Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Íslenska kokkalandsliðið í Lúxemborg í nóvember síðastliðnum eftir að hafa náð fimmta sæti á heimsmeistaramóti kokkalandsliða.
Íslenska kokkalandsliðið í Lúxemborg í nóvember síðastliðnum eftir að hafa náð fimmta sæti á heimsmeistaramóti kokkalandsliða.
Mynd / Sveinbjörn Úlfarsson
Fréttir 10. mars 2015

Íslenskur matur og matreiðsla sem landkynning

Höfundur: smh
Bocuse d‘Or, sem kölluð hefur verið óopinber heimsmeistarakeppni matreiðslumanna, fór fram í Lyon í Frakklandi dagana 27. og 28. janúar. Þar náðum við Íslendingar enn og aftur eftirtektarverðum árangri í matreiðslukeppni. Að þessu sinni var það Sigurður Helgason, yfirmatreiðslumaður á Grillinu, sem tók þátt fyrir Íslands hönd og lenti hann í áttunda sæti af 24 þátttakendum. 
 
Ljóst er af árangri íslenskra matreiðslumanna í alþjóðlegum keppnum á síðustu árum að Ísland er í fremstu röð matreiðsluþjóða, að minnsta kosti er hægt að fullyrða að svo sé á keppnisgrundvellinum. Frá því að Ísland hóf þátttöku í Bocuse d‘Or, árið 1999, hefur fulltrúi Íslands aldrei endað neðar en í níunda sæti. Í lok nóvembermánaðar á síðasta ári náði íslenska kokkalandsliðið fimmta sæti á opinberu heimsmeistaramóti landsliða í Lúxemborg, sem er besti árangur landsliðsins. Frá byrjun hefur einnig náðst góður árangur á heimsmeistaramótinu.
 
Viðmælendur Bændablaðsins eru sammála um að þessi árangur litla Íslands hafi talsvert auglýsingagildi fyrir landið og matvælalandið Ísland – sem landkynning. Þessir matreiðslumenn bera ótvírætt hróður lands og íslenskra matvæla á stóra svið hinnar alþjóðlegu matreiðslu. 
 
Meðal tíu bestu á undanförnum árum
 
Þráinn Freyr Vigfússon er margreyndur keppnismaður bæði með Kokkalandsliðinu og eins í Bocuse d‘Or – sem þátttakandi, fyrirliði og þjálfari, en hann þjálfaði einmitt Sigurð í keppnisferðinni til Lyon í janúar. Hann segir að stefnan hafi vissulega verið tekin á fyrstu þrjú sætin að þessu sinni, en það sé varla hægt að kvarta yfir áttunda sætinu. Mestu skipti að Sigurður hafi verið sáttur með hvað hann gerði og hann hafi staðið sig glæsilega. Keppnin sé erfið og margt spili inn í það að árangur náist.  
 
„Við erum á réttri braut bæði í Bocuse og með landsliðinu. Við þurfum bara að halda áfram á þessari braut. Við erum að fá núna góða styrktaraðila sem vonandi munu styrkja okkur áfram og betur. 
Það þarf peninga til að ná árangri og við þurfum meira af styrkjum til þess, en peningar eru ekki allt, ef efniviðurinn er ekki til staðar þá duga þeir skammt – en sem betur fer er nóg af honum.   
 
Við erum með góða matreiðslumenn sem leggja mikið á sig til að ná langt í faginu – og eru duglegir að kynna sér hvað er að gerast í heiminum. Það er klárlega tekið eftir því þegar við náum árangri, enda erum við aðeins tæplega 350 þúsund en erum meðal tíu bestu í heiminum í öllum keppnum síðustu árin. Allt þetta keppnisstarf skilar sér beint og óbeint heim til Íslands. Inn á veitingastaðina heima og sem landkynning í umfjöllun í erlendum fjölmiðlum eftir keppni. Síðast en ekki síst er framlag einstaklinganna sem fara utan sem gestakokkar eða í landkynningar fyrir hin og þessi fyrirtæki.“ 
 
Þráinn segir stöðu mála varðandi stuðning og styrktarsamninga við keppnishald í þessum geira sé orðið nokkuð gott í dag – og því beri að fagna. „Ríkið og stór fyrirtæki eru farin að átta sig á því að við þurfum að styrkja grunninn í þessari stærstu iðngrein okkar sem ferðamannaþjónustan er. Það er nauðsynlegt að það sé góður stuðningur við þetta sjálfboðalið sem unnið er á vettvangi Klúbbs matreiðslumanna og Kokkalandsliðsins, ásamt Bocuse d´Or-akademíunni á Íslandi. Ég tala nú ekki um framreiðslustörfin – sem við þurfum að upphefja og gera góð skil – því ekkert gott veitingahús er án góðs framreiðslumanns.“
 
Hafliði Halldórsson er forseti Klúbbs matreiðslumanna sem hefur staðið á bak við Kokkalandsliðið síðustu 30 árin. Hann bendir á að keppnisstarfið hafi fyrst og fremst gríðarleg áhrif á þróun matreiðslunnar til aukinna gæða – og í því að skapa fyrirmyndir innan fagsins. „Það er tiltölulega nýtilkomið að okkar árangur og ímynd Kokkalandsliðsins sé nýtt af alvöru í markaðsstarfi – hjá bakhjörlum okkar til dæmis – en það hefur nú þegar sýnt sig vera til gagns fyrir ímynd Íslands. Matvælalandið Ísland á mikið inni og við getum mikið lagt til málanna um að þróa það verkefni áfram.“
Hann segir margt skipa máli þegar markaðssetning matvæla sé annars vegar. „Framsetning skiptir miklu og sömuleiðis öll þekking og fræðsla, við viljum leggja okkar á vogarskálarnar til að kynna hreinar og góðar íslenskar matvörur. Við leggjum áherslu á að matvörurnar séu ekta, að sagan að baki vörunni sé sönn og vonumst til að það sé gert sem víðast.“
 
Eins og Þráinn segir skiptir fjárhagslegur stuðningur afar miklu þegar kemur að þátttöku í alþjóðlegum matreiðslukeppnum – og í þeirri bakgrunnsvinnslu leikur Íslandsstofa afar mikilvægt hlutverk. Það eru nefnilega ekki bara sendifulltrúarnir okkar í kokkabúningunum sem bera hróður matvælalandsins Íslands út um heiminn. Á vegum Íslandsstofu fer fram umfangsmikið kynningarstarf; bæði á erlendum vettvangi en einnig í móttöku erlendra blaða- matreiðslumanna sem vilja sækja Ísland heim. 
 
Kynningarhlutverk Íslandsstofu er margþætt
 
Á sviði sjávarútvegs- og matvæla hjá Íslandsstofu fer fram afar margháttað kynningarstarf, sem líklega er ekki á margra vitorði. Hlutverk sviðsins er að efla orðspor og ímynd Íslands sem upprunaland hreinna og heilnæmra matvæla og auka áhuga á íslensku hráefni, matvælum og matarmenningu Íslendinga.
 
Áslaug Þ. Guðjónsdóttir er verkefnisstjóri á þessu sviði. „Það er óhætt að segja að samstarf okkar sé á mjög víðtækum grunni. Á Íslandi störfum við með fólki í fagráði matvæla í ólíkum greinum matvælaframleiðslu; mjólk, fiski, kjöti og grænmeti. Við vinnum líka með Matís og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Einnig matvælaframleiðendum, bændum, matreiðslumönnum – auk samtaka hagsmunaaðila. 
 
Við eigum líka í náinni samvinnu við erlenda aðila; matarblaðamenn. Á síðasta ári tókum við á móti 27 erlendum blaðamönnum og eru þeir frá ýmsum löndum og ýmsum miðlum. Við höfum fengið virkilega góða umfjöllun eftir heimsóknir þeirra – í prentmiðlum, netmiðlum, sjónvarpi og á samfélagsmiðlum. Við veitum blaðamönnunum mismunandi þjónustu, allt frá því að benda þeim á viðeigandi aðila fyrir viðtöl, gefa þeim upplýsingar um veitingastaði og til þess að  skipuleggja ferðina og bóka allt sem henni við kemur. Sumir hafa samband við okkur vegna mikils áhuga á því að skrifa um Ísland og mat en sumir koma hingað að okkar frumkvæði með umfjöllun á ákveðnu markaðssvæði og ákveðnum miðli í huga.“
 
Eigum dýrmætan arf til að deila
 
Áslaug segir að við Íslendingar ættum að halda áfram á sömu braut varðandi kynningu á okkar matarmenningu, bera virðingu fyrir hefðunum og fagna nýjungum í framboði á íslenskum matvælum og matreiðslu. „Ísland er matvælaframleiðsluland, en lítið þekkt sem slíkt. Við þurfum því að vera dugleg í því að kynna okkur. Það felast gríðarleg tækifæri í því að kynna íslenskt hráefni, mat og matarmenningu – segja söguna af hefðum, nýsköpun, nýtingu orkunnar, náttúrunni og mörgu öðru.  Íslenskir matreiðslumenn gegna ákveðnu hlutverki í að móta og miðla matarmenningunni til erlendra ferðamanna og blaðamanna. Þeir eru hugmyndaríkir, eru færir í að byggja á hefðum og koma með nýjungar þar sem ferskleiki hráefnisins fær að njóta sín.“
 
Íslandsstofa hefur átt í góðu samstarfi við íslenska þátttakendur í tengslum við Bocuse d´Or-keppnina og einnig á vettvangi Kokkalandsliðsins. „Við sendum tilkynningar, myndir og myndbönd og ýmsar upplýsingar á almannatengslastofurnar sem við vinnum með í Evrópu (Frakklandi, Þýskalandi, Bretlandi, Spáni og Portúgal) og notuðum okkar miðla líka til að koma þessu á framfæri – vefi eins og Inspired by Iceland og samfélagsmiðla. Það er mikilvægt fyrir okkur að geta vísað til okkar frábæru matreiðslumeistara, eins og Sigurð Helgason og Kokkalandsliðið, þegar við kynnum „íslenska matarumhverfið“. Það skiptir miklu máli að við höfum íslenskt gæða hráefni og matreiðslufólk á heimsmælikvarða, það er samhljómur í því.“
 
Vægi íslensks matar og matar­menningar í landkynningu hefur lítið verið mælt til þessa, en hjá Íslandsstofu er unnið að því að  afla gagna um hlut tiltekinna þátta með auknum rannsóknum. Það mun þó vera örðugt að fá nákvæma heildarmynd af árangrinum vegna þess hve umfangsmikið starfið er. 
 
Dæmi um verkefni á vegum Íslandsstofu á síðasta ári:

 • Heimsóknir blaðamanna 
» Íslandsstofa tók á móti 27 matarblaðamönnum á síðasta ári frá dagblöðum, tímaritum, netmiðlum, sjónvarps- og útvarpsstöðvum. 
 

» Blaðamönnunum er veitt mismunandi þjónusta, allt frá því að benda þeim á viðeigandi aðila fyrir viðtöl, gefa þeim upplýsingar um veitingastaði og til þess að  skipuleggja ferðina og bóka allt sem henni viðkemur. Sumir hafa samband við okkur vegna mikils áhuga á því að skrifa um Ísland og mat en sumir koma hingað að okkar frumkvæði með umfjöllun á ákveðnu markaðssvæði og ákveðnum miðli í huga.
 

 • Bocuse d´Or 
»  Stutt var við þátttöku Íslands með gerð bæklings og matseðils fyrir keppnina. Fyrir og eftir keppni var send út tilkynning og kynningarmyndband á almannatengslastofuna þeirra í Frakklandi og á Facebooksíðu Inspired by Iceland-verkefnisins. 
 • Kokkalandsliðið
»  Sjávarútvegs- og matvælasvið Íslandsstofu ásamt sviði ferðaþjónustu og skapandi greina, gerðu samstarfssamning við Kokkalandsliðið. Íslandsstofa er einn af bakhjörlum liðsins og nýtur liðsinnis frá því í ýmis verkefni. Kokkarnir hafa eldað mat sem boðið hefur verið upp á í tengslum við ferðasýningar, útvegað uppskriftir í bæklinga og veitt ýmsa hjálp;  til dæmis við þjónustu við blaðamenn. Í kringum heimsmeistarakeppnina voru tilkynningar og myndir sendar á almannatengslastofur í Evrópu og ýmsir miðlar nýttir til þess að hampa liðinu. 
 
 • Matur á ferðasýningum
»  Hefur komið mjög vel út og verður gert meira af því. Í janúar síðastliðnum var boðið upp á saltfisk á ferðasýningu í Madrid. 
 
 • Taste of Iceland í Bandaríkjunum 
»  Þetta er verkefni Iceland Naturally http://icelandnaturally.com/. 
 
 • JaJaJa norræn tónlistarhátíð í Bretlandi 
»  Koma finnsks matreiðslumeistara var styrkt, en hann vann spennandi matseðil fyrir hátíðina JaJaJa í samvinnu við Emilíönu Torrini.
 
 • Samstarf við sendiráð Finnlands og Þýskalands
» Íslenskir dagar í Turku, kynning á íslenskum matvælum.
 
 • Barcelona (nú í febrúar)
»  Kynning á íslenskum matvælum. Forsetinn fer út. Heimsóttar verða verslanir með íslenskum sjávarafurðum. Í sérstakri móttöku verður boðið upp á ýmsar kræsingar frá Íslandi, til dæmis beikireykt þorsklifur, tvíreykt hangikjöt, kavíar og margt fleira. 
 
 • Litla eldhúsið
»  Notað í markaðsherferð Inspired by Iceland. Sjá vef: www.inspiredbyiceland.com. Eftir það var húsið nýtt í markaðsstarfi saltfisks í Suður-Evrópu, sjá http://www.responsiblefisheries.is/islenska/frettir-og-utgafa/video.
 
 • Iceland Responsible Fisheries
»  Íslandsstofa sér um kynningarstarf á mörkuðum fyrir íslenskar sjávarafurðir undir merkjum Iceland Responsible Fisheries. Unnið er að því að skapa íslenskum sjávarafurðum verðmæta ímynd með því að tengja saman íslenskan uppruna afurðanna og ábyrgar fiskveiðar. Sjá vottunarmerki og upprunamerki IRF http://www.responsiblefisheries.is/news-and-media/publications/.
 
 • Saltfiskur
»  Mikið markaðsstarf hefur verið unnið í Suður-Evrópu undanfarið, í Portúgal, á Spáni og Ítalíu. Þar er hinn íslenski uppruni afar mikilvægur í kynningu á vörunni og kynningarefnið vísar til íslenskrar menningar, sögu, hefðir og nýsköpun Íslendinga, einnig hreinnar náttúru hafs og lands. Lögð er áhersla á fólkið á bak við fiskinn, allt fólkið sem kemur að veiðum, vinnslu og fleira.
 
 • Almannatengsl 
»  Fjölmargar greinar hafa birst í hinum ýmsu miðlum um Ísland og íslenskan mat og matarmenningu. 
Kynningarfundur og viðburðir erlendis, m.a. sendinefndir til Brasilíu og Kína 2014 .
Inspired by Iceland – Supper Club 2012, Litla eldhúsið o.fl. 
»  Gott samstarf við ferðaþjónustusviðið og verkefnið Ísland allt árið (Inspired by Iceland). 
Samstarf við söluaðila á íslenskum matvælum – Frischeparadies 2013 
»  Íslenskur matreiðslumeistari fór til Þýskalands og tók þátt í kynningu á íslenskum matvælum og eldaði meðal annars í sjónvarpsþætti.

 

13 myndir:

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...

Jarðræktarmiðstöðin rís
Fréttir 22. apríl 2024

Jarðræktarmiðstöðin rís

Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands mun verða tilbúin árið 2027 gangi á...

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum
Fréttir 19. apríl 2024

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum

Opinn gámur, yfirfullur af dýrahræjum, stóð á dögunum á steyptu bílastæði við in...

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...