Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Íslenskum almenningi er tryggt aðgengi að vatni með lögum
Fréttir 18. maí 2015

Íslenskum almenningi er tryggt aðgengi að vatni með lögum

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Það er nú kannski að bera í bakkafullan lækinn að ræða meira um áhyggjur manna af neysluvatnsmálum í Bandaríkjunum og víðar um heim. Þær hljóta samt að vekja spurningar um stöðu mála á Íslandi og stefnu yfirvalda hvað varðar nýtingarrétt á vatni.

Í Bandaríkjunum horfa menn fram á endalaus dómsmál vegna sterks eignarréttar á grunnvatnslindum sem stangast á við rétt viðkomandi ríkja til nýtingar yfirborðsvatns sem hverfur ofan í jörðina.


Íslendingar ásamt Norðmönnum búa hvað best Evrópuríkja hvað vatnsauðlindir varðar. Hér hafa menn samt haft litlar áhyggjur af skorti á neysluvatni, enda virðist ofgnótt vatns um nær allt land.

Nýting mengaðs yfirborðsvatns var talsvert vandamál

Það er helst að áhyggjur hafi risið í Vestmannaeyjum á árum áður vegna neysluvatns sem þangað er nú flutt í pípum frá meginlandinu. Einnig höfðu menn áhyggjur vegna mengunar yfirborðsvatns sem nýtt var til neyslu og við matvælavinnslu á Ísafirði, Akranesi og í Keflavík.  Þar var lengi reynt að kæfa umræðuna um mengað vatn m.a. á forsendum fjárhagshagsmuna fiskvinnslunnar. Var það þrátt fyrir að ítrekaðar sýnatökur, eins og á Ísafirði, sýndu að neysluvatnið væri stundum jafnvel óhæft til að baða sig upp úr því.

Vakti þessi staða spurningar um svokallaða umhverfissjúkdóma, þar á meðal um blóðkrabbamein, sem líka var reynt að kæfa í fæðingu af íslenskum heilbrigðisyfirvöldum á þeim tíma. Úr þessu var sem betur fer leyst á Akranesi og í Keflavík með hreinsibúnaði. Þá duttu Ísfirðingar aldeilis í lukkupottinn þegar vatnsæð opnaðist við gerð Vestfjarðaganga á tíunda áratug síðustu aldar með óhemju magni af mjög hreinu bergsíuðu vatni. Er það nú bæði nýtt til neyslu og raforkuframleiðslu. Óljóst er hvernig staðan er á landinu öllu í dag hvað varðar nýtingu á yfirborðsvatni.

Útflutningur á vatni

Útflutningur á fersku vatni hefur verið mörgum uppspretta athyglisverðra viðskiptahugmynda sem  flestar hafa orðið að engu. Stundum hafa frumkvöðlar þó lagt af stað með háleit markmið en jafnharðan orðið að engu. Í dag er þó svo komið að reynslan hefur kennt mönnum hvernig eigi að standa að slíkum útflutningi. Nokkur fyrirtæki eru þegar að gera þar ágæta hluti og áhugi útlendinga mun örugglega aukast á komandi árum. Á að minnsta kosti tveim svæðum á landinu hafa menn farið þá leið að gera nýtingarsamninga við vatnsútflytjendur, sem hlýtur að vekja spurningar þegar litið er til stöðunnar í Bandaríkjunum.

Orkustofnun ber ábyrgð á stjórnsýslu vegna nýtingar á vatni

Vatn er nauðsynlegt til að æðra líf fái þrifist og kemur við sögu á mörgum og ólíkum sviðum mannlegrar tilveru. Orkustofnun ber ábyrgð á stjórnsýslu á tveimur afmörkuðum sviðum vatnamála á Íslandi. Þar er annars vegar um að ræða vatn sem auðlind til beinna nytja og hins vegar vatn sem orkubera fyrir vatnsafl og jarðhita.

Fram kemur á heimasíðu Orkustofnunar að náin samvinna sé við aðra opinbera aðila sem bera ábyrgð hver með sínum hætti á skyldum sviðum vatnamála.

„Þar má nefna Veðurstofu Íslands sem ber ábyrgð á almennum rannsóknum á vatnafari, Umhverfisstofnun sem hefur umsýslu með vatnatilskipun ESB og almennt eftirlit með heilbrigðisnefndum sveitarfélaga, sem aftur bera ábyrgð á hreinleika neysluvatns, Veiðimálastofnun sem rannsakar líf í vatni og Skipulagsstofnun sem fer með umhverfismat og skipulagsmál. Einnig er gott samstarf við orku- og veitufyrirtæki og samtök þeirra, Samorku, svo og við hin ýmsu sveitarfélög. Hér er ekki um tæmandi upptalningu að ræða, enda kemur vatnið víða við og frá mörgum hliðum.“

Réttur almennings á Íslandi er mjög sterkur

Jónas Ketilsson, yfirverkefnis­stjóri hjá Orkustofnun og staðgengill orkumálastjóra, segir að staða nýtingarréttar á vatni hér á landi sé með talsvert öðrum hætti en þekkist víðast í Bandaríkjunum. Hér sé réttur almennings til aðgengis að vatni tryggður þrátt fyrir nýtingarrétt mögulegra landeigenda. Við þetta hafa bæst ný lög um stjórnun vatnamála sem Umhverfisstofnun er gert að framfylgja. Með þeim lögum er verið að reyna að innleiða vatnatilskipun Evrópusambandsins sem reyndar hefur gengið hægt. Hugsunin með lögunum er að eftirlit og meðferð á þessari auðlind verði bætt.

Sveitarfélög hafa einkarétt á rekstri vatnsveitna

„Landeigendur eiga að öllu jöfnu þær auðlindir sem eru innan landareignar. Það breytir því þó ekki að hver sem er getur sótt um nýtingarleyfi. Ef nauðsyn ber til þá getur maður sem ekki hefur aðgengi að vatni á eigin landareign farið fram á það við nágranna sinn að komast í vatn hjá honum og greiða fyrir það lágmarks bætur. Réttur almennings er því mjög ríkur til að komast í gott vatn. Að öðru leyti er nýtingarrétturinn hjá landeigandanum, en viðkomandi sveitarfélag hefur þó forgangsrétt á rekstri vatnsveitu og staða þess er því mjög sterk í slíkum málum.“

Samkvæmt 1. grein laga um vatnsveitur sveitarfélaga gildir ákvæði um einkarétt sveitarfélaga til að reka vatnsveitur ekki um landsvæði þar sem ekki er talið hagkvæmt að leggja vatnsveitu.
Jónas segir að varðandi mál er snúa að nýtingu vatns til útflutnings þá gildi í raun sömu reglur.

Hann telur því varla mögulegt að t.d. erlend vatnsfyrirtæki geti öðlast slík vatnsréttindi hér á landi sem yfirtæki rétt almennings til aðgengis að vatninu líkt og þekkt er í Bandaríkjunum.

Til að tryggja meirihlutarétt sveitarfélaga og ríkis við rekstur vatnsveitna er í 4. grein laganna um heimild til ráðstöfunar á einkarétti sveitarfélaga, eftirfarandi ákvæði: „Sveitarfélag hefur einkarétt á rekstri vatnsveitu og sölu vatns sem hún getur fullnægt innan staðarmarka sveitarfélagsins, sbr. þó ákvæði 3. og 4. mgr. 1. gr. Sveitarstjórn er heimilt að fela stofnun eða félagi, sem að meiri hluta er í eigu ríkis og/eða sveitarfélaga, skyldur sínar og réttindi samkvæmt þessum lögum.“

Sveitarfélög geta ekki selt frá sér auðlindaréttinn

Sambærilegt ákvæði gildir að sögn Jónasar um hitaveitur sveitarfélaga. Þá sé sveitarfélögum ekki heimilt að selja frá sér auðlindaréttindi, þó þau geti selt frá sér land. Til að slík sala á landi án auðlindaréttinda geti farið fram þarf samt samþykki ráðherra. Jónas segir að það hafi flækt málið þegar jörðum var skipt upp í mörg býli, þá hafi auðlindaréttinum og þar með vatnsréttindum ekki alltaf verið skipt upp um leið í samningum. Því sé auðlindarétturinn og almenn hlunnindi sameiginleg sem margir hafi ekki áttað sig á.

Mikilvægt að fara varlega

Jónas segir að þótt Íslendingar búi vel hvað aðgengi að hreinu vatni áhrærir, þá sé auðvelt að spilla þeirri stöðu. Ekki þurfi t.d. nema eitt óhapp þar sem olíubíll færi á hliðina á viðkvæmu vatnasvæði til að gera vatnsból ónýtanleg um langan tíma. Afar mikilvægt sé því að fólk láti strax vita ef slík óhöpp verða svo hægt sé að bregðast við.

Skylt efni: Vant | náttúruauðlindur

Fyrsta myglulausa sumarið frá 2018
Fréttir 13. september 2024

Fyrsta myglulausa sumarið frá 2018

Ekki hefur orðið vart við kartöflumyglu í sumar sem er þá fyrsta myglulausa suma...

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum
Fréttir 13. september 2024

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum

Kartöflubændur í Nesjum í Hornafirði urðu fyrir verulegu tjóni á dögunum þegar h...

Bændur selja Búsæld
Fréttir 13. september 2024

Bændur selja Búsæld

Um 90 prósent bænda í Búsæld hafa ákveðið að taka kauptilboði Kaupfélags Skagfir...

Frekari fækkun sláturgripa
Fréttir 12. september 2024

Frekari fækkun sláturgripa

Um 28 þúsund færri lömb komu til slátrunar síðasta haust en árið á undan. Áfram ...

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi
Fréttir 12. september 2024

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi

Fjár- og stóðréttir eru fram undan og venju samkvæmt birtir Bændablaðið lista yf...

Lækkað verð á greiðslumarki
Fréttir 12. september 2024

Lækkað verð á greiðslumarki

Niðurstöður tilboðsmarkaðar fyrir greiðslumark mjólkur í byrjun september sýna l...

Smalað vegna óveðurs
Fréttir 12. september 2024

Smalað vegna óveðurs

Fyrsta haustlægðin kom á dögunum, með gulum og appelsínugulum viðvörunum, norðan...

Garðyrkjubændur rafmagnslausir
Fréttir 12. september 2024

Garðyrkjubændur rafmagnslausir

Raforkusamningum meirihluta garðyrkjubænda landsins hefur verið sagt upp. Í suma...