Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Hlutdeild íslensks grænmetis hefur hrapað á níu árum
Mynd / smh
Fréttir 8. nóvember 2019

Hlutdeild íslensks grænmetis hefur hrapað á níu árum

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Þrátt fyrir mikinn velvilja neytenda í garð íslenskra garðyrkjubænda og yfirlýsinga stjórnmálamanna um mikilvægi innlendrar grænmetisframleiðslu, þá hefur innlend grænmetisframleiðsla hrapað á níu árum. Hefur hún fallið úr því að anna 75% af eftirspurninni á innanlandsmarkaði niður í 52% samkvæmt tölum Hagstofu Íslands.

Garðyrkjubændur hafa árum saman varað yfirvöld við að hátt orkuverð myndi leiða til samdráttar í framleiðslunni og vöruðu þeir sérstaklega við samþykkt á innleiðingu á tilskipunum Evrópusambandsins um orkupakka 3. Vegna þeirrar tilskipunar og innleiðingu á þeim tilskipunum sem á undan komu hafa garðyrkjubændur óttast að sameiginlegur orkumarkaður Evrópu muni enn frekar þvinga upp orkuverð á Íslandi. Það muni eyða út mögulegu forskoti vegna hagkvæmrar orkuframleiðslu á Íslandi. Tók formaður Sambands garðyrkjubænda svo djúpt í árinni að segja að þetta gæti leitt til þess að ylrækt legðist af á Íslandi. Virðist sem tölur Hagstofu Íslands styðji þessar áhyggjur garðyrkjubænda.

Rúmlega 7.000 tonna samdráttur í framleiðslu á 9 árum

Þegar skoðuð eru gögn Hagstofu Íslands frá 2010 er ekki annað að sjá en að áhyggjur garðyrkjubænda lýsi raunveruleika sem er grafalvarlegur. Á árinu 2010 framleiddu íslenskir garðyrkjubændur 18.732 tonn og 212 kíló af grænmeti. Sú framleiðsla annaði þá um 75% af eftirspurn á innanlandsmarkaði sem var í heild um 24.976,3 tonn.

Þarna er um að ræða framleiðslu á tómötum, gúrkum, papriku, blómkáli, gulrótum, hvítkáli, kínakáli, spergilkáli, gulrófum, salati, kartöflum og sveppum. Þá er ekki inni í myndinni framleiðsla á jarðarberjum og öðrum berjum sem hefur verið í afar harðri samkeppni við innflutning.

Síðan hefur stöðugt hallað undan fæti og var markaðshlutdeild íslenskrar framleiðslu komin niður í 52% árið 2018, eða í um 11.628,2 tonn. Hafði framleiðsla íslenskra garðyrkjubænda því dregist saman um rúmlega 7.104  tonn frá árinu 2010, en heildarneyslan á fyrr­nefndu grænmeti hafði þá dregist saman um rúmlega 2.614 tonn frá árinu 2010.

Ferðamenn og veganfólk hefur ekki aukið neyslu á fersku íslensku grænmeti

Mikil umræða hefur verið um vaxandi ferðamannastraum til Íslands á undanförnum árum sem og vaxandi áhuga fyrir veganfæði.  Miðað við tölur Hagstofu Íslands hefur hvorki vaxandi fjöldi ferðamanna né veganfólkið verið að borða hefðbundið ferskt grænmeti svo neinu nemi. Skýringuna kann hins vegar að vera að leita í neyslu þessara hópa á matvælum framleiddum úr hveiti, eins og pasta og pitsum sem og neyslu á baunum af ýmsum tegundum. Baunir eru t.d. oft uppistaðan í veganfæði og kemur ekki fram í þessum samanburðartölum Hagstofunnar, enda eru baunir ekki framleiddar á Íslandi.

Innflutningur á unnum kornvörum og á „vörðu“ grænmeti hefur stóraukist

Þegar skoðuð eru gögn Hagstofunnar um innflutning á hveiti og öðru kornmjöli hefur hins vegar verið um verulegan samdrátt að ræða frá 2010, eða úr samtals 11.783 tonnum í 5.908 tonn. Munar þar mestu um samdrátt í innflutningi á öðru kornmjöli en hveiti sem hefur hrapað úr 6.260 tonnum árið 2010 í tæp 479 tonn árið 2018.

Innflutningur á vörum úr korni, mjöli og sterkju hefur aftur á móti aukist verulega, en þar er m.a. um pasta og slíkar vörur að ræða. Hefur hann aukist úr tæpum 15.615 tonnum 2010 í tæp 22.301 tonn árið 2018. Þá hefur innflutningur á grænmeti sem varið er skemmdum, þ.e. frystu, niðursoðnu og þurrkuðu, aukist umtalsvert, eða úr 6.604 tonnum í rúm 9.919 tonn. Einnig hefur innflutningur á olíuríkum fræjum og aldinum aukist verulega, eða úr rúmum 1.351 tonni í rúm 2.358 tonn.

Þetta sýnir að innflutningur á unnum vörum úr hveiti, öðru korni, baunum og niðursoðnum og frystum landbúnaðarafurðum úr jurtaríkinu hefur stóraukist. Það  gæti skýrst af auknum vinsældum á veganfæði. Það þýðir þá líka að fólk er að sækja í meira verksmiðjuunnið og oft dýrara hráefni til matargerðar en áður. Sú staðreynd skýtur mjög skökku við stöðugt vaxandi umræðu í þjóðfélaginu um að auka hollustu og neyslu á ferskri matvöru úr nærumhverfinu, m.a. til að minnka kolefnisfótspor vegna matarinnkaupa. 

Skylt efni: íslenskt grænmeti

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

Gríðarlega mikilvægur vettvangur
Fréttir 4. desember 2025

Gríðarlega mikilvægur vettvangur

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, segir COP enn gríð...

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi
Fréttir 4. desember 2025

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi

Allir loðdýrabændur á Suðurlandi, fimm að tölu, eru nú að hætta minkarækt þar se...

Breytingar á erfðafjárskatti dýr erfingjum bænda
Fréttir 4. desember 2025

Breytingar á erfðafjárskatti dýr erfingjum bænda

Frumvarp fjármálaráðherra um breytingu á ýmsum lögum um skatta, gjöld o.fl. felu...

Úthlutun í fyrsta sinn
Fréttir 28. nóvember 2025

Úthlutun í fyrsta sinn

Fyrsta úthlutun úr frumkvæðissjóðnum Fjársjóði fjalla og fjarða fór fram á dögun...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f