Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Hvaðan eru lifandi jólatré?
Lesendarýni 12. janúar 2016

Hvaðan eru lifandi jólatré?

Höfundur: Else Möller skógfræðingur
Nóvember og desember eru vertíðarmánuðir jólatrjáabænda. Fáir gera sér grein fyrir þeirri vinnu sem liggur að baki jólatrjánum sem allt í einu birtast á sölustöðum og jólamörkuðum í desember. Lifandi jólatré sem seld eru á Íslandi eru annaðhvort ræktuð á Íslandi eða flutt inn frá Danmörku. Meirihluti þeirra lifandi jólatrjáa sem standa á íslenskum heimilum um jólin verður innflutt tré, um það bil 80%.
 
Dönsku jólatrén eru normannsþinur, þintegund sem upprunnin er í Kákasusfjöllum við Svartahaf, í Georgíu og þar í kring. Í Danmörku eru trén ræktuð á túnum og ræktunin tekur um átta ár. Árlega er borinn á þau tilbúinn áburður til að örva vöxt. Jarðvegurinn er hreinsaður með eitri til að losna við samkeppnisgróður og koma í veg fyrir skemmdir og frostáhrif. Allt frá gróðursetningu þar til trén eru höggvin eru þau meðhöndluð með margvíslegum hætti. Fyrst eru neðstu greinarnar klipptar af til að mynda legg sem auðvelt verði að saga og koma fyrir í jólatrésfæti. Nokkurra ára gömul er farið að klippa trén til svo að þau nái æskilegu vaxtarlagi.
 
Mikill metnaður er lagður í jólatrjáaræktunina í Danmörku og greinin er mjög skilvirk enda háþróuð tækni nýtt við framleiðsluna,  sérhönnuð tæki og vélar. Til að inna af hendi þá líkamlegu vinnu sem framleiðslan krefst er að mestu treyst á innflutt vinnuafl frá Austur-Evrópu. 
 
Danir framleiða um 10 milljónir jólatrjáa á hverju ári og meirihlutinn er normannsþinur til útflutnings. Danmörk er stærsti útflytjandi jólatrjáa í heiminum og nemur salan um 1,5 milljörðum danskra króna á ári, um 30 milljörðum íslenskra króna. Hvergi í heiminum eru þó framleidd fleiri jólatré en í Þýskalandi. Þjóðverjar rækta um 17 milljónir jólatrjáa árlega en selja þau að mestu leyti innanlands.   
 
Á Íslandi er jólatrjáaræktun á mun minni mælikvarða. Sala íslenskra jólatrjáa hefur ekki farið yfir 10.000 tré síðan 1998 með einni undirtekningu þó. Það var árið 2009. Markviss jólatrjáaræktun hefur verið reynd á Íslandi allt frá árunum eftir seinni heimsstyrjöld. Þá var gróðursett töluvert af rauðgreni og blágreni, meðal annars hjá Skógrækt ríkisins og skógræktarfélögum, en óhagstætt veðurfar, fjármagnsskortur, reynsluleysi og fleira kom í veg fyrir að íslensk jólatrjáaframleiðsla þróaðist í takt við væntingar. 
 
Tilraunir hafa verið gerðar með jólatrjáaræktun á túnum hérlendis en hefur sjaldan verið eftir væntingum. Ýmislegt gerir erfitt um vik að nýta þessa ræktunaraðferð við íslenskar aðstæður. Skjólleysi, kal vegna vor- og haustfrosta, óhóflegur grasvöxtur, þurrkur og fleira leiðir oft til þess að trén hætta að vaxa eða drepast. Einnig hefur rangt val á tegundum og kvæmum iðulega haft neikvæð áhrif á útkomuna. 
 
Engu að síður birtast alltaf íslensk ræktuð jólatré fyrir jólin. Trén koma frá skógræktarfélögum, úr þjóðskógunum eða frá skógarbændum víða um land. Þau eru auglýst til sölu hjá skógræktarfélögum, Skógrækt ríkisins, á jólamörkuðum og í verslunum. Þessi tré hafa yfirleitt verið ræktuð í skjólgóðum hlíðum, í svokölluðum skógarskápum eða á öðrum stöðum þar sem vaxtarskilyrði eru hentug. Sjaldnast eru þau gróðursett með því eina markmiði að þau verði jólatré heldur eru þetta 12–15 ára tré, tekin út úr ungskógi sem liður í grisjun hans. 
 
Á Íslandi er stafafura algengasta innlenda tréð sem notað er sem jólatré enda harðgerð og getur vaxið um land allt. Hún er líka barrheldin eins og þinur, fallega græn og ilmar vel. Rauðgreni og blágreni vex líka vel, sérstaklega inn til landsins. Þær tegundir eru vinsælar hjá mörgum en ekki eins barrheldnar. Þó geta þær vel haldið barrinu fram yfir jól ef þess er gætt að aldrei þorni í jólatrésfætinum. Grenið verður að standa í vatni eins og afskorin blóm. 
 
Eina þintegundin  sem vex á Íslandi í nokkrum mæli er fjallaþinur. Hann hefur svipaða eiginleika og normannsþinur. Nú er unnið að kynbótum fjallaþins með því markmiði að finna  arfgerðir sem henta vel við íslenskar aðstæður. 
 
Normannsþinur þrífst ekki vel á Íslandi nema á fáeinum stöðum þar sem eru sérstaklega hagstæð vaxtarskilyrði. Ræktendur hafa gert tilraunir með tegundina en með misgóðum árangri. Vegna sjúkdómahættu var í sumar lagt  formlegt bann við innflutningi ungplantna af þintegundum  til ræktunar. Því þarf að rækta normannsþin upp af fræi sem keypt er frá útlöndum ef fólk er spennt fyrir því. Enn er hins vegar leyfilegt að flytja afskorin þintré til landsins sem jólatré. Þeim fylgir heilbrigðisvottorð frá dönskum seljendum og eiga trén því að vera laus við sjúkdóma, skordýr og slíkt. Hvernig Danir fara að því að heilbrigðisvotta 10 milljónir trjáa í gámum og flutningabílum á einum og hálfum mánuði er aftur á móti önnur saga.  
 
Kosturinn við lifandi jólatré er að vistspor þess í umhverfinu er lítið þegar því er hent. Tré inniheldur eingöngu lífræn efni sem brotna smám saman niður í kolefnissambönd.  Niður-brotsferli gervitrjáa, sérstaklega plastjólatrjáa, er langt og flókið í náttúrunni enda er mikið í þeim af PVC-efnum (pólívinílklóríði), blýi og fleiri ólífrænum og skaðlegum efnum sem safnast upp í náttúrunni. 
 
Íslensk jólatré hafa þann kost að þau eru ræktuð innanlands á umhverfisvænan og sjálfbæran hátt. Ræktunin fer fram á útjörð án þess að notuð séu plöntulyf, illgresiseitur eða vaxtarhvatar. Trén hafa góðan tíma til að hækka, gildna og binda kolefni úr andrúmsloftinu. Að kaupa íslenskt jólatré er ein leið til að stuðla að sjálfbærni, minnka óþarfa gjaldeyrissóun  og styrkja íslenska ræktendur um allt land. 
Else Möller skógfræðingur

2 myndir:

Skylt efni: Jólatré

Rannsakar skyggnar konur
Fréttir 7. febrúar 2023

Rannsakar skyggnar konur

Dr. Dalrún Kaldakvísl Eygerðardóttir sagnfræðingur rannsakar sögu skyggnra kvenn...

Of algengt að hestunum sé gefinn óþverri
Fréttir 6. febrúar 2023

Of algengt að hestunum sé gefinn óþverri

Margeir Ingólfsson og Sigríður Jóhanna Guðmundsdóttir, bændur á bænum Brú í Blás...

Tíu ára starfsafmæli
Fréttir 3. febrúar 2023

Tíu ára starfsafmæli

Tíu ár eru síðan Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) var sett á laggirnar. Af ...

Innlend fóðurframleiðsla gæti nýtt jarðhita sem fer til spillis
Fréttir 3. febrúar 2023

Innlend fóðurframleiðsla gæti nýtt jarðhita sem fer til spillis

Fjárfestingafélag Þingeyinga hf. hefur unnið að skýrslu í samstarfi við verkfræð...

Markaðssetning utan hefðbundins sláturtíma
Fréttir 2. febrúar 2023

Markaðssetning utan hefðbundins sláturtíma

Nýlega var Sláturhúsi Vesturlands í Borgarnesi veittur styrkur úr markaðssjóði s...

Úrskurður MAST felldur úr gildi
Fréttir 1. febrúar 2023

Úrskurður MAST felldur úr gildi

Matvælaráðuneytið hefur fellt úr gildi úrskurð Matvælastofnunar sem hafði stöðva...

Enn versnar rekstrarafkoma skuldsettra kúabúa
Fréttir 31. janúar 2023

Enn versnar rekstrarafkoma skuldsettra kúabúa

Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) hefur lokið við greiningu á rekstri 154 kú...

Skordýr sem fóður og fæða
Fréttir 31. janúar 2023

Skordýr sem fóður og fæða

Við Landbúnaðarháskóla Íslands er unnið verkefni sem snýr að því að koma upp sko...