Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Hlutfall raforku í samgöngum gæti margfaldast en bensínið hverfur
Fréttir 18. október 2016

Hlutfall raforku í samgöngum gæti margfaldast en bensínið hverfur

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Í Eldsneytisspá Orkuspárnefndar 2016 kemur fram að umtalsverðar breytingar eiga eftir að verða á eldsneytisnotkun og þróun annarra tengdra orkugjafa til ársins 2050 miðað við óbreyttar aðstæður. Samkvæmt spánni mun notkun jarðefnaeldsneytis dragast saman sem samsvarar 55 þúsund tonnum af olíu árið 2030. Eða „55 ktoí“ eins og það er skammstafað og á víst að þýða á voða fínu stofnanamáli „kílótonnaolíuígildi“.  
 
 
Gert er grein fyrir þessu í nýrri og ítarlegri skýrslu Orkustofnunar þar sem settar eru fram ýmsar sviðsmyndir um þróun eldsneytisnotkunar  á landinu næstu áratugina. Spáin er greind niður í mismunandi notkunarflokka og þar á meðal samgöngur á landi og fiskveiðar. Þar kemur fram spá um líklegustu þróunina en einnig eru birtar lág- og háspár sem fást með því að breyta forsendum spárinnar til að kanna vikmörk.
 
Þétting byggðar og samdráttur í akstri
 
Í Sviðsmynd 1 er gert ráð fyrir þéttingu byggðar og kröfu um aukna notkun endurnýjanlegra orkugjafa í akstri fólksbíla. Samhliða þéttingu byggðar er gert ráð fyrir að samdráttur verði í akstri þar sem almenningssamgöngur eigi eftir að verða hagkvæmari og aðrir ferðamátar eins og t.d. hjólreiðar, vinsælli. Einnig er gert ráð fyrir að stjórnvöld beiti sér fyrir því að frá og með 2020 noti nánast allir nýir fólksbílar endurnýjanlegt eldsneyti að einhverju lágmarki. 
 
Nýir skattar á fólksbíla?
 
Í sviðsmyndinni er gert ráð fyrir að rafbílaeign þróist líkt og í Eldsneytisspá en stjórnvöld leggi skatta á nýja fólksbíla frá og með árinu 2020 sem ekki noti endurnýjanlegt eldsneyti að ákveðnu lágmarki. Með þessu er átt við að t.d. hreinir rafbílar og tengiltvinnbílar, metanbílar, vetnisbílar og metanólbílar yrðu undanþegnir slíkum skatti en jafnframt yrðu söluaðilar orku að sýna fram á að slík orka sem seld væri hér á landi væri endurnýjanleg. Slíkur skattur gæti verið tímabundinn uns þessir bílar yrðu samkeppnisfærir í verði við olíuknúna bíla og skatturinn yrði að vera það hár að flestir veldu frekar þessa bíla.
 
Niðurstaða Sviðsmyndar 1 er að slík krafa hraðar verulega orkuskiptum í samgöngum á landi og dregur að sama skapi úr notkun jarðefnaeldsneytis. Hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa af heildarorkusölu í samgöngum á landi verður 59% árið 2030 í sviðsmyndinni og er það um 30 prósentustigum hærra en í Eldsneytisspá. Töluverður orkusparnaður kemur fram í sviðsmyndinni þar sem gert er ráð fyrir samdrætti í akstri.
 
Notkun endurnýjanlegs eldsneytis verði aukin
 
Í Sviðsmynd 2 er aftur litið til samgangna á landi og könnuð áhrif þess að stjórnvöld stuðli að aukinni notkun endurnýjanlegs eldsneytis með aukinni söluskyldu á því og leggi á hærri skatt á notkun jarðefnaeldsneytis í samgöngum á landi. 
 
Núverandi söluskylda á endurnýjanlegu eldsneyti til samgangna á landi kveður á um að 5% af þeirri orku sem söluaðilar eldsneytis selji til samgangna á landi verði að vera endurnýjanlegt eldsneyti. Hér er gert ráð fyrir að stjórnvöld hækki hlutdeild hins endurnýjanlega eldsneytis úr núverandi hlutdeild í 30% hlutdeild árið 2030 og er miðað við línulega breytingu yfir þetta tímabil. 
 
Í Sviðsmynd 2 er einnig gert ráð fyrir að eldsneytisverð hækki um 10 kr. á hvern lítra umfram verðið í Eldsneytisspánni á spátímanum. Í líkani Orkuspárnefndar leiðir hærra eldsneytisverð til minni aksturs og tilhneigingu neytenda til að kaupa freka sparneytnari bíla, líkt og lýst er í kafla 4.6.2 í Eldsneytisspá.
 
„Verðteygni og kílótonnaolíuígildi“
 
Sviðsmynd 2 byggir á að stjórnvöld komi á stighækkandi söluskyldu endurnýjanlegs eldsneytis til samgagna á landi auk þess sem skattlagning á notkun jarðefnaeldsneytis er hærri en í Eldsneytisspánni. Ef miðað er við 30% hlutdeild endurnýjanlegs eldsneytis af heildarorku í eldsneytissölu leiðir það til þess að hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa verður um 46% árið 2030 og er það um 18 prósentustigum hærra en í Eldsneytisspánni. Svo kemur það sem öllu breytir:
 
„Verðteygni jarðefnaeldsneytis leiðir til minni notkunar jarðefnaeldsneytis en áhrifin eru þó ekki ýkja mikil þar sem eftirspurn eftir jarðefnaeldsneyti er frekar óteygin.“
 
Hin aukna hlutdeild endurnýjanlega eldsneytisins leiðir til þess að notkun jarðefnaeldsneytis dregst saman sem samsvarar 55 þúsund tonnum af olíu árið 2030. Eða eins og segir í skýrslunni á góðu stofnanamáli; „dregst saman um 55 ktoí árið 2030 og um nærri 18 ktoí árið 2050 ef miðað er við Eldsneytisspána“ (Skammstöfunin „ktoí“ mun víst þýða „kílótonnaolíuígildi). 
 
Hærri hlutdeild endurnýjanlegs eldsneytis fyrir skip
 
Í sviðsmynd 3 er litið til fiskveiða og gert ráð fyrir að stjórnvöld komi á stighækkandi söluskyldu á hlutdeild endurnýjanlegs eldsneytis af sölu eldsneytis til fiskiskipa. Að auki er gert ráð fyrir að 50% af orkuþörf báta verði fullnægt með rafmagni undir lok spátímans. Niðurstaða sviðsmyndarinnar er að samdráttur verður í olíunotkun og nemur hann 15% árið 2030 og 32% árið 2050 ef miðað er við Eldsneytisspá. Raforkunotkun verður um 12% af allri orkunotkun í fiskveiðum árið 2050. Hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa að meðtalinni raforku í sviðsmyndinni verður 38% af allri orkunotkun og er það nærri 30 prósentustigum hærra en í Eldsneytisspá.
 
Rafvæðing bátaflotans mun kalla á frekari rafvæðingu í höfnum en í flestum höfnum er þegar selt rafmagn til skipa og þyrfti þá að aðlaga það kerfi að þörfum báta. Það er því verulegur kostir við þær leiðir sem skoðaðar eru hér að þær kalla ekki á verulega uppbyggingu innviða og geta því komist fljótt í framkvæmd. 
 
Margar forsendur spárinnar geta breyst
 
Forsendur spárinnar eru fjölmargar og er meðal annars farið ítarlega yfir tækniframfarir og breytingar í notkunarmynstri í þeim atriðum sem tengjast eldsneytisnotkun. Umgjörð stjórnvalda skiptir verulegu máli þegar kemur að eldsneytisnotkun og geta stjórnvöld sett fram hvata til að ná fram breytingum. 
Ómögulegt er að spá fyrir um hvernig umgjörð stjórnvalda breytist og að sama skapi hvenær vænta má slíkra breytinga. Allar spár orkuspárnefndar miða að við núverandi umgjörð stjórnvalda hvað varðar eldsneytis- og orkumál breytist ekki á spátímanum. Spárnar eru því það sem kallast á ensku „business as usual“.  
 
Millilandaflugið og skipin nota mest af olíu
 
Eins og fram kemur í Eldsneytisspá er núverandi notkun eldsneytis mest í samgöngum á landi en þar á eftir koma millilandaflug og fiskveiðar. Ekki er búist við nýjum orkugjöfum í millilandaflugi fyrr en í litlum mæli undir lok spátímans. Eftirspurn eftir eldsneyti í millilandaflugi ræðst af fjölda ferðamanna sem fara um Keflavíkurflugvöll og orkunotkunar á hvern floginn km. Í iðnaði hefur á undanförnum árum orðið mikill samdráttur í olíunotkun og raforka notuð í staðinn. Í Eldsneytisspá er búist við því að olíunotkun haldi áfram að dragast saman í iðnaði og verði fljótlega lítil í samburði við fyrrnefnda flokka og því er ekki sett fram sviðsmynd fyrir iðnað. Hér á eftir verða birtar þrjár sviðsmyndir þar sem ákveðnum forsendum í spánni hefur verið breytt til þess að kanna áhrif sérstakra aðgerða á orkunotkun í samgöngum á landi og í sjávarútvegi. 
 
Tilkoma nýrra orkugjafa í verulegum mæli í samgöngum á landi og í fiskveiðum getur krafist töluverðrar uppbyggingar innviða. Má þar nefna útbúnað til hleðslu rafbíla hvort sem er í heimahúsum, við verslanir og fyrir hleðslu skipa á rafmagni í höfnum. Að auki getur þurft sérhæfða innviðafjárfestingu fyrir sölu á endurnýjanlegu eldsneyti auk þess sem hið endurnýjanlega eldsneyti getur verið dýrara í innkaupum samanborið við hið hefðbundna eldsneyti.
 
Innviðafjárfestingin og kostnaður við eldsneytiskaup hafa ekki verið metin í úttekt þessari enda væri verulegt við að meta slíkt. Þær leiðir sem hér um ræðir ættu þó ekki að kalla á mikla uppbyggingu innviða umfram það sem verður skv. eldsneytisspá þar sem tengiltvinnbílar verða að mestu hlaðnir í heimahúsum eða á vinnustað. 
 
Unnið að beiðni atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins
 
Sviðsmyndirnar eru unnar af Orkustofnun að beiðni atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Ekki ber að líta á sviðsmyndir þessar sem fyrirhugaðar aðgerðir stjórnvalda til að ná fram markmiðum í orku- og loftslagsmálum. Hér er fyrst og fremst verið að kanna áhrif einstakra mögulegra aðgerða til að fá betri skilning á leiðum til að mæta markmiðum stjórnvalda í orku- og loftslagsmálum.  
Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum
Fréttir 26. apríl 2024

Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum

Gýgjarhólskot í Biskupstungum var útnefnt ræktunarbú síðasta árs á fagfundi sauð...

Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...