Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 11 mánaða.
Innnes fékk m.a. úthlutað tollkvótum fyrir innflutningi á 100 tonnum af unnum kjötvörum og 50 tonnum af ostum frá ESB.
Innnes fékk m.a. úthlutað tollkvótum fyrir innflutningi á 100 tonnum af unnum kjötvörum og 50 tonnum af ostum frá ESB.
Mynd / Petar Lazarevic
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúnaðarvörum en matvælaráðuneytið tilkynnti um úthlutun í síðustu viku.

Matvælaráðuneytið tilkynnti um úthlutun á tollkvótum á landbúnaðarvörum sem taka gildi 1. janúar næstkomandi. Tollkvótarnir veita heimild til innflutnings á kjöti, unnum kjötvörum, ostum og plöntum án tolla eða á lægri tollum en tollskrá segir til um. Í tilkynningu frá Stjórnarráðinu kemur fram að í nær öllum tilvikum hafi eftirspurn eftir tollkvótum verið umfram framboð og var þeim því úthlutað með útboði. Alls fengu 24 fyrirtæki úthlutað tollkvótum og geta þau nýtt tollkvótana í innflutningi á vörunum ýmist í sex eða tólf mánuði á næsta ári.

Stærstu handhafar tollkvóta á landbúnaðarvörum við síðustu úthlutun.
Heildverslanir fengu mest

Heildverslunin Innnes fékk úthlutað tollkvótum fyrir innflutningi á nær 300 tonnum af landbúnaðarvörum og rúm 240 tonn fóru til Aðfanga, innkaupa- og dreifingarmiðstöðvar Haga, sem rekur m.a. Bónus og Hagkaup.

Mata hf. fékk úthlutað um 217 tonnum af kjöti og ostum, þar af 144 tonn af svínakjöti. Síld og fiskur ehf. er systurfélag Mata en það framleiðir matvæli úr svínakjöti og öðrum kjötvörum og rekur m.a. þrjú svínabú á landinu. Matfugl er einnig systurfélag Mata en starfsemi þess felst í ræktun, slátrun og vinnslu alifuglakjöts og er einn stærsti framleiðandi kjúklingaafurða á Íslandi.

Fyrirtækið LL42 ehf., sem er í eigu Stjörnugríss, fékk um 192 tonnum úthlutað. Háihólmi ehf. fékk einnig úthlutað tollkvótum fyrir innflutningi á um 192 tonnum af kjöti og osti, þar af um 70 tonn af nautakjöti. Félagið er í eigu Birgis Karls Ólafssonar en hann er, samkvæmt Vísi, innkaupastjóri Esju gæðafæðis, dótturfélags Kaupfélags Skagfirðinga.

Önnur fyrirtæki sem fengu úthlutað tollkvótum voru m.a. Krónan, Ekran, Garri, Kjötmarkaðurinn ehf., Sláturfélag Suðurlands og Mjólkursamsalan.

Þrjú fyrirtæki sem ekki hafa fengið úthlutað tollkvótum áður eru á listanum, Matarbúrið, Salvía og SRX hf., en það síðastnefnda er heildverslun, aðallega með rafvörur, á forræði Finns Árnasonar, fyrrverandi forstjóra Haga.

Sem fyrr fékk heildverslunin Samasem langmest úthlutað af tollkvótum fyrir plöntur og blóm, 141.000 stykki af þeim 177.250 stk. sem í boði voru.

Ókeypis innflutningur á sérostum

Útboðsgjald tollkvóta ræðst af jafnvægisverði, þ.e. lægsta samþykkta tilboði í hverjum vörulið. Tilboð fyrirtækjanna eru svo samþykkt frá hæsta boði til þess lægsta innan þess magns tollkvóta sem í boði er. Jafnvægisverð á tollkvóta fyrir innflutning á nautakjöti frá ESB reyndist 597 kr/kg, fyrir svínakjöt reyndist það 420 kr/kg. Fyrir alifuglakjöt 587 kr/kg en fyrir lífrænt alifuglakjöt var það 50 kr/kg.

Jafnvægisverð á tollkvótum fyrir innflutning á 115 tonnum af sérostum frá ESB og 11 tonnum af sérostum frá Bretlandi reyndist 0 krónur, og var þeim úthlutað með hlutkesti. Eins reyndist jafnvægisverð fyrir innflutning á 13 tonnum af smurosti frá Noregi 1 kr/kg.

Lífleg umræða í aðsendum greinum

Í kjölfar úthlutunarinnar kom Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda (FA), fram í viðtali við Vísi þar sem hann sagðist telja innlenda framleiðendur stunda samkeppnishindranir með því að bjóða hátt í tollkvóta. Hann kallaði eftir því að úthlutun tollkvóta yrði án endurgjalds.

Reimar Marteinsson, rekstrarstjóri hjá KS, birti í framhaldi aðsenda grein í Morgunblaðinu þar sem hann svaraði málflutningi Ólafs. Hann benti á að ekki sé gefið upp hvaða fyrirtæki bjóði hvaða verð í tollkvóta og að í öllum flokkum væri mikill munur á hæsta og lægsta verði. Hann nefndi að verð á tollkvótum fyrir unnum kjötvörum, sem hann segir innflutningsaðila innan FA sitja einir á, hafi einnig hækkað.

Þessu svaraði Ólafur á sama vettvangi og sagði að innflutnings- fyrirtæki og verslanir skili lækkun tolla og annarra gjalda til neytenda. Hann benti á tengsl fyrirtækisins Háahólma við KS. „Nú þegar KS er opinberlega orðið eindreginn talsmaður kjötinnflutnings afurðastöðva, er þá ekki rétt að hætta þessum feluleik?“

Margrét Ágústa Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, blandaði sér í umræðuna með aðsendri grein á Vísi. Hún sagði málflutning um tolla villandi, „þar sem FA er látið líta út sem talsmaður neytenda. Raunveruleikinn er hins vegar sá að FA er að gæta sérhagsmuna örfárra eigenda innflutningsfyrirtækja.“

Hún benti á að landbúnaður skapi 10–12 þúsund bein og óbein störf og væri lykilþáttur í að viðhalda byggðafestu og fjölbreyttri atvinnu um allt land. Hún sagði að með auknum tollkvótum eða niðurfellingu á tollum væri verið að flytja störf úr landi, hætta væri á að landbúnaður á Íslandi dragist saman og tilteknar búgreinar leggist af.

Steinþór Skúlason, forstjóri SS, lagði einnig til málanna í grein í Morgunblaðinu sl. þriðjudag. Hann sagði að heildsalar sem gefa kjötkvóta væru ekki til. „Stóri munurinn á innflutningi afurðastöðva og heildsala er að afurðastöðvar flytja fyrst og fremst inn hráefni til vinnslu sem skapar virðisauka og störf innanlands en heildsalar flytja inn fullunna og pakkaða vöru sem skilar engum nema þeim ávinningi.“

Skylt efni: tollkvótar

Kolefnisspor íslenskra matvæla á pari við Evrópu
Fréttir 11. desember 2025

Kolefnisspor íslenskra matvæla á pari við Evrópu

Ný rannsókn Matís sýnir að kolefnisspor helstu íslenskra matvæla – mjólkur, kjöt...

Þörungakjarni með mörg hlutverk
Fréttir 11. desember 2025

Þörungakjarni með mörg hlutverk

Undirrituð hefur verið formleg viljayfirlýsing um stofnun Þörungakjarna á Akrane...

Húsaeiningar frá Noregi
Fréttir 9. desember 2025

Húsaeiningar frá Noregi

Nýlega komu um tvö þúsund fermetrar af svonefndum „Modulum“, sem eru forsmíðaðar...

Unnið að friðun sex svæða á landsbyggðinni
Fréttir 9. desember 2025

Unnið að friðun sex svæða á landsbyggðinni

Alþingi hefur samþykkt framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár til ársins 2029. Um tí...

Gervigreind í Grímsnesi
Fréttir 9. desember 2025

Gervigreind í Grímsnesi

Grímsnes- og Grafningshreppur tekur nú þátt í þróunarverkefni í samstarfi við up...

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 9. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Þurfum að viðhalda sérstöðu og forskoti
Fréttir 8. desember 2025

Þurfum að viðhalda sérstöðu og forskoti

Niðurstöðu COP30 sem fram fór í Brasilíu í nóvember hefur verið lýst sem lægsta ...

Fituúrgangur til framleiðslu á hreinsivörum
Fréttir 8. desember 2025

Fituúrgangur til framleiðslu á hreinsivörum

Nýsköpunarfyrirtækið Gefn sérhæfir sig í framleiðslu á umhverfisvænum bílahreins...