Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 mánaða.
Takashi Kamayachi selur veitingamönnum í Japan íslenskt lambakjöt. Hann kom til Íslands fyrir skemmstu.
Takashi Kamayachi selur veitingamönnum í Japan íslenskt lambakjöt. Hann kom til Íslands fyrir skemmstu.
Mynd / ál
Fréttir 29. ágúst 2025

Íslenskt lambakjöt í Japan

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Takashi Kamayachi er heildsali sem flytur 200 tonn af íslensku lambakjöti til Japans á hverju ári. Inni í þeirri tölu er bæði kjöt, innmatur og hausar. Hann verslar jafnframt með lambakjöt frá Nýja-Sjálandi, Ástralíu og Írlandi. Nánast allt íslenska kjötið er selt til veitingamanna.

Aðspurður segir Kamayachi stærstan hluta af öllu lambakjöti sem flutt er til Japans fara á svokallaða Teppanyaki-veitingastaði og á það sama við um kjötið frá Íslandi. Þar sitja viðskiptavinirnir við borð með innbyggðri steikarpönnu og elda matinn ýmist sjálfir eða fylgjast með kokki matreiða beint fyrir framan þá. Markaðshlutdeild íslensks lambakjöts af öllu innfluttu lambakjöti í Japan sé í kringum eitt prósent á meðan 95 prósent innflutningsins sé frá Ástralíu og Nýja-Sjálandi.

Asía verðmætur markaður

Í samanburði við hefðbundið lambakjöt sem Kamayachi þekkir segir hann það íslenska vera algjörlega ólíkt þegar kemur að bragði og lykt. „Kjötið frá Ástralíu og Nýja-Sjálandi er hefðbundin verslunarvara á samkeppnishæfu verði og eru stórir aðilar alltaf með einhverjar birgðir. Íslenska lambakjötið er næstum tvöfalt dýrara og einblínum við því á viðskiptavini sem kunna að meta muninn.

Ég legg mig fram við að kynna eitthvað ólíkt því sem kemur frá stærstu aðilunum. Sumir eru tilbúnir til að borga hátt verð fyrir bita eins og kótelettur, en Íslendingar þurfa að finna markað fyrir aðra kjötbita og innmat,“ segir Kamayachi. Í Asíu sé verðmætur markaður með þá hluta lambanna sem eru lítils virði á Vesturlöndum, eins og innmat.

Með því að búa til verðmæti úr innmat og ódýrari hlutum skepnunnar sé hægt að vega upp á móti minni framlegð sem sé oft á dýrari kjötbitum. „Það er ekki auðvelt að selja íslenska kjötbita á 70 til 80 dollara kílóið á meðan sömu bitar fást á 50 dollara frá Ástralíu og Nýja-Sjálandi. Það er hins vegar hægt að hækka kílóverð á innmat úr fimm dollurum upp í átta. Sumum innyflum henda sláturhúsin, en ef ég greiði tvo til þrjá dollara fyrir kílóið tekst mér að auka virði allrar skepnunnar. Þetta er kosturinn fyrir ykkur við að flytja út á framandi markað, því að við erum ólík Evrópu.“

Ullarmengun algengt vandamál

Þrátt fyrir að íslenska lambakjötið búi yfir miklum kostum þegar kemur að bragði, þá segist Kamayachi oft lenda í vandræðum með ófullnægjandi gæðaeftirlit í sláturhúsunum. Hann fái oft kjöt mengað með ull, bita sem eru skaddaðir eftir léleg vinnubrögð við úrbeiningu og samræmi vanti í kjötsögun. Þá séu pakkningarnar gamaldags og ekki aðlaðandi.

Á meðan kokkar á minni veitingastöðum sýni gæðafrávikum skilning og geti plokkað ullarhár frá, þá séu stór hótel með sérstakar innkaupadeildir sem hafna kjöti af ófullnægjandi gæðum. Kamayachi segist hafa hamrað á þessum gæðavandamálum frá byrjun, en enn þurfi að bæta svo vel verði. „Ég vil finna leiðir til þess að selja vöruna á hærra verði og að kaupendurnir geti treyst því að fá góða vöru,“ segir hann. Þrátt fyrir að kjötið frá Eyjaálfu sé ódýrara séu gæðafrávik þar hverfandi.

„Íslendingar framleiða allt sitt lambakjöt einu sinni á ári – í september og október. Í okkar tilfelli tekur tvo til þrjá mánuði að fá vöruna senda með skipi. Ástralir og Ný-Sjálendingar framleiða yfir allt árið og tekur einungis tíu daga að senda til Japans. Við þurfum því að leggja okkar pöntun inn í ágúst á vöru sem er framleidd í október og við fáum í janúar. Þá þurfum við að sjá fyrir hver eftirspurnin verður meira en ár fram í tímann.“

Kamayachi segir erfitt að sjá fyrir hvernig markaðurinn með íslenskt lambakjöt muni þróast á næstu árum. „Nýlega urðu miklar verðhækkanir og er ekki auðvelt að láta viðskiptavinina borga tvöfalt hærri upphæð.“ Hann reiknar með að halda áfram að flytja inn sama magn og finna leiðir til að auka virði vörunnar. Þá sé ekki endilega auðvelt að auka innflutninginn þar sem heildarútflutningur á íslensku lambakjöti sé ekki mikill og nú þegar fari tíu til tuttugu prósent til Japans. Frekar vilji hann auka söluna í rólegheitunum, auka gæðin og fjölga tækifærunum þannig, sem feli í sér minni áhættu fyrir íslenska bændur.

Vildi opna veitingastað í Reykjavík

Innflutningur Kamayachi á íslensku lambakjöti hófst fyrir um áratug. Upphaf þeirra viðskipta voru á þann veg að hann kom til Íslands til þess að kynna sér möguleikann á því að kaupa hrossakjöt. Á því ferðalagi kom hann við á veitingastað og pantaði rétt með lambakjöti. Kamayachi segir bragð kjötsins hafa komið sér mjög á óvart, en íslenska lambakjötið var bragðgott og alveg laust við vonda lykt sem hann hafði fundið af öðru lamba- og ærkjöti hingað til.

„Á sínum tíma vildi ég opna japanskan Teppanyaki-veitingastað í Reykjavík, en uppsetningin þar sem viðskiptavinurinn steikir matinn sjálfur var ekki samþykkt. Vonandi munu yfirvöld gefa grænt ljós á svona veitingastaði í framtíðinni því ég vil bjóða íslenskum sauðfjárbændum að bragða sitt kjöt framreitt á japanskan máta,“ segir Kamayachi.

Góð afkoma lykilatriði fyrir nýliðun
Fréttir 29. janúar 2026

Góð afkoma lykilatriði fyrir nýliðun

„Að fólk geti greitt sér laun fyrir vinnuna, byggt upp jarðir, ræktun og bygging...

Skýrt nei við aðildarviðræðum
Fréttir 29. janúar 2026

Skýrt nei við aðildarviðræðum

Ríflega 76 prósent bænda sem eru félagsmenn í Bændasamtökum Íslands eru ósammála...

Dreifikostnaður raforku hækkar
Fréttir 29. janúar 2026

Dreifikostnaður raforku hækkar

Gjaldskrárhækkanir dreifiveitna rafmagns hafa hækkað umfram vísitölu á undanförn...

Meðalafurðir mjólkurkúa aldrei meiri
Fréttir 29. janúar 2026

Meðalafurðir mjólkurkúa aldrei meiri

Samkvæmt niðurstöðum skýrsluhalds Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) fyrir...

Mesti fjöldi skráðra sæðinga
Fréttir 27. janúar 2026

Mesti fjöldi skráðra sæðinga

Metþátttaka var í sauðfjársæðingum nú í desember. Þann 9. janúar var búið að skr...

Kynbótamat byggs við íslenskar aðstæður
Fréttir 27. janúar 2026

Kynbótamat byggs við íslenskar aðstæður

Anna Guðrún Þórðardóttir kynnti í haust frumniðurstöður úr doktorsverkefninu Erf...

Þari í sauðakjöt, krydd og kex
Fréttir 27. janúar 2026

Þari í sauðakjöt, krydd og kex

Nýtt frækex, unnið úr íslenskum þara, er komið á innlendan markað.

Ómarktæk vísindagrein um skaðleysi glýfosats
Fréttir 27. janúar 2026

Ómarktæk vísindagrein um skaðleysi glýfosats

Í niðurstöðum vísindagreinar í tímaritinu Regulatory Toxicology and Pharmacology...