Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Jarðvegseyðing vegna útþenslu borga og umferðarmannvirkja
Fréttir 21. janúar 2015

Jarðvegseyðing vegna útþenslu borga og umferðarmannvirkja

Höfundur: Vilmundur Hansen

Víða í heiminum á sér stað gríðarleg jarðvegseyðing af völdum uppblásturs, eins og á Íslandi, skógareyðinga, mengunar, loftslagsbreytinga eða annarra ástæðna eins og stækkunar borga og umferðarmannvirkja.

Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) hefur lýst árið 2015 Alþjóðlegt ár jarðvegsins. Einkunnarorð ársins eru: Heilbrigður jarðvegur – heilbrigt líf.

Undirstaða matvælaframleiðslu

Í kvæðinu Mold kallar Steinn Steinarr þann hluta jarðvegsins sem í daglegu tali nefnist mold drottningu lífsins, móður og lífgjafa allra lifandi. Lýsing Steins gæti ekki verið betri því að við erum mun háðari jarðveginum en marga grunar.

Jarðvegur er undirstaða stórs hluta matvælaframleiðslu í heiminum hvort sem það er ræktun matjurta eða búfjár. Heilbrigður jarðvegur er iðandi af lífi, þar er allt krökkt af örverum, smádýrum og ánamöðkum og hann viðheldur líffræðilegum fjölbreytileika. Auk þess sem jarðvegur gegnir mikilvægu hlutverki í að hreinsa vatn og miðla því og að binda kolefni sem veldur hlýnun jarðar.

Á Íslandi og víða annars staðar í heiminum er uppblástur helsta ástæða jarðvegseyðingar. Annars staðar er eyðingin af allt öðrum toga og tengist meðal annars stækkun borga.

Útþensla borga

Manntalstölur sýna að í dag búa um 75% íbúa Evrópusambandsins í borgum og spár gera ráð fyrir að sú tala verði komin í 80% árið 2020 og 90% í sjö þéttbýlustu ríkjunum.

Í Evrópu er það sem kallast á ensku „soil sealing“ og felst í lokun eða yfirbreiðslu jarðvegs talin ein helsta ástæða jarðvegseyðingar. Það sem átt er við með yfirbreiðslu eða lokun jarðvegs er að eitthvert annað efni, eins til dæmis sement eða malbik, er sett yfir hann.

Síðustu áratugi hafa borgir í Evrópu stækkað mikið og þanist út í nærliggjandi sveitir. Útþenslan frá því á miðjum sjötta áratugnum er tæp 80% þrátt fyrir að fjölgun íbúa hafi verið 33% á sama tíma.

Upphaflega risu borgir í nágrenni við frjósamasta landið og þar sem matvælaframleiðsla var auðveldust og því það land sem hefur horfið undir mannvirki með stækkun borga.

Samhliða því að grunnar eru teknir fyrir íbúðar- og atvinnuhúsnæði, verslanir, skrifstofur og skóla eru lagðir vegir og búin til bílastæði. Til þess að hægt sé að fara út í fyrrgreindar framkvæmdir þarf land og framkvæmdirnar krefjast þess að jarðveginum sem fyrir er sé annað hvort skipt út eða hann þakinn sementi eða malbiki.

Ríflega 250 hektarar í ESB fara undir steypu og malbik á dag

Samkvæmt því sem segir á heimasíðu Evrópusambandsins fóru á 16 ára tímabili,1990 til 2006, ríflega 250 hektarar af ræktanlegu landi undir steypu og malbik í löndum ESB á hverjum degi vegna stækkunar borga. Gróflega reiknað jafnast það á við land á stærð við Berlínarborg og úthverfi hennar á hverju ári.

Í löndum eins og Belgíu, Hollandi, Þýskalandi og Lúxemborg er áætlað að um 5% alls lands sé undir malbiki eða steypu og um 2,3% af öllu landi í ESB samanlagt.

Sé horft til landnýtingar þá er hún best þar sem byggð er þéttust en minnst í útjöðrum borga. Íbúar úthverfa eru yfirleitt með stærri garða við heimili sín en um leið nota þeir að öllu jöfnu einkabíla meira og krefjast meiri umferðarmannvirkja til að komast leiða sinna en þar sem byggð er þéttari.

Vatnsrennsli úr skorðum

Auk þess sem dýrmætt ræktarland tapast þegar jarðvegur er hulinn hafa víða komið upp vandamál vegna regnvatns sem ekki finnur sér farveg niður í gegnum malbikið eða steypuna vegna þess hversu þétt yfirborðið er. Í mörgum tilfellum ná niðurföll og frárennslislagnir ekki að veita vatninu burt og við slíkar aðstæður geta skólplagnir fyllst og innihaldið blandast grunn- og drykkjarvatni í verstu tilfellunum.

Farvegur áa hefur einnig verið þrengdur og þær tapað stórum hluta af náttúrulegu vatnasviði sínu og því meiri hætta á að þær flæði yfir bakka sína í miklum vatnagangi og valdi þannig tjóni. Rín, stærsta á Evrópu, hefur til dæmis tapað 80% af náttúrulegu vatnasviði sínu undir mannvirki.

Dæmi um vanhugsaða eyðingu jarðvegs undir byggingar og umferðarmannvirki er meðal annars að finna í Parmadalnum á Ítalíu. Í huga margra sem til þekkja er dalurinn hjarta matvælaframleiðslu á Ítalíu. Skömmu fyrir síðustu aldamót voru 3.000 hektarar af landi í dalnum skipulagðir undir byggingar og öllu því sem þeim fylgir. Byggingarnar risu og vegir voru lagðir en áformin stóðust ekki og í dag standa húsin auð og engin ræktun á sér stað á landi sem í dag eru auð bílastæði.

Ástandið í Austurríki er öllu alvarlegra. Landið er lítið og vegna fjalllendis er einungis hægt að byggja mannvirki á um 1/3 landsins með góðu móti og enn minna af landinu er hæft til ræktunar. Íbúum Vínar fjölgar um tuttugu þúsund á ári og vegna plássleysis er reynt að skipuleggja ný byggingarsvæði vel og brjóta sem minnst af ræktarlandi undir mannvirki.

Mikilvægi jarðvegs eykst

Fyrir áratug eða svo höfðu fáir áhyggjur af ræktunarjarðvegi í Evrópu enda litið svo á að nóg væri til af honum. Framleiðsla á hektara var sífellt að aukast og matvælaframleiðsla í ESB að verða verksmiðjuvæddari. Þessi hugsun er á undanhaldi og mikilvægi jarðvegs og varðveislu hans alltaf að koma betur í ljós.

Þrátt fyrir að ástandið á Íslandi sé ólíkt því sem er að gerast í Evrópu þá hafa græn svæði í íbúahverfum í Reykjavík víða dregist saman vegna fjölgunar einkabíla. Einkabílum fylgir þörf fyrir bílastæði og mörg dæmi um að garðblettir við íbúðarhús hafi horfið undir hellulagt bílastæði. Samkvæmt breskri tölfræði var um 12% af görðum í London breytt í bílastæði á síðasta áratug. Afleiðingin er sú að víða í gömlum hverfum eiga frárennslislagnir erfitt með að taka við regnvatni þegar mest liggur við þar sem enginn jarðvegur er til að binda vatnið.

Engin lög um verndun jarðvegs

Ólíkt því sem á við um andrúmsloftið og vatn eru engin lög sem taka beint til verndunar jarðvegs innan Evrópusambandsins. Lög um losun sorps, úrgangsefna og notkun eiturefna í landbúnaði snerta jarðveg að sjálfsögðu en þau lög voru sett í öðrum tilgangi en að vernda jarðveg sem slíkan.

Flestir sem láta sig þessi mál varða innan ESB telja nauðsynlegt að snúa þessari þróun við og skipuleggja landnotkun betur en gert er í dag. Einnig er brýnt að endurheimta stór landsvæði sem tekin hafa verið undir mannvirki og ekki eru í notkun og koma þeim í sitt náttúrulega ástand aftur.

Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...

Jarðræktarmiðstöðin rís
Fréttir 22. apríl 2024

Jarðræktarmiðstöðin rís

Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands mun verða tilbúin árið 2027 gangi á...