúnni og fór á skeljarnar fyrir framan krossinn. „Það var algengt meðal fólks míns, að hver fjölskylda eða þorp hefði sinn sérstaka uppáhalds guð eða gyðju. Okkar var nefndur Malayallan Swami. Arfsögn hermdi, að hann hefði komið frá Malabar á suðvesturströnd Indlands. Hann settist að í þorpinu okkar, og var haldið, að hann hefði bjargað fólkinu okkar frá sjúkdómum og ógæfu. Hof hans er ekki langt frá þorpinu okkar. Það er fögur bygging eftir stíl og erfðavenju indverskrar menningar. Þar er hundruðum hænsna og geita fórnað, þúsundum kókoshneta og mörgum flöskum af rommi á ýmsum tímum ársins.“

Aspir og wasabi ræktuð samhliða
Fréttir 24. maí 2024

Aspir og wasabi ræktuð samhliða

Nordic Wasabi er um þessar mundir að setja á innanlandsmarkað frostþurrkað wasab...

„Bjart fram undan og afurðaverð á uppleið“
Fréttir 24. maí 2024

„Bjart fram undan og afurðaverð á uppleið“

Jóhannes Geir Gunnarsson, bóndi á Efri-Fitjum í Vestur-Húnavatnssýslu, er bjarts...

Fóðra mjölorma til fóður- og matvælaframleiðslu
Fréttir 24. maí 2024

Fóðra mjölorma til fóður- og matvælaframleiðslu

Í samstarfsverkefni Matís og Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ) er unnið að því a...

Samdráttur samfélags
Fréttir 23. maí 2024

Samdráttur samfélags

Póstþjónusta landsmanna hefur verið hitamál svo lengi sem menn muna og ekki síst...

Fleiri kostir, meiri sveigjanleiki og bætt nýtni það sem koma skal
Fréttir 22. maí 2024

Fleiri kostir, meiri sveigjanleiki og bætt nýtni það sem koma skal

Út er komin skýrslan Bætt orkunýtni og ný tækifæri til orkuöflunar. Hún hefur að...

Bændur ársins í Norður-Þingeyjarsýslu
Fréttir 22. maí 2024

Bændur ársins í Norður-Þingeyjarsýslu

Ábúendurnir í Hafrafellstungu í Öxarfirði fengu nafnbótina Bændur ársins 2023 í ...

Mikilvægt að bæta merkingar fyrir neytendur
Fréttir 22. maí 2024

Mikilvægt að bæta merkingar fyrir neytendur

Herdís Magna Gunnarsdóttir, nautgripabóndi á Egilsstöðum og stjórnarmaður í Bænd...

Verður milliliður milli ræktenda og kornstöðva
Fréttir 22. maí 2024

Verður milliliður milli ræktenda og kornstöðva

Starfsemi Kornræktarfélags Suðurlands var endurvakin á fundi kornbænda í Gunnars...