Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Gnýfari og Þóra Þorgeirsdóttir. Myndin er tekin um miðjan sjötta áratuginn.
Gnýfari og Þóra Þorgeirsdóttir. Myndin er tekin um miðjan sjötta áratuginn.
Á faglegum nótum 25. janúar 2016

Kirkjuskógskynið og Gnýfari

Höfundur: Sigurjón Svavar Yngvason
Þetta er saga af Dalakyni. Byrjar að vísu austur í Hreppum. Þar ríða menn í réttirnar og taka í fleyg undir réttarveggnum. Þar hitti ég oft vin minn á sama reki, sem hættur er að smakka það sjálfur en hefur gaman af því að bjóða öðrum. Hann er því á réttardaginn með pela og býður mönnum. 
 
Alltaf er Séníver á pelanum. Það er drykkur sem var vinsæll áður fyrr, enda góður og hollur, gerður úr hollenskum kartöflum. Hann kom gjarnan til mín, vissi að ég var Sénívermaður. 
 
Einu sinni kvartaði hann yfir því að yngri menn þekktu ekki Séníver og fannst hann jafnvel vondur. Ég sagði honum þá að ég hefði orðið var við vankunnáttu yngri manna á fleiri sviðum, t.d. þekkti enginn lengur Roy og Trigger og af því að hann er hestamaður, sagði ég honum að enginn myndi lengur eftir Gnýfara, sem hann mundi vel. 
 
Við vorum sammála um að það gengi ekki að vitneskjan um Roy, Gnýfara og Séníver myndi glatast. Um Séníver hafa örugglega verið skrifaðar greinar og þykkar bækur, Roy er á YouTube, en ég ætla að reyna að rifja eitthvað upp um Gnýfara og hans uppruna. Mér rennur blóðið til skyldunnar, því Gnýfari var af hestakyni og í eigu móðurafa míns, Sigurjóns Jónssonar frá Kirkjuskógi í Miðdölum, áður en Þorgeir í Gufunesi eignaðist hann.
 
Það var árviss viðburður á árunum um og eftir 1950 að ég fór með föður mínum á hvítasunnukappreiðar Fáks við Elliðaár. Þar sá ég Gnýfara fyrst. Við strákarnir lágum fremstir á vírgirðingunni við skeiðvöllinn, en fullorðnir aftan við. Ég man enn að okkur fannst efsti strengurinn skerast alveg inn að beini þegar hlaupin hófust og þeir fullorðnu lögðust fram yfir okkur til þess að sjá allt hlaupið frá ráslínu í mark. Spennan var að sjá átökin á ráslínu og linaðist ekki fyrr en einhvar hrópaði: ,,Þarna koma þeir.“ Við Dalamenn fylgdumst vel með Gnýfara, hann var í mínum huga alltaf hesturinn hans afa, þótt Geiri í Gufunesi ætti hann. 
 
Annaðhvort var sigurinn öruggur, eða menn spurðu í ákafa ,,hafð‘ann það?“ og þessi Hann var auðvitað Gnýfari. Dalamenn héldu með sínum.
 
Leikið með leggi
 
Ég átti mikið af leggjum sem strákur og lék mér mikið með þá. Alls hafa þetta verið 30–40 leggir, geymdir í litlum trékistli milli leikja. Framfótarleggir voru klárar, en afturfótarleggir merar. Eingöngu dugðu leggir af fullorðnu, af lambaleggjunum brotnuðu höfuðin. Ég átti einn uppáhaldslegg. Hann var bleikur, hrossableikur, ekki Barbie-bleikur. Hann hét að sjálfsögðu Gnýfari. Ekki veit ég hvernig litnum var náð. Hann var ekki málaður eins og margir af öðrum leggjum mínum, ef til vill soðinn í lit frá ullarlitun. Af þessu má sjá að ég var töluvert upptekinn af Gnýfara í minni bernsku.
 
Við þessa samantekt, hér á eftir, hef ég stuðst við frásagnir frá mér vitrari mönnum og gluggað í ritaðar bækur og ef einhver veit enn betur, sem ég efa ekki, eða sér rangfærslur, væri gott að vita af því.
 
Kirkjuskógskynið
 
Ættmóðirin Ör og afkvæmi hennar.
 
Gædd var blóði gæðinga
genin flóðu úr sjóði,
ættarmóðir öðlinga
Ör í stóði glóði.
SY
 
Sigurjón Jónsson (1875–1956), bóndi í Kirkjuskógi í Miðdölum keypti bleika meri á uppboði á Oddsstöðum. Hún var af Lækjarskógskyninu og talin fljót. Hún var kölluð Gamla Bleik og var fallegt háreist hross og ágæt til reiðar. Hún fékk á Geldingadal, milli Kolsstaða og Háafells, við rauðan fola af Hindisvíkurkyni. Folinn var eitthvað notaður til undaneldis vestra og mun hafa verið í umsjá Guðlaugs Magnússonar á Kolsstöðum. (Svipur frá Hindisvík fyljaði hryssu frá Háafelli 1933. Gæti verið sá sami.)
Fola þennan tamdi Oddur Eysteinsson og var folinn erfiður og hrekkjóttur. Víglundur Sigurjónsson frá Kirkjuskógi, þá unglingur, sá til aðfaranna á veginum fyrir neðan Kirkjuskóg þegar Oddur var að eiga við folann. Oddur var yfirvegaður og laginn tamningamaður, en ekki er vitað hvort honum tókst að gera reiðhest úr folanum. 
 
Undan þessum fola og Gömlu Bleik kom merfolald fætt 1934 og hlaut hún nafnið Píla. Píla var fífilbleik og ólíkt folanum var hún gæf og viðráðanleg í alla staði. Sigurjón og Kristín húsfreyja í Kirkjuskógi gáfu syni sínum, Víglundi, Pílu í fermingargjöf. Víglundi, nýfermdum, lá á og vildi frekar fá hágengan töltara en merfolald og hóf því hestakaup. Hann skipti við pabba sinn og fékk rauða hryssu. 
 
Hryssunni skipti hann á hestamannamóti á Nesoddanum og fékk í staðinn rauðan fola úr Hrútafirði. Víglundur var þá kaupamaður hjá Benedikt Jónssyni á Fellsenda og þar sá hann það sem á vantaði. Benedikt átti brúnan hágengan töltara og þá gekk Víglundur aftur til hestakaupa. Hann fékk töltarann, lét rauða folann upp í, en þurfti að bæta við sig aukavinnu til þess að jafna kaupin. Þá var hringnum lokað.
 
Píla óx úr grasi og var mest í umsjá Ágústs, elsta sonar Sigurjóns. Hún reyndist öskufljót á stökki og var oft reynd á kappreiðum á Nesoddanum og á Faxaborg. Þá var Oddur Eysteinsson oft með Ágústi í för. Árið 1943 lögðu þeir félagar upp í frægðarför suður í Borgarfjörð á kappreiðar Faxa á Hvítárvöllum. Þeir lögðu upp eldsnemma morguns, riðu fram Hörðudal og náðu til kappreiða tímanlega. Píla var í taumi alla leiðina, en Ágúst reið hastri meri. Þótt Pílu hefði verið hlíft á suðurleiðinni hafa eflaust sést einhver þreytumerki á hryssunni og Borgfirðingar óttuðust ekki samkeppni úr þeirri átt. Það var mikill hugur í Dalamönnum, ætluðu að mæta Stíganda Ólafs bakara Þórarinssonar, sem unnið hafði Pílu skömmu áður á Nesoddanum, á sama tíma, en á sjónarmun. Stígandi mætti því miður ekki, en keppnin var engu að síður hörð. 
 
Borgnesingar áttu frækna hlaupagamma. Ágúst lagði á merina fyrir 300 metra stökkið, en Oddur hélt við á ráslínu. Ágúst sagði þannig frá; ,,Í fyrri spretti sat merin kyrfilega eftir í startinu þannig að fyrsti hestur var kominn í hálfa brautina þegar hún tók sprettinn, en Píla vann samt. (Hætt er við að forskotið hafi lengst eftir því sem sagan var oftar sögð). Seinni sprettinn vann Píla með yfirburðum.“ Ágúst hafði gaman af að segja frá þessu fram á sín elliár og hefur þetta verið ein af bestu minningum íslenska bóndans. Frændi Ágústs, Halli Reynis söngvaskáld, orti eftir andlát hans.
 
Ég á margar minningarnar
um mann sem birtist mér á ný
þar sem hann situr og við þig segir
og svo skal ég segja þér söguna af því.
 
Sagan fjallaði um fallega hryssu
sem fátækum bónda gaf stolt og von
með öldina á bakinu burtu ferðu
guð blessi þig Ágúst Sigurjónsson. 
 
Þeir félagar Ágúst og Oddur, riðu strax eftir kappreiðarnar aftur vestur. Riðu um Langavatnsdal og Sópandaskarð og voru komnir vestur áður en rútan kom með aðra mótsgesti. Létt hefur verið riðið, enda heyskapartíð.
 
Tilþrif Pílu á stökkinu vöktu athygli sem endaði með því að fjórir Fáksmenn úr Reykjavík, undir forystu Ólafs Þórarinssonar bakara og Kristjáns ,,kóngs“ Vigfússonar, mynduðu hlutafélagið Sprettur hf. um kaup á henni og greiddu 3.000 krónur fyrir. Geta má þess að jörðin Miðskógur í Miðdölum seldist sama sumar á 6.000 krónur. Þetta var árið 1944 og kom Píla þá fyrst fram, undir nýju nafni, Ör, og með nýja eigendur. Þá var hún reynd á Faxaborg og varð í öðru sæti í 300 metra stökki. Sama ár, vann Ör glæstan sigur á ágústkappreiðum Fáks í 300 metra stökki.
 
Fákur hélt kappreiðar á hvítasunnunni og svo aðrar í ágúst ár hvert. Þá voru veðbankar í gangi og keppt í riðlum, undanúrslitum og úrslitum. Fljótustu hrossin þurftu því að hlaupa þrjá spretti yfir daginn. Ör var alltaf í verðlaunasæti, fyrsta, öðru (oftast) og í þriðja í 300 metra stökki 1944 og í 350 metra stökki árin 1945 og 1946. Þessu er vel lýst í afmælisriti Fáks sem gefið var út 1949 í tilefni af aldarfjórðungsafmæli félagsins í bók eftir Einar E. Sæmundsen undir nafninu Fákur. Í þessari bók er Ör kynnt til sögunnar fyrir kappreiðar Fáks 24. ágúst 1944 þannig: ,,Komin var á vettvang ný hlaupafluga, sem Ör hét,-.“
 
Ekki stóð á árangri
 
Í bók Einars er, auk nákvæmra lýsinga, skrá yfir alla þá hesta sem einhver verðlaun hafa hlotið á kappreiðum Fáks árin 1922 til og með 1946. 
 
Skráð eru bestu hlaup hvers hests og eru skráningarnar alls 225. Á þessum árum eiga aðeins tveir hestar betri tíma en Ör í 350 metra stökki. Drottning Þorgeirs í Gufunesi, þá Varmadal, setti glæsilegt met 6. júní 1938 sem lengi stóð, 25,6 sek. Það met sló Kolbakur Jóhanns Guðmundssonar 24. júní 1945 og hljóp á 25,5 sek. Í sama hlaupi varð Ör í öðru sæti á tímanum 25,8 sek. og eru þetta þrír bestu tímarnir sem skráðir eru á þessum 24 árum. Afrek Örvar eru því auðséð.
 
Upplýsingar eftir 1946 eru ekki í bókinni, en þó er vitað að hún varð í öðru sæti í 350 metra stökki á Fákskappreiðum árið 1947. Virðist Ör þá hverfa af hlaupabrautinni og óljóst um afdrif hennar. Hún hefur þó farið í folaldaeign og eignast Fána 1948. Óljósar sagnir eru um að hún hafi týnst um tíma en fundist eftir töluverða leit.  
 
Ör var í Reykjavík árið 1951, en þá stóð til að selja hana til Þýskalands. Þá um vorið er Víglundur komst á snoðir um áformin bjó hann í Reykjavík. Hann brá þegar undir sig betri fætinum og fór niður á Laugaveg 11, þar sem Kristján Vigfússon bjó. Kristján lá þar löngum beinum uppi í sófa er Víglundur kom og varð hvumsa við er Víglundur bar upp erindið og skildi ekkert í því hvers vegna hann vildi kaupa gamla hryssu á háu verði, sem var það sama og áður hafði verið greitt. Kaupin voru ákveðin og Víglundur ákvað að koma hryssunni strax úr bænum. Farið var sjóleiðis með Laxfossi upp í Borgarnes. Hryssan var járnalaus og gekk Víglundur og teymdi hryss­una alla leið upp að Hreðavatni. 
 
Þar var í vinnumennsku Gunnlaugur Hannesson, mágur Víglundar, og síðar bóndi á Litla-Vatnshorni í Haukadal. Þar skildi Víglundur hryssuna eftir í umsjá Gunnlaugs og fór aftur til Reykjavíkur. Nokkru síðar kom Ágúst Sigurjónsson ríðandi vestan úr Dölum, hryssan var járnuð, lagt á Bröttubrekku og riðið að Kirkjuskógi þar sem Ör var síðan. Ágúst sagði Herði Haraldssyni, bónda á Sauðafelli, tengdasyni sínum, síðar, að í hryssuna hefði komið fiðringur þegar komið var á melana fyrir ofan völlinn á Nesoddanum. 
 
Ör átti alls fimm folöld. Fyrsta folaldið fórst af slysförum inni á Geldingadal. Annað folaldið var Gnýfari, stjörnóttur, fífilbleikur eins og móðirin, fæddur 1941. 
 
Þriðja folaldið fæddist á Reykjavíkurárunum, 1948, og var það rauður glófextur hestur, Fáni. Hann var  mikill stökkgammur og sigraði á Fákskappreiðum 1955 á 350 metra sprettinum. Þá var Gnýfari ekki meðal keppenda af ókunnum ástæðum. Nefnt var síðar í Alþýðublaðinu 19. maí 1956 að Gnýfari ætti þá að keppa við bróður sinn sem hefði unnið árið áður. Gnýfari sigraði í hlaupinu 1956, en ekki hefur Fáni náð verðlaunasæti það sinnið. Í Alþýðublaðinu 1955 er Fáni ranglega nefndur Faxi, en í Vísi réttnefndur. 
Skráður eigandi Fána var þá Sólrún Kristjánsdóttir, dóttir Kristjáns Vigfússonar. Síðar gaf Kristján Aðalsteini Aðalsteinssyni knapa Fána. Aðalsteinn reið þeim bræðrum báðum, Gnýfara og Fána, og sagði að þeir hefðu verið sérstaklega hágengir, sem ekki var eins algengt þá og nú og gæðings reiðhestar. Fáni átti alltaf heima á Korpúlfsstöðum og var felldur þar. 
 
Fjórða folaldið fæddist eftir að Ör var komin aftur vestur. Það var brúnstjörnóttur foli, Stjarni, fæddur 1952. Hann var notaður sem kynbótahestur hjá Hestamannafélaginu Glaði 1954–1958. Hann var meðal annars móðurfaðir Stjörnufáks Þorláks Ottesen í Fáki. Svo eignaðist Ör Stjörnu, 1954. Hún var rauðstjörnótt. Faðir Stjörnu var Jarpur frá Sauðafelli. Stjarna var klárhestur með tölti, hágeng og fallega reist. 
 
Gott hrossakyn undan Stjörnu
 
Af Stjörnu er komið gott hrossakyn sem haldið hefur verið við til þessa dags. Hún eignaðist átta folöld. Undan Stjörnu má nefna Brönu fædda 1958. Hún var kappreiðastökkhestur góður og varð ættmóðir margra ágætra hrossa. Stjarna eignaðist svo Funa 1959, gráan ágætis  klárhest með tölti. Funi var fallegur hestur sem oft var fánaberi við setningu hestamannamóta á Nesoddanum. Funi varð síðasti aðal reiðhestur Ágústs Sigurjónssonar og áttu þeir saman farsæla elli.
 
 Brana eignaðist sjö folöld. Undan Brönu var snillingurinn Hrímnir, Guðmundar Ágústssonar. Hann var grár klárhestur með tölti, sem sópaði að sér verðlaunum í B-flokki gæðinga í mörg ár. Hann sýndi einnig góð tilþrif á stökki og vann í folahlaupi á Oddanum. Þessi hross voru flest klárhestar með tölti, mörg grá að lit. Lítið var reynt við vekurðina. Öll voru þau góðir stökkhestar og mörg þeirra reynd á Nesoddanum með góðum árangri. Árið 1966 flutti Kirkjuskógsfjölskyldan að Erpsstöðum í sömu sveit og hross fædd eftir þann tíma kennd við þann bæ. Mörg af þessum hrossum eru heygð ofan við gömlu fjárhúsin á Erpsstöðum. Næstsíðasta folald Brönu var grátt merfolald sem fékk nafn formóður sinnar, Ör. Faðir Örvar yngri var hinn landsfrægi stóðhestur Ófeigur 818 frá Hvanneyri og kemur vekurðin þá sterkara inn. Ágúst Sigurjónsson gaf hryss­una dóttursyni sínum, Guðmundi Harðarsyni á Sauðafelli og má segja að hrossakynið hafi við það flust að mestu að Sauðafelli.  
 
Ör var sýnd sem afkvæmi undan Ófeigi þegar Ófeigur fékk heiðursverðlaun fyrir afkvæmi sín og var hún í hópi sem valinn var úr stórum hópi afkvæma hans. Ör yngri var alhliða  fyrstu verðlauna gæðingur, dæmd með 8,09 í einkunn og sýnd bæði á Landsmóti og á Fjórðungsmóti á Kaldármelum. Hún var og góður kappreiðastökkhestur og vann bæði á Nesoddanum og í Reykhólasveit. Undan Ör og verðlaunastóðhesti Sveins á Sauðárkróki, Kjarval, kom stóðhesturinn Vafi IS1990138273, einnig fyrstu verðlauna dæmdur og sýndur á Fjórðungamóti á Kaldármelum. Undan Vafa hafa komið mörg afbragðshross sem þeir Sauðafellsmenn hafa haldið utan um og kunna betur skil á. Geta má þess að undan Vafa er Sópur frá Búðardal, stökkhestur með marga sigra að baki á kappreiðum vestra, sem sýnir að stökkgenin eru ennþá virk í þessu kyni.
 
Afrekshesturinn Gnýfari sonur Örvar
 
Gnýfari þar gnæfir hæst
gnægð er af fleiri nöfnum
aldrei slíkur fákur fæst
og fáa við hann jöfnum.
 
Lárus Salómonsson
 
Gnýfari ólst upp fyrir vestan, í Kirkjuskógi, og var taminn þar. Víglundur reið honum mikið og sagði hann góðan töltara, en hann var ekki reyndur á hlaupabrautinni vestra. Gnýfara lá leið til Reykjavíkur, 1946, og eignuðust hann þá kunnir hestamenn, Óskar Eyjólfsson og Kristján Vigfússon, sem áður hafði keypt Pílu. Kaupverðið var 5.000 krónur sem þótti mikið fyrir gelding, en nýr Willys-jeppi kostaði þá 10.000 krónur.
Til er lýsing á Gnýfara í bókinni Fram um veg eftir Sigurgeir Magnússon. Tilvísun; ,,Gnýfari var stór hestur og sterklegur með góða fætur og þroskalegur um brjóst, bógar sæmilega skásettir en hálsinn ekki langur á svo stórum hesti, hausinn var myndarlegur, nokkuð þung brún sem sýndi skapfestu og einbeitni var augljós“ og í Mbl. 7. júní 1953. „Gnýfari er fínlegur og léttilega byggður hestur og mundi vera gæðingur, væri hann notaður sem reiðhestur. Hann hefir verið einn af fljótustu kappreiðarhestum, sem nú eru til hér á landi. Hann er með frítt og skarpt höfuð og sérstaklega glaðan og fallegan svip. Eyrun hátt sett og vel lokuð, hálsinn reistur, bógar skásettir og hár herðakambur. Hryggur nokkuð langur, en fallega lagaður og sterkur. Lendin löng og breið og vel vöðvafyllt. Vinklar á afturfótum eru langir og krappir. Fætur réttir og þurrir.“
 
Gnýfara gekk ekki vel á hlaupabrautinni í fyrstu og var hann því seldur Páli Sigurðssyni á Köggólfsstöðum. Þá kemur til sögunnar kappinn Þorgeir í Gufunesi, en hann keypti Gnýfara af Páli árið 1947. Ekki er vitað um kaupverðið, en Guðlaugur sonur Þorgeirs, þá ungur drengur, sagði mér að hann hefði aldrei séð svona marga brúna fimmhundruðkalla í einu, eins og þegar hann sá föður sinn telja þá fram á eldhúsborðið.
 
Eftir þessi eigendaskipti varð breyting á. Þorgeir segir í viðtali við Halldór Gunnarsson; ,,- en hestarnir mínir gátu hlaupið af því að þeim var leyft að hlaupa, þeir höfðu gaman af því. Enginn þeirra var þó eins og Gnýfari með það. Hvað hann hafði gaman af því að hlaupa, hann flaug af gleði og þörf, enda sonur frægrar hlaupahryssu úr Dalasýslu sem hét Ör.“ Og enn í sama viðtali: ,, - og fann á mér hvað hann þurfti, fyrst í hvíld í næstum tvö ár, síðan marga æfingaspretti þar sem ég sá um að hann vann og svo fór hann að trúa því sjálfur að hann myndi alltaf vinna og eftir það stóð hann kyrr á ráslínu og leit næstum ögrandi á þessa vanstilltu ,,stráka“ við hlið sér, sem frísuðu og prjónuðu af hræðslu við þennan, sem enginn þurfti að halda í og alltaf sigraði.“ Ekki mun þetta síðasta með kyrrðina á ráslínu alltaf hafa verið rétt hjá Þorgeiri. 
 
Eftir að Þorgeir eignaðist Gnýfara áttu þeir samleið alla tíð. Samband þeirra hefur verið einstaklega gott og hlýtt, eins og lesa má í afmælisviðtali sem Matthías á Mogganum átti við Þorgeir 8. des. 1963. ,,En ég gæti ekki verið skotinn í konu í bíl, nema þá kannski langferðabíl, ef ég væri að koma af kappreiðum og Gnýfari hefði unnið. Sko þarna stendur hann og krafsar.“
 
Þorgeir setti hestinn í hvíld í tvö ár, eins og áður sagði, og hóf síðan æfingar. Þorgeir mætti svo með Gnýfara á Fákskappreiðar 1949 og sigraði hann í 300 metra stökki örugglega. 
 
Fákskappreiðar voru á þessum tíma helstu kappreiðar landsins. Á næstu Fákskappreiðum í maí 1950 vann Gnýfari í 350 metra stökki. 
 
Landsþekktur varð svo Gnýfari þegar Þorgeir mætti með þennan nýja hlaupagarp á fyrsta Landsmót hestamanna á Þingvöllum í júlí 1950. Gnýfari sigraði þar í 350 metra stökki. 
 
Næstu ár voru stöðugar kappreiðar. Gnýfari sigraði á Fákskappreiðum í 350 metra stökki árin 1951, 1952, 1953, 1954, 1956, 1957, 1959 og 1962, þá 22. vetra. Gnýfari átti besta tíma í 350 metra stökki hjá Fáki 25,5 sek., settur 1951 og þann tíma var ekki búið að slá 1971, eftir því sem fram kemur í afmælisriti Fáks 50 ára, og hefur e.t.v. staðið enn lengur. Það má með sanni segja að Gnýfari hafi verið besti stökkhestur landsins í 13 ár. Hann var oft í fyrirsögn frétta, í stækkuðu dekktu letri, oft á forsíðum blaða og það var fréttnæmt ef einhverjum tókst að sigra Gnýfara. Hæruskotinn Fáksmaður sagði mér að hann myndi aldrei gleyma Gnýfara. Hann var sem ungur piltur að selja miða fyrir Fák á kappreiðum við Elliðaár og þekkti vel til kappreiðahesta. Hann ákvað að ávaxta sitt handbæra fé á öruggan hátt og lagði allt undir í veðbankanum á Gnýfara. En það gerðist sem aldrei gleymist, Gnýfari tapaði. 
 
Landsmótin voru haldin á fjögurra ára fresti og eftir frækilega innkomu á Þingvöllum vann hann á Þveráreyrum 1954 í 350 metra stökki, þótt hann sneri öfugur á ráslínu.
 
Þá sagði knapinn, Þóra Þorgeirsdóttir, að hann hefði hljóðað af átökum. Það vakti undrun manna sem til sáu hve löng þrjú fyrstu stökk Gnýfara voru eftir snúninginn til þess að ná keppinautunum. Annað eins hafði ekki sést. Þetta lýsir vel því feiknarlega keppnisskapi sem klárinn bjó yfir. Af þessu hlaupi er til ágætt myndband. Á Landsmótinu á Skógarhólum við Þingvelli árið 1958 varð Gnýfari annar í 400 metra stökki á sama tíma og sigurvegarinn, og var hann þá 22 vetra. Á síðasta Landsmóti hans á Skógarhólum árið 1962 vann hann ekki til verðlauna. 
 
Árið 1964 kom fram á sjónarsviðið mjög efnilegur hlaupahestur, Þytur, Sveins í Völundi. Sá hestur var ósigrandi næstu 7–8 árin. Í ágúst þetta ár setti Þorgeir Gnýfara fram á móti Þyti í 350 metra stökki, á Harðarkappreiðum við Arnarhamar á Kjalarnesi. Það þótti mörgum djarft af Þorgeiri að setja þetta gamlan hest, 24 vetra, á móti þessari nýju stjörnu. En gamli Gnýfari sigraði. Það var svo daginn eftir að Þorgeir felldi Gnýfara á meðan afrekin voru enn í fersku minni, eftir því sem sagt er frá í bók Atla Magnússonar.
 
Eftirmáli
 
Ég átti góða stund með Agnari Norland heitnum, bróðursyni séra Sigurðar í Hindisvík. Agnar hélt vel utan um Hindisvíkurkynið eftir föðurbróður sinn. Rætt var um hesta og Agnar ljómaði af gleði, þegar ég sagði honum að Hindisvíkurblóð hefði verið í Gnýfara. Agnar hafði verið góðvinur Þorgeirs og komið oft á bak Gnýfara. Hann sagði mér að Gnýfari hefði verið gæðingur til reiða og mikill höfðingi í stóði. Hann sagðist hafa séð og heyrt Þorgeir kalla á Gnýfara þegar hann vildi fá hrossin heim og þá sá hann klárinn koma með allt stóðið á eftir sér heim að húsum.
 
Þetta er sagan um Gnýfara eins og ég best kann, en eflaust kann Gufunesfólkið miklu betri skil á þeirri sögu enda átti Gnýfari þar heimili mestan hluta ævi sinnar. 
 
Heimildir:
Víglundur Sigurjónsson
Gunnhildur Ágústsdóttir
Hörður Haraldsson
Atli Magnússon: Þorgeir í Gufunesi 1989
Glaður 60 ára: Hófadynur í Dölum.

6 myndir:

Skylt efni: Hrossarækt | Gnýfari

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum
Fréttir 19. apríl 2024

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum

Opinn gámur, yfirfullur af dýrahræjum, stóð á dögunum á steyptu bílastæði við in...

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði
Fréttir 16. apríl 2024

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði

Matvælastofnun hefur birt leiðrétta skýrslu yfir áburðareftirlit síðasta árs.