Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Eyjólfur Magnús Kristinsson, forstjóri atNorth, og Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, undirrita viljayfirlýsingu um byggingu og rekstur gagnavers sem reist verður á athafnasvæði við Akureyri. Gert er ráð fyrir að það verði tekið í notkun á fyrri hluta næsta árs og skapa um 15 störf til að byrja með. Kostnaður nemur á bilinu 2 til 3 milljörðum króna.
Eyjólfur Magnús Kristinsson, forstjóri atNorth, og Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, undirrita viljayfirlýsingu um byggingu og rekstur gagnavers sem reist verður á athafnasvæði við Akureyri. Gert er ráð fyrir að það verði tekið í notkun á fyrri hluta næsta árs og skapa um 15 störf til að byrja með. Kostnaður nemur á bilinu 2 til 3 milljörðum króna.
Fréttir 4. maí 2022

Hefjast handa í sumar og fyrsti áfangi klár snemma á næsta ári

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir

Framkvæmdir við byggingu nýs gagnavers við Akureyri hefjast fyrri hluta komandi sumars og er gert ráð fyrir að þeim ljúki og fyrsti áfangi gagnaversins verði tekinn í notkun á fyrri hluta næsta árs.

Gagnaverið mun fjölga störfum í hátækniiðnaði á svæðinu, en um 15 ný störf skapast í kringum starfsemi þess. Það er fyrirtækið atNorth sem stendur fyrir framkvæmdum.

Eyjólfur Magnús Kristinsson, forstjóri atNorth, og Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, rituðu undir viljayfirlýsingu um byggingu og rekstur gagnaversins á Akureyri á Listasafninu á Akureyri. Samkvæmt viljayfirlýsingunni leigir fyrirtækið lóð til starfseminnar á skipulögðu athafnasvæði í útjaðri bæjarins en þetta verkefni er liður í uppbyggingu græns iðnaðar í höfuðstað Norðurlands.

Lóðin sem um ræðir er ætluð undir hreinlega umhverfisvæna starfsemi. Athafnasvæðið allt er um 6,5 hektarar að stærð.

Dreifa starfseminni og áhættunni

„Akureyri er mjög fýsilegur kostur fyrir þessa starfsemi,“ segir Eyjólfur, en félagið rekur gagnaver í Hafnarfirði, Reykjanes- bæ og Stokkhólmi í Svíþjóð og er mikil eftirspurn eftir þjónustu þess. Í kjölfar eldgossins í Geldingadölum á Reykjanesi í fyrra hafi umræða um að skoða fleiri staði farið af stað, enda ákveðinn veikleiki að vera með allt á sama stað.

„Með því að dreifa starfseminni dreifum við líka áhættunni,“ segir hann.Möguleikar hafi opnast til að setja á fót orkufrekan iðnað á Akureyri með tilkomu Hólasand- línu 3 sem liggur milli Akureyrar og Hólasands og eins Blöndulínu sem liggur til Akureyrar frá Blönduvirkjun.

„Eftir að raforkumálin í Eyjafirði eru komin í betra horf er Akureyri einn besti kostur sem hægt er að hugsa sér fyrir starfsemi gagnavers,“ segir Eyjólfur.

Þekking til staðar og góðar samgöngur

Þar komi nokkrir þættir til sem skipti sköpum, en auk þess sem afhendingaröryggi raforku er fyrir hendi nú, er fyrir á svæðinu þekking sem nauðsynleg er og þá eru samgöngur góðar, gott innanlandsflug og innan tíðar bætist beint flug til útlanda við.

„Það eru líka til staðar fyrirtæki sem geta veitt okkur þjónustu við reksturinn og viðhald á tæknibúnaði okkar,“ bætir hann við.

Fyrirtækið mun bæði veita erlendum og innlendum viðskipta­vinum þjónustu frá gagnaverinu á Akureyri. „Vistun og vinnsla gagna fer þá fram á fleiri stöðum en áður, aðgengi að gagnatengingum úr landi verður betra og öryggismálum verður enn betur fyrir komið,“ segir Eyjólfur.

Eyjólfur segir að hafist verði handa við framkvæmdir í byrjun sumars og gert ráð fyrir að hægt verði að taka gagnaverið í notkun einhvern tíma á fyrsta ársfjórðungi næsta árs.

„Við höfum undirbúið málið vel og það tekur ekki langan tíma að reisa byggingarnar,“ segir hann. Kostnaður við fyrsta áfanga verksins nemur á bilinu 2 til 3 milljarða króna og gert er ráð fyrir að um 15 starfsmenn starfi við gagnaverið til að byrja með.

Jákvæð samfélagsáhrif

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, fagnaði þeirri upp­byggingu sem fyrirtækið atNorth er að hefja á Akureyri og segir hana styrkja atvinnulífið á svæðinu.

„Þetta verkefni rímar vel við nýlegar innviðaframkvæmdir á Norðausturlandi sem tryggja raforkuflutning inn á svæðið. Aukið öryggi í flutningi raforku inn á Eyjafjarðarsvæðið gerir uppbyggingu af þessu tagi mögu­lega með öllum þeim jákvæðu samfélagsáhrifum sem fylgja,“ segir Ásthildur. 

Skylt efni: Akureyri | gagnaver

Sölufélagið í góðu lagi
Fréttir 17. júlí 2025

Sölufélagið í góðu lagi

Nú hafa Sölufélag garðyrkjumanna, Báran stéttarfélag og Framsýn stéttarfélag und...

Bændur harka af sér
Fréttir 16. júlí 2025

Bændur harka af sér

Ný rannsókn bendir til þess að fólk sem starfar í landbúnaði sé ólíklegt til að ...

Getur leyst plast af hólmi
Fréttir 16. júlí 2025

Getur leyst plast af hólmi

Frumkvöðlafyrirtækið Marea Iceland hyggst setja á markað umhverfisvænt húðunaref...

Auglýsingar um sveppadropa og -duft ámælisverðar
Fréttir 16. júlí 2025

Auglýsingar um sveppadropa og -duft ámælisverðar

Verslunin Hugur Studio, sem rekin er af Hemmet ehf., hefur verið kærð fyrir afdr...

Átak um öryggi barna í sundi
Fréttir 16. júlí 2025

Átak um öryggi barna í sundi

Rauði krossinn á Íslandi hefur hleypt af stokkunum fræðslu- og forvarnarátaki um...

Pöddur í hundamat
Fréttir 15. júlí 2025

Pöddur í hundamat

Fyrirtæki hafa sett á markað hundamat úr skordýrum. Slíkt fæði hefur minna kolef...

Orkuskipti í Flatey
Fréttir 15. júlí 2025

Orkuskipti í Flatey

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Elías Jónatans...

Landeldi við Hauganes
Fréttir 15. júlí 2025

Landeldi við Hauganes

Laxós ehf. áformar uppbyggingu og rekstur fiskeldisstöðvar norðan Hauganess, þar...