Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Herdís með farandsskjöldinn fyrir besta lambhrútinn. Sveinn á Fossi bauð fram forystugimbrina.
Herdís með farandsskjöldinn fyrir besta lambhrútinn. Sveinn á Fossi bauð fram forystugimbrina.
Mynd / Herdís Leifsdóttir
Á faglegum nótum 16. nóvember 2015

Héraðssýningin á lambhrútum á Snæfellsnesi haustið 2015

Höfundur: Jón Viðar Jónmundsson
Upphaf sýningahalds í sauðfjárræktinni hér á landi á formi héraðssýninga er að finna á Snæfellsnesi og þar er að finna sterkustu hefð á þessu sviði sem þeir geta verið ákaflega stoltir yfir. 
 
Framkvæmd sýningahaldsins hefur ætíð verið með glæsibrag og fyrstu áratugina var þetta starf borið uppi af eldhugunum Gunnari Guðbjartssyni á Hjarðarfelli og Leifi Kr. Jóhannessyni ráðunaut. 
Þegar sýningahald á fullorðnu fé lagðist af um aldamótin urðu Snæfellingar fyrstir til að taka upp héraðssýningar á lambhrútum, sem síðar hefur verið tekið upp í flestum héruðum, sem eiga slíka möguleika. Víðast er þetta sýningahald á vegum sauðfjárbændafélaga í viðkomandi héruð, sem sumum hefur orðið þetta góð féþúfa, en á Snæfellsnesi eru það hin sterku fjárræktarfélög á svæðinu, sem stofnuð voru að frumkvæði brautryðjendanna sem eru nefndir í byrjun, sem standa að þessu sýningahaldi. 
 
Þurfti að tvískipta sýningarhaldinu
 
Eins og í fleiri héruðum þarf að tvískipta sýningarhaldinu vegna sauðfjárveikivarna. Sýningin hófst að kvöldi föstudagsins 16. október í hinum stórglæsilegu fjárhúsum í Haukatungu syðri 2 fyrir sýningagripi austan girðingar. Þar komu til sýningar 16 öflugir lambhrútar. Tæpast er hægt annað en snupra hina ungu bændur í gamla Kolbeinsstaðahreppi fyrir að halda mjög slælega uppi merki forfeðra sinna í þessum efnum. Það eru fremur hinir fáu fjárbændur úr gamla Eyjahreppi sem halda uppi þessu sýningahaldi. Samt er gamli Kolbeinsstaðahreppurinn langfjárflesta sveitin á sýningarsvæðinu öllu. Þegar ég kem fyrst að sýningahaldi í sauðfjárrækinni fyrir um fjórum áratugum var leitun á sveit á Íslandi þar sem var að finna jafn lifandi og kraftmikið lið áhugasamra bænda á þessu sviði. Koma þar í hugann menn eins og Steinar í Tröð, Páll í Haukatungu, Jóhannes á Jörfa, Hallsteinn í Krossholti, Haukur á Snorrastöðum að ógleymdum Hlíðarbræðrum; Einari, Ragnari og Sveinbirni. Alltof stór hópur afkomenda þeirra og frænda sem þar búa núna hefur staðið sig slælega í að halda uppi fána forfeðra sinna. 
 
Laugardaginn 17. var sýningunni framhaldið eftir hádegið og þá í hinum litlu, heimilislegu og skemmtilegu fjárhúsum á Hraunhálsi í Helgafellssveit. Þar var mæting lambhrúta með ein­stökum ágætum og samtals 46 hrútar mættir. Skipting sýnagripanna 62 á sýningaflokka var þannig að dökku og mislitu hrútarnir voru 14, kollóttir hvítir 15 en hyrndu hvítu hrútarnir langflestir eða 33 samtals. Hrútana á sýningunni dæmdi með mér Lárus G. Birgisson. Hér verður aðeins fjallað um þrjá efstu gripina í hverjum sýningaflokki. Ástæða er að nefna að hið milda haust hafði farið mýkri höndum en áður um lömbin þannig að nær undantekningalaust voru öll sýningarlömbin í sínu besta gervi.      
 
Sérstök viðurkenning
 
Áður en sú umfjöllun hefst skal örstutt fjallað um þrjár ær á Snæfellsnesi sem fengu sérstaka viðurkenningu sem hæstu ær í BLUP kynbótamati á svæðinu og voru fæddar 2010. Efsta sætið þar skipaði Sögn 10-650 á Jörfa í Kolbeinsstaðahreppi með heildareinkunn 117,8, en há í mati fyrir alla eiginleika en í sérflokki fyrir mjólkurlagni þar sem það mat er 139 enda hefur vænleiki lamba undan henni hefur ætíð verið meiri en með ólíkindum. Þessi mjólkurlind er dóttir Áss 04-813 og móðurfaðir Erpur 01-919 þannig að Heydalsárblóðið er nokkuð þykkt. Í öðru sætinu var ær 10-074 á Álftavatni í Staðarsveit. Ærin hefur verið með afbrigðum frjósöm og skilað afbragðslömbum að hausti. Ærin er úr heimafé sonardóttir Mókolls 03-078 og móðurfaðir Kveikur 05-965. Heildareinkunn ærinnar er 115,3. Í þriðja sæti var Loka 10-069 í Hraunsmúla í Kolbeinsstaðahreppi með 114,8 í heildareinkunn. Þetta er fádæma frjósöm ær og skilaði góðum lömbum. Ær þessi er úr heimafé sonardóttur Bifurs 06-994.
 
Lambhrútur nr. 13 á Álftavatni efstur mislitu lambanna
 
Hjá mislitu lömbunum stóð efstur grár hyrndur lambhrútur nr. 13 á Álftavatni í Staðarsveit. Þetta var mjög vænt lamb, bollangur, frábærlega jafnvaxinn og vel gerður með mjög mikla holdfyllingu. Þetta stórglæsilega lamb er undan syni Grámanns 10-884 og móðurfaðir föður hans Blakkur 07-865. Í móðurætt stendur að honum Mundason 10-521 í Gaul sem stóð með miklum glæsibrag efstur á hliðstæðri sýningu lambsárið. 
 
Í öðru sæti var lamb 93 sem átti heimili á sýningastaðnum. Þetta var hrafnsvartur og kollóttur hrútur gríðarlega vel þroskaður og vel gerður með frábær lærahold. Hann er af hrútalínu sem staðir hefur í efstu sætum mislitu hrútanna á svæðinu á undangengnum árum. Smá innskot af hyrndu fé er í ættum hrútsins þar sem föðurmóðurfaðir hans er Kvistur 07-866. 
 
Þriðja lambið í þessum hópi var lamb 55 frá Mávahlíð en þetta var svartsokkóttur og hyrndur hrútur. Lamb þetta var samanrekinn holdahnaus með alveg sérlega vel lagaðan lærvöðva. Að baki þessu lambi stendur gamla Mávahlíðarféð að verulegum hluta en á tímabili var það tvímælalaust eitt albesta fé hér á landi.
 
Efst kollóttu lambanna var lamb 405 á Hjarðarfelli
 
Úr hópi kollóttu lambanna var skipað í efsta sætið lamb 405 á Hjarðarfelli. Þessi hreinhvíti, sterkbyggði, bollangi  og vel gerði lambhrútur var auk þess prýðilega vel vöðvaður og mjög athyglisverður. Þessi hrútur kemur úr kollótta fénu á Hjarðarfelli með innskotum margra sæðingahrúta. Hann er nokkuð skyldleikaræktaður afkomandi Magna 06-730 sem þarna var tímamótakind á sinni tíð. Hjarðarfellsféð er langræktaðasti stofn af kollóttu fé hér á landi utan Stranda.
 
Í öðru sæti var lamb 25 sem var frá sýningastaðnum (Hraunhálsi). Þetta var fádæma vel gert og mjög vel vöðvafyllt og glæsilegt lamb. Sterkir stofnar standa að þessum hrúti en faðir hans er Sproti 12-936 og í öðrum ættlið í móðurætt bæði Sigurfari 09-860 og Frakksson 03-974.  
 
Þriðji í röð kollóttu hrútanna var síðan lamb 17 í Bjarnarhöfn. Þessi hrútur er feikilega þéttholda og vel gerður. Hann er sonur Hnalls 12-934 en Máni 03-975 næstur að baki í móðurætt þannig að Árneshreppsféð er þétt að baki honum. Til gamans má geta þess að við fjárskiptin um miðja síðustu öld kom Bjarni Jónsson með fé sitt frá Asparvík og var því það eina kollótta féð þarna á svæðinu sem átti uppruna sinna þarna af norðanverðum Ströndum.
 
Efsti hvíti hrúturinn kom frá Mávahlíð
 
Að lokum er komið að hvítu hyrndu hrútunum. Þessi hópur taldi yfir helming sýningarlambanna. Glæsileiki þeirra hefur um árabil verið mikill en ljóst er að hópurinn sem nú mætti bar mikið af því sem áður hefur verið. Efsta sætið í hópnum var nr. 852 í Mávahlíð. Þetta lamb var einstakt djásn að allri gerð og til viðbótar hreinhvítt. Hrútur þessi á að föður Tvinna 14-001 sem er ákaflega minnisstæður frá þessari sýningu fyrir ári, en þá var hann ekki lengur í sínu besta formi þannig að hann komst ekki þá á toppinn en þessi hrútur er sonur Saums 12-915 en móðurfaðir hans Hriflon 07-837. Á móðurhliðina hjá lambinu er Kveikur 05-965 móðurföðurfaðir en öðru leyti gamlir Mávahlíðarsnillingar.
 
Annað sæti skipaði lamb 5070 í Haukatungu syðri 2. Þetta lamb hefur öll sterkustu einkenni föður síns, kattlágfættur með einstaka vöðvafyllingu og góða gerð. Þetta er einn eðalsona Saums 12-915 og í móðurætt af sterkri ræktun á heimabúi um áratuga skeið en þar kemur Fannar 07-808 inn sem móðurmóðurfaðir.
 
Þriðja sætið skipaði lamb 861 í Mávahlíð. Þetta er hreinhvítur frábærlega sterkbyggður, þroskamikill og gríðarlega vöðvafylltur hrútur og fádæma glæsilegur eins og Mávahlíðarlömbin öll. Hann hefur Gosa 09-850 sem föðurföður og Hróa 07-836 sem móðurföður en að öðru leyti standa að baki honum margir sterkustu stofnar Mávahlíðarræktunarinnar.
 
Ekki verður skilið við hyrndu lömbin sem þarna voru nema nefna lamb 270 á Hjarðarfelli en þetta er sonur Saums 12-915 og sammæðra Stólpa 13-787 sem efstur stóð með glæsibrag á líkri sýningu er hann var lamb. Þessi hrútur hafði veikst og var því tæplega sýningahæfur en ég hafði séð lambið hálfum mánuði fyrr og hefði hann haldið fullu formi hefði hann barist meðal þeirra sem nefndir eru hér að framan í toppsætunum.
 
Glæsilegur farandgripur búnaðarsambandsins
 
Hinn glæsilega farandgrip búnaðarsambandsins, skjöldinn glæsilega sem Ríkharður Jónsson mótaði, hlaut því lamb 452 í Mávahlíð sem er eins og áður segir mikill gimsteinn. Lárus G. Birgisson afhenti því eiganda lambsins Herdísi Leifsdóttur, skjöldinn í sýningarlok. 
 
Þessi sýning var einstök staðfesting þess að áratuga markviss ræktun á fjölda búa á Snæfellsnesi, allt frá fjárskiptum um miðja síðustu öld, hefur skilað þeim einhverju best ræktaða fé á Íslandi í dag. Það kæmi mér mikið að óvart ef einhver af þeim lömbum sem fjallað er um hér að framan eiga ekki eftir að koma við sögu í ræktun fjár um allt land með búsetu á sauðfjársæðingastöðvunum í framtíðinni. Fleiri og fleiri af topphrútum slíkra sýninga frá síðustu árum hafa verið að staðfesta sig sem topphrútar á landsvísu.
 
Synir sæðingahrúta áberandi
 
Eins og ætíð þá voru synir sæðingahrúta talsvert áberandi meðal sýningagripanna. Slíkir voru að þessu sinni 29 þar af 20 meðal þeirra hvítu hyrndu og voru synir Saums 12-915 þar nánast allsráðandi eða níu samtals. Hjá kollóttum hrútum voru sex af slíku faðerni en ekki nema þrír hjá þeim dökku, sem kemur aðeins á óvart vegna hins mikla fjölda slíkra hrúta á stöðvunum á síðustu árum.
 
Framkvæmd sýningar með einstökum glæsibrag
 
Framkvæmd sýningarinnar var með einstökum glæsibrag og hlutur heimafólks á sýningastöðunum þar sérlega mikið. Slíkar sýningar hafa hlutverki að gegna í menningarstarfi sveitanna og það var þessi frábæra sýning bestur vottur um. Fjárbændur eiga að gefa sér tíma hluta úr degi að haustinu til að koma saman á þennan hátt og vega og meta árangur síns mikla starfs sem þeir geta og eiga að vera stoltir af. Ekki verður lokið umfjöllun um þetta glæsta starf Snæfellinga nema nefna nafn Eiríks Helgasonar sem tvímælalaust á meiri hlut en margir ónefndir í að halda uppi þessi glæsilega sýningarstarfi á svæðinu. 

8 myndir:

Hundrað hesta setningarathöfn
Fréttir 12. júlí 2024

Hundrað hesta setningarathöfn

Setningarathöfn Landsmóts hestasmanna er alla jafna hátíðleg.

Til þess var leikurinn gerður
Fréttir 11. júlí 2024

Til þess var leikurinn gerður

Stjórn Búsældar hefur fyrir sitt leyti samþykkt söluna á Kjarnafæði Norðlenska t...

Skammur aðdragandi að sölunni
Fréttir 11. júlí 2024

Skammur aðdragandi að sölunni

Bræðurnir Eiður og Hreinn Gunnlaugssynir hafa sem áður segir samþykkt kauptilboð...

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska
Fréttir 11. júlí 2024

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska

Meginmarkmið kaupa Kaupfélags Skagfirðinga (KS) á Kjarnafæði Norðlenska (KN) er ...

Tilþrif á Landsmóti
Fréttir 11. júlí 2024

Tilþrif á Landsmóti

Enginn skortur var á glæsilegum tilþrifum stólpafáka sem komu fram í gæðingakepp...

Verður langstærsta kjötafurðastöð landsins
Fréttir 11. júlí 2024

Verður langstærsta kjötafurðastöð landsins

Kaupfélag Skagfirðinga (KS) hefur gert kauptilboð í allt hlutafé Kjarnafæðis Nor...

Ullarvika á Suðurlandi
Fréttir 10. júlí 2024

Ullarvika á Suðurlandi

Ullarvika á Suðurlandi verður haldin í þriðja sinn dagana 29. september til 5. o...

Mesta hamingjan í Skagafirði, á Snæfellsnesi og á Héraði
Fréttir 10. júlí 2024

Mesta hamingjan í Skagafirði, á Snæfellsnesi og á Héraði

Hamingja íbúa í Skagafirði, á Snæfellsnesi og á Héraði mælist mest á landinu í n...

Bænder
12. júlí 2024

Bænder

Skammur aðdragandi að sölunni
11. júlí 2024

Skammur aðdragandi að sölunni

Svín og korn
12. júlí 2024

Svín og korn

Magnað Landsmót 2024
12. júlí 2024

Magnað Landsmót 2024

Gerum okkur dagamun
12. júlí 2024

Gerum okkur dagamun