Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Birki er áberandi í Kristnesskógi en auk þess eru helstu tegundirnar sem sjást af stígnum sitkagreni og lerki.
Birki er áberandi í Kristnesskógi en auk þess eru helstu tegundirnar sem sjást af stígnum sitkagreni og lerki.
Mynd / Pétur Halldórsson
Fréttir 9. mars 2016

Hjólastólafær skógarstígur í Kristnesskógi

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Í sumar verður lokið við 330 metra langan malbikaðan stíg í Kristnesskógi í Eyjafirði sem hafist var handa við á liðnu hausti. 
 
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið veitti á dögunum styrk sem nægir til að ljúka verkinu. Stígurinn verður kærkominn fyrir alla gesti skógarins en þó ekki síst fólk sem nýtur aðhlynningar og endurhæfingar á Kristnesspítala. Yfirlæknir endurhæfingardeildar segir að stígurinn muni breyta miklu enda margsannað að skógur hafi jákvæð áhrif á heilsu fólks. Frá þessu er sagt á vef Skógræktar ríkisins, skogur.is.
 
Upphaf málsins var að Sjálfsbjörg á Akureyri sótti í samvinnu við Skógrækt ríkisins um styrk hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu til lagningar stígs fyrir hreyfihamlaða í Kristnesskógi. Í byrjun síðasta árs veitti ráðuneytið 1,4 milljónir króna úr verkefnasjóði sínum á sviði umhverfis- og auðlindamála.
Framkvæmdasjóður ferðamannastaða lagði að auki til hálfa milljón króna úr sérstakri fjárveitingu fyrir árið 2015. Þessi framlög nægðu til að hefja mætti verkið en á dögunum bættist við annar styrkur frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 2,4 milljónir, sem nægir til að ljúka við stíginn. Styrkir til verkefnisins nema samtals 4,3 milljónum króna.
 
Lokið við verkið í byrjun júlí
 
Um hönnun stígsins sá Ingvar Ívarsson, landslagsarkitekt hjá Landslagi ehf. á Akureyri, en Túnþökusala Kristins tók að sér framkvæmdina. Verkið hófst á liðnu hausti en eftir er að þökuleggja, setja jöfnunarlag og að lokum malbika stíginn. Ætlunin er að þessu verði öllu lokið í byrjun júlí á þessu ári. Stígurinn er um 330 metrar á lengd og breiddin um 1,6 metrar við yfirborð. Hæðin er mjög mismunandi. Mest gæti hún verið um 1 metri enda þarf stígur sem þessi að vera sem sléttastur og halli hans aldrei meiri en 60 prómill svo að hann fullnægi stöðlum um hjólastólafæra stíga.
 
Skógurinn veitir tækifæri til þjálfunar
 
Að sögn Rúnars Ísleifssonar, skógarvarðar á Norðurlandi, er sá hluti Kristnesskógar sem stígurinn liggur um að mestu leyti gróðursettur á árunum um og upp úr 1950. Helstu trjátegundir á svæðinu eru birki, sitkagreni og síberíulerki en tegundirnar eru talsvert fleiri sem ber fyrir augu og fjölbreyttur gróður í skógarbotni.
 
Kristnesspítali var upphaflega reistur sem berklahæli og enn í dag er talað um Hælið í sveitinni. Nú eru þar reknar tvær deildir Sjúkrahússins á Akureyri, öldrunardeild og endurhæfingardeild. Aðstaða er góð í Kristnesi og þar er meðal annars þjálfunarsundlaug, en skógurinn veitir líka tækifæri til þjálfunar og endurhæfingar sem nú hillir undir að nýtast muni enn betur en fyrr.
 
Skógurinn opinn öllum
 
Ingvar Þóroddsson, yfirlæknir endurhæfingardeildarinnar, segir að stígurinn muni breyta miklu fyrir báðar deildir spítalans. Þarna komist fólk á hjólastólum eða með göngugrindur auðveldlega út í heilnæmt umhverfi skógarins. Fjölmargar rannsóknir hafi sýnt fram á jákvæð áhrif gróðurs, ekki síst skóga, á líðan fólks. Ingvar telur að með tilkomu þessa stígs verði komin aðstaða við Kristnesspítala sem sé einstök við sjúkrahús á Íslandi og til eftirbreytni. Hann tekur þó skýrt fram að þessi stígur sé ekki fyrir spítalann einan. Hann verði opinn öllum og öllum velkomið að nota hann enda er Kristnesskógur þjóðskógur. 

4 myndir:

Skylt efni: Kristnes

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

Gríðarlega mikilvægur vettvangur
Fréttir 4. desember 2025

Gríðarlega mikilvægur vettvangur

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, segir COP enn gríð...

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi
Fréttir 4. desember 2025

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi

Allir loðdýrabændur á Suðurlandi, fimm að tölu, eru nú að hætta minkarækt þar se...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f