Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Íslensk mjaltaþjónabú setja nýtt heimsmet
Mynd / BBL
Fréttir 9. febrúar 2017

Íslensk mjaltaþjónabú setja nýtt heimsmet

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Nú liggur fyrir uppgjör ársins 2016 um mjólkurframleiðslu kúabúa með mjaltaþjóna en uppgjör sem þetta hefur hingað til verið gert annað hvert ár. Nú hefur verið gerð sú breyting á að uppgjörið er gert árlega þar sem útbreiðsla mjaltaþjóna er orðin mjög mikil á Íslandi. 
 
Alls voru um áramótin 150 kúabú með mjaltaþjóna í notkun, en árið 2015 voru þau 135 og voru þessi 150 kúabú með alls 188 mjaltaþjóna sem er fjölgun um 23 mjaltaþjóna á einu ári. Enn einu sinni var sett nýtt met þegar horft er til innvigtunar mjólkur frá mjaltaþjónabúum en hlutfallið fór úr 37,2% árið 2015 í 41,8% árið 2016 og er þetta hlutfall það hæsta sem vitað er um í heiminum en Ísland hefur setið á þessu heimsmeti nú í tvö ár í röð. Á nýliðnu ári voru þrjár tegundir mjaltaþjóna í notkun hér á landi, þ.e. GEA, Lely og DeLaval.
 
Þetta kemur m.a. fram í umfjöllun Snorra Sigurðssonar á bls. 42 og 43 í blaðinu í dag. Snorri er sviðsstjóri mjólkurgæðasviðs dýralækninga- og gæðadeildar SEGES í Danmörku og hefur verið pistlahöfundur Bændablaðsins um árabil. 
 
Hæsta hlutfall í heimi
 
Snorri segir að undanfarin ár hafi hlutfall mjólkur frá mjaltaþjónabúum aukist jafnt og þétt hér á landi. Á síðasta ári nam innvigtun frá þessum búum alls 62,8 milljónum lítra. Það ár var heildarinnvigtunin hér á landi 150,3 milljónir lítra og stóðu mjaltaþjónabúin því undir 41,8% allrar innveginnar mjólkur hér á landi. Þetta hlutfall er einnig það hæsta sem vitað er um í heiminum. Aukningin á innvigtuninni frá mjaltaþjónabúum landsins var alls 6,5 milljónir lítra á síðasta ári, eða sem nemur 15,7% á einu ári.
 
Telur Snorri að hægt ætti að vera að auka nýtingu þeirra mjaltaþjóna sem nú eru í notkun. Hún er nú að meðaltali um 64,4% sé horft til afurðasemi þess mjaltaþjóns sem mestu skilar á landinu öllu. Þetta hlutfall gæti mögulega farið í um 70% að mati Snorra. 
 
Hvert bú með 418 þúsund lítra að jafnaði
 
Að jafnaði var hvert mjaltaþjónabú að leggja inn 418 þúsund lítra á síðasta ári en til samanburðar má geta þess að önnur bú á landinu lögðu inn að jafnaði 181 þúsund lítra. Munurinn eru 238 þúsund lítrar sem er töluverð aukning á milli ára. 
 
Bilið í bústærð er því að aukast töluvert og eru mjaltaþjónabúin nú að jafnaði 2,3 sinnum stærri en bú sem nota hefðbundna mjaltatækni. Árið 2015 var þessi munur minni, en þá lögðu mjaltaþjónabúin inn að jafnaði 403 þúsund lítra og önnur bú 190 þúsund lítra.
 
Árið 2016 var hvert mjaltaþjónabú með að meðaltali 1,25 mjaltaþjóna (118 bú með 1 mjaltaþjón, 27 bú með 2 mjaltaþjóna, 4 bú með 3 mjaltaþjóna og 1 bú með 4 mjaltaþjóna). 
 
Innvigtunin frá hverjum mjaltaþjóni var að jafnaði 334 þúsund lítrar á síðasta ári sem er aukning á milli ára um 5 þúsund lítra. Þrátt fyrir þessa aukningu telur Snorri dagljóst að nýtingu mjaltaþjóna hér á landi megi stórbæta. Enda sé afar mikill munur á milli búanna þegar horft er til innvigtunar frá hverjum mjaltaþjóni að jafnaði.

Skylt efni: mjaltaþjónar

Halla tekur upp Íslenskt staðfest
Fréttir 28. mars 2024

Halla tekur upp Íslenskt staðfest

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjubóndi og eigandi Sólskins grænmetis ...

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands
Fréttir 27. mars 2024

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Fjölmörg mál voru til afgreiðslu á nýliðnu Búnaðarþingi 2024, úr fimm nefndum, s...

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025
Fréttir 27. mars 2024

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um frestun á gildistöku banns við endurnýtingu ...

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi
Fréttir 27. mars 2024

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi

Fyrirkomulag landbúnaðarstuðningskerfis á Íslandi mun taka miklum breytingum ef ...

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst
Fréttir 26. mars 2024

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst

Fyrrverandi sláturhússtjóri á Vopnafirði ætlar ekki að láta deigan síga þrátt fy...

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal
Fréttir 26. mars 2024

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal

Niðurskurður á sauðfé frá bæjunum Eiðsstöðum og Guðlaugsstöðum í Blöndudal fór f...

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga
Fréttir 26. mars 2024

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga

Kornræktarfélag Suðurlands verður endurvakið sem viðskiptavettvangur ræktenda og...

Grípa þarf tækifærin
Fréttir 26. mars 2024

Grípa þarf tækifærin

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, telur að bændur eigi að leyfa sér að hor...