Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Sveinn er hér við nýuppgerðan Farmall Cub. Þessi traktor var notaður um árabil í skógræktarstöðinni Kjarna á Akureyri. Björn Bjarnarsson, fyrrverandi bílstjóri hjá Landgræðslunni, gerði vélina svo vel upp að hún er eins og ný.
Sveinn er hér við nýuppgerðan Farmall Cub. Þessi traktor var notaður um árabil í skógræktarstöðinni Kjarna á Akureyri. Björn Bjarnarsson, fyrrverandi bílstjóri hjá Landgræðslunni, gerði vélina svo vel upp að hún er eins og ný.
Mynd / Landgræðslan
Viðtal 8. apríl 2016

Í eldlínunni í hálfa öld

Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson
Sveinn Runólfsson hverfur brátt úr embætti landgræðslustjóra en hann lætur formlega af störfum laugardaginn 30. apríl í vor. Af því tilefni settist Magnús Hlynur Hreiðarsson niður með Sveini til að fara yfir ferilinn í þessa hálfa öld.  
 
Sveinn segist sjálfur vilja sjá öfluga stofnun annast í framtíðinni alla náttúruvernd, rekstur þjóðgarðanna, friðlýstra svæða, landgræðslu og skógrækt. 
 
Þakklæti efst í huga
 
„Á þessum tímamótum er mér efst í huga þakklæti til núverandi og fyrrverandi starfsmanna Landgræðslu ríkisins og allra þeirra sem ég hef starfað með á liðnum árum og áratugum. 
 
Mér finnst þetta ekki búið að vera svo langur tími sem ég hef fengið að leggja mitt af mörkum við að græða landið. En ég er ákaflega þakklátur fjölskyldu minni fyrir að hafa staðið með mér í öll þessi ár og þakklátur fyrir að hafa haldið góðri heilsu og get hlakkað til að snúa mér að mínum hugðarefnum, sem flest tengjast landinu á einn eða annan hátt,“ sagði Sveinn aðspurður hvað sé honum efst í huga eftir öll þessi ár sem landgræðslustjóri.
 
Fimm ára gamall á Farmall Cub
 
Sveinn var ekki hár í loftinu þegar hann tók sín fyrstu skref sem vinnumaður í Gunnarsholti, ólaunaður þó.
 
„Sumarið 1951 var ég settur á Farmall Cub við að slóðadraga tún í Gunnarsholti. Ég var aðeins fimm ára gamall og náði ekki niður á kúpl­ingu og bremsur, þannig að Páll Sveinsson, föðurbróðir minn, fylgdist með mér og setti vélina af stað, stökk af vélinni og kom svo og sótti mig með því að stökkva upp á dráttarvélina í lok dags eða þegar yfirferð var lokið um túnið. Síðan var ég settur á fleiri dráttarvélar á sumrin 1952 og 1953 við ýmis landbúnaðarstörf.“
 
Þegar faðir Sveins lést árið 1954 flutti fjölskyldan til Reykjavíkur og Sveinn fór í sveit á Strönd í Meðallandi en þar var hann í fimm sumur, sem hann telur ein sín mestu manndómsár.
 
„Síðan fer ég til starfa hjá Sandgræðslu Íslands í Gunnarsholti sumarið 1959, þá 13 ára gamall, og vann ýmis störf við búskapinn og uppgræðsluna í Gunnarsholti, þar á meðal við plöntun skjólbelta með Jóni Loftssyni, síðar skógræktarstjóra. Okkur leiddist báðum að planta trjánum, vildum miklu frekar vinna á dráttarvélunum. En Jón hefur nú aldrei viljað viðurkenna þetta.“
 
Landgræðsla varð ævistarfið
 
Næstu sumur vann Sveinn í Gunnarsholti og vorið 1963 gerir Páll Sveinsson hann að ráðsmanni í Gunnarsholti, sem var þá langstærsta bú landsins. Sveinn var aðeins sautján ára þegar hann fékk ráðsmannstitilinn og hélt honum öll sumur til ársins 1973.
 
„Þegar ég lauk BS-námi í háskólanum í Aberdeen vorið 1970 var ég skipaður fulltrúi landgræðslustjóra og tók þá við því embætti af Ingva Þorsteinssyni. Ég gegndi því starfi uns Páll heitinn féll frá 1972, en þá var ég enn í háskólanámi í Cornell-háskóla í Bandaríkjunum. Allt mitt nám miðaðist við að starfa við landgræðslu og ég hef aldrei starfað við annað á ævinni nema í fimm vikur á mjólkurbúi í Englandi. Þannig að það kom af sjálfu sér að sækja um starfið, þótt ég væri enn í námi og alltof ungur. En Halldór E. Sigurðsson hafði trú á mér að ég gæti þetta, rétt eins og foreldrar mínir tóku við ábyrgðarstöðum kornung að aldri.“
 
Sveinn segir erfitt fyrir ungt fólk að gera sér grein fyrir því hvaða breytingar símar og tölvur hafa haft á samfélagið. Þá sé erfitt að útskýra byltinguna í samgöngum  og hvaða áhrif hún hafi haft. Sama gildi hvað varðar þær breytingar sem hafa orðið í tækni við að koma boðskap um landgræðslu og gróðurvernd til landsmanna. Þá hafi verkstjórn, fjármálastjórn og mannauðsstjórnun breyst til batnaðar.  
 
Mun meiri þekking á náttúrunni
 
− En hvað segir fráfarandi landgræðslustjóri um árangur og breytingar í landgræðslustarfinu? 
„Fyrst má nefna að þekking manna á náttúrunni, jarðvegi og gróðri sé allt önnur og meiri, þökk sé miklu og vönduðu rannsóknastarfi margra aðila. Margt sem gert  hafi verið á Íslandi í endurheimt landgæða og jarðvegsvernd hafi vakið verðskuldaða athygli á erlendum vettvangi. „Fyrirrennarar mínir hófu það erfiða starf að bjarga byggðum frá því að verða sandi að bráð. Í þessu sambandi má nefna Rangárvelli, Landsveit, Þorlákshöfn, Eyrarbakka og Vík í Mýrdal á Suðurlandi og Kópasker og Öxarfjörð fyrir norðan. Það féll svo í minn hlut að ljúka verkinu. Okkur tókst að stöðva hraðfara gróður- og jarðvegseyðingu. Undantekning eru þó afleiðingar hamfarahlaupa í Skaftá.“
 
Hefði viljað sjá meiri árangur í gróðurverndarmálum
 
Sveinn leggur áherslu á að alltof víða hafi eyðingin enn yfirhöndina. Hann nefnir í þessu sambandi stór landsvæði við hálendisbrúnina og á hálendi landsins. 
 
„Það sem mér gremst er að ekki skuli hafa náðst meiri árangur í gróðurverndarmálum. Það er enn langt í land að við getum horft kinnroðalaust framan í afkomendur okkar og sagt að við séum að nýta beitilöndin með sjálfbærum hætti. Við getum engum öðrum um kennt en okkur sjálfum sem förum með forræði gróðurverndarmála og fræðslu til bænda sem eiga eða fara með beitarrétt á nær öllu landinu. Við tölum öll um sömu hlutina og enginn vill skaða land, en það er himinn og haf á milli skilnings bænda annars vegar á hugtökum er lúta að sjálfbærri landnýtingu og hins vegar vistfræðinga og annarra fræðimanna á gæðum beitilanda.“
 
− En hvað þá um skilning stjórnvalda og hagsmunaaðila á nauðsyn landgræðslu? 
„Stjórnvöld hafa alltaf sýnt landgræðslustarfinu skilning og velvilja, en misjafnlega mikinn þó. Hvernig þetta skilaði sér í auknum fjárveitingum og umbótum var oft háð því hversu hart stjórnvöld voru keyrð af forsvars- og hagsmunaaðilum bænda. Ég segi hér forsvars- og hagsmunaaðilum bænda því ég geri skýran greinarmun á þeim og almennum bændum. Langflestir bændur hafa haft ríkari skilning á velferð og verndun landsins en forsvarsmenn þeirra. Þetta er ekki auðskýranlegt en forysta bænda hefur æði oft verið afar þröngsýn á raunverulega gróðurvernd,“ segir Sveinn og trúir því að þetta  sé að breytast.
„Já, núverandi stjórn Lands­samtaka sauðfjárbænda hefur sýnt gróðurvernd og sjálfbærri landnýtingu gleðilegan og jákvæðan skilning. Almenn þekking á sviði landgræðslu hefur aukist og æ fleiri hafa áttað sig á að við verðum að horfa til hagsmuna komandi kynslóða, ekki bara að tala um það.“
 
Ekki keppikefli að græða allt landið
 
Aðspurður segir Sveinn að það vanti afskaplega mikið upp á að Íslendingar hafi greitt skuldina við landið, en hann tekur fram að vissulega hafi landsmenn lækkað skuldastabbann með myndarlegum greiðslum. Sveinn segir líka að það sé ekki endilega keppikefli að græða allt landið.
 
„Við eigum að leggja áherslu á að græða aftur upp það land sem við höfum fordjarfað með búsetu okkar í aldanna rás. En þær auðnir sem náttúruöflin hafa sjálf skapað, eins og t.d. við Veiðivötn og á Skeiðarársandi, eigum við ekki að græða upp, nema þá þar sem samgöngur krefjast þess eins og á Mýrdalssandi. Enn fremur verður þessi moldríka þjóð að komast á það menningarstig að vernda moldina og tryggja að öll beitarnýting verði með sjálfbærum hætti. Skyndilega hefur svo hvolfst yfir okkur nýr hernaður gegn landinu og náttúrunni og það er ágangur ferðamanna. Þar voru stjórnvöld tekin fullkomlega í bólinu og því miður virðast þau enn þá vera að mestu ráðþrota hvernig við skuli brugðist.“
 
Úrelt lög um landgræðslu
 
Það kom fram í spjallinu við Svein að alls hefur hann starfað undir stjórn sautján ráðherra og átt talsverð samskipti við nokkra forsætisráðherra og fimm ráðuneytisstjóra.
 
„Úr síðasta hópnum tel ég þrjá meðal minna nánustu vina. Aldrei bar skugga á samstarf mitt við alla þessa embættismenn. Þegar upp er staðið má segja að ég hafi átt afskaplega farsæl samskipti við stjórnvöld. Eina sem hefði mátt ganga betur er endurskoðun laga um landgræðslu, en lögin, sem eru frá árinu 1965, eru úrelt. Ég gerði hvað ég gat til að fá lögin endurskoðuð en allt kom fyrir ekki.“  
Sveinn segir að persónuleg samskipti við þingmenn hafi dregist saman eftir því sem tölvutæknin jókst og það finnst honum miður.  
 
„Ég hef alla tíð gætt þess að skipta mér aldrei af pólitík. Einn fyrrverandi ráðherra minn og ágætur vinur sagði eitt sinn við mig: „Þú varst ótrúlegur, þú lést okkur ráðherrana alla halda að þú værir í okkar flokki.“ En ég kom alltaf hreinn og beinn til dyranna, ég bara skipti mér ekki af pólitík.“
 
Sameiningar og öflugri stofnun
 
Í áratugi hefur Sveinn verið talsmaður þess að sameina landgræðslu og skógrækt. „Þetta eru greinar á sama meiði. Nokkrir ráðherrar hafa reynt en málið hefur ávallt strandað á þingmönnum Austurlands. Ég tel það hafa verið afar miður fyrir græna geirann. Sameinuð stærri stofnun hefði náð markvissari árangri.“ 
Sveinn hefur sömuleiðis hvatt til sameiningar innan græna geirans og annarra stofnana sem fara með umhverfisvernd.
 
„Þarna vil ég sjá öfluga stofnun sem annast alla náttúruvernd, rekstur þjóðgarðanna, friðlýstra svæða, landgræðslu og skógrækt. Stofnanirnar sem annast þessa málaflokka núna eru litlar og vanmáttugar. 
Við þurfum eina öfluga stofnun sem getur  meðal annars byggt upp innviði á á ferðamannastöðum til að taka á móti ört vaxandi  straumi ferðafólks á öllum árstímum. Náttúruvernd á Íslandi er í molum.  Stjórnvöld eru búin að ræða í nokkur misseri um að grípa verði til varnar en miðað við vandann sem við blasir gerist lítið. Það hefur aldrei verið brýnna en nú að stofnanakerfi umhverfis- og auðlindaráðuneytisins verði sameinað og eflt. Þá verða ráðuneyti umhverfis- og ferðamála að ganga í takt.“
 
Þjóðargjöfin skilaði gríðarlegum árangri
 
− En hvað er það sem er Sveini eftirminnilegast frá löngum ferli?
Hann veltir því fyrir sér en segir svo að það sé útilokað að nefna einstakt málefni en eitt af því sem komi upp í hugann sé hin svokallaða Þjóðargjöf. „Hún margfaldaði getu Landgræðslunnar til framkvæmda og skilaði gríðarlegum árangri. 
 
Á tímum Þjóðargjafarinnar var óhemju mikið umleikis hjá Landgræðslunni. Ég var eini fagmenntaði starfsmaðurinn en ég hafði landbúnaðarmenntaðan mann mér til aðstoðar í hlutastarfi. Þetta var Stefán H. Sigfússon, sem hafði meðal annars mikla reynslu af ríkisrekstri. Enn fremur naut ég starfskrafta margra annarra reynslubolta í sandgræðslu víða um landið.“
 
Baráttan um afréttina hófst á áttunda áratugnum þegar Sveinn lagði mikla áherslu á að ná samstarfi við sveitarstjórnir og bændur um að hætt yrði að reka hross á verst förnu afréttina og að stytta beitartíma sauðfjár á þeim. Á þessum árum voru jafnvel dæmi um að fullorðið fé væri rekið aftur á afrétt eftir göngur.
 
„Þessi barátta stendur enn. Eftir öll þessi ár er nýting verst förnu afréttanna enn ekki ásættanleg. Emstrurnar í Rangárþingi eystra eru eini afrétturinn sem er friðaður fyrir beit.“
 
Landgræðsluflugið er Sveini afskaplega minnisstætt.  Ástæðan er ekki sú að hann hafi yndi af flugvélum heldur fannst honum merkilegt að fylgjast með afköstunum í uppgræðslunni – og glæsilegum árangri í endurheimt landkosta. Í fjölmörg ár flugu íslenskir atvinnuflugmenn landgræðsluflugvélinni Páli Sveinssyni án endurgjalds og sýndu þannig hug sinn og raunar íslensku þjóðarinnar til landgræðslustarfsins.
 
Að lokum nefnir Sveinn upp­byggingu byggðarinnar í Gunnarsholti. Þegar hann tók við forræði í Gunnarsholti var húsakostur afar ófullnægjandi. Páll Sveinsson var mikill athafnamaður og setti hverja krónu sem stofnunin fékk til ráðstöfunar beint í sandinn til uppgræðslu, en Sveinn taldi rétt að byggð yrðu íbúðarhús og fólk laðað til búsetu í Gunnarsholti. Fyrir tilstuðlan Landgræðslunnar voru byggð fimm íbúðarhús á seinni hluta síðustu aldar. Aðstaða fyrir vélahald og búrekstur var endurbyggð og ný stóðhestastöð reis af grunni. Fólk flutti á staðinn.
 
Á síðustu árum hafa  þrjú íbúðarhús í Gunnarsholti – kennd við Akurhól – verið endurbyggð. Í þeim eru m.a. hýstir nemendur Landgræðsluskóla Sameinuðu þjóðanna og erlent vísindafólk sem leggur leið sína í Gunnarsholt.
„Það hefur tekist að byggja hér upp í Gunnarsholti vísi að háskólasetri í samstarfi við fjölda aðila og ég er stoltur af því starfi,“ segir Sveinn.
 
Áhugi og velvild meðal almennings
 
Landgræðslustarfið hefur á liðnum áratugum notið mikillar virðingar meðal almennings og margir aðilar, fyrirtæki og félagasamtök lagt málefninu lið með margvíslegum hætti. Tugum milljóna króna hefur verið safnað og varið til landgræðslu. Þá hafa margir aldnir einstaklingar kosið að ánafna stofnuninni bæði fjármunum og lendum. 
 
Sveinn segir að slíkar gjafir hafi m.a. gert Landgræðslunni kleift að endurbyggja hesthús stóðhestastöðvar í Gunnarsholti og setja upp glæsilega gestastofu og kynningarsetur sem hlaut nafnið Sagnagarður. Í Sagnagarði er landgræðslustarfið rakið í máli og myndum. 
 
Flytur á Selfoss
 
− Og hvað tekur nú við? 
Sveinn veltir spurningunni fyrir sér og segir svo: 
„Við hjónin höfum ekki haft tíma til að hugleiða það en ég get fullvissað þig um að okkar bíða ótal verkefni. Það fyrsta er að flytja til Selfoss. Við horfum bjartsýn fram á veginn og erum alveg harðákveðin í því að lifa lífinu lifandi og fagna hverjum degi.“ 

7 myndir:

Ráðuneytið svarar ESA um óvissuatriði
Fréttir 15. júlí 2024

Ráðuneytið svarar ESA um óvissuatriði

Matvælaráðuneytið segir í svari við fyrirspurn ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, að sa...

Farsæll áhugaræktandi
Fréttir 15. júlí 2024

Farsæll áhugaræktandi

Þrír synir undan heiðursverðlaunahryssunni Álöfu frá Ketilsstöðum komu fram á La...

Hundrað hesta setningarathöfn
Fréttir 12. júlí 2024

Hundrað hesta setningarathöfn

Setningarathöfn Landsmóts hestasmanna er alla jafna hátíðleg.

Til þess var leikurinn gerður
Fréttir 11. júlí 2024

Til þess var leikurinn gerður

Stjórn Búsældar hefur fyrir sitt leyti samþykkt söluna á Kjarnafæði Norðlenska t...

Skammur aðdragandi að sölunni
Fréttir 11. júlí 2024

Skammur aðdragandi að sölunni

Bræðurnir Eiður og Hreinn Gunnlaugssynir hafa sem áður segir samþykkt kauptilboð...

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska
Fréttir 11. júlí 2024

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska

Meginmarkmið kaupa Kaupfélags Skagfirðinga (KS) á Kjarnafæði Norðlenska (KN) er ...

Tilþrif á Landsmóti
Fréttir 11. júlí 2024

Tilþrif á Landsmóti

Enginn skortur var á glæsilegum tilþrifum stólpafáka sem komu fram í gæðingakepp...

Verður langstærsta kjötafurðastöð landsins
Fréttir 11. júlí 2024

Verður langstærsta kjötafurðastöð landsins

Kaupfélag Skagfirðinga (KS) hefur gert kauptilboð í allt hlutafé Kjarnafæðis Nor...